Færsluflokkur: Heimspeki

Veruleiki Vinstri grænna

Nýverið átti ég orðastað við framámann í Vinstri grænum. Mér hefur lengi leikið forvitni á að reyna að skilja þann flokk og tilverugrundvöll hans. Þessi fáu kurteislegu orðaskipti sem þarna áttu sér stað hafa orðið mér umhugsunarefni og gefið mér innsýn í hugmyndir og stefnu flokksins sem mér var áður hulið. Ég spurði hann hvort Vinstri græn ætluðu ekki að fara að færa eitthvað af arðinum af fiskveiðiauðlindinni frá Samherja til þjóðarinnar, sem hins réttmæta eiganda auðlindarinnar? Svarið sem ég fékk var:

„veiðigjaldið er nær því sem það ætti að vera en áður“.

Þá spurði ég hvernig hann vissi hvert veiðigjaldið ætti að vera en fékk ekki svar við því.

„Vér einir vitum...“

Hér eru merk tíðindi á ferðinni. Eru til upplýsingar hjá Vinstri grænum þar sem kemur fram hver fjárhæð „rétts“ veiðigjalds á útgerðina á að vera og gildir þetta e.t.v. um fleira? Ef maður hyggst leigja út íbúðina sína er þá hægt að hringja á flokksskrifstofuna og fá upplýsingar um hvað sé hið „rétta“ verð sem ætti að leigja íbúðina á?  Sættir þjóðin sig við að ein mestu auðævi hennar séu afhent fáeinum útgerðum rétt sisona, til frjálsra afnota, án þess að reynt sé að fá hærra afnotagjald heldur greitt er í dag? Eru einhverjir menn á skrifstofu úti í bæ sem vita hvað er „rétt“ verð sem útgerðin á að greiða fyrir afnot af eign þjóðarinnar?

Kaupmáttur eykst þó hann minnki?

Þessi framámaður var jafnframt spurður hvað honum þætti um gjaldahækkanir ríkis og sveitarfélaga um áramótin sem rýra kaupmáttinn sem kjarasamningarnir áttu að tryggja. Svarið var:

„þessar gjaldahækkanir eru til að tryggja að opinber þjónusta haldi í við verðlag og því í samræmi við það sem byggt er á lífskjarasamningnum. Hér er ekki um raunhækkanir að ræða“. 

Þetta er kúnstugt svar því öllum launamönnum er ljóst að það er til lítils að fá launahækkun ef flest það sem á að kaupa fyrir launahækkunina hækkar í verði. Þá er launahækkunin til lítils og kjarabótin engin. Kaupmátturinn batnar ekki nema launin hækki en kostnaðurinn við að lifa haldist óbreyttur. Samkvæmt skilningi þessa frámámanns Vinstri grænna þá gildir þetta ekki um verðhækkanir hins opinbera. Einhvernveginn sér hann fyrir sér að hærri kostnaður við að framfleyta sér og sínum rýri samt ekki kjör launafólks af því að þetta eru kostnaðarhækkanir hins opinbera. Þetta er alveg ný túlkun á kaupmætti og hvernig kaupmáttur helst þrátt fyrir að dýrara sé að framfleyta sér.

Tekið skal fram að þessi framámaður Vinstri grænna er ekki talsmaður þeirra né var hann að tjá sig sem slíkur.

https://kjarninn.is/skodun/2020-01-06-veruleiki-vinstri-graenna/


Ríkisstjórninni um megn að standa við loforð

Landsbankinn seldi frá sér eign til útvalinna vildarvina, eignarhlut sinn í Borgun. Arion banki seldi frá sér eign sína í Símanum til útvalinna vildarvina áður en pöpullinn og lífeyrissjóðirnir fengu tækifæri til að kaupa. Fjármálaráðherrann og flokksbræður hans hrópa nú hver um annan þveran í heilagri vandlætingu yfir þeirri rangsleitni sem hér hefur átt sér stað, en bara þegar Arion banki seldi. Enga vandlætingu er að finna hjá þeim yfir því þegar Landsbanki seldi í Borgun. Hvað veldur?

Allir bankarnir í reynd á forræði ríkisins
Bæði þessi tilvik eru nákvæmlega eins vaxin. Viðskiptabankar, reknir á ábyrgð ríkissjóðs sem ábyrgist allar innistæður þeirra, eru að losa sig við eignir. Eftir söluna á Borgun vantaði ekki að einhverjir embættismenn viðurkenndu mistök en enginn var látinn sæta ábyrgð. Síðan þegar þetta gerist núna aftur við söluna á Símanum þá skáka menn í því skjólinu og segja einfaldlega „úps, gerði það aftur“ vitandi vits að ekki nokkur sála, hvorki stjórnmálamenn né embættismenn þurfa að sæta ábyrgð.

Dreift eignarhald … kanntu annan?
Þegar nú er til umræðu sala ríkisins á Íslandsbanka og Landsbanka vantar ekki að ráðamenn komi fram og lofi dreifðri eignaraðild, opnu söluferli o.s.frv. Hljómar kunnuglega? Öll munum við þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur lofuðu hinu sama við fyrri einkavæðingu bankanna, dreifðri eignaraðild, opnu söluferli og þar fram eftir götunum. En hvað kom á daginn? Um leið og góðvinir flokkanna birtust (góðvinir sem síðan reyndust vera „óreiðumenn“) var öllum hugmyndum um dreifða eignaraðild kastað fyrir róða og vinunum seldir bankarnir. Því skyldi það ekki gerast aftur? Er nokkuð að marka yfirlýsingar ráðherra Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks núna frekar en þá?

Undanfarin misseri höfum við séð hvernig ótvíræð loforð, gefin fyrir síðustu kosningar, loforð sem spiluð eru aftur og aftur fyrir ráðherrana skipta þá nákvæmlega engu máli. Þeir yppta einfaldlega öxlum og láta sem loforð hermd upp á þá með þeirra eigin orðum, spiluð ítrekað upphátt fyrir þá opinberlega, skipti þá bara alls engu máli. Hvarflar að einhverjum að trúa þeim núna? Er einhver ástæða til að ætla að eignir bankanna og loks bankarnir sjálfir verði ekki einmitt seldir vildarvinum í hæfilegum skömmtum og í hvert sinn heyrist bara „úps, gerði það aftur“ og öxlunum yppt yfir öllum fögru loforðunum?

http://www.visir.is/hvert-rennur-audlindaardurinn-/article/2015705089997


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband