Færsluflokkur: Ferðalög

HUNDRAÐ ÁRA MEINSEMD

ífeyrissjóðunum er gert að taka á sig tapið af nýjasta gengisfalli krónunnar með því að þeim er fyrirmunað að kaupa erlendan gjaldeyri til að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga en þurfa þess í stað að kaupa eignir í íslenskum krónum. Fyrir aðeins ári síðan var hægt að kaupa einn dollar á 125 krónur sem í dag kostar 141 krónu. Þessi 12% hækkun á verði erlends gjaldeyris (evra hækkað um 18%) leiðir svo aftur til hækkunar á verði innfluttrar vöru. Hér eru þau komin „breiðu bökin“ í samfélaginu, þeir sem þiggja lífeyri frá lífeyrissjóðum og almenningur sem þarf að borga nauðsynjavörur hærra verði. Hvort tveggja afleiðingar af því að Íslendingum er gert að búa við smæsta gjaldmiðil í heimi, örmynt sem er hvergi annars staðar gjaldgeng.

Vantrú íslensku þjóðarinnar á eigin gjaldmiðli virðist ekki eiga sér nein takmörk. Nýjasta dæmið er þegar Costco auglýsti gullstangir til sölu, en þær eru algeng leið til að geyma verðmæti, þá seldust þær upp á augabragði. Sennilega er þetta ein mest afgerandi yfirlýsing sem hægt er að gefa um hversu lítið þjóðinni er í raun gefið um íslensku krónuna og treystir henni illa til að halda verðgildi sínu.

Hvers vegna?

Þrátt fyrir að þjóðin þekki af eigin raun hvernig verðlag á Íslandi hækkar endalaust og þrátt fyrir að verðlagshækkanirnar megi nær undantekningalaust rekja til hækkana á innfluttum vörum, sem verða stöðugt dýrari vegna verðhækkana á erlendum gjaldeyri, þá eru enn þá til aðilÍslensk króna og dönsk króna gagnvart dollarar sem telja að heppilegast sé fyrir íslenska þjóð að notast við íslenska krónu.


Íslensk króna varð til sem sjálfstæður gjaldmiðill um 1920. Fram að því var gengi hennar það sama og dönsku krónunnar. Frá þeim tíma hafa þessar tvær myntir þróast með gjörólíkum hætti. Til dæmis hefur gengi danskrar krónu gagnvart dollar á þessum hundrað árum haldist innan við tíu krónur danskar, á meðan gengi íslenskrar krónu gagnvart dollar fer yfir tíu þúsund íslenskar krónur, ef horft er fram hjá myntbreytingunni á íslensku krónunni 1980.

Íslendingar hafa lært að lifa með hinni stöðugu gengislækkun en fórnirnar hafa verið miklar. Nær ógerlegt er að nefna allar þær ráðstafanir fyrirtækja og heimila sem teknar voru til þess eins að reyna af veikum mætti að viðhalda raunvirði peninga í stað þess að verja fjármununum til arðbærra fjárfestinga. Þannig var algengt, þegar vitað var að gengisfellingar vofðu yfir, að almenningur keypti heimilistæki sem vitað var að myndu hækka í verði, jafnvel eingöngu í þeim tilgangi að selja þau aftur á nýja verðinu. Einnig má nefna virðingarleysið fyrir gjaldmiðlinum sem lýsir sér í að „eydd króna“ hefur alla tíð verið í meiri metum meðal þjóðarinnar en „geymd króna“. Þannig eru Íslendingar miklu meiri eyðsluklær en gengur og gerist þar sem vitað er að geymd króna rýrnar að verðgildi með hverjum deginum sem líður á meðan hún er í vasa þínum.

„Svo gott að hafa krónuna“

Meðal þess sem haldið er fram þegar sagt er „það er svo gott að hafa krónuna“ er að hún geti jafnað út sveiflur í hagkerfinu. Reynslan hefur aftur á móti kennt okkur að hún jafnar ekkert út heldur viðheldur hún bara niðursveiflum og bætir svo í þær. Niðursveiflurnar rýra síðan afkomu alls almennings.

Stöðugt fallandi króna er og verður fyrst og fremst tæki þeirra sem þurfa að flytja fjármuni frá almenningi til fyrirtækja sem hafa ýmist komið sér sjálf í bobba eða fyrir tilstuðlan vanhæfra stjórnmálamanna eða vegna utanaðkomandi áhrifa sem hægt er að glíma við með öðrum hætti en grípa til gengislækkunar. Gengislækkun er auðvelda leiðin út úr vandanum þar sem hún gerir minnstar kröfur til ráðamanna. Reyndar er þetta ástand fallandi krónu orðið svo inngróið í þjóðarsálina að margir álíta það óbreytanlegt. Þegar rætt er um gengisstöðugleika eða upptöku annarar myntar rís upp flokkur manna sem segir og ber vott um „er þetta nokkuð fyrir okkur“-heilkennið sem byrgir mönnum sýn og ber fyrst og fremst vott um minnimáttarkennd þeirra sem því eru haldnir. Heilkennið er ótrúlega algengt meðal stjórnmálamanna hvort sem þeir telja sig vera til vinstri eða hægri.

https://www.frettabladid.is/skodun/hundrad-ara-meinsemd/


Starfsmenn Icelandair í lykilstöðu

Vegna almennt lít­ils áhuga og þekk­ingar hjá verð­bréfa­fyr­ir­tækjum og fjár­fest­ing­ar­stjórum líf­eyr­is­sjóða á vinnu­mark­aðs­málum hafa þeir látið nægja að krefj­ast þess af stétt­ar­fé­lögum Icelandair að kjara­samn­ingar þeirra gildi til fimm ára, eigi sjóð­irnir að koma að end­ur­reisn félags­ins, í stað þess að gera kröfu um að vinnu- og kjara­samn­ings­mál fyr­ir­tæk­is­ins séu leyst til fram­búð­ar. Icelandair býr við umtals­vert hærri áhafna­kostnað en flug­fé­lögin sem þeir eiga í sam­keppni við sem mun gera Icelandair ill­mögu­legt að keppa við þau. Hygg­ist for­ráða­menn líf­eyr­is­sjóð­anna leggja Icelandair til hluta­fé, vit­andi af þessum fram­tíð­ar­vanda félags­ins, væru þeir að fara afar óvar­lega með það fé sem þeim hefur verið trúað fyr­ir.

Meira þarf til en kjarasamning til fimm ára

Kjarasamningar stétt­ar­fé­laga Icelandair til fimm ára getur skoð­ast sem þokka­leg byrjun en fram­tíð­ar­lausnin hlýtur að vera fólgin í að öll stétt­ar­fé­lög sem starfa fyrir félagið hafi sam­flot í samn­ingum en slíkt ákvæði hefur t.d. verið í kjara­samn­ingum stór­iðju­ver­anna alla tíð. Þetta er auk­in­heldur ein for­senda fyrir því að geta boðið almenn­ingi að kaupa hluti í félag­inu, ef það er hug­mynd­in. Einnig þurfa starfs­menn og félög þeirra að greina frá hversu miklu þeir hyggj­ast skrá sig fyrir sjálf en þeir geta einnig tekið sig saman og stofnað sér­stök félög í þeim til­gangi að fjár­festa í Icelanda­ir. 

Ekki þarf að fara í graf­götur með mik­il­vægi félags á borð við Icelanda­ir. En hvort er heppi­legra að félagið verði end­ur­reist fyrir eða eftir gjald­þrot? Ef leita á eftir fjár­munum hjá almenn­ingi ann­að­hvort beint eða óbeint, í gegnum líf­eyr­is­sjóði, verður allt að vera upp á borðum. 

https://kjarninn.is/skodun/2020-05-06-starfsmenn-icelandair-rada-miklu-um-framtid-thess/

 


Veruleiki Vinstri grænna

Nýverið átti ég orðastað við framámann í Vinstri grænum. Mér hefur lengi leikið forvitni á að reyna að skilja þann flokk og tilverugrundvöll hans. Þessi fáu kurteislegu orðaskipti sem þarna áttu sér stað hafa orðið mér umhugsunarefni og gefið mér innsýn í hugmyndir og stefnu flokksins sem mér var áður hulið. Ég spurði hann hvort Vinstri græn ætluðu ekki að fara að færa eitthvað af arðinum af fiskveiðiauðlindinni frá Samherja til þjóðarinnar, sem hins réttmæta eiganda auðlindarinnar? Svarið sem ég fékk var:

„veiðigjaldið er nær því sem það ætti að vera en áður“.

Þá spurði ég hvernig hann vissi hvert veiðigjaldið ætti að vera en fékk ekki svar við því.

„Vér einir vitum...“

Hér eru merk tíðindi á ferðinni. Eru til upplýsingar hjá Vinstri grænum þar sem kemur fram hver fjárhæð „rétts“ veiðigjalds á útgerðina á að vera og gildir þetta e.t.v. um fleira? Ef maður hyggst leigja út íbúðina sína er þá hægt að hringja á flokksskrifstofuna og fá upplýsingar um hvað sé hið „rétta“ verð sem ætti að leigja íbúðina á?  Sættir þjóðin sig við að ein mestu auðævi hennar séu afhent fáeinum útgerðum rétt sisona, til frjálsra afnota, án þess að reynt sé að fá hærra afnotagjald heldur greitt er í dag? Eru einhverjir menn á skrifstofu úti í bæ sem vita hvað er „rétt“ verð sem útgerðin á að greiða fyrir afnot af eign þjóðarinnar?

Kaupmáttur eykst þó hann minnki?

Þessi framámaður var jafnframt spurður hvað honum þætti um gjaldahækkanir ríkis og sveitarfélaga um áramótin sem rýra kaupmáttinn sem kjarasamningarnir áttu að tryggja. Svarið var:

„þessar gjaldahækkanir eru til að tryggja að opinber þjónusta haldi í við verðlag og því í samræmi við það sem byggt er á lífskjarasamningnum. Hér er ekki um raunhækkanir að ræða“. 

Þetta er kúnstugt svar því öllum launamönnum er ljóst að það er til lítils að fá launahækkun ef flest það sem á að kaupa fyrir launahækkunina hækkar í verði. Þá er launahækkunin til lítils og kjarabótin engin. Kaupmátturinn batnar ekki nema launin hækki en kostnaðurinn við að lifa haldist óbreyttur. Samkvæmt skilningi þessa frámámanns Vinstri grænna þá gildir þetta ekki um verðhækkanir hins opinbera. Einhvernveginn sér hann fyrir sér að hærri kostnaður við að framfleyta sér og sínum rýri samt ekki kjör launafólks af því að þetta eru kostnaðarhækkanir hins opinbera. Þetta er alveg ný túlkun á kaupmætti og hvernig kaupmáttur helst þrátt fyrir að dýrara sé að framfleyta sér.

Tekið skal fram að þessi framámaður Vinstri grænna er ekki talsmaður þeirra né var hann að tjá sig sem slíkur.

https://kjarninn.is/skodun/2020-01-06-veruleiki-vinstri-graenna/


Alltaf skal Landspítalinn verða undir

Fullkomin sjúkrastofnun opnar í Ármúla (Hótel Ísland) með öllum nýjustu tækjum og öllu starfsfólki svo vel höldnu að það hvarflar ekki að því að fara í verkfall. Á sama tíma dynur á Landspítalanum enn eitt verkfallið og tækjabúnaður er annaðhvort skammtaður af tímabundu örlæti þingmanna eða ölmusugjöfum velunnara spítalans. Samt sækja bæði klínikin í Ármúlanum og Landspítalinn alla sína fjármuni í sama vasa, vasa skattgreiðenda. Hvernig má þetta vera? 

Hið rangsnúna kerfi.

Svarið hefur legið lengi fyrir og vitað að svona mundi fara (http://uni.hi.is/bh/). Klínikin í Ármúlanum fær sérstaklega greitt frá ríkinu fyrir hvert viðvik á meðan Landspítalinn þarf að búa við greiðslur ákvarðaðar einu sinni á ári á fjárlögum. Í fjáraukalögum sem nú liggja fyrir Alþingi er beiðni um viðbótarframlag uppá nokkra milljarða til sérfræðilæknaþjónustu utan sjúkrahúsa. Hluti þess framlags mun einmitt renna til klínikurinnar í Ármúla.

Landspítalinn aftur á móti fær ekki að „keppa“ um fjármagn úr ríkissjóði með sama hætti og klínikin. Á meðan svo er þá mun Landspítalinn alltaf tapa í þeirri samkeppni um skattfé almennings sem smátt og smátt dregur úr spítalanum þrótt.

Landspítalinn „tapar“ á aukinni þjónustu.

Ef senda þarf sjúklinga til útlanda í meðferð eða rannsóknir þá borgar ríkið það í gegnum Sjúkratryggingar Íslands. Yrði Landspítalanum falið að sjá fyrir sömu meðferð og rannsóknum hér á landi (sem getur sparað þjóðarbúinu stórar fjárhæðir svo ekki þurfi að senda sjúklinga til útlanda) þýðir það bara viðbótarkostnað fyrir Landspítalann. En hjá Sjúkratryggingum (sem þá sleppa við að borga ferðirnar til útlanda) er þetta hreinn sparnaður sem gefur aukið svigrúm til frekari greiðslna til stofa úti í bæ, svo öfugsnúið sem það kann að virðast. Vítahringurinn heldur áfram, Landspítalanum heldur áfram að hraka á meðan einkaaðilar dafna, allt í boði okkar skattgreiðenda.

„Engin stefnumótun í heilbrigðismálum“

Ofangreind tilvitnun er höfð eftir heilbrigðisráðherra á fundi sem efnt var til í september um íslenska heilbrigðiskerfið. Auk þess sagði hann skort á heildrænni yfirsýn og að engin raunveruleg stefnumótun til lengri tíma hafi átt sér stað. Það er vandséð að annar eins áfellisdómur hafi verið felldur um jafn mikilvægan málaflokk. Samt sem áður virðast þessi orð hafa farið fram hjá flestum fjölmiðlum hvað þá að þingmenn eða aðrir hafi séð ástæðu til að taka þau upp og spyrja hvort hér verði ekki ráðin bót á.

Heilbrigðismál er sá málaflokkur sem síst þykir líklegur til vinsælda hjá stjórnmálamönnum. Þeir kinoka sér við að kynna sér rekstur heilbrigðisstofnana og álykta ranglega að allt megi bæta með auknum fjárframlögum. Vandi íslenska heilbrigðiskerfisins er miklu djúpstæðari og þar skapa mismunandi aðferðir við skiptingu á framlögum ríkisins til einkarekinna- og opinberra heilbrigðisstofnana mestan vanda.

http://www.visir.is/landspitalanum-askapad-ad-verda-undir/article/2015151108911


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband