Langsóttar röksemdir fyrir flugvelli í Vatnsmýri

Þær hugmyndir sem settar eru fram í tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur um byggð í Vatnsmýri eru málamiðlun. Ef rýnt er í þau rök sem sett eru fram á heimasíðu þeirra sem vilja áframhaldandi veru flugvallar í Vatnsmýri, koma í ljós fullyrðingar sem standast ekki frekari skoðun. Fullyrðingarnar eru eftirfarandi:

1. Vörur  Þessi ábending bendir á mikilvægi þess að halda flugvellinum í Vatnsmýri vegna vöruflutninga. Þar gildir einu hvort flutningar eiga sér stað um Vatnsmýri eða Keflavíkurflugvöll.

2. Farþegar.  Segir okkur nákvæmlega ekkert um hvort þeir sem um flugvöllinn fara væru jafnsettir eða betur settir með flugi um Keflavík. Á meðan ekki liggur fyrir rannsókn á því hverjir farþegarnir eru, sem flugvöllinn nota þá set ég fram eftirfarandi tilgátu:

Hversu margir nota flugvöllinn að staðaldri?

„Reykjavíkurflugvöllur þjónar fyrst og fremst tiltölulega fáum einstaklingum sem eru oft á ferðinni, t.d. sveitastjórnarmönnum, þingmönnum og fáeinum athafnamönnum. Allur almenningur kýs að fara akandi, þó auðvitað komi upp tilvik þegar farið er með flugi, en hjá hverjum einstaklingi eru tilvikin afar fá. -  Verulegur hluti farþega um Reykjavíkurflugvöll eru innlendir og erlendir farþegar á leið til og frá útlöndum sem myndu kjósa að geta flogið beint til og frá áfangastað innanlands um Keflavíkurflugvöll.“

Spurningin stendur þá um hvort réttlætanlegt sé að halda úti flugvelli sem þjónar fyrst og fremst fáum áhrifamiklum einstaklingum.

3. Sagan sem rakin er á vefsíðunni um flugsögu Íslendinga sem hófst í Vatnsmýri hverfur ekki þó flugvöllurinn fari.

4. Varaflugvöllur.  Undir þessum lið eru talin upp rökin fyrir því að halda Reykjavíkurflugvelli opnum sem varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll.  Skemmst er um þennan lið að segja að Pawel Bartoszek hrakti þær röksemdir sem þar koma fram lið fyrir lið í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið þann 30. ágúst s.l.

5. Þjónusta er liður sem fjallar um störfin sem unnin eru á flugvellinum.  Ljóst má vera að störfin sem þar eru unnin leggjast ekki af heldur flytjast til.

6. Kennsla. Flugnám mun einfaldlega flytjast annað og gæti það orðið til að styrkja verulega flugakademíuna hjá Keili á Keflavíkurflugvelli.

Störfin verða unnin annars staðar.

7.  Hagræn áhrif  sýna okkur fram á hversu mikilvægt er að haldið sé úti flugrekstri til og frá landinu alveg óháð því hvar hann fer fram.

8. Ferðamenn, þau hæpnu rök sem þar eru sett fram eru þau sömu og undir lið 2 og um þau gildir það sama og þar kemur fram.

9.  Landhelgisgæslan.  Það hlýtur aðeins að vera tímaspursmál, óháð framtíð Reykjavíkurflugvallar, hvenær flugdeild Landhelgisgæslunnar flytur til Keflavíkurflugvallar eins og reglulega kemur fram krafa um á Alþingi.  Ríkisendurskoðun hefur nýlega bent á að LHG ætti e.t.v. að vera sá aðili sem sæi um allt sjúkraflug hér á landi með flugflota í samræmi við það.

10.  Höfuðborg. Flestar höfuðborgir í nágrannalöndum okkar eru með flugvelli í 30 – 60 mín. fjarlægð frá miðborginni. Þannig verður Reykjavík nákvæmlega jafn vel sett og þær borgir. Ekki hefur tekist að benda á nein sjúkrahús í veröldinni þar sem það þykir máli skipta að flugvöllur sé í næsta nágrenni.

11. Umhverfi.  Röksemdirnar sem notaðar eru til að halda því fram hversu lítil mengun fylgir flugi eru röksemdir sem breytast ekki þó flugið flytjist frá Reykjavík

12. Sjúkraflug.  Hér erum við komið að þeim lið sem hlýtur að teljast sá hæpnasti í áróðri fllugvallarsinna.  Hér hafa verið notuð afar ósmekkleg tilfinningarök sem eru til þess fallin að draga umræðuna niður plan sem hún á ekki skilið.  Viljandi, þá horfa forráðamennirnir fram hjá því að mikilvægi þess að koma sjúklingi undir læknishendur, hefst ekki á Akureyrarflugvelli og lýkur ekki á Reykjavíkurflugvelli.  Mikilvægið nær til alls þess tíma frá því slysið (eða atburðurinn sem til flutninganna leiðir) á sér stað og þá kemur svo margt annað til greina, heldur en sjúkraflugið eitt til Reykjavíkur, til að gera þann tíma sem stystan.

Af öllu þessu má ráða að flugvallarsinnar hafa farið með himinskautum í röksemdafærslum sínum fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri.  Svo virðist að röksemdin sem þyngst er á metum er röksemdin „það er svo miklu þægilegra“.  Spurningin er því sú hvort þægindi takmarkaðs hóps eigi að standa í vegi fyrir þeim þjóðarhagsmunum sem eru í húfi fyrir því að flugvöllurinn víki.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband