Færsluflokkur: Enski boltinn

Starfsmenn Icelandair í lykilstöðu

Vegna almennt lít­ils áhuga og þekk­ingar hjá verð­bréfa­fyr­ir­tækjum og fjár­fest­ing­ar­stjórum líf­eyr­is­sjóða á vinnu­mark­aðs­málum hafa þeir látið nægja að krefj­ast þess af stétt­ar­fé­lögum Icelandair að kjara­samn­ingar þeirra gildi til fimm ára, eigi sjóð­irnir að koma að end­ur­reisn félags­ins, í stað þess að gera kröfu um að vinnu- og kjara­samn­ings­mál fyr­ir­tæk­is­ins séu leyst til fram­búð­ar. Icelandair býr við umtals­vert hærri áhafna­kostnað en flug­fé­lögin sem þeir eiga í sam­keppni við sem mun gera Icelandair ill­mögu­legt að keppa við þau. Hygg­ist for­ráða­menn líf­eyr­is­sjóð­anna leggja Icelandair til hluta­fé, vit­andi af þessum fram­tíð­ar­vanda félags­ins, væru þeir að fara afar óvar­lega með það fé sem þeim hefur verið trúað fyr­ir.

Meira þarf til en kjarasamning til fimm ára

Kjarasamningar stétt­ar­fé­laga Icelandair til fimm ára getur skoð­ast sem þokka­leg byrjun en fram­tíð­ar­lausnin hlýtur að vera fólgin í að öll stétt­ar­fé­lög sem starfa fyrir félagið hafi sam­flot í samn­ingum en slíkt ákvæði hefur t.d. verið í kjara­samn­ingum stór­iðju­ver­anna alla tíð. Þetta er auk­in­heldur ein for­senda fyrir því að geta boðið almenn­ingi að kaupa hluti í félag­inu, ef það er hug­mynd­in. Einnig þurfa starfs­menn og félög þeirra að greina frá hversu miklu þeir hyggj­ast skrá sig fyrir sjálf en þeir geta einnig tekið sig saman og stofnað sér­stök félög í þeim til­gangi að fjár­festa í Icelanda­ir. 

Ekki þarf að fara í graf­götur með mik­il­vægi félags á borð við Icelanda­ir. En hvort er heppi­legra að félagið verði end­ur­reist fyrir eða eftir gjald­þrot? Ef leita á eftir fjár­munum hjá almenn­ingi ann­að­hvort beint eða óbeint, í gegnum líf­eyr­is­sjóði, verður allt að vera upp á borðum. 

https://kjarninn.is/skodun/2020-05-06-starfsmenn-icelandair-rada-miklu-um-framtid-thess/

 


„Leiðréttingin“ og húsnæðismálin

Hvað gerir vel stætt fólk sem horfir á fasteignir sínar hækka í verði langt umfram verðbólgu og fær svo skyndilega lækkaðar skuldir sínar, nánast eins og  peninga sem ríkið færir þeim að gjöf?  Þeir sem fá verulega fjárhæð fellda niður nota aukið ráðstöfunarfé til að kaupa sér litla íbúð til útleigu enda fáir aðrir möguleikar í boði til að ávaxta fé. Þeir sem fá heldur minna leggja peningana í sjóði fasteignafyrirtækja eins og Gamma sem svo kaupa íbúðir til útleigu. 

Þetta er í hnotskurn niðurstaða bróðurparts „Leiðréttingarinnar“ sem er það afrek sem Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og forystusveit Miðflokksins guma af, þegar þeir greiddu hinum hærra launaða helmingi þjóðarinnar 86% „Leiðréttingarinnar“ beint úr ríkissjóði. Þriðjungur upphæðarinnar rann til 10% hinna hæst launuðu. Um þetta má allt lesa í skýrslu sem formaður Sjálfstæðisflokksins hafði ekki hugrekki til að koma fram með og sýna kjósendum fyrir þarsíðustu Alþingiskosningar.

Ungu fólki ýtt út af markaðnum

Afleiðingarnar, hækkun húsnæðisverðs, voru algjörlega fyrirséðar. Ungt fólk sem vildi kaupa sér íbúð á viðráðanlegu verði var nú farið að keppa um kaup á slíkum íbúðum við aðila sem höfðu úr nægu fé að spila eftir að „Leiðréttingin“ var greidd út. Á sama tíma jókst eftirspurn eftir leiguhúsnæði umfram það sem áður hafði þekkst vegna AirBnb. Það síðan hvatti þá sem höfðu peninga aflögu til enn frekari íbúðakaupa svo það var ekki aðeins á kaupendamarkaði sem ungu fólki var ýtt út heldur einnig á leigumarkaði þegar húsaleiga rauk upp úr öllu valdi. Þessi skuggahlið „Leiðréttingarinnar“ hefur aðeins aukið á vandann sem var fyrir í kjölfar hrunsins þegar fjöldi byggingaverktaka lögðu upp laupana eða sögðu sig frá verkum.

Forréttindahópurinn sem Sjálfstæðis-, Framsóknar- og forystusveit Miðflokksins ákváðu að gera svo vel við hefur nú fengið hækkunina, sem varð á áhvílandi húsnæðislánum þeirra í hruninu bætta í tvígang, bæði með framlagi úr ríkissjóði og svo hefur húsnæði þeirra hækkað í verði svo verðmætaukning þess er langt umfram hækkanirnar sem urðu á lánunum.

http://www.visir.is/g/2018180519056/-leidrettingin-og-husnaedismalin-

 


Útboð aflaheimilda; Píratar komnir um borð

„Ef þetta gengur ekki fram mun ég persónulega sjá til þess að að þér verði ólíft á Íslandi það sem eftir er“.  Þessi tilvitnun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, höfð eftir einum helsta ráðamanni landsins í garð manns sem dirfðist að vera honum ósammála, eru lýsandi ummæli um ástand opinberrar umræðu á Íslandi á árunum frá því fyrir aldamót og fram að hruni. (7.bindi, bls.33). Viðleitnin til að þagga niður í fólki tók jafnt til þeirra sem vildu tjá sig um stjórnmál eða þeirra sem tjáðu sig um fjármál og viðskipti. Hver sem þorði að andmæla ráðandi öflum átti útskúfun á hættu.

Þöggun viðgengst enn. Eðli þöggunar er að þeir sem vilja tjá sig um menn og málefni eru ekki reiðubúnir að koma fram og segja það sem þeim býr í hug af ótta við aðgerðir gegn þeim. Hvergi er þetta augljósara nú en í málefnum sjávarútvegsins. Sá sem verður fyrir þöggun treystir sér ekki til að greina frá þögguninni opinberlega. Hún getur birst sem beinar hótanir eða sjálfsritskoðun á því sem menn setja fram á opinberum vettvangi. Einfaldast er sjá fyrir sér sjómenn í eftirsóttu skiprúmi eða þingmenn Norð-austur kjördæmis sem augljós fórnarlömb sjávarútvegs­þöggunarinnar þó fórnarlömbin séu miklu fjölbreyttari hópur.

Útboðsleið stuðlar að nýliðun.

Ánægjulegt er að Píratar skuli komnir í hóp þeirra stjórmálahreyfinga sem hafa mótað sér stefnu um að aflaheimildir skuli boðnar út svo tryggt sé að þjóðin, eigandi fiskimiðanna, fái fullt afgjald fyrir afnot af þessari eign sinni. Gamalkunnur áróður er þegar farinn í gang um að þetta komi minni útgerðum verr og eru þær fullyrðingar iðulega settar fram án rökstuðnings.

Gera má ráð fyrir, ef rétt er að útboðum staðið, að útboðin stuðli að aukinni fjölbreytni og nýliðun í sjávarútvegi. Þannig gætu t.d. Djúpivogur og Tálknafjörður sem nú eiga í erfiðleikum séð fram á betri tíð verði útboðsleiðin farin. Mestu máli hlýtur að skipta að gætt sé heildarhagsmuna þjóðarinnar en ekki ímyndaðra sérhagsmuna einstaka jaðarhópa.

Baráttan fyrir réttlátri skiptingu á arðinum af fiskveiðiauðlindinni er rétt að hefjast og á eftir að harðna. Þeir sem vilja berjast fyrir réttlátri skiptingu þurfa að sameinast um hagsmuni þjóðarheildarinnar og láti ekki núverandi kvótahafa afvegaleiða umræðuna. Allir sem vilja að þjóðin fái að njóta afraksturs eignar sinnar verða að gæta sín á að efna ekki til Þórðargleði andstæðinganna. Til þess hafa kvótahafarnir ógrynni fjár og munu einskis svífast.

http://www.visir.is/sjavarutvegur-og-thoggunin-/article/2015150908839

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband