Brandarakarlar í Borgartúni

Samtök iðnaðarins hafa verið dugleg að búa til frasa og skýrslur á borð við „Hlaupum hraðar“, „Tækifæri til vaxtar“ o.fl. í þessum dúr. Allt er þetta gott og blessað. Í gögnum frá þeim er oft að finna prýðilegar tillögur um það sem betur má fara í íslensku atvinnulífi en þar er alltaf forðast eins og heitan eldinn að tala um það sem máli skiptir, íslensku krónuna og vandkvæðin henni tengd. T.d. ef samtökin ætla sér að „Slíta fjötrana“ eins og einn frasinn frá þeim hljóðar, þá ætla þau samt að vera áfram í fjötrum íslenskrar krónu eða þá „Hugsum stærra“ sem er frasi frá Viðskiptaráði þá er hvergi vikið að þeirri óáran sem fylgir samlífi þjóðarinnar með krónunni.

Sambærileg samtök í nágrannalöndunum hafa öll verið í forystu fyrir inngöngu landa sinna í Evrópusambandið svo maður hlýtur að spyrja sig hvað veldur því að íslensk systursamtök þora því ekki? Hví eru þessi samtök þessu marki brennd að þora ekki að hugsa út fyrir hinn pólitíska ramma sem ráðandi öfl (les; útgerðin) setur þeim?

Með því að neita að berjast fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu eru samtök í atvinnulífinu í raun að svíkja félagsmenn sína um það viðskiptafrelsi sem þykir sjálfsagt í nágrannalöndunum.

Hér endurtekur sig sagan frá fyrri áratugum þegar það voru ekki stjórnmálaflokkar sem kenna sig við frelsi eða atvinnulífssamtök sem unnu að aðild Íslands að EFTA og EES heldur voru það stjórnmálaflokkar sem bera hag heildarinnar fyrir brjósti. Þegar vel er búið að almenningi þá gengur vel í atvinnulífinu þó það sé ljóst að velferð almennings verður ekki kostuð nema með skattpeningum.

Enn á ný stilla Samtök iðnaðarins upp breiðum hópi, konum og körlum, sem á Iðnþingi eiga að fjalla um „Stóru vaxtartækifærin á Íslandi“. Það er ástæða til að hvetja til hlustunar eftir hvort það verði áfram hinn holi hljómur sem þaðan hefur borist um árabil og hvort hreðjatak útgerðarinnar ráði enn málflutningi samtakanna.    


« Síðasta færsla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband