Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

ÍSLENSKA OG DANSKA KRÓNAN Í 100 ÁR

Lífeyrissjóðunum er gert að taka á sig tapið af nýjasta gengisfalli krónunnar með því að þeim er fyrirmunað að kaupa erlendan gjaldeyri til að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga en þurfa þess í stað að kaupa eignir í íslenskum krónum. Fyrir aðeins ári síðan var hægt að kaupa einn dollar á 125 krónur sem í dag kostar 141 krónu. Þessi 12% hækkun á verði erlends gjaldeyris (evra hækkað um 18%) leiðir svo aftur til hækkunar á verði innfluttrar vöru. Hér eru þau komin „breiðu bökin“ í samfélaginu, þeir sem þiggja lífeyri frá lífeyrissjóðum og almenningur sem þarf að borga nauðsynjavörur hærra verði. Hvor tveggja afleiðingar af því að Íslendingum er gert að búa við smæsta gjaldmiðil í heimi, örmynt sem er hvergi annars staðar gjaldgeng.

Hvers vegna?

Þrátt fyrir að þjóðin þekki af eigin raun hvernig verðlag á Íslandi hækkar endalaust og þrátt fyrir að verðlagshækkanirnar megi nær undandtekningalaust rekja til hækkana á innfluttum vörum, sem verða stöðugt dýrari vegna verðhækkana á erlendum gjaldeyri, þá eru ennþá til aðilar sem telja að heppilegast sé fyrir íslenska þjóð að notast við íslenska krónu.

Íslensk króna varð til sem sjálfstæður gjaldmiðill um 1920. Fram að því var gengi hennar það sama og dönsku krónunnar. Frá þeim tíma hafa þessar tvær myntir þróast með gjörólíkum hætti. T.d. hefur gengi danskrar krónu gagnvart dollar á þessum hundrað árum haldist innan við tíu krónur danskar, á meðan gengi íslenskrar krónu gagnvart dollar fer yfir 10 þúsund íslenskar krónur, ef horft er framhjá myntbreytingunni á íslensku krónunni 1980.

Íslenska og danska krónan

 

 

 

 

 

 

 

Íslendingar hafa lært að lifa með hinni stöðugu gengislækkun en fórnirnar hafa verið miklar. Nær ógerlegt er að nefna allar þær ráðstafanir fyrirtækja og heimila sem teknar voru til þess eins að reyna af veikum mætti að viðhalda raunvirði peninga í stað þess að verja fjármununum til arðbærra fjárfestinga. Þannig var algengt, þegar vitað var að gengisfellingar vofðu yfir, að almenningur keypti heimilistæki sem vitað var að myndu hækka í verði, jafnvel eingöngu í þeim tilgangi að selja þau aftur á nýja verðinu. Einnig má nefna virðingarleysið fyrir gjaldmiðlinum sem lýsir sér í að „eydd króna“ hefur alla tíð verið í meiri metum meðal þjóðarinnar en „geymd króna“. Þannig eru Íslendingar miklu meiri eyðsluklær en gengur og gerist þar sem vitað er að geymd króna rýrnar að verðgildi með hverjum deginum sem líður á meðan hún er í vasa þínum.

„Svo gott að hafa krónuna“

Meðal þess sem haldið er fram þegar sagt er „það er svo gott að hafa krónuna“ er að hún geti jafnað út sveiflur í hagkerfinu. Reynslan hefur aftur á móti kennt okkur að hún jafnar ekkert út heldur viðheldur hún bara niðursveiflum og bætir svo í þær. Niðursveiflurnar rýra síðan afkomu alls almennings.

Stöðugt fallandi króna er og verður fyrst og fremst tæki þeirra sem þurfa að flytja fjármuni frá almenningi til fyrirtækja sem hafa ýmist komið sér sjálf í bobba eða fyrir tilstuðlan vanhæfra stjórnmálamanna eða vegna utanaðkomandi áhrifa sem hægt er að glíma við með öðrum hætti en grípa til gengislækkkunar. Gengislækkun er auðvelda leiðin út úr vandanum þar sem hún gerir minnstar kröfur til ráðamanna. Reyndar er þetta ástand fallandi krónu orðið svo inngróið í þjóðarsálina að margir álíta það óbreytanlegt. Hér er um að ræða „er þetta nokkuð fyrir okkur“-heilkennið sem byrgir mönnum sýn og ber fyrst og fremst vott um minnimáttarkennd þeirra sem því eru haldnir. Heilkennið er ótrúlega algengt meðal stjórnmálamanna hvort sem þeir telja sig vera til vinstri eða hægri. 


Vanvirðing við landbúnað

Ríkisstjórnin hyggst standa fyrir lagasetningu sem á að stuðla að trausti og gagnsæi í upplýsingagjöf fyrirtækja „sem almennt má telja að séu þjóðhagslega mikilvæg og varða hagsmuni almennings“.  Það dylst engum að frumvarp þetta er hluti af kattarþvotti ríkisstjórnarinnar í Samherjamálinu sem vonast eftir, að með því að lofa auknum upplýsingum um fyrirtækið, þá sé líklegra að þjóðin sætti sig við það málamyndagjald sem útgerðinni er gert að greiða fyrir afnot af fiskimiðunum.

Lagafrumvarpið felur aftur á móti í sér fullkomið virðingarleysi gagnvart landbúnaði með því að lagafrumvarpið er alls ekki látið taka til landbúnaðar á neinn máta en tekur til fyrirtækja á sviði fiskveiða, í samgöngum, fjarskiptum o.fl. sem eru mati ríkisstjórnarinnar þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki sem varða hagsmuni almennings.

Landbúnaður settur skör lægra

Að mati ríkisstjórnarinnar gildir það ekki um landbúnað sem þá er væntanlega hvorki þjóðhagslega mikilvægur né að hann sé hluti af hagsmunum almennings. Helsta keppikefli ráðamanna í landbúnaði hefur árum saman verið að leggja áherslu á mikilvægi atvinnugreinarinnar í þjóðhagslegu samhengi og hversu mikilvæg atvinnugreinin er fyrir afkomu almennings. Þessa atvinnugrein ætlar ríkisstjórnin algjörlega að hunsa af fullkomnu virðingarleysi. Ólíklegt er að ráðamenn bænda sætti sig við að vera settir skör lægra en fyrirtæki í áðurnefndum atvinnugreinum.

Samkvæmt frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að veittar séu upplýsingar um laun og kjör æðstu stjórnenda fyrirtækjanna með sambærilegum hætti og hjá fyrirtækjum skráðum í kauphöll. Það segir meira um raunverulegan hug ríkisstjórnarinnar að baki frumvarpinu sem á að heita eindreginn vilji til upplýsingagjafar til þjóðarinnar.

Augljóst má telja að þegar frumvarpið var borið undir stjórnendur fyrirtækjanna hafi þeir talið að réttast væri að sleppa upplýsingum um kaup þeirra og kjör enda viðbúið að slíkt væri til þess fallið að valda þeim óþægindum sem þeir gjarnan vildu vera lausir við. Við því var greinilega orðið, Vinstri græn hafa ekki séð ástæðu til annars en fallast á þetta sjónarmið fyrirtækjanna og Sjálfstæðisflokksins.

https://www.frettabladid.is/skodun/vanvirding-vid-landbunad/


Spilling, hvaða spilling?

Þjóðþingið í landinu samþykkir að fram fari rannsókn á skattaundanskotum og framlögum úr ríkiskassanum til ákveðins þjóðfélagshóps. Fjármálaráðherrann lætur gera skýrslurnar en ákveður að stinga þeim undir stól þar sem þær gætu komið honum illa. Eitt af fyrstu verkum hans, eftir að hann settist í ráðherrastólinn var að lækka framlög til eftirlitsstofnana en hann sjálfur hafði verið vændur um að bjarga háum fjárhæðum fyrir sig og ættingja sína þegar hann bjó yfir upplýsingum í opinberu starfi sem hann gegndi áður en hann varð fjármálaráðherra.

Menn reknir úr starfi

Meðal atvinnurekenda í þessu landi er fyrirtæki sem lagði fæð á hvern þann sem ekki deildi skoðunum þess á hvernig ríkisvaldið ætti að gera þá sem ríkasta. Þeir sögðu grimmt upp fólki sem var ekki sammála þeim og settu sig í samband við forstöðumenn ríkisstofnana og annarra fyrirtækja auk innlenda og erlendra háskóla og kvörtuðu yfir að þar væru í vinnu einstaklingar sem væru á annarri skoðun en þeir. Einnig lögðu þeir sig fram við að fá uppgefin nöfn þeirra einstaklinga sem komu að málum í eftirlitsstofnununum, en það var einmitt þeirra háttur, að hrella einstaklingana sem voru að rannsaka þá og freista þess að draga úr þeim móðinn. Einnig lokuðu þeir verksmiðju hjá sér um stundarsakir og létu það bitna á fólkinu í þorpinu þegar ein eftirlitsstofnunin tók þá til rannsóknar. Þess var alltaf gætt að einn nánasti vinur og samstarfsmaður forstjórans sæti í ríkisstjórn og helst að hann hefði málefni fyrirtækisins á sinni könnu. 

Enginn sagði neitt

Svona gekk þetta árum saman og allir sem vildu vita, vissu að svona væri málum komið, en samt gerði enginn neitt. Þvert á móti þá fengu stjórnmálamennirnir alltaf endurnýjað umboð frá kjósendum og fyrirtækið naut virðingar og hylli í samfélaginu.

Ofangreindur fjármálaráðherra telur að spilling sé bara í útlöndum og samtök atvinnurekenda í landinu telur sér sóma að því að hafa svona fyrirtæki innan sinna vébanda.  Hvaða land er þetta? Er þetta ekki bara svona hjá „frumstæðum“ og fjarlægum þjóðum?

https://www.frettabladid.is/skodun/spilling-hvada-spilling/


MAKRÍLLINN, nú er lag

Óvænt innkoma makríls í íslenska landhelgi upp úr aldamótum skóp einstakt tækifæri til að láta þjóðina njóta góðs af nýrri auðlind í þjóðareigu. Því miður voru önnur sjónarmið látin ráða þegar heimildum til veiða á makrílnum var úthlutað og hefur þjóðin síðan að mestu farið á mis við þann arð sem henni ber sem eiganda auðlindarinnar. Stjórnvöld reyndu síðan að tryggja örfáum útgerðum einokun á makrílveiðum til margra ára en urðu frá að hverfa eftir að þjóðin lýsti vanþóknun sinni á fyrirætlan þeirra með þátttöku í einni víðtækustu undirskriftasöfnun seinni ára.

Nú er talið að stofn makríls hafi verið vanmetinn og því megi búast við töluverðri aukningu þess sem leyfilegt verður að veiða. Enn á ný hyggjast stjórnvöld úthluta makríl með sama hætti og öðrum fiskistofnum án þess að tryggja þjóðinni sanngjarna hlutdeild í auðlindaarðinum.

Einmitt nú er tækifæri til að þróa aðferðir til úthlutunar sem gætu byggt á að hluta til þeirra sem veitt hafa áður og öðrum hluta sem yrði boðinn út með skilyrðum. Fréttir um vanmat á makrílstofninum gera enn frekar kleift að bjóða út a.m.k. aukningu aflaheimilda án þess að skerða á nokkurn máta það sem útgerðum hefur staðið til boða endurgjaldslítið fram að þessu. Um leið gæfist fleirum tækifæri til að taka þátt í veiðunum.

Auðlindagjaldið til byggðanna.

Vel má hugsa sér að þeir fjármunir sem fengjust með útboði aflaheimilda rynnu alfarið til að styrkja viðkvæmar byggðir í kringum landið eða til að bæta sveitarfélögum upp skaða af völdum loðnubrests. Nú er sagt stefna í samdrátt í efnahagslífinu. Einmitt þá er tilefni til að fjárfesta í innviðum á vegum sveitarfélaga og ríkisins og því ærið tilefni til að afla tekna í því skyni með eðlilegum auðlindagjöldum.

Formenn flokka á þingi eru sagðir hafa orðið sammála um tillögu um stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands. Þar er m.a. lagt til: „Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“ Um gjaldtökuna segir í greinargerð með þessari tillögu: „Koma þar ýmsar leiðir til greina eins og áður var rakið. Ekki er nauðsynlegt að fjárhæð gjalds komi fram í lögum enda kann gjaldið að vera ákveðið með valferli eða útboði þar sem verð og aðrir skilmálar eru ekki fyrirfram ákveðin.“

Nú hafa valdhafar tækifæri til að sýna að eitthvað sé meint með umræddri tillögu og efna til útboða á makrílkvótum a.m.k. að hluta eins og að framan greinir.

Höfundur var í hópnum sem stóð fyrir undirskriftasöfnuninni „Þjóðareign“ sem fram fór 2015 og kom í veg fyrir fyrirætlanir stjórnvalda um að afhenda einstökum útgerðum kvóta í makríl til lengri tíma.


ÞJÓÐAREIGN Á ORKU EN EKKI FISKIMIÐUM?

Það hlýtur að vera grátlegt fyrir heiðarlega efasemdarmenn um orkupakkann að mest skuli heyrast frá þeim lukkuriddurum sem hæst hafa um nauðsyn þess að þjóðin fái notið orkuauðlinda sinna þó þeir megi ekki heyra á að það minnst að þjóðin fái notið arðsins af fiskimiðunum! - Og þeir hinir sömu lukkuriddarar, sem fara mikinn og krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um orkupakkann, þó þeir virði í engu baráttuna fyrir nýrri stjórnarskrá, sem mundi auðvelda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. 
Er einhver ástæða til að taka hinn hola hljóm lukkuriddaranna alvarlega? Hafa þeir ekki dæmt sig sjálfir úr leik og skákað sér út í horn umræðunnar um orkupakkann?


Að sleppa við veiðigjöld

Ég hitti fyrir skemmstu kunningja minn, útgerðarmann, og spurði hann hvernig útgerðin gengi. „Aldrei betur“ svaraði hann „ég sé ekki fram á að þurfa að greiða eina einustu krónu í veiðigjöld.“ Ég hváði en hann skýrði þetta út fyrir mér mér. „Þetta verður einfalt. Gamli Range Roverinn minn er orðinn þriggja ára og auðvitað mun útgerðin sjá mér fyrir nýjum bíl. Þeir fást á 14 milljónir en það er ekki eðlilegt að útgerðarmaður þurfi að sætta sig við ódýrustu gerð. Svo er alltaf eitthvað sem ég get tínt til í kostnað, utanlandsferðir og viðhald á húsinu og sumarhúsinu svo þegar upp er staðið þá verður ekkert eftir til að borga í veiðigjöld.

Vinstri grænir voru svo assgoti herskáir fyrir síðustu kosningar og við vorum aðeins smeykir, en það var ekkert að marka, þú manst strax í vor vildu þeir allt fyrir okkur gera. En þá kom eitthvað hagfræðingastóð úr háskólanum sem skaut þeim skelk í bringu en það var síst verra að bíða.

"Látum út landsbyggðarspilið"

Ef þetta hefði orðið eitthvað vandamál með veiðigjöldin þá eigum við alltaf tromp uppi í erminni og „látum út landsbyggðarspilið“ eins og við útgerðarmenn köllum það. Þá finnum við einhvern útgerðarmann sem er með allt niður um sig og segjum „hvað, ætlið þið að leggja af plássið?“ Og það er segin saga enginn framsóknarflokkanna stenst svoleiðis og skiptir þá engu öll hin plássin sem við höfum lagt í eyði þegar við höfum selt hver öðrum kvótann, það skiptir framsóknarflokkana engu.“

„En hvað segja endurskoðendurnir, ert þú ekki með eitt af þessum fyrirtækjum með fínu útlendu nöfnin sem endurskoðar fyrir þig?“ spurði ég. „Jú blessaður, þeir segja ekki múkk og telja þetta alltsaman útgerðarkostnað. Þú manst hvað þeir voru þægir við bankana fyrir hrun. Þeir sögðu að allt væri í himnalagi í bönkunum alveg fram á síðasta dag. Þeir eru ekkert að spá í þetta og gera bara eins og ég segi.“

http://www.visir.is/g/2019190109113/ad-sleppa-vid-veidigjold-?fbclid=IwAR3SjYQw7synIAfcsaUK51MoKR1TYHqeNjlchux3mKnyjSLHVW5L9ERWKFU

 


Þessi þjóð hlýtur að eiga betra skilið

Stjórnvöld reyna ekki að leita sátta í sundruðu samfélagi og láta sem sundrungin komi þeim ekki við. Síðustu vikur hafa kjör almennings þegar rýrnað sem nemur gengislækkun („gamla gengið“) krónunnar, kjararýrnun sem þegar er orðin langt umfram það sem var þegar verkalýðshreyfingin byrjaði að móta launakröfur sínar. -  Þjóðin situr uppi með:

STJÓRNVÖLD...

  • ...sem kjósa að sitja með hendur í skauti í gjaldmiðilsmálum og bíða eftir töfralausnum á meðan krónan fellur og fellur...
  • ...sem láta úrskurð Kjararáðs þeim sjálfum til handa standa óbreyttan þrátt fyrir að hann hafi verið langt umfram það sem aðrir hópar hafa fengið ...
  • ...sem neita að lækka laun ríkisforstjóra þrátt fyrir að launahækkanir til þeirra hafi verið í trássi við eindregna ósk stjórnvalda um hóflegar hækkanir.

SAMTÖK ATVINNULÍFS...

  • ...sem neita að nota samtakamátt sinn til að fá fulltrúa sína í stjórnum lífeyrissjóða til að lækka hæstu laun í fyrirtækjum sem þeir eiga...
  • ... sem velja sér launaþróun út úr norræna velferðarmódelinu en horfa ekki til langtum betri almannaþjónustu sem veitt er á Norðurlöndum. Þar nægir að nefna, húsnæðismál, skóla- og heilbrigðiskerfi auk almenningssamgangna sem allt stuðlar að því að lækka framfærslukostnað venjulegs fólks auk tryggðrar afkomu örorku- og ellilífeyrisþega.

VERKALÝÐSFÉLÖG...

  • ...sem ætla að leyfa útgerðum að ráðskast áfram með fiskveiðiauðlindina óáreittum í stað þess að krefjast eðlilegs afgjalds sem gæti runnið til brýnna samfélagsverkefna á borð við húsnæðismála eða brothættra byggða ...
  • ...sem treysta sér ekki til að krefjast bindingar launa við þann gjaldmiðil sem verð á innfluttum vörum sveiflast í takt við og þannig leyfa þau atvinnurekendum að halda áfram að velta kostnaði yfir á launþega í landinu.

 

Þessi þjóð hlýtur að eiga betra skilið.

 

http://www.visir.is/g/2018181219369/-dej-vu-verdbolgukynslodarinnar-?fbclid=IwAR1X9jj3TBrmZ6S1LZ0XHYo7mVOxoNbe62IPaA_RoVorFr30CqSWn_njEWE


Endalaust dekur við sérhagsmunina

Fyrir réttu ári sagði formaður Vinstri grænna í ræðu á Alþingi að það væru aðilar í samfélaginu sem gætu ekki beðið eftir réttlæti. Þjóðin hélt að hér væri átt við okkar allra minnstu bræður sem hefðu úr litlu að spila vegna örorku eða elli. Nú hefur komið á daginn að það var tómur misskilningur, þetta voru útgerðarmenn sem átt var við. Það voru útgerðarmenn sem gátu ekki beðið eftir „réttlætinu“ sem VG hefur nú í tvígang reynt að framfylgja. Fyrst voru þau gerð afturreka í vor en nú skal „réttlætinu“ fullnægt.

Sama er upp á teningnum með formann atvinnuveganefndar Alþingis, þingmann VG. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur etja þingmanninum í foraðið fyrir lækkun veiðileyfagjalda en halda sig sjálfir til hlés. Þessi þingmaður hélt fram nánast öllu hinu gagnstæða um veiðileyfagjöld í þingræðu fyrir fáeinum árum þegar staða sjávarútvegs var svipuð og hún er nú. Þá taldi þingmaðurinn að útgerðin væri aflögufær, þessi sami þingmaður og nú berst um á hæla og hnakka að fá gjöldin lækkuð.

Byggðastefnu hafnað

Fyrir okkur, dauðlegt fólk, er óskiljanlegt hvernig að því er virðast dagfarsprúðir einstaklingar verða sem umskiptingar við það að komast í valdastólana. Ótvíræðar yfirlýsingar þeirra sjálfra frá fyrri tíma virðast ekki skipta þetta fólk neinu máli þegar hagsmunir útgerðarinnar eru annars vegar.

Við umræður á Alþingi kom fram tillaga um að örlitlum hluta kvótans yrði úthlutað þannig að andvirði hans gæti gengið til byggða sem ættu í vök að verjast. Þessa tillögu gat VG ekki sætt sig við þrátt fyrir sambærilegar tillögur í stefnuskrá þeirra en sem kunnugt er höfnuðu þeir að framfylgja eigin stefnumálum þegar þeim stóð það til boða í ríkisstjórninni með Samfylkingunni.

En hvers vegna er alltaf verið að agnúast út í VG en ekki hina flokkana? Ástæðan er einföld. Fyrir kosningar er VG úlfur í sauðargæru en bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur eru einfaldlega úlfar í úlfagærum og hafa aldrei dulið auðsveipni sína gagnvart útgerðinni í landinu.

 

http://www.visir.is/g/2018181209701/-rettlaeti-samkvaemt-vg-?fbclid=IwAR38z0vI5Q-knsbk7oCfaEGyCgyQBl9CEl9JuD6Ike1BGR8G71iNeqjli4c

 


Nýju veiðigjöldin keisarans.

Frumvarp um lækkun veiðigjalda í vor var að sögn ríkisstjórnarinnar fyrst og fremst til að lækka gjöld á litlar og meðalstórar útgerðir. Í nýja veiðigjaldafrumvarpinu skipta þær engu máli en mest lagt upp úr „einföldun“. Samt er ekki gripið til einföldustu leiðarinnar við innheimtu veiðigjalda sem væri árlegt útboð á hluta heimildanna þar sem afgjaldið rynni alfarið til brothættra byggða. Byggðirnar gætu ráðstafað fjármununum til stuðning við litlar og meðalstórar útgerðir auk þess sem slík útboð myndu gefa nýjum aðilum möguleika á að hefja útgerð. Fjárhæð veiðigjalds sem ræðst af árlegu útboði yrði þannig ákvarðað í rauntíma, með hliðsjón af væntanlegri afkomu og alfarið ákvarðað af útgerðinni sjálfri, án afskipta stjórmálamanna. Ef tilgangur veiðileyfafrumvarpsins væri einföldun þá væri það leiðin.

Þjóðinni ber fullt gjald

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa hins vegar einsett sér að standa vörð um hagsmuni núverandi útgerðarmanna gegn hagsmunum þjóðarinnar og nýrra aðila sem hyggja á útgerð en eiga þess ekki kost í núverandi kerfi. Hatrömm andstaða ríkisstjórnarninnar gegn útboðum veiðileyfa getur ekki skýrst af öðru en því að koma í veg fyrir að þjóðin fái sannvirði aflaheimildanna enda kvaðst sjávarútvegsráðherrann hafa haft samráð við útgerðina. Þessi niðurstaða hlýtur að koma illa við stuðningsmenn VG þar sem flokkurinn lofaði hækkun veiðigjalds og stuðningi við litlar útgerðir í aðdraganda kosninga.

Ríkisstjórnin og útvegsmenn sjá sér nú leik á borði að festa veiðileyfagjaldið í sessi eins og hverja aðra skattheimtu, sem það er ekki, allt í nafni „einföldunar“. - Veiðileyfi, hvort sem er á Íslandsmiðum eða í ám og vötnum eru eins og hver önnur aðföng sem þarf til þess að hægt sé að halda til veiða. Sama gildir um veiðarfæri, olíu o.s.frv. og lýtur gjaldið því ekki lögmálum venjulegrar skattheimtu frekar en t.d. greiðsla til olíufélaganna fyrir olíu.  

Á fimm ára tímibili 2011-16 greiddi útgerðin rúma 45 milljarða í veiðigjöld á meðan útgerðin sjálf fékk í sinn hlut 293 milljarða í aukið eigið fé og útgreiddan arð. Það er nakinn sannleikurinn.

https://www.frettabladid.is/skodun/nju-veiigjoeld-keisarans

 

 


Íslensku trixin II

Kjararáð kvað upp úrskurði sem juku mjög á ósætti landsmanna. Hvernig var brugðist við? Fyrst var Kjararáði falið að kveða upp úrskurði um færri embættismenn en áður og síðan var Kjararáð lagt niður. Hverju skilaði þetta íslenska trix? Fyrri aðgerðin, að fækka embættismönnum sem heyrðu undir ráðið, leiddi til enn meiri launahækkana þeirra þrátt fyrir eindregnar viðvaranir þáverandi fjármálaráðherra. Síðari aðgerðin skilar auðu þar sem ekki hefur verið afráðið hvernig hátti launaákvörðunum til embættismanna í framtíðinni.

Stjórnvöld virðast úti á þekju og halda að viðfangsefni sitt í komandi kjaraviðræðum séu einfaldar prósentuhækkanir launa á meðan viðfangsefnið er enn, tíu árum síðar, að sameina sundraða þjóð, freista þess að ná sátt í samfélaginu og græða það holundarsár sem hrunið skildi eftir á þjóðarsálinni.

Ábyrgðin er stjórnvalda og Samtaka atvinnulífsins

Stjórnvöld, auk Samtaka atvinnulífsins (SA) tala fjálglega um lítið svigrúm til launahækkana en eru sjálf þeir aðilar sem bera mesta ábyrgð á þeirri úlfúð í samfélaginu sem ríkir um kjaramál. Stjórnvöld hafa enn ekki hreyft litla fingur til að vinda ofan af úrskurði Kjararáðs. SA skipa helming allra stjórnarsæta almennu lífeyrissjóðanna og gætu því sem hægast haft forgöngu um að stöðva það höfrungahlaup gengdarlausra yfirborgana í fyrirtækjunum sem lífeyrissjóðirnir eiga, sem eru flest stærri fyrirtækja á Íslandi.

Hugmyndin að baki einhverskonar kjararáði er ekki alslæm. Útfærsla hugmyndarinnir var það sem brást og forsendurnar sem lágu að baki. Í sjálfu sér er það þarft að í samfélaginu sé til „apparat“ sem geti borið saman laun m.t.t. ábyrgðar, vinnutíma og annars sem máli skiptir við ákvörðun launa. Lífeyrissjóðirnir hefðu getað vísað til slíkrar stofnunar ákvörðunum um laun í fyrirtækjunum sem þeir stjórna og þannig hindrað höfrungahlaup stjórnendanna. En það gerðu þeir ekki.

Allt frá hruni hefur SA ekki nýtt samtakamátt sinn til að standa gegn ofurlaunum þrátt fyrir viðvaranir þar um og að augljóst væri í hvað stefndi.  - Því skyldi almenningur taka mark á málflutningi þessa fólks?

 

https://www.frettabladid.is/skodun/islensku-trixin-ii

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband