Færsluflokkur: Dægurmál

Þjóðarsáttin 1990 - þjóðarósættið 2015.

Ef það er er eitthvað eitt sem skiptir máli við gerð þjóðarsáttar þá er það traust. Traust milli launþegarhreyfingar og vinnuveitenda, traust á ríkisstjórn. Orð og efndir núverandi ríkisstjórnar frá því hún var mynduð hafa ekki beinlínis verið til þess fallin að auka á trúnað og traust. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa með grímulausari hætti en áður hefur sést, gengið á bak orða sinna og er þjóðin þó ýmsu vön. Hvað sem mönnum kann að finnast t.d. um aðild að ESB eða framhald aðildarviðræðna þá dylst engum að jafn afdráttarlaus svik á kosningaloforðum hafa ekki sést hér á landi áður. Slíkt dregur úr trúverðugleika og setur tóninn um önnur mál þar sem mikilvægt er að ríkisstjórn hafi forystu um og þjóðin treysti. Orðræðan sem þjóðin hefur mátt búa við af hálfu ríkisstjórnarinnar er síðan ekki beinlínis til þess fallin að stuðla að sátt.

Forsendur sáttar.

Hverjar skyldu hafa verið forsendur þjóðarsáttarinnar 1990? Það var hægt að treysta því að ekki væri verið að hygla einum umfram annan, hvorki vinnuveitendur, ríkið eða aðrir. Ekki væri verið í feluleik með launahækkanir eða ríkisstjórn að gera vel við vildarvini sína með útdeilingu þjóðareigna.

Eftir vel heppnuð skemmdarverk á lokametrum síðustu ríkisstjórnar (m.a. við að uppfylla loforð Framsóknarflokksins um nýja stjórnarskrá) þá létu núverandi stjórnarflokkar kné fylgja kviði eftir mikinn kosningasigur sinn og hafa síðan reynt að nota þingstyrkinn til hins ítrasta til þess að reyna snúa klukkunni við og hverfa aftur til áranna þegar þeir réðu ríkjum fyrir 2007. Einnig skópu núverandi stjórnarflokkar fordæmin um málþófið í þingstörfum og hvernig halda eigi málum í gíslingu sem við sjáum nú endurtekið á „hinu háa“ Alþingi og er síst til fyrirmyndar.

Helsta vandamálið að mati stjórnarinnar er að þjóðin áttar sig ekki á að hér er að þeirra sögn allt í himnalagi. Þá eiga e.t.v. best við orð Bertholds Brecht frá 1953 eftir uppreisnartilraunina í Austur Þýskalandi, þegar hann ráðlagði ráðamönnum þar að fá sér nýja þjóð. Þetta gæti einnig verið ráð til íslensku ríkisstjórnarinnar 2015.

http://www.visir.is/thjodarsattin-1990---thjodarosaettid-2015/article/2015705279987


Af hverju að útiloka ESB?

Einn af atburðum Íslandssögunnar sem er við það að falla í gleymsku átti sér stað fyrir rétt rúmum hundrað árum þegar bændur riðu hópum saman til Reykjavíkur, sumarið 1905, til að mótmæla lagningu sæstrengs til Íslands; já  þið lásuð rétt, til að mótmæla því að lagður yrði símastrengur til landsins!  Engu er líkara en við séum að upplifa sambærilega atburði nú þegar ríkisstjórnin hefur samþykkt að loka fyrir fullt og fast einum þeirra dyra sem þjóðinni hafa staðið opnar til að kanna hvort þar fyrir innan væri að finna eitthvað sem til framfara gæti horft í samfélagi okkar.

Framtíðinni slegið á frest.

Sagan hefur farið heldur ómildilegum höndum um þá bændur sem riðu til höfuðstaðarins sumarið 1905 til að mótmæla lagningu símans. Eru þeir iðulega nefndir til sögunnar þegar nefna þarf sláandi dæmi um skammsýni og misskilda þjóðarhagsmuni.  Bændunum gekk ekki nema gott eitt til en það er ólíklegt að það framfaratímabil sem hófst hér með heimastjórn framsýnna manna 1904, hefði hafist af jafn miklum eldmóð og gengið jafn hratt fyrir sig og raun ber vitni nema af því að fyrir stjórn landsins fóru stórhuga menn sem litu á útlönd sem tækifæri en ekki ógn og voru óhræddir við að fara ótroðnar slóðir í framfarasókn þjóðarinnar.

Bændurnir buðu þó upp á valkost...

Bændurnir sem voru á móti símanum höfðu þó plan-B, þ.e. valkost við lagningu símastrengsins.  Það er meira en sagt verður um núverandi ríkisstjórn sem ætlar sér bara að hafna ókönnuðum tækifærum, án þess að bjóða upp á neinn annan valkost en þann að halda áfram á þeirri braut sem endaði svo eftirminnilega í hruninu. Lengst af undir öruggri stjórn þeirra sömu flokka og nú sitja í ríkisstjórn.

Fullkominn skortur á framtíðarsýn.

Ríkisstjórnin vill aðeins hætta aðildarviðræðum við ESB en ekki segja okkur hvað þeir vilja í staðinn.  Hver verði framtíðarstefnan í gjaldmiðilsmálum? Munu þeir viðurkenna að þjóðin losnar aldrei við gjaldeyrishöft til fulls með íslenska krónu? Geta þeir sagt okkur hvernig eigi að auka á framleiðni íslensks atvinnulífs, hvernig við fáum búið við gjaldmiðil sem verður að fullu nothæfur, fyrir stóra sem smáa, innanlands og utan? Hvernig við fáum búið við lága vexti og stöðugt verðlag eins og tíðkast meða þjóða sem búa í alvöru hagkerfum?   Nei, þjóðin skal bara „tátla hrosshárið okkar“ með  „er þetta nokkuð fyrir okkur“ – hugarfarinu. 

 http://www.visir.is/gegn-sima-1905-og-esb-2014-/article/2014702259991


Gjöf til útgerðarmanna eða endurreisn Landspítalans.

Innan fáeinna vikna mun ríkisstjórnin ákveða að afhenda fámennum en valdamiklum hópi þjóðareign sem talin hefur verið að verðmæti allt að 45 milljarðar króna.  Fyrir þetta munu hinir fáeinu handvöldu einstaklingar, sem ríkisstjórnin telur að betur sé að þessu komnir en aðrir, greiða mála­myndagjald sem er aðeins hluti af því verðmæti sem afhent verður. Ríkisstjórnin deilir ekki um að hér er um ótvíræða eign þjóðarinnar að ræða en hyggst samt sem áður afhenda þessa þjóðareign velvildarmönnum sínum á silfurfati.  Ef eign þessi væri boðin til sölu á almennum markaði myndu fjármunirnir sem fyrir hana fást fara langt með að fjármagna endurreisn Landspítalans.

Eign sú sem hér um ræðir er makrílstofninn við Ísland. Ákvörðunin um að afhenda þessa eign fáeinum útvöldum mun verða borin á borð fyrir okkur sem afar flókið úrlausnaratriði sem aðeins sé hægt að leysa með því að afhenda hana útvöldum. Það er aftur á móti ekki svo.  Hér er um sáraeinfalda aðgerð að ræða, fiskistofn sem er nýr í lögsögunni og aðeins spurningin um hvort þjóðin eigi að fá sanngjarnt verð fyrir eign sína eða ekki.

Tveir vísindamenn, Þorkell Helgason og Jón Steinsson hafa sett fram heildstæða tillögu um hvernig bjóða má upp veiðirétt á makríl þannig að þjóðin og útgerðarmenn geti vel við unað. Eigendur makrílsins, þjóðin, fær hæsta mögulega verð fyrir eign sína og útgerðarmennirnir, fá afnotarétt af makrílstofninum til nægjanlega langs tíma til að byggja fjárfestingar sínar á.       

...þingmaður og svarið er?

Hér mun hefjast gamalkunnur söngur um fyrirtækin sem munu verða gjaldþrota, skatt á landsbyggðina o.fl.  Svörin við því eru, að aðeins þau fyrirtæki sem bjóða of hátt í veiðréttinn eiga á hættu að verða gjaldþrota og væntanlega eru útgerðarmenn ekki svo heillum horfnir að þeir bjóði umfram getu.  Ekki verður um skatt að ræða heldur aðeins innheimt fjárhæð, sem viðkomandi útgerð sér sér fært að bjóða, í frjálsu útboði. Veiðrétturinn greiðist af fyrirtækjunum sjálfum enda greiða landshlutar ekki skatta. Gera má ráð fyrir að flest fyrirtækin sem muni bjóða í makrílveiðina séu staðsett á höfuðborgarsvæðinu.

Næst þegar þið hittið þingmanninn ykkar spyrjið hann: „hvort viltu frekar gefa fáeinum útvöldum eign þjóðarinnar í stað þess að bjóða eignina til leigu á almennum markaði og nota andvirðið til að endurreisa Landsspítalann?“  Látið svarið sem þingmaðurinn gefur ykkur ráða því hvort þið kjósið hann aftur.


Langsóttar röksemdir fyrir flugvelli í Vatnsmýri

Þær hugmyndir sem settar eru fram í tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur um byggð í Vatnsmýri eru málamiðlun. Ef rýnt er í þau rök sem sett eru fram á heimasíðu þeirra sem vilja áframhaldandi veru flugvallar í Vatnsmýri, koma í ljós fullyrðingar sem standast ekki frekari skoðun. Fullyrðingarnar eru eftirfarandi:

1. Vörur  Þessi ábending bendir á mikilvægi þess að halda flugvellinum í Vatnsmýri vegna vöruflutninga. Þar gildir einu hvort flutningar eiga sér stað um Vatnsmýri eða Keflavíkurflugvöll.

2. Farþegar.  Segir okkur nákvæmlega ekkert um hvort þeir sem um flugvöllinn fara væru jafnsettir eða betur settir með flugi um Keflavík. Á meðan ekki liggur fyrir rannsókn á því hverjir farþegarnir eru, sem flugvöllinn nota þá set ég fram eftirfarandi tilgátu:

Hversu margir nota flugvöllinn að staðaldri?

„Reykjavíkurflugvöllur þjónar fyrst og fremst tiltölulega fáum einstaklingum sem eru oft á ferðinni, t.d. sveitastjórnarmönnum, þingmönnum og fáeinum athafnamönnum. Allur almenningur kýs að fara akandi, þó auðvitað komi upp tilvik þegar farið er með flugi, en hjá hverjum einstaklingi eru tilvikin afar fá. -  Verulegur hluti farþega um Reykjavíkurflugvöll eru innlendir og erlendir farþegar á leið til og frá útlöndum sem myndu kjósa að geta flogið beint til og frá áfangastað innanlands um Keflavíkurflugvöll.“

Spurningin stendur þá um hvort réttlætanlegt sé að halda úti flugvelli sem þjónar fyrst og fremst fáum áhrifamiklum einstaklingum.

3. Sagan sem rakin er á vefsíðunni um flugsögu Íslendinga sem hófst í Vatnsmýri hverfur ekki þó flugvöllurinn fari.

4. Varaflugvöllur.  Undir þessum lið eru talin upp rökin fyrir því að halda Reykjavíkurflugvelli opnum sem varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll.  Skemmst er um þennan lið að segja að Pawel Bartoszek hrakti þær röksemdir sem þar koma fram lið fyrir lið í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið þann 30. ágúst s.l.

5. Þjónusta er liður sem fjallar um störfin sem unnin eru á flugvellinum.  Ljóst má vera að störfin sem þar eru unnin leggjast ekki af heldur flytjast til.

6. Kennsla. Flugnám mun einfaldlega flytjast annað og gæti það orðið til að styrkja verulega flugakademíuna hjá Keili á Keflavíkurflugvelli.

Störfin verða unnin annars staðar.

7.  Hagræn áhrif  sýna okkur fram á hversu mikilvægt er að haldið sé úti flugrekstri til og frá landinu alveg óháð því hvar hann fer fram.

8. Ferðamenn, þau hæpnu rök sem þar eru sett fram eru þau sömu og undir lið 2 og um þau gildir það sama og þar kemur fram.

9.  Landhelgisgæslan.  Það hlýtur aðeins að vera tímaspursmál, óháð framtíð Reykjavíkurflugvallar, hvenær flugdeild Landhelgisgæslunnar flytur til Keflavíkurflugvallar eins og reglulega kemur fram krafa um á Alþingi.  Ríkisendurskoðun hefur nýlega bent á að LHG ætti e.t.v. að vera sá aðili sem sæi um allt sjúkraflug hér á landi með flugflota í samræmi við það.

10.  Höfuðborg. Flestar höfuðborgir í nágrannalöndum okkar eru með flugvelli í 30 – 60 mín. fjarlægð frá miðborginni. Þannig verður Reykjavík nákvæmlega jafn vel sett og þær borgir. Ekki hefur tekist að benda á nein sjúkrahús í veröldinni þar sem það þykir máli skipta að flugvöllur sé í næsta nágrenni.

11. Umhverfi.  Röksemdirnar sem notaðar eru til að halda því fram hversu lítil mengun fylgir flugi eru röksemdir sem breytast ekki þó flugið flytjist frá Reykjavík

12. Sjúkraflug.  Hér erum við komið að þeim lið sem hlýtur að teljast sá hæpnasti í áróðri fllugvallarsinna.  Hér hafa verið notuð afar ósmekkleg tilfinningarök sem eru til þess fallin að draga umræðuna niður plan sem hún á ekki skilið.  Viljandi, þá horfa forráðamennirnir fram hjá því að mikilvægi þess að koma sjúklingi undir læknishendur, hefst ekki á Akureyrarflugvelli og lýkur ekki á Reykjavíkurflugvelli.  Mikilvægið nær til alls þess tíma frá því slysið (eða atburðurinn sem til flutninganna leiðir) á sér stað og þá kemur svo margt annað til greina, heldur en sjúkraflugið eitt til Reykjavíkur, til að gera þann tíma sem stystan.

Af öllu þessu má ráða að flugvallarsinnar hafa farið með himinskautum í röksemdafærslum sínum fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri.  Svo virðist að röksemdin sem þyngst er á metum er röksemdin „það er svo miklu þægilegra“.  Spurningin er því sú hvort þægindi takmarkaðs hóps eigi að standa í vegi fyrir þeim þjóðarhagsmunum sem eru í húfi fyrir því að flugvöllurinn víki.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband