Færsluflokkur: Dægurmál

HUNDRAÐ ÁRA MEINSEMD

ífeyrissjóðunum er gert að taka á sig tapið af nýjasta gengisfalli krónunnar með því að þeim er fyrirmunað að kaupa erlendan gjaldeyri til að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga en þurfa þess í stað að kaupa eignir í íslenskum krónum. Fyrir aðeins ári síðan var hægt að kaupa einn dollar á 125 krónur sem í dag kostar 141 krónu. Þessi 12% hækkun á verði erlends gjaldeyris (evra hækkað um 18%) leiðir svo aftur til hækkunar á verði innfluttrar vöru. Hér eru þau komin „breiðu bökin“ í samfélaginu, þeir sem þiggja lífeyri frá lífeyrissjóðum og almenningur sem þarf að borga nauðsynjavörur hærra verði. Hvort tveggja afleiðingar af því að Íslendingum er gert að búa við smæsta gjaldmiðil í heimi, örmynt sem er hvergi annars staðar gjaldgeng.

Vantrú íslensku þjóðarinnar á eigin gjaldmiðli virðist ekki eiga sér nein takmörk. Nýjasta dæmið er þegar Costco auglýsti gullstangir til sölu, en þær eru algeng leið til að geyma verðmæti, þá seldust þær upp á augabragði. Sennilega er þetta ein mest afgerandi yfirlýsing sem hægt er að gefa um hversu lítið þjóðinni er í raun gefið um íslensku krónuna og treystir henni illa til að halda verðgildi sínu.

Hvers vegna?

Þrátt fyrir að þjóðin þekki af eigin raun hvernig verðlag á Íslandi hækkar endalaust og þrátt fyrir að verðlagshækkanirnar megi nær undantekningalaust rekja til hækkana á innfluttum vörum, sem verða stöðugt dýrari vegna verðhækkana á erlendum gjaldeyri, þá eru enn þá til aðilÍslensk króna og dönsk króna gagnvart dollarar sem telja að heppilegast sé fyrir íslenska þjóð að notast við íslenska krónu.


Íslensk króna varð til sem sjálfstæður gjaldmiðill um 1920. Fram að því var gengi hennar það sama og dönsku krónunnar. Frá þeim tíma hafa þessar tvær myntir þróast með gjörólíkum hætti. Til dæmis hefur gengi danskrar krónu gagnvart dollar á þessum hundrað árum haldist innan við tíu krónur danskar, á meðan gengi íslenskrar krónu gagnvart dollar fer yfir tíu þúsund íslenskar krónur, ef horft er fram hjá myntbreytingunni á íslensku krónunni 1980.

Íslendingar hafa lært að lifa með hinni stöðugu gengislækkun en fórnirnar hafa verið miklar. Nær ógerlegt er að nefna allar þær ráðstafanir fyrirtækja og heimila sem teknar voru til þess eins að reyna af veikum mætti að viðhalda raunvirði peninga í stað þess að verja fjármununum til arðbærra fjárfestinga. Þannig var algengt, þegar vitað var að gengisfellingar vofðu yfir, að almenningur keypti heimilistæki sem vitað var að myndu hækka í verði, jafnvel eingöngu í þeim tilgangi að selja þau aftur á nýja verðinu. Einnig má nefna virðingarleysið fyrir gjaldmiðlinum sem lýsir sér í að „eydd króna“ hefur alla tíð verið í meiri metum meðal þjóðarinnar en „geymd króna“. Þannig eru Íslendingar miklu meiri eyðsluklær en gengur og gerist þar sem vitað er að geymd króna rýrnar að verðgildi með hverjum deginum sem líður á meðan hún er í vasa þínum.

„Svo gott að hafa krónuna“

Meðal þess sem haldið er fram þegar sagt er „það er svo gott að hafa krónuna“ er að hún geti jafnað út sveiflur í hagkerfinu. Reynslan hefur aftur á móti kennt okkur að hún jafnar ekkert út heldur viðheldur hún bara niðursveiflum og bætir svo í þær. Niðursveiflurnar rýra síðan afkomu alls almennings.

Stöðugt fallandi króna er og verður fyrst og fremst tæki þeirra sem þurfa að flytja fjármuni frá almenningi til fyrirtækja sem hafa ýmist komið sér sjálf í bobba eða fyrir tilstuðlan vanhæfra stjórnmálamanna eða vegna utanaðkomandi áhrifa sem hægt er að glíma við með öðrum hætti en grípa til gengislækkunar. Gengislækkun er auðvelda leiðin út úr vandanum þar sem hún gerir minnstar kröfur til ráðamanna. Reyndar er þetta ástand fallandi krónu orðið svo inngróið í þjóðarsálina að margir álíta það óbreytanlegt. Þegar rætt er um gengisstöðugleika eða upptöku annarar myntar rís upp flokkur manna sem segir og ber vott um „er þetta nokkuð fyrir okkur“-heilkennið sem byrgir mönnum sýn og ber fyrst og fremst vott um minnimáttarkennd þeirra sem því eru haldnir. Heilkennið er ótrúlega algengt meðal stjórnmálamanna hvort sem þeir telja sig vera til vinstri eða hægri.

https://www.frettabladid.is/skodun/hundrad-ara-meinsemd/


Vanvirðing við landbúnað

Ríkisstjórnin hyggst standa fyrir lagasetningu sem á að stuðla að trausti og gagnsæi í upplýsingagjöf fyrirtækja „sem almennt má telja að séu þjóðhagslega mikilvæg og varða hagsmuni almennings“.  Það dylst engum að frumvarp þetta er hluti af kattarþvotti ríkisstjórnarinnar í Samherjamálinu sem vonast eftir, að með því að lofa auknum upplýsingum um fyrirtækið, þá sé líklegra að þjóðin sætti sig við það málamyndagjald sem útgerðinni er gert að greiða fyrir afnot af fiskimiðunum.

Lagafrumvarpið felur aftur á móti í sér fullkomið virðingarleysi gagnvart landbúnaði með því að lagafrumvarpið er alls ekki látið taka til landbúnaðar á neinn máta en tekur til fyrirtækja á sviði fiskveiða, í samgöngum, fjarskiptum o.fl. sem eru mati ríkisstjórnarinnar þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki sem varða hagsmuni almennings.

Landbúnaður settur skör lægra

Að mati ríkisstjórnarinnar gildir það ekki um landbúnað sem þá er væntanlega hvorki þjóðhagslega mikilvægur né að hann sé hluti af hagsmunum almennings. Helsta keppikefli ráðamanna í landbúnaði hefur árum saman verið að leggja áherslu á mikilvægi atvinnugreinarinnar í þjóðhagslegu samhengi og hversu mikilvæg atvinnugreinin er fyrir afkomu almennings. Þessa atvinnugrein ætlar ríkisstjórnin algjörlega að hunsa af fullkomnu virðingarleysi. Ólíklegt er að ráðamenn bænda sætti sig við að vera settir skör lægra en fyrirtæki í áðurnefndum atvinnugreinum.

Samkvæmt frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að veittar séu upplýsingar um laun og kjör æðstu stjórnenda fyrirtækjanna með sambærilegum hætti og hjá fyrirtækjum skráðum í kauphöll. Það segir meira um raunverulegan hug ríkisstjórnarinnar að baki frumvarpinu sem á að heita eindreginn vilji til upplýsingagjafar til þjóðarinnar.

Augljóst má telja að þegar frumvarpið var borið undir stjórnendur fyrirtækjanna hafi þeir talið að réttast væri að sleppa upplýsingum um kaup þeirra og kjör enda viðbúið að slíkt væri til þess fallið að valda þeim óþægindum sem þeir gjarnan vildu vera lausir við. Við því var greinilega orðið, Vinstri græn hafa ekki séð ástæðu til annars en fallast á þetta sjónarmið fyrirtækjanna og Sjálfstæðisflokksins.

https://www.frettabladid.is/skodun/vanvirding-vid-landbunad/


Að sleppa við veiðigjöld

Ég hitti fyrir skemmstu kunningja minn, útgerðarmann, og spurði hann hvernig útgerðin gengi. „Aldrei betur“ svaraði hann „ég sé ekki fram á að þurfa að greiða eina einustu krónu í veiðigjöld.“ Ég hváði en hann skýrði þetta út fyrir mér mér. „Þetta verður einfalt. Gamli Range Roverinn minn er orðinn þriggja ára og auðvitað mun útgerðin sjá mér fyrir nýjum bíl. Þeir fást á 14 milljónir en það er ekki eðlilegt að útgerðarmaður þurfi að sætta sig við ódýrustu gerð. Svo er alltaf eitthvað sem ég get tínt til í kostnað, utanlandsferðir og viðhald á húsinu og sumarhúsinu svo þegar upp er staðið þá verður ekkert eftir til að borga í veiðigjöld.

Vinstri grænir voru svo assgoti herskáir fyrir síðustu kosningar og við vorum aðeins smeykir, en það var ekkert að marka, þú manst strax í vor vildu þeir allt fyrir okkur gera. En þá kom eitthvað hagfræðingastóð úr háskólanum sem skaut þeim skelk í bringu en það var síst verra að bíða.

"Látum út landsbyggðarspilið"

Ef þetta hefði orðið eitthvað vandamál með veiðigjöldin þá eigum við alltaf tromp uppi í erminni og „látum út landsbyggðarspilið“ eins og við útgerðarmenn köllum það. Þá finnum við einhvern útgerðarmann sem er með allt niður um sig og segjum „hvað, ætlið þið að leggja af plássið?“ Og það er segin saga enginn framsóknarflokkanna stenst svoleiðis og skiptir þá engu öll hin plássin sem við höfum lagt í eyði þegar við höfum selt hver öðrum kvótann, það skiptir framsóknarflokkana engu.“

„En hvað segja endurskoðendurnir, ert þú ekki með eitt af þessum fyrirtækjum með fínu útlendu nöfnin sem endurskoðar fyrir þig?“ spurði ég. „Jú blessaður, þeir segja ekki múkk og telja þetta alltsaman útgerðarkostnað. Þú manst hvað þeir voru þægir við bankana fyrir hrun. Þeir sögðu að allt væri í himnalagi í bönkunum alveg fram á síðasta dag. Þeir eru ekkert að spá í þetta og gera bara eins og ég segi.“

http://www.visir.is/g/2019190109113/ad-sleppa-vid-veidigjold-?fbclid=IwAR3SjYQw7synIAfcsaUK51MoKR1TYHqeNjlchux3mKnyjSLHVW5L9ERWKFU

 


Samtakamáttur Samtaka atvinnulífsins

Við lifum óvenjulega tíma. Tíu árum eftir hrunið ríkir úlfúð og ósætti í samfélagi okkar. Mitt í öllu ósættinu er ráðamönnum þjóðarinnar afhentar ríflegar launahækkanir á silfurfati og fyrirtæki landsins, sem lífeyrissjóðirnir eiga að stórum hluta, ákveða að gera vel við stjórnendur sína og hækka verulega við þá launin sem þó voru rífleg fyrir. Stjórnvöld hreyfa ekki litla fingur til að vinda ofan af launahækuninni sem þeim var rétt og Samtök atvinnulífsins (SA), sem tilnefna helming stjórnarmanna almennu lífeyrissjóðanna, tala fjálglega um hóflegar hækkanir til stjórnenda fyrirtækja þar sem fulltrúar lífeyrissjóðanna sitja í stjórnum. Lítið er svo gert til að tryggja að hin fögru fyrirheit gangi eftir. Eða ætli almenningur telji að fyrirtækin,

„...starfi í góðri sátt við umhverfi sitt og samfélag. Launakjör æðstu stjórnenda séu hófleg, innan skynsamlegra marka og ofbjóði ekki réttlætiskennd amennings“

eins og segir í stefnuyfirlýsingu SA?  Eru það ekki einmitt launakjör stjórnenda fyrirtækjanna sem misbjóða réttlætiskennd almennings?

Frómar óskir og framkvæmdin

Þegar vakin er athygli á hversu illa málflutningur SA rímar við gjörðir fyrirtækjanna og upplifun almennings af tekjuskiptingu í landinu, eins og gert var í grein í Frbl. 18. sept. þá skrifar framkvæmdastjóri SA grein í Mbl. 25. sept. s.l. þar sem hann rekur meðaltalshækkanir stjórnenda og launþega til að sýna fram á að stjórnendur séu vel að þessum hækkunum komnir. Ekki kemur fram ofan á hvaða laun hækkanirnar voru reiknaðar og ekki virðist hvarfla að honum að e.t.v. hafi launin, sem hækkanirnar reiknuðust ofan á verið of há m.v. þann veruleika sem Íslendingar búa við í dag og hækkanirnar því beinlínis til þess fallnar að auka á úlfúð og ósætti í samfélaginu.

Við einhverjar tilteknar aðstæður hefði samanburður á prósentutölum á borð við þær sem bornar eru fram í greininni haft eitthvað að segja. En við búum við allt aðrar aðstæður á öðrum og óvenjulegri tímum sem kallar á óvenjulegar ráðstafanir. Ráðstafanirnar sem SA gæti gripið til var lýst í greininni í Frbl. og einnig á opnum fundi með Landssambandi lífeyrissjóða fyrir hálfu þriðja ári.

SA gæti sem hægast notað samtakamátt sinn til að hindra þá ofurlaunaþróun sem þegar er orðin og fyrirséð hjá stjórnendum fyrirtækja í eigu lífeyrissjóðanna. Þannig gæti SA látið yfirlýsingar þeirra um að laun stjórnenda

„skuli vera hófleg og í samræmi við íslenskan launaveruleika“

verða að veruleika. Framkvæmdin hjá SA fram að þessu ber ekki vott um að hinar frómu óskir forráðamanna SA séu neitt annað en orðin tóm.

Því ættu samtök launafólks að treysta félagsskap sem notar samtakamátt sinn eingöngu til að semja við verkalýðsfélög en neita að nota samtakamáttinn til að halda aftur af ofurlaunum stjórnenda í atvinnulífinu?

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Íslensku trixin II

Kjararáð kvað upp úrskurði sem juku mjög á ósætti landsmanna. Hvernig var brugðist við? Fyrst var Kjararáði falið að kveða upp úrskurði um færri embættismenn en áður og síðan var Kjararáð lagt niður. Hverju skilaði þetta íslenska trix? Fyrri aðgerðin, að fækka embættismönnum sem heyrðu undir ráðið, leiddi til enn meiri launahækkana þeirra þrátt fyrir eindregnar viðvaranir þáverandi fjármálaráðherra. Síðari aðgerðin skilar auðu þar sem ekki hefur verið afráðið hvernig hátti launaákvörðunum til embættismanna í framtíðinni.

Stjórnvöld virðast úti á þekju og halda að viðfangsefni sitt í komandi kjaraviðræðum séu einfaldar prósentuhækkanir launa á meðan viðfangsefnið er enn, tíu árum síðar, að sameina sundraða þjóð, freista þess að ná sátt í samfélaginu og græða það holundarsár sem hrunið skildi eftir á þjóðarsálinni.

Ábyrgðin er stjórnvalda og Samtaka atvinnulífsins

Stjórnvöld, auk Samtaka atvinnulífsins (SA) tala fjálglega um lítið svigrúm til launahækkana en eru sjálf þeir aðilar sem bera mesta ábyrgð á þeirri úlfúð í samfélaginu sem ríkir um kjaramál. Stjórnvöld hafa enn ekki hreyft litla fingur til að vinda ofan af úrskurði Kjararáðs. SA skipa helming allra stjórnarsæta almennu lífeyrissjóðanna og gætu því sem hægast haft forgöngu um að stöðva það höfrungahlaup gengdarlausra yfirborgana í fyrirtækjunum sem lífeyrissjóðirnir eiga, sem eru flest stærri fyrirtækja á Íslandi.

Hugmyndin að baki einhverskonar kjararáði er ekki alslæm. Útfærsla hugmyndarinnir var það sem brást og forsendurnar sem lágu að baki. Í sjálfu sér er það þarft að í samfélaginu sé til „apparat“ sem geti borið saman laun m.t.t. ábyrgðar, vinnutíma og annars sem máli skiptir við ákvörðun launa. Lífeyrissjóðirnir hefðu getað vísað til slíkrar stofnunar ákvörðunum um laun í fyrirtækjunum sem þeir stjórna og þannig hindrað höfrungahlaup stjórnendanna. En það gerðu þeir ekki.

Allt frá hruni hefur SA ekki nýtt samtakamátt sinn til að standa gegn ofurlaunum þrátt fyrir viðvaranir þar um og að augljóst væri í hvað stefndi.  - Því skyldi almenningur taka mark á málflutningi þessa fólks?

 

https://www.frettabladid.is/skodun/islensku-trixin-ii

 


DJÁSNIÐ Í KRÚNUNNI

Fyrir Sjálfstæðisflokkinn þá var Reykjavíkurborg djásnið í krúnunni, kjarninn í völdum flokksins þaðan sem þeir gátu deilt og drottnað, úthlutað lóðum, verkum og störfum að eigin geðþótta til innmúraðra og innvígðra. Borgin og völdin yfir henni var aðeins áfangi á leið framagjarnra Sjálfstæðismanna til að komast til enn meiri áhrifa á landsvísu. Þannig leit oft út fyrir að hagsmunir borgarinnar væru afgangsstærð eða a.m.k. í öðru sæti hjá borgarstjórum Sjálfstæðisflokksins.

Þetta breyttist allt með tilkomu Reykjavíkurlistans. Reykjavíkurlistinn og að mestu farsæl stjórnartíð hans, opnaði augu borgarbúa fyrir því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hafði farið með völdin í borginni og ekki síður hvernig völdin höfðu farið með Sjálfstæðisflokkinn. Svo fór að það sem áður var óhugsandi, Sjálfstæðisflokkurinn þurfti að deila völdum í borginni með öðrum flokkum. 

„Skiliði lyklunum“

Sjálfstæðismenn koma stundum óvart  upp um sig um hvernig þeir umgangast völdin og hvernig þeir telja sig réttborna til eigna og áhrifa í samfélagi okkar. Það gerðist t.d. þegar núverandi formaður flokksins hrópaði úr ræðustóli Alþingis í heilagri vandlætingu „skiliði lyklunum“, en það gerðist á afar skammvinnu tímabili í lýðveldissögunni, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var ekki í ríkisstjórn. Eða þegar frambjóðandi flokksins til borgarstjóra mætti nýlega á fund í Höfða eins og það væri nánast formsatriði og bara spurning um tíma hvenær hann settist í stól borgarstjóra.

Afstaða Sjálfstæðismanna til valdsins sýndi sig líka ágætlega í afsagnarmáli innanríkisráðherra þegar að embættismenn sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði ráðið til starfa, eyddu miklum tíma og fyrirhöfn, ekki í að upplýsa málið, heldur til að leita leiða til að bjarga skinni ráðherrans sem hafði skipað þau.

Á móti, til að vera á móti

Borgarlínan svokallaða sem Sjálfstæðisflokkurinn reynir að tortryggja á alla vegu (þó þetta séu bara venjulegir strætisvagnar sem keyra inn á sæmilegar biðstöðvar) eins og þeir átti sig ekki á að það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að láta gatnakerfið taka mikið pláss. Eina svarið við því er það svar sem borgir um allan heim hafa gert í áratugi, sem er að efla almenningssamgöngur. Nema að Sjálfstæðismenn séu í hjarta sínu sammála Borgarlínunni en þykist vera á móti eins og helsti leiðtogi þeirra um árabil lýsti í viðtalsbók hvernig flokkar eigi að hegða sér í stjórnarandstöðu:

„Ég gerði öll mál tortryggileg ...  Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau  ... því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu.“

Sérhagsmunirnir ofar öllu

Vanhæfni Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei verið augljósari en í málefnum ferðamanna þar sem þeir hafa brátt í heil fimm ár samfellt farið með ráðuneyti ferðamála og klúðrað því að ná inn í ríkissjóð eðlilegum gjöldum af erlendum ferðamönnum. Flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn þar sem sérhagsmunaöflum er grímulaust beitt gegn almannahagsmunum getur einfaldlega ekki tekist á við mál af þessu tagi þar sem alltaf er horft til sérhagsmunanna við ákvarðanatöku.  Annað dæmi er Landsréttur þar sem liggur við að flokknum hafi tekist að eyðileggja nýtt dómstig því svo mikið lá við að koma „réttu“ fólki að í dóminn.

Með breytingu á forystu Sjálfstæðisflokksins uppúr aldamótum var ástæða til að ætla að þar hefði orðið breyting til batnaðar og að venjulegir stjórnmálaflokkar gætu framvegis unnið með flokknum. En eftir að Sjálfstæðismenn hlógu sig máttlausa á fyrsta landsfundi eftir hrun, þegar stungið var uppá að þeir viðurkenndu að eiga þátt í hruninu eða að þeir þyrftu að biðja þjóðina afsökunar og bæta sitthvað í eigin ranni, þá mátti öllum vera ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hafði ekkert lært af hruninu og engu gleymt um hvernig þeir eru vanir að umgangast valdið.

Verulegar líkur eru á að morguninn eftir kosningarnar í vor muni Sjálfstæðisflokkurinn reyna að efna til hins sama í borgarstjórn og þeir gerðu eftir Alþingiskosningarnar í haust. Þeir muni setja sig í samband við Vinstri græn og bjóða þeim borgarstjórastólinn. Hverju mun VG svara því tilboði?

http://www.visir.is/g/2018180509729/djasnid-i-krununni-

 


GAMLA ÍSLAND VANN

Nýja ríkisstjórnin boðar engar sögulegar sættir, bara svo það sé alveg á hreinu. Stjórnin er mynduð af keimlíkum flokkum sem eru alls engar andstæður þó það þjóni VG að halda því fram. Álitsgjafar munu áfram falla í þá gryfju, að tala um póla og sögulegar sættir því það er þægilegra fyrir þá að halda á lofti gömlum klisjum en vinna heimavinnuna sína og skoða hvað flokkarnir sem mynda ríkisstjórnina raunverulega standa fyrir.

Fyrir þá sem harma ákvörðun VG að ganga í björg Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er áhugavert að skoða dæmi um málefni sem VG telur sig ná fram nú en sem var ekki í boði með Samfylkingunni o.fl. flokkum. Þannig tryggir VG að útgerðin sleppur við að greiða sama auðlindagjald fyrir makrílveiðar og þeir inna af hendi til Færeyinga, fjárhæð sem nemur nokkrum milljörðum. Með vali á sjávarútvegsráðherra verður einnig að telja að stórútgerðin í landinu hafi unnið fullnaðarsigur.

Hvað breyttist eftir kosningar?

Í fyrri ríkisstjórn máttu Björt framtíð og Viðreisn gera sér að góðu að umbera vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins þar til þeim var loks nóg boðið. Þannig verður það líka hjá VG. Hverju flóttabarni sem vísað verður úr landi á hæpnum forsendum; hver reglugerð sem á að hindra brottkast og stöðvuð verður af útgerðinni; hver  dómaraskipan, allt verður þetta óhjákvæmilega í boði VG.

Fáir hafa lýst vinnubrögðum Sjálfstæðisflokksins með jafn afgerandi hætti og frambjóðendur VG gerðu í aðdraganda Alþingiskosninganna.  Nú hefur komið í ljós að því var greinilega bara ætlað að halda lífi í klisjunni um VG og Sjálfstæðisflokk sem andstæða flokka en alls ekki til brúks eftir kosningar.

Eftir því sem fleiri ríkisstjórnir eru myndaðar með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki um að breyta engu, fjarlægist sá draumur sem margir báru í brjósti um að í kjölfar hrunsins hefði gamla Ísland, með öllum sínum sérhagsmunum og frændhygli verið kvatt og í vændum væri nýtt og betra Ísland sem byggði á öðrum gildum en þeim sem leiddu til hruns og misskiptingar. Þessi ríkisstjórn gerir þann draum enn fjarlægari og fyrir kjósendur sem vilja nýtt Ísland hefur fækkað um einn valkost.

http://www.visir.is/g/2017171209278/gamla-island-vann-


Að elska að hata Samfylkinguna

Afar vinsælt er að finna Samfylkingunni flest til foráttu og kenna henni um flest það sem aflaga fór í síðustu ríkisstjórn og fyrir að hafa ekki leiðrétt allt það ranglæti sem þjóðin hefur verið beitt undanfarna áratugi. Hvort heldur það er -ný stjórnarskrá, -innköllun aflaheimilda, -endurreisn heilbrigðiskerfisins svo aðeins fátt eitt sé talið.

Merkilegt er að engu er líkara en margir þeir sem elska að andskotast út í flokkinn fyrir að hafa „brugðist“ t.d. í stjórnarskrármálinu eða innköllun kvótans virðast gjarnan vera aðilar sem vilja alls ekki nýja stjórnarskrá og engar breytingar á fiskveiðistjórninni, svo undarlega sem það kann að hljóma. Hér mætti t.d. nefna „Virkur í athugasemdum“ en hann er mjög áfram um „svik“ Samfylkingarinnar í stóru sem smáu.

Vinstri, hægri, græn, blá.

Spyrja má hvar eigi að staðsetja Samfylkinguna á hefðbundnum vinstri/hægri – skala og þá jafnvel út frá því hvar aðrir flokkar hafa kosið að staðsetja sig. Hér skulu tilgreind nokkur dæmi.

  • Er það „vinstri“ að halda uppi matvælaverði til almennings með því að hamla innflutningi kjúklinga- og svínakjöts í samkeppni við „innlenda“ framleiðendur með lögheimili á Tortóla?
  • Hvað er „grænt“ við það að greiða fyrir landgræðslu sem sauðfé fær svo óáreitt að bíta þannig að síðan sé hægt að borga aftur meðgjöf með útflutningi þess sama kjöts? (Eins og prófessor við Landbúnaðarháskólann hefur rakið í nokkrum blaðagreinum http://www.visir.is/storslysalegur-samningur/article/2016160529251)
  • Hvað er „vinstri“ við að festa í lög eina mjólkursamsölu í stað þess láta nægja að tryggja að allir bændur sitji við sama borð við söfnun mjólkur til einstakra úrvinnslustöðva?

Nú vill svo til að þessi þrjú ofangreindu tilvik eru öll einmitt stefna Sjálfstæðisflokksins og fleiri flokka í landbúnaðarmálum en spurningin er, eru þau samt til vinstri? Bændur eiga vísan stuðning allra flokka en það er ekki sama hvernig fjármunum til þeirra er varið hvort halda eigi þeim í fátæktargildru næsta áratuginn eða stokka upp kerfið.

Útboð fiskveiðikvóta – vinstri/hægri?

Er eitthvað til „vinstri“ við það að neita að láta bjóða í fiskveiðikvóta svo að þjóðin hagnist sem mest á eign sinni? (Ef svo ólíklega vildi til að eitthvert byggðarlag kæmi verr út þá væri hægur vandi að vinna í því með þeim fjármunum sem fengjust úr útboðinu.) Er þessi afstaða vinstri eða hægri? Þetta er einmitt einnig stefna Sjálfstæðisflokksins og fleiri flokka, að koma í veg fyrir að þjóðin fái fullt gjald fyrir afnot útgerðarinnar af auðlind í þjóðareigu.

          Þessi fáeinu dæmi gætu varpað ljósi á hvaða flokkar eiga samleið þegar um stærstu mál þjóðarinnar og afkomu almennings er að ræða. Hér er ekki alveg einfalt að nota hina hefðbundu mælikvarða á stjórnmálaflokkana og mun rökréttara er að bregða kvarðanum „standa flokkarnir með hagsmunum almennings gegn sérhagsmunum?“

http://www.visir.is/ad-elska-ad-hata-samfylkinguna/article/2016160609862

 


Alltaf skal Landspítalinn verða undir

Fullkomin sjúkrastofnun opnar í Ármúla (Hótel Ísland) með öllum nýjustu tækjum og öllu starfsfólki svo vel höldnu að það hvarflar ekki að því að fara í verkfall. Á sama tíma dynur á Landspítalanum enn eitt verkfallið og tækjabúnaður er annaðhvort skammtaður af tímabundu örlæti þingmanna eða ölmusugjöfum velunnara spítalans. Samt sækja bæði klínikin í Ármúlanum og Landspítalinn alla sína fjármuni í sama vasa, vasa skattgreiðenda. Hvernig má þetta vera? 

Hið rangsnúna kerfi.

Svarið hefur legið lengi fyrir og vitað að svona mundi fara (http://uni.hi.is/bh/). Klínikin í Ármúlanum fær sérstaklega greitt frá ríkinu fyrir hvert viðvik á meðan Landspítalinn þarf að búa við greiðslur ákvarðaðar einu sinni á ári á fjárlögum. Í fjáraukalögum sem nú liggja fyrir Alþingi er beiðni um viðbótarframlag uppá nokkra milljarða til sérfræðilæknaþjónustu utan sjúkrahúsa. Hluti þess framlags mun einmitt renna til klínikurinnar í Ármúla.

Landspítalinn aftur á móti fær ekki að „keppa“ um fjármagn úr ríkissjóði með sama hætti og klínikin. Á meðan svo er þá mun Landspítalinn alltaf tapa í þeirri samkeppni um skattfé almennings sem smátt og smátt dregur úr spítalanum þrótt.

Landspítalinn „tapar“ á aukinni þjónustu.

Ef senda þarf sjúklinga til útlanda í meðferð eða rannsóknir þá borgar ríkið það í gegnum Sjúkratryggingar Íslands. Yrði Landspítalanum falið að sjá fyrir sömu meðferð og rannsóknum hér á landi (sem getur sparað þjóðarbúinu stórar fjárhæðir svo ekki þurfi að senda sjúklinga til útlanda) þýðir það bara viðbótarkostnað fyrir Landspítalann. En hjá Sjúkratryggingum (sem þá sleppa við að borga ferðirnar til útlanda) er þetta hreinn sparnaður sem gefur aukið svigrúm til frekari greiðslna til stofa úti í bæ, svo öfugsnúið sem það kann að virðast. Vítahringurinn heldur áfram, Landspítalanum heldur áfram að hraka á meðan einkaaðilar dafna, allt í boði okkar skattgreiðenda.

„Engin stefnumótun í heilbrigðismálum“

Ofangreind tilvitnun er höfð eftir heilbrigðisráðherra á fundi sem efnt var til í september um íslenska heilbrigðiskerfið. Auk þess sagði hann skort á heildrænni yfirsýn og að engin raunveruleg stefnumótun til lengri tíma hafi átt sér stað. Það er vandséð að annar eins áfellisdómur hafi verið felldur um jafn mikilvægan málaflokk. Samt sem áður virðast þessi orð hafa farið fram hjá flestum fjölmiðlum hvað þá að þingmenn eða aðrir hafi séð ástæðu til að taka þau upp og spyrja hvort hér verði ekki ráðin bót á.

Heilbrigðismál er sá málaflokkur sem síst þykir líklegur til vinsælda hjá stjórnmálamönnum. Þeir kinoka sér við að kynna sér rekstur heilbrigðisstofnana og álykta ranglega að allt megi bæta með auknum fjárframlögum. Vandi íslenska heilbrigðiskerfisins er miklu djúpstæðari og þar skapa mismunandi aðferðir við skiptingu á framlögum ríkisins til einkarekinna- og opinberra heilbrigðisstofnana mestan vanda.

http://www.visir.is/landspitalanum-askapad-ad-verda-undir/article/2015151108911


Ríkisstjórninni um megn að standa við loforð

Landsbankinn seldi frá sér eign til útvalinna vildarvina, eignarhlut sinn í Borgun. Arion banki seldi frá sér eign sína í Símanum til útvalinna vildarvina áður en pöpullinn og lífeyrissjóðirnir fengu tækifæri til að kaupa. Fjármálaráðherrann og flokksbræður hans hrópa nú hver um annan þveran í heilagri vandlætingu yfir þeirri rangsleitni sem hér hefur átt sér stað, en bara þegar Arion banki seldi. Enga vandlætingu er að finna hjá þeim yfir því þegar Landsbanki seldi í Borgun. Hvað veldur?

Allir bankarnir í reynd á forræði ríkisins
Bæði þessi tilvik eru nákvæmlega eins vaxin. Viðskiptabankar, reknir á ábyrgð ríkissjóðs sem ábyrgist allar innistæður þeirra, eru að losa sig við eignir. Eftir söluna á Borgun vantaði ekki að einhverjir embættismenn viðurkenndu mistök en enginn var látinn sæta ábyrgð. Síðan þegar þetta gerist núna aftur við söluna á Símanum þá skáka menn í því skjólinu og segja einfaldlega „úps, gerði það aftur“ vitandi vits að ekki nokkur sála, hvorki stjórnmálamenn né embættismenn þurfa að sæta ábyrgð.

Dreift eignarhald … kanntu annan?
Þegar nú er til umræðu sala ríkisins á Íslandsbanka og Landsbanka vantar ekki að ráðamenn komi fram og lofi dreifðri eignaraðild, opnu söluferli o.s.frv. Hljómar kunnuglega? Öll munum við þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur lofuðu hinu sama við fyrri einkavæðingu bankanna, dreifðri eignaraðild, opnu söluferli og þar fram eftir götunum. En hvað kom á daginn? Um leið og góðvinir flokkanna birtust (góðvinir sem síðan reyndust vera „óreiðumenn“) var öllum hugmyndum um dreifða eignaraðild kastað fyrir róða og vinunum seldir bankarnir. Því skyldi það ekki gerast aftur? Er nokkuð að marka yfirlýsingar ráðherra Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks núna frekar en þá?

Undanfarin misseri höfum við séð hvernig ótvíræð loforð, gefin fyrir síðustu kosningar, loforð sem spiluð eru aftur og aftur fyrir ráðherrana skipta þá nákvæmlega engu máli. Þeir yppta einfaldlega öxlum og láta sem loforð hermd upp á þá með þeirra eigin orðum, spiluð ítrekað upphátt fyrir þá opinberlega, skipti þá bara alls engu máli. Hvarflar að einhverjum að trúa þeim núna? Er einhver ástæða til að ætla að eignir bankanna og loks bankarnir sjálfir verði ekki einmitt seldir vildarvinum í hæfilegum skömmtum og í hvert sinn heyrist bara „úps, gerði það aftur“ og öxlunum yppt yfir öllum fögru loforðunum?

http://www.visir.is/hvert-rennur-audlindaardurinn-/article/2015705089997


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband