Færsluflokkur: Evrópumál

HUNDRAÐ ÁRA MEINSEMD

ífeyrissjóðunum er gert að taka á sig tapið af nýjasta gengisfalli krónunnar með því að þeim er fyrirmunað að kaupa erlendan gjaldeyri til að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga en þurfa þess í stað að kaupa eignir í íslenskum krónum. Fyrir aðeins ári síðan var hægt að kaupa einn dollar á 125 krónur sem í dag kostar 141 krónu. Þessi 12% hækkun á verði erlends gjaldeyris (evra hækkað um 18%) leiðir svo aftur til hækkunar á verði innfluttrar vöru. Hér eru þau komin „breiðu bökin“ í samfélaginu, þeir sem þiggja lífeyri frá lífeyrissjóðum og almenningur sem þarf að borga nauðsynjavörur hærra verði. Hvort tveggja afleiðingar af því að Íslendingum er gert að búa við smæsta gjaldmiðil í heimi, örmynt sem er hvergi annars staðar gjaldgeng.

Vantrú íslensku þjóðarinnar á eigin gjaldmiðli virðist ekki eiga sér nein takmörk. Nýjasta dæmið er þegar Costco auglýsti gullstangir til sölu, en þær eru algeng leið til að geyma verðmæti, þá seldust þær upp á augabragði. Sennilega er þetta ein mest afgerandi yfirlýsing sem hægt er að gefa um hversu lítið þjóðinni er í raun gefið um íslensku krónuna og treystir henni illa til að halda verðgildi sínu.

Hvers vegna?

Þrátt fyrir að þjóðin þekki af eigin raun hvernig verðlag á Íslandi hækkar endalaust og þrátt fyrir að verðlagshækkanirnar megi nær undantekningalaust rekja til hækkana á innfluttum vörum, sem verða stöðugt dýrari vegna verðhækkana á erlendum gjaldeyri, þá eru enn þá til aðilÍslensk króna og dönsk króna gagnvart dollarar sem telja að heppilegast sé fyrir íslenska þjóð að notast við íslenska krónu.


Íslensk króna varð til sem sjálfstæður gjaldmiðill um 1920. Fram að því var gengi hennar það sama og dönsku krónunnar. Frá þeim tíma hafa þessar tvær myntir þróast með gjörólíkum hætti. Til dæmis hefur gengi danskrar krónu gagnvart dollar á þessum hundrað árum haldist innan við tíu krónur danskar, á meðan gengi íslenskrar krónu gagnvart dollar fer yfir tíu þúsund íslenskar krónur, ef horft er fram hjá myntbreytingunni á íslensku krónunni 1980.

Íslendingar hafa lært að lifa með hinni stöðugu gengislækkun en fórnirnar hafa verið miklar. Nær ógerlegt er að nefna allar þær ráðstafanir fyrirtækja og heimila sem teknar voru til þess eins að reyna af veikum mætti að viðhalda raunvirði peninga í stað þess að verja fjármununum til arðbærra fjárfestinga. Þannig var algengt, þegar vitað var að gengisfellingar vofðu yfir, að almenningur keypti heimilistæki sem vitað var að myndu hækka í verði, jafnvel eingöngu í þeim tilgangi að selja þau aftur á nýja verðinu. Einnig má nefna virðingarleysið fyrir gjaldmiðlinum sem lýsir sér í að „eydd króna“ hefur alla tíð verið í meiri metum meðal þjóðarinnar en „geymd króna“. Þannig eru Íslendingar miklu meiri eyðsluklær en gengur og gerist þar sem vitað er að geymd króna rýrnar að verðgildi með hverjum deginum sem líður á meðan hún er í vasa þínum.

„Svo gott að hafa krónuna“

Meðal þess sem haldið er fram þegar sagt er „það er svo gott að hafa krónuna“ er að hún geti jafnað út sveiflur í hagkerfinu. Reynslan hefur aftur á móti kennt okkur að hún jafnar ekkert út heldur viðheldur hún bara niðursveiflum og bætir svo í þær. Niðursveiflurnar rýra síðan afkomu alls almennings.

Stöðugt fallandi króna er og verður fyrst og fremst tæki þeirra sem þurfa að flytja fjármuni frá almenningi til fyrirtækja sem hafa ýmist komið sér sjálf í bobba eða fyrir tilstuðlan vanhæfra stjórnmálamanna eða vegna utanaðkomandi áhrifa sem hægt er að glíma við með öðrum hætti en grípa til gengislækkunar. Gengislækkun er auðvelda leiðin út úr vandanum þar sem hún gerir minnstar kröfur til ráðamanna. Reyndar er þetta ástand fallandi krónu orðið svo inngróið í þjóðarsálina að margir álíta það óbreytanlegt. Þegar rætt er um gengisstöðugleika eða upptöku annarar myntar rís upp flokkur manna sem segir og ber vott um „er þetta nokkuð fyrir okkur“-heilkennið sem byrgir mönnum sýn og ber fyrst og fremst vott um minnimáttarkennd þeirra sem því eru haldnir. Heilkennið er ótrúlega algengt meðal stjórnmálamanna hvort sem þeir telja sig vera til vinstri eða hægri.

https://www.frettabladid.is/skodun/hundrad-ara-meinsemd/


Hverjum má treysta í Evrópu­málunum?

Sú dapurlega orðræða sem þjóðin varð vitni að um orkupakkann dró fram hvaða stjórnmálaflokkum má treysta í Evrópumálum. Þannig þarf ekki mikið innsæi eða þekkingu á íslenskum stjórnmálum til að átta sig á að Vinstri græn hefðu farið fram gegn orkupakkanum, með sömu heilögu vandlætingunni og sömu röksemdafærslu og Miðflokksmenn, ef ekki hefði svo viljað til að þau væru einmitt í ríkisstjórn núna. Vinstri græn er einfaldlega þannig flokkur sem segir eitt í stjórnarandstöðu og annað í ríkisstjórn. Um það ber myndun núverandi ríkisstjórnarinnar órækt vitni, þegar Vinstri græn tóku meðvitaða ákvörðun um að fara í stjórn með flokkum sem tryggðu að þau þyrftu ekki að standa við kosningaloforð sín. T.d. loforð um hærra auðlindagjald í sjávarútvegi, sem þau höfðu síðan sérstaka forgöngu um að lækka, þvert á það sem þau höfðu boðað fyrir kosningar.

Sjálfstæðisflokknum ekki treystandi

Formaður Sjálfstæðisflokksins lét hafa eftir sér í upphafi umræðunnar um orkupakkann:

„Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana? (...) Raforkumál Íslands eru ekki innri-markaðsmál. (…) Eru það rök að þar sem Evrópusambandinu hefur þegar tekist að koma Íslandi undir einhverja samevrópska stofnun sé ástæða til að ganga lengra?“

Með svona orðræðu er Sjálfstæðisflokkurinn kominn í sömu stöðu og Íhaldsflokkurinn breski sem alla tíð hefur slegið úr og í um Evrópusamvinnuna til að freista þess að halda öllum flokksmönnum góðum. Þessi afstaða leiddi Breta á endanum í þær ógöngur sem þeir glíma við nú.

Sama gildir á Íslandi, í Evrópumálum er ekki hægt að bera kápuna á báðum öxlum. Annaðhvort viðurkenna menn þann ávinning sem þjóðin hefur af þátttöku sinni í EES, og eru óhræddir við að halda honum á lofti, eða menn eru einfaldlega á móti Evrópusamvinnunni og reiðubúnir að færa þær fórnir sem það útheimtir. Hvorum megin liggur Sjálfstæðisflokkurinn?

https://www.visir.is/g/2019190929191/hverjum-ma-treysta-


Að sleppa við veiðigjöld

Ég hitti fyrir skemmstu kunningja minn, útgerðarmann, og spurði hann hvernig útgerðin gengi. „Aldrei betur“ svaraði hann „ég sé ekki fram á að þurfa að greiða eina einustu krónu í veiðigjöld.“ Ég hváði en hann skýrði þetta út fyrir mér mér. „Þetta verður einfalt. Gamli Range Roverinn minn er orðinn þriggja ára og auðvitað mun útgerðin sjá mér fyrir nýjum bíl. Þeir fást á 14 milljónir en það er ekki eðlilegt að útgerðarmaður þurfi að sætta sig við ódýrustu gerð. Svo er alltaf eitthvað sem ég get tínt til í kostnað, utanlandsferðir og viðhald á húsinu og sumarhúsinu svo þegar upp er staðið þá verður ekkert eftir til að borga í veiðigjöld.

Vinstri grænir voru svo assgoti herskáir fyrir síðustu kosningar og við vorum aðeins smeykir, en það var ekkert að marka, þú manst strax í vor vildu þeir allt fyrir okkur gera. En þá kom eitthvað hagfræðingastóð úr háskólanum sem skaut þeim skelk í bringu en það var síst verra að bíða.

"Látum út landsbyggðarspilið"

Ef þetta hefði orðið eitthvað vandamál með veiðigjöldin þá eigum við alltaf tromp uppi í erminni og „látum út landsbyggðarspilið“ eins og við útgerðarmenn köllum það. Þá finnum við einhvern útgerðarmann sem er með allt niður um sig og segjum „hvað, ætlið þið að leggja af plássið?“ Og það er segin saga enginn framsóknarflokkanna stenst svoleiðis og skiptir þá engu öll hin plássin sem við höfum lagt í eyði þegar við höfum selt hver öðrum kvótann, það skiptir framsóknarflokkana engu.“

„En hvað segja endurskoðendurnir, ert þú ekki með eitt af þessum fyrirtækjum með fínu útlendu nöfnin sem endurskoðar fyrir þig?“ spurði ég. „Jú blessaður, þeir segja ekki múkk og telja þetta alltsaman útgerðarkostnað. Þú manst hvað þeir voru þægir við bankana fyrir hrun. Þeir sögðu að allt væri í himnalagi í bönkunum alveg fram á síðasta dag. Þeir eru ekkert að spá í þetta og gera bara eins og ég segi.“

http://www.visir.is/g/2019190109113/ad-sleppa-vid-veidigjold-?fbclid=IwAR3SjYQw7synIAfcsaUK51MoKR1TYHqeNjlchux3mKnyjSLHVW5L9ERWKFU

 


Þessi þjóð hlýtur að eiga betra skilið

Stjórnvöld reyna ekki að leita sátta í sundruðu samfélagi og láta sem sundrungin komi þeim ekki við. Síðustu vikur hafa kjör almennings þegar rýrnað sem nemur gengislækkun („gamla gengið“) krónunnar, kjararýrnun sem þegar er orðin langt umfram það sem var þegar verkalýðshreyfingin byrjaði að móta launakröfur sínar. -  Þjóðin situr uppi með:

STJÓRNVÖLD...

  • ...sem kjósa að sitja með hendur í skauti í gjaldmiðilsmálum og bíða eftir töfralausnum á meðan krónan fellur og fellur...
  • ...sem láta úrskurð Kjararáðs þeim sjálfum til handa standa óbreyttan þrátt fyrir að hann hafi verið langt umfram það sem aðrir hópar hafa fengið ...
  • ...sem neita að lækka laun ríkisforstjóra þrátt fyrir að launahækkanir til þeirra hafi verið í trássi við eindregna ósk stjórnvalda um hóflegar hækkanir.

SAMTÖK ATVINNULÍFS...

  • ...sem neita að nota samtakamátt sinn til að fá fulltrúa sína í stjórnum lífeyrissjóða til að lækka hæstu laun í fyrirtækjum sem þeir eiga...
  • ... sem velja sér launaþróun út úr norræna velferðarmódelinu en horfa ekki til langtum betri almannaþjónustu sem veitt er á Norðurlöndum. Þar nægir að nefna, húsnæðismál, skóla- og heilbrigðiskerfi auk almenningssamgangna sem allt stuðlar að því að lækka framfærslukostnað venjulegs fólks auk tryggðrar afkomu örorku- og ellilífeyrisþega.

VERKALÝÐSFÉLÖG...

  • ...sem ætla að leyfa útgerðum að ráðskast áfram með fiskveiðiauðlindina óáreittum í stað þess að krefjast eðlilegs afgjalds sem gæti runnið til brýnna samfélagsverkefna á borð við húsnæðismála eða brothættra byggða ...
  • ...sem treysta sér ekki til að krefjast bindingar launa við þann gjaldmiðil sem verð á innfluttum vörum sveiflast í takt við og þannig leyfa þau atvinnurekendum að halda áfram að velta kostnaði yfir á launþega í landinu.

 

Þessi þjóð hlýtur að eiga betra skilið.

 

http://www.visir.is/g/2018181219369/-dej-vu-verdbolgukynslodarinnar-?fbclid=IwAR1X9jj3TBrmZ6S1LZ0XHYo7mVOxoNbe62IPaA_RoVorFr30CqSWn_njEWE


Endalaust dekur við sérhagsmunina

Fyrir réttu ári sagði formaður Vinstri grænna í ræðu á Alþingi að það væru aðilar í samfélaginu sem gætu ekki beðið eftir réttlæti. Þjóðin hélt að hér væri átt við okkar allra minnstu bræður sem hefðu úr litlu að spila vegna örorku eða elli. Nú hefur komið á daginn að það var tómur misskilningur, þetta voru útgerðarmenn sem átt var við. Það voru útgerðarmenn sem gátu ekki beðið eftir „réttlætinu“ sem VG hefur nú í tvígang reynt að framfylgja. Fyrst voru þau gerð afturreka í vor en nú skal „réttlætinu“ fullnægt.

Sama er upp á teningnum með formann atvinnuveganefndar Alþingis, þingmann VG. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur etja þingmanninum í foraðið fyrir lækkun veiðileyfagjalda en halda sig sjálfir til hlés. Þessi þingmaður hélt fram nánast öllu hinu gagnstæða um veiðileyfagjöld í þingræðu fyrir fáeinum árum þegar staða sjávarútvegs var svipuð og hún er nú. Þá taldi þingmaðurinn að útgerðin væri aflögufær, þessi sami þingmaður og nú berst um á hæla og hnakka að fá gjöldin lækkuð.

Byggðastefnu hafnað

Fyrir okkur, dauðlegt fólk, er óskiljanlegt hvernig að því er virðast dagfarsprúðir einstaklingar verða sem umskiptingar við það að komast í valdastólana. Ótvíræðar yfirlýsingar þeirra sjálfra frá fyrri tíma virðast ekki skipta þetta fólk neinu máli þegar hagsmunir útgerðarinnar eru annars vegar.

Við umræður á Alþingi kom fram tillaga um að örlitlum hluta kvótans yrði úthlutað þannig að andvirði hans gæti gengið til byggða sem ættu í vök að verjast. Þessa tillögu gat VG ekki sætt sig við þrátt fyrir sambærilegar tillögur í stefnuskrá þeirra en sem kunnugt er höfnuðu þeir að framfylgja eigin stefnumálum þegar þeim stóð það til boða í ríkisstjórninni með Samfylkingunni.

En hvers vegna er alltaf verið að agnúast út í VG en ekki hina flokkana? Ástæðan er einföld. Fyrir kosningar er VG úlfur í sauðargæru en bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur eru einfaldlega úlfar í úlfagærum og hafa aldrei dulið auðsveipni sína gagnvart útgerðinni í landinu.

 

http://www.visir.is/g/2018181209701/-rettlaeti-samkvaemt-vg-?fbclid=IwAR38z0vI5Q-knsbk7oCfaEGyCgyQBl9CEl9JuD6Ike1BGR8G71iNeqjli4c

 


ÍSLENSKU TRIXIN

Það er e.t.v. að bera í bakkafullan lækinn að vitna í fleyg orð Laxness um að Íslendingar „ ... verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er kjarna máls“ en því miður eiga þau allt of oft við. Nýleg dæmi um þetta opinberuðust okkur á vordögum.

Æskilegt væri að þurfa ekki að styðjast við vísitölu þegar lán eru tekin t.d. til húsnæðiskaupa. Þannig er þessu háttað í nágrannalöndum okkar. Hvað hefur mönnum helst hafa dottið í hug til að breyta þessu? Jú, að banna vísitölutryggingu. Í þeirri umræðu er aldrei minnst á að slíkt bann tæki ekki til þegar tekinna lána svo hér yrði aðeins um bann við vísitölutryggðum lánum til framtíðar.

Verðbólguálag umfram verðbólgu

Ef af banninnu yrði hvernig skyldi þá verða háttað vöxtum á lánum framtíðarinnar? Í ljósi harmsögu íslensku krónunnar, sem er nú innan við hálft prósent af verðgildi dönsku krónunnar, sem hún var á pari við þegar leiðir þeirra skildu fyrir um 95 árum, er nokkuð ljóst að lánveitendur teldu sig þurfa einhverskonar tryggingu fyrir virðisrýrnun krónunnar.

Líklegast er að lánveitendur reyni að áætla verðbólgu og miða vexti við það. Svo mundu þeir telja sig þurfa að hafa borð fyrir báru vegna óvissu um áætlaða verðbólgu og bæta því ofan á vextina. Afar hæpið er að útkoman verði lántakandanum hagstæð frekar að fjármagnskostnaður muni hækka. Enda sýnir það sig að vinsælustu lán til húsnæðiskaupa eru verðtryggð lán, með kostum þeirra og göllum, þó svo að óverðtryggð lán séu í boði.

Í umræðunni er aldrei minnst á að allt tengist þetta íslensku krónunni, örmynt, útgefinni af örlítilli þjóð og hvergi gjaldgeng utan landsteinanna. Þar er sama hvort í hlut eiga samtök atvinnulífs (sem virðast eiga í trúnaðarsambandi við söfnuð sem sér flestu til foráttu sem kemur utanlands frá) eða vígreifir forystumenn einstakra verkalýðsfélaga sem einnig koma sér hjá að tala um kjarna máls, fílinn í stofunni, íslensku krónuna og áhrif hennar á afkomu fjölskyldna og fyrirtækja. 

http://www.visir.is/g/2018180629191/islensku-trixin-

 


DJÁSNIÐ Í KRÚNUNNI

Fyrir Sjálfstæðisflokkinn þá var Reykjavíkurborg djásnið í krúnunni, kjarninn í völdum flokksins þaðan sem þeir gátu deilt og drottnað, úthlutað lóðum, verkum og störfum að eigin geðþótta til innmúraðra og innvígðra. Borgin og völdin yfir henni var aðeins áfangi á leið framagjarnra Sjálfstæðismanna til að komast til enn meiri áhrifa á landsvísu. Þannig leit oft út fyrir að hagsmunir borgarinnar væru afgangsstærð eða a.m.k. í öðru sæti hjá borgarstjórum Sjálfstæðisflokksins.

Þetta breyttist allt með tilkomu Reykjavíkurlistans. Reykjavíkurlistinn og að mestu farsæl stjórnartíð hans, opnaði augu borgarbúa fyrir því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hafði farið með völdin í borginni og ekki síður hvernig völdin höfðu farið með Sjálfstæðisflokkinn. Svo fór að það sem áður var óhugsandi, Sjálfstæðisflokkurinn þurfti að deila völdum í borginni með öðrum flokkum. 

„Skiliði lyklunum“

Sjálfstæðismenn koma stundum óvart  upp um sig um hvernig þeir umgangast völdin og hvernig þeir telja sig réttborna til eigna og áhrifa í samfélagi okkar. Það gerðist t.d. þegar núverandi formaður flokksins hrópaði úr ræðustóli Alþingis í heilagri vandlætingu „skiliði lyklunum“, en það gerðist á afar skammvinnu tímabili í lýðveldissögunni, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var ekki í ríkisstjórn. Eða þegar frambjóðandi flokksins til borgarstjóra mætti nýlega á fund í Höfða eins og það væri nánast formsatriði og bara spurning um tíma hvenær hann settist í stól borgarstjóra.

Afstaða Sjálfstæðismanna til valdsins sýndi sig líka ágætlega í afsagnarmáli innanríkisráðherra þegar að embættismenn sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði ráðið til starfa, eyddu miklum tíma og fyrirhöfn, ekki í að upplýsa málið, heldur til að leita leiða til að bjarga skinni ráðherrans sem hafði skipað þau.

Á móti, til að vera á móti

Borgarlínan svokallaða sem Sjálfstæðisflokkurinn reynir að tortryggja á alla vegu (þó þetta séu bara venjulegir strætisvagnar sem keyra inn á sæmilegar biðstöðvar) eins og þeir átti sig ekki á að það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að láta gatnakerfið taka mikið pláss. Eina svarið við því er það svar sem borgir um allan heim hafa gert í áratugi, sem er að efla almenningssamgöngur. Nema að Sjálfstæðismenn séu í hjarta sínu sammála Borgarlínunni en þykist vera á móti eins og helsti leiðtogi þeirra um árabil lýsti í viðtalsbók hvernig flokkar eigi að hegða sér í stjórnarandstöðu:

„Ég gerði öll mál tortryggileg ...  Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau  ... því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu.“

Sérhagsmunirnir ofar öllu

Vanhæfni Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei verið augljósari en í málefnum ferðamanna þar sem þeir hafa brátt í heil fimm ár samfellt farið með ráðuneyti ferðamála og klúðrað því að ná inn í ríkissjóð eðlilegum gjöldum af erlendum ferðamönnum. Flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn þar sem sérhagsmunaöflum er grímulaust beitt gegn almannahagsmunum getur einfaldlega ekki tekist á við mál af þessu tagi þar sem alltaf er horft til sérhagsmunanna við ákvarðanatöku.  Annað dæmi er Landsréttur þar sem liggur við að flokknum hafi tekist að eyðileggja nýtt dómstig því svo mikið lá við að koma „réttu“ fólki að í dóminn.

Með breytingu á forystu Sjálfstæðisflokksins uppúr aldamótum var ástæða til að ætla að þar hefði orðið breyting til batnaðar og að venjulegir stjórnmálaflokkar gætu framvegis unnið með flokknum. En eftir að Sjálfstæðismenn hlógu sig máttlausa á fyrsta landsfundi eftir hrun, þegar stungið var uppá að þeir viðurkenndu að eiga þátt í hruninu eða að þeir þyrftu að biðja þjóðina afsökunar og bæta sitthvað í eigin ranni, þá mátti öllum vera ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hafði ekkert lært af hruninu og engu gleymt um hvernig þeir eru vanir að umgangast valdið.

Verulegar líkur eru á að morguninn eftir kosningarnar í vor muni Sjálfstæðisflokkurinn reyna að efna til hins sama í borgarstjórn og þeir gerðu eftir Alþingiskosningarnar í haust. Þeir muni setja sig í samband við Vinstri græn og bjóða þeim borgarstjórastólinn. Hverju mun VG svara því tilboði?

http://www.visir.is/g/2018180509729/djasnid-i-krununni-

 


Gætu nýir útgerðarmenn gert betur?

Útgerðin skilur ekki neitt í neinu, að ekki skuli vera búið að setja lög á verkfall sjómanna eða þá að ríkisvaldið skuli ekki vera fyrir löngu búið að lofa að liðka fyrir samningum með loforðum um skattaafslátt (sem þá leggur meiri byrðar á alla hina skattgreiðendurna sem ekki njóta afsláttarins). Forsætisráðherrann hefur sagt að lög verði ekki sett á verkfallið og fróðlegt verður að fylgjast með hvort hann standi við þau orð þegar þrýstingur á hann vex.

Verkfallið hefur með skýrum hætti dregið fram þá einu ábyrgð sem stjórnvöld bera í þessum efnum. Það er ábyrgðin á að auðlindin, sameign þjóðarinnar, sé nýtt þjóðinni allri til hagsbóta. Verkfallið hefur sýnt fram á vangetu núverandi kvótahafa til að sinna þessu verkefni sem ríkisvaldið fól þeim þegar þeir fengu úthlutað fiskveiðikvóta. Geti þeir ekki sinnt þessu eina verkefni, að nýta auðlindina, þá hljóta menn að spyrja sig hvort ekki sé rétt að gefa einhverjum öðrum tækifæri á að spreyta sig. Þar eru nægir um hituna; kvótalausar fiskvinnslur og dugandi einstaklingar um land allt sem fá ekki tækifæri vegna svimandi hárrar kvótaleigu sem borga þarf núverandi kvótahöfum og sem vonlaust er að leigja nema til skamms tíma í senn. 

Gefum fleirum tækifæri

Um langa hríð hefur verið bent á að einfaldasta leiðin til nýliðunar í hópi útgerðarmanna væri að þróa útboðsleið á kvóta þar sem t.d. 5-10% kvótans yrðu boðin út árlega. Um allan heim hafa verið þróaðar aðferðir við útboð af þessu tagi þar sem tryggð er nýliðun og takmarkanir settar við því að kvótarnir safnist á fárra hendur.  

Útboð aflaheimilda þar sem hluta fjármunanna sem koma inn yrði ráðstafað til byggðanna gæti reynst hinum minni sveitarfélögum mikilvægur tekjustofn. Nú verða þau mörg hver illilega fyrir barðinu á sjómannaverkfallinu. Útboð aflaheimilda var kosningaloforð nokkurra stjórnmálaflokka fyrir síðustu kosningar en loforðið vóg greinilega ekki nógu þungt í stefnuskrám flokkanna til að þeir sem reyndu stjórnarmyndun mynduðu ríkisstjórn um þetta réttlætismál þjóðarinnar. Þar voru önnur og léttvægari málefni látin ráða för.

Hoppað á vagn sundurlyndisins.

Svo ótrúlegt sem það kann að virðast þá eru til þeir stjórnmálamenn sem reyna að hagnýta sér verkfall sjómanna til að ala á sundrungu höfuðborgarsvæðisins og annarra landshluta!  Í því tilviki hafa þeir reynt að klína á höfuðborgina („þeir“) að höfuðborgarbúar hafi ekki áhyggjur af verkfallinu á meðan fólkið í byggðum landsins („við“) þjáist og að „vér einir vitum“ hversu mikið ófremdarástand hafi skapast.

Þetta kann að hljóma vel í eyrum einhverra kjósenda í kjördæmum þeirra stjórnmálamanna sem leggjast svo lágt en málefnalegt er það ekki og ber fyrst og fremst vott einkennilegu hugarfari þeirra sem það stunda.

http://www.visir.is/thurfum-vid-nyja-utgerdarmenn-/article/2017170208973

 


Þegar vonin hverfur

Það er mikil einföldun að halda að verkfall lækna hafi aðeins verið afmörkuð kjaradeila hóps sem vill sækja kjarabætur. Kjaradeila lækna var aðeins toppur ísjakans, birtingarmynd þess sem koma skal í hinu hægfara hnignandi hagkerfi Íslendinga. Hagkerfi sem líður fyrir forystuleysi og skort á framtíðarsýn fyrir samfélag sem þarf að keppa um að halda í hvern einasta einstakling, ekki aðeins lækna.

Landflótti menntaðs vinnuafls er staðreynd svo eðlilegast er horfa til þess hvað menntafólkið og aðrir sem kjósa að flytja til útlanda eru að sækjast eftir. Laun hljóta að vega þar þungt en afkoman ræðst af svo miklu fleiru en greiddum launum. Þar skipta önnur lífsgæði ekki síður máli s.s. frítími en ekki síst stöðugleiki, það að vita að hverju maður gengur í rekstri heimila og fyrirtækja.

Breytt nálgun

Stjórnlagaráð og endurskoðun stjórnarskrárinnar, loforð um innköllun fiskveiðikvóta og útleigu þeirra gegn sanngjörnu gjaldi, ESB-umsókn til að fá að vita hvort þar væri eftir einhverju að slægjast (leið sem nær allar nágrannaþjóðir okkar hafa farið), hugmyndir um að gera hlutina einfaldlega öðruvísi en gert var fyrir hrun, allt var þetta til þess fallið að skapa vonir um breytta tíma, breytta nálgun í samfélaginu þar sem þjóðin sjálf fengi einhverju ráðið, milliliðalaust, en væri ekki eilífur leiksoppur helmingaskiptaflokkanna sem fengju óáreittir að ráðskast með þjóðina og eignir hennar. Hvernig til tókst er orðinn hluti af sögunni, hvernig sem okkur þykir að hafi verið að verki staðið.

Allar vonir af þessu tagi hurfu endanlega á vordögum 2013 og það frumlegasta sem nýjum stjórnvöldum datt í hug voru ný helmingaskipti og reyna að vinda ofan af sem flestu sem reynt hafði verið að gera kjörtímabilið á undan. Reyna einfaldlega að færa klukkuna aftur til þess tíma er þeir réðu lögum og lofum á árunum fyrir hrun. Um leið tóku þeir í burtu vonina um breytta tíma. Þetta er almenningi nú orðið ljóst og þá fer fólk að hugsa sér til hreyfings í meira mæli en áður.


Biskup hirtir ríkisstjórn

Eru kjarasamningar við lækna nægjanlegir til að snúa heilbrigðiskerfinu til betri vegar? Óskandi að svo væri en hætt er við meira þurfi til því vandkvæðin lúta að svo miklu stærri þáttum íslensks samfélags. Í heilbrigðiskerfinu og öðrum stofnunum samfélagsins skortir fyrst og fremst forystu af hálfu ráðamanna þjóðarinnar sem skapar tiltrú á framtíð þjóðarinnar í landinu. Sú forysta er ærið langsótt þegar framtíðarsýnin er eingöngu fólgin í því að horfa til baka; fara aftur til ársins 2007 og taka upp þráðinn frá þeim tíma eins og ekkert hafi í skorist, ekkert hrun orðið, engin skaði skeður og enginn lært neitt.

Það má því taka undir með forseta læknadeildar HÍ sem jafnframt er yfirlæknir á Landspítala þar sem hann segir í Kjarnanum 2. janúar:

„Ef að íslenskir pólitíkusar halda áfram að beina sjónum sínum fyrst og fremst til þeirra sem fjármuni og völd eiga í nútíð og fortíð í stað þess að beina augunum að þeim sem munu skapa verðmæti í framtíðinni... Ég lýsi því eftir djarfri framtíðarsýn... Þeir sem ganga aftur á bak inn í framtíðina ... munu fyrr en síðar vera staddir í heldur dapurri nútíð“

Fórnarkostnaðurinn við að vera Íslendingur.

Íslenskir læknar líkt og margar aðrar starfsstéttir hafa alltaf verið reiðubúnar að sætta sig við lakari kjör heldur en þeim býðst erlendis m.a. vegna trúarinnar á framfarasókn landsins og að verið sé að vinna af heilindum að því að byggja upp og gera hlutina betur í dag en í gær. Á sjúkrahúsum landsins er þessi trú horfin og menn sjá ekki lengur framtíðina í neinu framfaraljósi. Sjúkrahúsin eru í þessu tilliti ein þeirra stofnana samfélagsins þar sem starfsemin er komin að þolmörkum og ríkisstjórnin hefur þráast við að hefja endurreisn eftir áralanga vanrækslu.

Ekki bætir aðför ríkisstjórnarinnar að þjóðarstofnun á borð við RÚV; sá hroki og yfirlæti í samskiptum við þá sem ríkisstjórninni eru ekki þóknanlegir, offors í framgöngu umdeildra mála eru næring þess sundurlyndisins sem elur á vantrú á framtíð lands og þjóðar.

Því er rétt að taka undir nýársprédikun biskupsins sem sagði að:

„Það virðist á stundum sem við sem þetta land byggjum nú um stundir höfum ekki sameiginlegan grundvöll til að standa á. Það er sama hvað sagt er og gert er. Það er allt dregið í efa og stutt er í hugsanir um annarlegan tilgang og hagsmunapot“.

Það skyldi þó ekki einmitt vera að eitthvað í fari og framkomu ríkisstjórnarinnar gagnvart fólkinu í landinu sem þessu veldur? 

Ekkert lært og engu gleymt.

„Ég á það ég má það“ –aðferðin var vinsæl á fyrri ríkisstjórnarárum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins fyrir hrun og er að sjá að flokkarnir hafi ekkert lært og engu gleymt frá þeim tíma. Yfirlætið og lítill vilji til samræðu og samráðs við nokkra aðra í samfélaginu og viljinn til að nýta þingmeirihlutann til hins ítrasta er reglan frekar en undantekningin. Hlutir eru gefnir í skyn og talað í hálfkveðnum vísum, frjálslega farið með sannleikann og mikið skortir á að samræmi sé milli orða og efnda. Er það ekki einmitt þegar þessi hegðan ræður ríkjum að allt er dregið í efa?

Það er rétt hjá biskupnum, þetta er sennilega það alvarlegasta sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á ferli sínum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband