Banki sem veitustofnun almennings

Um allan heim eru bankar til sölu. Eins og málum háttar í hagkerfi heimsins þá er eftirspurn eftir bönkum lítil. En allt selst ef verðið er nógu lágt og það gildir einnig um íslensku bankana. Því er ekki óeðlilegt að efasemdir séu uppi um tilgang þeirra „hrægammasjóða“ sem nú eru líklegir kaupendur að íslensku viðskiptabönkunum að ekki sér minnst á hæfi þeirra til að reka banka.

Í sinni einföldustu mynd gegna bankar því hlutverki að vera greiðslumiðlun annars vegar og taka á móti innlánum og lána út fé hins vegar. Greiðslumiðlunin verður sífellt einfaldari með aukinn tækni og fer nú orðið að mestu fram án þess að starfsmenn banka komi þar nærri, nema með óbeinum hætti. Því er það kjörið tækifæri nú að skipta t.d. öðrum ríkisbankanum í tvennt, líta á greiðslumiðlunina eins og hverja aðra veitustofnun á vegum hins opinbera, skilja aðra starfsemi bankans frá og sameina hana öðrum banka. Þá væri með greiðslumiðlunarhlutanum kominn sá „þjóðarbanki“ sem sinnti grunnþörf almennings fyrir greiðsluþjónustu sem er sú bankaþjónusta sem allir þurfa.

Einstakt tækifæri

Hinn áhrifamikli hagfræðingur og dálkahöfundur Financial Times, John Kay hefur boðað þetta sama þar sem hann segir í bók sinni „Other peoples money“: 

„Greiðslukerfið er hluti þjónustunetsins, sem hnýtt er saman af rafveitu, fjarskiptakerfi og vatnsveitu, og heldur uppi félags- og efnahagslegri starfsemi“

Þessi hugmynd kemur einnig heim og saman við hugmyndir fjármálaráðherra um seðlalaust samfélag en hugmyndin að baki því er að fækka möguleikum til undanskota frá skatti. Einnig er tækifærið núna á meðan bankakerfið er meira og minna í eigu ríkisins.  Með „þjóðarbankanum“ væri ekki hægt að þröngva almenningi til að eiga viðskipti við einstaka banka og greiða þar færslugjöld og kostnað. Öllum stæði til boða heimabanki og greiðslukort sér að kostnaðarlausu í banka þjóðarinnar. Bankinn gæti rekið sig á vöxtum Seðlabankans þar sem innlán þjóðarbankans yrðu varðveitt. Þeir sem eiga fé aflögu og vilja leita hærri innlánsvaxta yrðu að fara með þær fjárhæðir annað. Útlánum yrði eins og áður sinnt af annars konar bönkum og lánastofnunum.

http://www.visir.is/banki-sem-veitustofnun-almennings/article/2017170308859

 


HIN NÝJA STÉTT

Spurt er um land.  -  Landið er afar ríkt af auðlindum, þar eru framleiddar fleiri gígawattstundir af raforku á mann en á nokkrum öðrum stað á byggðu bóli. Landkostir eru miklir og hin síðari ár hefur fjöldi útlendinga sótt landið heim og fengið að njóta náttúru þess og samvista við innfædda í borg og bæjum. Fiskigengd við landið er gríðarleg og óvíða um veröldina landað jafn miklum fiski og þar.

Orkufyrirtækin og stóriðjuverin borga ekki sérstaklega fyrir hagnýtingu fallvatna og jarðhita til raforkuframleiðslunnar og talið nægja að þau borgi skatta og skyldur eins og hver önnur fyrirtæki. Þjóðin fær ekki greitt fyrir hverja framleidda gígawattsstund jafnvel þó því sé haldið fram á hátíðarstundum að hún eigi fallvötnin og hverina sem raforkan er framleidd úr. Þjóðinni sem þar býr er sagt að henni eigi að nægja að fá að byggja virkjanirnar og vinna í stóriðjuverum þegar þau eru síðan tekin í notkun.

Afraksturinn til þjóðarinnar

Ferðaþjónustan í landinu nýtur sérstaks skattaafsláttar í virðisaukaskatti og greiðir engin gjöld fyrir ferðamennina sem hún flytur  til landsins til að láta skoða náttúru þess. Samt er landið farið að láta verulega á sjá vegna ágangs þessara ferðamanna sem fá að skoða landið án nokkurar gjaldtöku.

Einnig er þjóðinni sagt að hún eigi að vera þakklát fyrir að fá skiprúm við að veiða fiskinn í hafinu og verka hann þegar honum hefur verið landað.  Sjávarútvegsfyrirtækin fá að veiða fiskinn gegn málamyndagjaldi þrátt fyrir ótvíræð lagaákvæði um að þjóðin eigi þennan fisk. Hagnaðurinn er síðan fluttur úr landi til fjarlægra eyja enda nota sjávarútvegsfyrirtækin annan gjaldmiðil en þjóðin, gjaldmiðil sem er gjaldgengur um allan heim öfugt við þann gjaldmiðil sem þjóðinni er gert að nota. Sá gjaldmiðill er hvergi annars staðar gjaldgengur í veröldinni og þeir sem vilja nota fjármuni erlendis þurfa að fá til þess sérstakt leyfi hjá yfirvöldum.

Orkufyrirtækin, stóriðjan og sjávarútvegsfyrirtækin nota ekki þennan gjaldmiðil heldur hafa þau fengið leyfi yfirvalda til að nota erlenda gjaldmiðla.  Nýverið kom í ljós að ráðamenn landsins og hafa einnig undanskilið sjálfa sig notkun þessa gjaldmiðils og kjósa frekar að varðveita eignir sínar í erlendum gjaldmiðlum.

Útlönd bara fyrir útvalda

Gjaldmiðillinn sem almenningi í landinu er gert að nota nýtist yfirvöldum þannig að þegar stjórnvöld og atvinnulífið hafa keyrt landið í þrot, sem hefur gerst reglulega í marga áratugi, þá er erlendur gjaldeyrir hækkaður í verði og almenningur verður að greiða hærra verð fyrir allar innfluttar vörur. Síðast þegar þetta gerðist hækkaði verð erlendra gjaldmiðla um tugi prósenta. Fyrir ráðamenn landsins, sjávarútvegsfyrirtækin, stóriðjuverin og orkufyrirtækin skiptir þetta engu máli því þessir aðilar nota ekki þennan gjaldmiðil.  

Allar tilraunir til að láta meira fé renna til sameiginlegra verkefni þjóðarinnar með gjaldtöku af auðlindum stranda á þeim stjórnmálaflokkum sem sjávarútvegsfyrirtækin styrkja ótæpilega.

Hvaða land er spurt um, hvert er landið

 

http://www.visir.is/hin-nyja-stett/article/2016160329693

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband