Færsluflokkur: Samgöngur

Afrekaskrá Vinstri grænna

„Það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann“

-Ríkisstjórnin hyggst veikja Samkeppniseftirlitið á þann veg að eftirleiðis geti fyrirtæki metið sjálf hvort samkeppni milli þeirra sé næg...

-Samkeppniseftirlitið mun ekki fá að skjóta málum til dómstóla heldur munu fyrirtækin eiga síðasta orðið... (eins og þegar útgerðir láta eigin vigtun á afla gilda um það magn sem þær koma með að landi, ekki það sem hafnarvogin vigtaði. Nú vilja fleiri fyrirtæki fá að njóta sama sjálfdæmis.)

-Ríkisstjórnin hyggst lækka erfðafjárskatt...

-Ríkisstjórnin hyggst koma á fót þjóðarsjóði fyrir arðinn af auðlindum þjóðarinnar, en arðurinn af sjávarútvegsauðlindinni er ekki hafður með... (eins og ríkisstjórnin telji fiskimiðin ekki meðal eigna þjóðarinnar.)

-Þjóðarsjóðinn á síðan að fela einkafyrirtækjum (á borð við GAMMA) að ávaxta í stað Seðlabankans sem hefur boðist til að taka það að sér á svipaðan hátt og gert er í Noregi.

Þetta eru nokkur þeirra mála sem ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna  hyggst berjast fyrir á Alþingi. Orkupakkanum hafa þau þegar náð í gegn, pakki sem þau hefðu verið algjörlega mótfallin ef þau hefðu ekki verið í ríkisstjórn.

„Hið góðasem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég

Á hátíðarstundum í flokksstarfi Vinstri grænna eru hins vegar talin upp afrek þeirra í ríkisstjórnarsamstarfinu. Upptalning VG á árangri eru í besta falli almennar yfirlýsingar um náttúrvernd og loftslagsmál og eingöngu í málaflokkum sem nær allir eru sammála um. Ætla má að málefnin sem talin eru upp hér í byrjun stríddu gegn þeim grundvallarsjónarmiðum sem VG segist standa fyrir í orði kveðnu a.m.k.

Við myndun ríkisstjórnarinnar greindi núverandi forseti ASÍ, sem er fyrrum framámaður í VG, frá því hvert hún teldi að yrði hlutskipti VG í ríkisstjórninni. Svo virðist sem forspá hennar sé nú þegar orðin að áhrínisorðum.

https://www.frettabladid.is/skodun/afrekaskra-vinstri-grnna/?fbclid=IwAR2VCfiWEmRL9o9erS2vSKBR9edVZtMVLC_JRJnSSHPHMibJcwZRuGorheI


„Leiðréttingin“ og húsnæðismálin

Hvað gerir vel stætt fólk sem horfir á fasteignir sínar hækka í verði langt umfram verðbólgu og fær svo skyndilega lækkaðar skuldir sínar, nánast eins og  peninga sem ríkið færir þeim að gjöf?  Þeir sem fá verulega fjárhæð fellda niður nota aukið ráðstöfunarfé til að kaupa sér litla íbúð til útleigu enda fáir aðrir möguleikar í boði til að ávaxta fé. Þeir sem fá heldur minna leggja peningana í sjóði fasteignafyrirtækja eins og Gamma sem svo kaupa íbúðir til útleigu. 

Þetta er í hnotskurn niðurstaða bróðurparts „Leiðréttingarinnar“ sem er það afrek sem Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og forystusveit Miðflokksins guma af, þegar þeir greiddu hinum hærra launaða helmingi þjóðarinnar 86% „Leiðréttingarinnar“ beint úr ríkissjóði. Þriðjungur upphæðarinnar rann til 10% hinna hæst launuðu. Um þetta má allt lesa í skýrslu sem formaður Sjálfstæðisflokksins hafði ekki hugrekki til að koma fram með og sýna kjósendum fyrir þarsíðustu Alþingiskosningar.

Ungu fólki ýtt út af markaðnum

Afleiðingarnar, hækkun húsnæðisverðs, voru algjörlega fyrirséðar. Ungt fólk sem vildi kaupa sér íbúð á viðráðanlegu verði var nú farið að keppa um kaup á slíkum íbúðum við aðila sem höfðu úr nægu fé að spila eftir að „Leiðréttingin“ var greidd út. Á sama tíma jókst eftirspurn eftir leiguhúsnæði umfram það sem áður hafði þekkst vegna AirBnb. Það síðan hvatti þá sem höfðu peninga aflögu til enn frekari íbúðakaupa svo það var ekki aðeins á kaupendamarkaði sem ungu fólki var ýtt út heldur einnig á leigumarkaði þegar húsaleiga rauk upp úr öllu valdi. Þessi skuggahlið „Leiðréttingarinnar“ hefur aðeins aukið á vandann sem var fyrir í kjölfar hrunsins þegar fjöldi byggingaverktaka lögðu upp laupana eða sögðu sig frá verkum.

Forréttindahópurinn sem Sjálfstæðis-, Framsóknar- og forystusveit Miðflokksins ákváðu að gera svo vel við hefur nú fengið hækkunina, sem varð á áhvílandi húsnæðislánum þeirra í hruninu bætta í tvígang, bæði með framlagi úr ríkissjóði og svo hefur húsnæði þeirra hækkað í verði svo verðmætaukning þess er langt umfram hækkanirnar sem urðu á lánunum.

http://www.visir.is/g/2018180519056/-leidrettingin-og-husnaedismalin-

 


Gætu nýir útgerðarmenn gert betur?

Útgerðin skilur ekki neitt í neinu, að ekki skuli vera búið að setja lög á verkfall sjómanna eða þá að ríkisvaldið skuli ekki vera fyrir löngu búið að lofa að liðka fyrir samningum með loforðum um skattaafslátt (sem þá leggur meiri byrðar á alla hina skattgreiðendurna sem ekki njóta afsláttarins). Forsætisráðherrann hefur sagt að lög verði ekki sett á verkfallið og fróðlegt verður að fylgjast með hvort hann standi við þau orð þegar þrýstingur á hann vex.

Verkfallið hefur með skýrum hætti dregið fram þá einu ábyrgð sem stjórnvöld bera í þessum efnum. Það er ábyrgðin á að auðlindin, sameign þjóðarinnar, sé nýtt þjóðinni allri til hagsbóta. Verkfallið hefur sýnt fram á vangetu núverandi kvótahafa til að sinna þessu verkefni sem ríkisvaldið fól þeim þegar þeir fengu úthlutað fiskveiðikvóta. Geti þeir ekki sinnt þessu eina verkefni, að nýta auðlindina, þá hljóta menn að spyrja sig hvort ekki sé rétt að gefa einhverjum öðrum tækifæri á að spreyta sig. Þar eru nægir um hituna; kvótalausar fiskvinnslur og dugandi einstaklingar um land allt sem fá ekki tækifæri vegna svimandi hárrar kvótaleigu sem borga þarf núverandi kvótahöfum og sem vonlaust er að leigja nema til skamms tíma í senn. 

Gefum fleirum tækifæri

Um langa hríð hefur verið bent á að einfaldasta leiðin til nýliðunar í hópi útgerðarmanna væri að þróa útboðsleið á kvóta þar sem t.d. 5-10% kvótans yrðu boðin út árlega. Um allan heim hafa verið þróaðar aðferðir við útboð af þessu tagi þar sem tryggð er nýliðun og takmarkanir settar við því að kvótarnir safnist á fárra hendur.  

Útboð aflaheimilda þar sem hluta fjármunanna sem koma inn yrði ráðstafað til byggðanna gæti reynst hinum minni sveitarfélögum mikilvægur tekjustofn. Nú verða þau mörg hver illilega fyrir barðinu á sjómannaverkfallinu. Útboð aflaheimilda var kosningaloforð nokkurra stjórnmálaflokka fyrir síðustu kosningar en loforðið vóg greinilega ekki nógu þungt í stefnuskrám flokkanna til að þeir sem reyndu stjórnarmyndun mynduðu ríkisstjórn um þetta réttlætismál þjóðarinnar. Þar voru önnur og léttvægari málefni látin ráða för.

Hoppað á vagn sundurlyndisins.

Svo ótrúlegt sem það kann að virðast þá eru til þeir stjórnmálamenn sem reyna að hagnýta sér verkfall sjómanna til að ala á sundrungu höfuðborgarsvæðisins og annarra landshluta!  Í því tilviki hafa þeir reynt að klína á höfuðborgina („þeir“) að höfuðborgarbúar hafi ekki áhyggjur af verkfallinu á meðan fólkið í byggðum landsins („við“) þjáist og að „vér einir vitum“ hversu mikið ófremdarástand hafi skapast.

Þetta kann að hljóma vel í eyrum einhverra kjósenda í kjördæmum þeirra stjórnmálamanna sem leggjast svo lágt en málefnalegt er það ekki og ber fyrst og fremst vott einkennilegu hugarfari þeirra sem það stunda.

http://www.visir.is/thurfum-vid-nyja-utgerdarmenn-/article/2017170208973

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband