Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar

GAMLA ÍSLAND VANN

Nýja ríkisstjórnin boðar engar sögulegar sættir, bara svo það sé alveg á hreinu. Stjórnin er mynduð af keimlíkum flokkum sem eru alls engar andstæður þó það þjóni VG að halda því fram. Álitsgjafar munu áfram falla í þá gryfju, að tala um póla og sögulegar sættir því það er þægilegra fyrir þá að halda á lofti gömlum klisjum en vinna heimavinnuna sína og skoða hvað flokkarnir sem mynda ríkisstjórnina raunverulega standa fyrir.

Fyrir þá sem harma ákvörðun VG að ganga í björg Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er áhugavert að skoða dæmi um málefni sem VG telur sig ná fram nú en sem var ekki í boði með Samfylkingunni o.fl. flokkum. Þannig tryggir VG að útgerðin sleppur við að greiða sama auðlindagjald fyrir makrílveiðar og þeir inna af hendi til Færeyinga, fjárhæð sem nemur nokkrum milljörðum. Með vali á sjávarútvegsráðherra verður einnig að telja að stórútgerðin í landinu hafi unnið fullnaðarsigur.

Hvað breyttist eftir kosningar?

Í fyrri ríkisstjórn máttu Björt framtíð og Viðreisn gera sér að góðu að umbera vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins þar til þeim var loks nóg boðið. Þannig verður það líka hjá VG. Hverju flóttabarni sem vísað verður úr landi á hæpnum forsendum; hver reglugerð sem á að hindra brottkast og stöðvuð verður af útgerðinni; hver  dómaraskipan, allt verður þetta óhjákvæmilega í boði VG.

Fáir hafa lýst vinnubrögðum Sjálfstæðisflokksins með jafn afgerandi hætti og frambjóðendur VG gerðu í aðdraganda Alþingiskosninganna.  Nú hefur komið í ljós að því var greinilega bara ætlað að halda lífi í klisjunni um VG og Sjálfstæðisflokk sem andstæða flokka en alls ekki til brúks eftir kosningar.

Eftir því sem fleiri ríkisstjórnir eru myndaðar með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki um að breyta engu, fjarlægist sá draumur sem margir báru í brjósti um að í kjölfar hrunsins hefði gamla Ísland, með öllum sínum sérhagsmunum og frændhygli verið kvatt og í vændum væri nýtt og betra Ísland sem byggði á öðrum gildum en þeim sem leiddu til hruns og misskiptingar. Þessi ríkisstjórn gerir þann draum enn fjarlægari og fyrir kjósendur sem vilja nýtt Ísland hefur fækkað um einn valkost.

http://www.visir.is/g/2017171209278/gamla-island-vann-


Er Sjálfstæðisflokknum treystandi?

Eftir síðustu Alþingiskosningar lýsti innmúraður og innvígður Sjálfstæðismaður því yfir í blaðagrein að Sjálfstæðisflokknum mætti treysta, að flokkurinn stæði við orð sín. Með þessu freistaði hann þess að mana forystu Sjálfstæðisflokksins til að standa við skilyrðislaust loforð um þjóðaratkvæði um aðildarviðræður við ESB, á fyrri hluta kjörtímabilsins, en það loforð var forsenda margra kjósenda fyrir því að ljá Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt.

 

Nei, honum er ekki treystandi.

 

Nú er það endanlega orðið ljóst að af þjóðaratkvæðinu verður ekki.  Sjálfstæðisflokknum er ekki treystandi til að standa við loforðin sem forystan gaf þegar reynt var að friða ESB sinna innan flokksins í aðdraganda kosninga.  Framsóknarflokkurinn hefur nú endanlega blásið af kosningar um áframhald viðræðna við ESB án þess að Sjálfstæðismenn hafi hreyft legg né lið og látið það yfir sig ganga andmælalaust.  Svo voru einhverjir sem kusu Sjálfstæðisflokkinn útá slagorðið „engar nefndir, bara efndir“ en það gilti bara fyrir útgerðarmenn, ekki almenning.

 

Já, honum er treystandi.

 

Í borgarstjórnarkosningum framundan hefur oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík freistað þess að marka flokknum sérstöðu með því að lýsa því yfir að tími samræðustjórnmála sé liðinn.  Nú skuli fara í hart og í engu leitast við að ná samstöðu um stór mál sem smá heldur muni allir hér eftir fá að vita hvar Davíð keyptið ölið.  Þetta er all sérstæð yfirlýsing þar sem flestir töldu að gömlu aðferðirnar við stjórn lands og borgar, þar sem „freki kallinn“ (sem Jón Gnarr hefur lýst svo ágætlega) réði för, hefðu gengið sér til húðar.  Almennt var talið að meðal þess sem við hefðum átt að læra af hruninu væri að einstefnustjórnmál „freka karlsins“ hefðu átt sinn hlut í að leiða okkur fram af bjargbrúninni og nær væri að stjórnmálamenn töluðu saman og freisti þess að ná breiðri samstöðu um sem flest mál. 

Nú ætla Sjálfstæðismenn að taka upp gömlu gildin. Reykjavíkurborg verður enn á ný vettvangur fyrir litla „freka kalla“ sem ætla sér að komast til æðri metorða innan „Flokksins“.  Hagsmunir borgabúa skipta litlu þegar slíkur frami er annars vegar og tilgangurinn helgar meðalið.

 

Flokkur svefngengla?

 

Deilt er um hver íslensku stjórnmálaflokkanna eigi stærstan hóp „svefngengla vanans“  þ.e. þeirra sem kjósa „flokkinn sinn“ af gömlum vana í þeirri trú að þannig séu þeir í raun ópólitískir.  Þetta hefur enginn orðað betur en Haukur pressari, einn þeirra karaktera sem settu svip á Reykjavík á síðustu öld og orðaði það svo: „Ég algjörlega ópólitískur en kýs alltaf Sjálfstæðisflokkinn.“ 


Þjóðinni haldið á snakki......

  Hægfara hnignandi hagkerfi

 

Til þess að koma vel menntuðu og hæfu vinnuafli í arðbær störf þarf nýsköpun og fjárfestingu.  Vegna smæðar íslenska hagkerfisins þurfum við erlenda fjárfestingu.  Fjárfesting í virkjunum og orkufrekum iðnaði hefur náð að skapa fjölbreyttara atvinnulíf, en þar er komið að endimörkum og alls ekki verjandi að stuðla að frekari atvinnusköpun á því sviði, nema þess hærra verð fáist fyrir orkuna.  

            Sú leið sem flestar nágrannaþjóða okkar hafa farið til að nýsköpunar og fjárfestingar er að leita eftir samvinnu við aðrar þjóðir og nægir þar að vísa til Dana, Íra, Svía og Finna auk Eystrasaltsþjóðanna, en um margt er staða íslenska hagkerfisins svipuð þeim aðstæðum sem þær glíma við.

Þessi einfalda staðreynd um gildi náinnar samvinnu við aðrar þjóðir hafa vinaþjóðir okkar áttað sig á og því er það þeim kappsmál að gerast fullgildir aðilar í samfélagi sjálfstæðra þjóða sem er beinlínis stofnað til þess að örva erlenda fjárfestingu og hagvöxt.  Þetta samfélag sjálfstæðra þjóða nefnist Evrópusambandið, ESB.  Þessi grundvallaratriði virðast gleymast í málflutningnum um mögulega aðild  Íslands að ESB og umræðan föst í heitstrengingum og brigslyrðum en ekki köldu stöðumati.

 

Er þeim treystandi fyrir fjöreggi þjóðarinnar?

 

Og í stað þess að gefa þjóðinni tækifæri á að fá að sjá samning við ESB þá lætur ríkisstjórnin röksemdafærsluna „...teljum að hagsmunum sé betur borgðið“ duga  í stað þess að staðreyna hvað er í boði.  -  Þannig fær lítill hópur einstaklinga sem „telur“ og „heldur“ að ráða fjöreggi þjóðarinnar.  Þessi litli hópur, sem telur sig einan vita, fær með þessum hætti að koma í veg fyrir að þjóðin geti staðreynt hvað henni stendur til boða í því samfélagi sjálfstæðra þjóða sem allar helstu nágranna- og vinaþjóðir okkar hafa kosið að taka þátt í. 

Á meðan er þjóðinni haldið á snakki um eitthvað sem kannski kann að koma einhverntíma í framtíðinni.  Eitthvað á borð við olíuvinnslu, skipaferðir í norðurhöfum, viðskipti við Kína o.sv.frv. án þess að það sé í nokkurri andstöðu við aðild okkar að ESB, eða geti skoðast sem valkostur við aðild. 

Gjaldeyrishöftin sem þjóðin býr við er ein mesta ógn sem stendur að íslensku efnahagslífi. Miðað við þá reynslu sem við höfum af sjálfstæðum gjaldmiðli þá ætti enginn að velkjast í vafa um að fyrst ekki tókst að varðveita verðgildi íslensku krónunnar í höftum á þeim 90 árum sem krónan hefur verið sjálfstæð mynt, þá er ljóst að án fjármagnshafta mun það alls ekki ganga.  Þetta ætti reynslan að hafa kennt okkur.  Sennilega yrði einn stærsti fjárhagslegi ávinningur Íslendinga við aðild að ESB fólginn í upptöku evrunnar og þó svo það verði ekki á næstu árum þá er ljóst að aðild, samhliða áætlun um upptöku evru, færi langt með að færa okkur kosti evru-aðildarinnar strax.

Um þá valkosti sem þjóðinni standa til boða fær hún aftur á móti ekki að segja sitt álit en þess í stað er henni boðið upp á málflutning manna sem láta nægja að segjast  „halda“ og „telja“ hvernig hagsmunum þjóðarinnar er best borgið.  Kannski hnignar hagkerfi okkar miklu hraðar en „hægfara“ ?

 

http://www.visir.is/haegfara-hnignandi-hagkerfi/article/2014701239981 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband