Veruleiki Vinstri grænna

Nýverið átti ég orðastað við framámann í Vinstri grænum. Mér hefur lengi leikið forvitni á að reyna að skilja þann flokk og tilverugrundvöll hans. Þessi fáu kurteislegu orðaskipti sem þarna áttu sér stað hafa orðið mér umhugsunarefni og gefið mér innsýn í hugmyndir og stefnu flokksins sem mér var áður hulið. Ég spurði hann hvort Vinstri græn ætluðu ekki að fara að færa eitthvað af arðinum af fiskveiðiauðlindinni frá Samherja til þjóðarinnar, sem hins réttmæta eiganda auðlindarinnar? Svarið sem ég fékk var:

„veiðigjaldið er nær því sem það ætti að vera en áður“.

Þá spurði ég hvernig hann vissi hvert veiðigjaldið ætti að vera en fékk ekki svar við því.

„Vér einir vitum...“

Hér eru merk tíðindi á ferðinni. Eru til upplýsingar hjá Vinstri grænum þar sem kemur fram hver fjárhæð „rétts“ veiðigjalds á útgerðina á að vera og gildir þetta e.t.v. um fleira? Ef maður hyggst leigja út íbúðina sína er þá hægt að hringja á flokksskrifstofuna og fá upplýsingar um hvað sé hið „rétta“ verð sem ætti að leigja íbúðina á?  Sættir þjóðin sig við að ein mestu auðævi hennar séu afhent fáeinum útgerðum rétt sisona, til frjálsra afnota, án þess að reynt sé að fá hærra afnotagjald heldur greitt er í dag? Eru einhverjir menn á skrifstofu úti í bæ sem vita hvað er „rétt“ verð sem útgerðin á að greiða fyrir afnot af eign þjóðarinnar?

Kaupmáttur eykst þó hann minnki?

Þessi framámaður var jafnframt spurður hvað honum þætti um gjaldahækkanir ríkis og sveitarfélaga um áramótin sem rýra kaupmáttinn sem kjarasamningarnir áttu að tryggja. Svarið var:

„þessar gjaldahækkanir eru til að tryggja að opinber þjónusta haldi í við verðlag og því í samræmi við það sem byggt er á lífskjarasamningnum. Hér er ekki um raunhækkanir að ræða“. 

Þetta er kúnstugt svar því öllum launamönnum er ljóst að það er til lítils að fá launahækkun ef flest það sem á að kaupa fyrir launahækkunina hækkar í verði. Þá er launahækkunin til lítils og kjarabótin engin. Kaupmátturinn batnar ekki nema launin hækki en kostnaðurinn við að lifa haldist óbreyttur. Samkvæmt skilningi þessa frámámanns Vinstri grænna þá gildir þetta ekki um verðhækkanir hins opinbera. Einhvernveginn sér hann fyrir sér að hærri kostnaður við að framfleyta sér og sínum rýri samt ekki kjör launafólks af því að þetta eru kostnaðarhækkanir hins opinbera. Þetta er alveg ný túlkun á kaupmætti og hvernig kaupmáttur helst þrátt fyrir að dýrara sé að framfleyta sér.

Tekið skal fram að þessi framámaður Vinstri grænna er ekki talsmaður þeirra né var hann að tjá sig sem slíkur.

https://kjarninn.is/skodun/2020-01-06-veruleiki-vinstri-graenna/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband