Forsetinn ræður örlögum veiðigjaldsins.

Forsetinn hefur það í hendi sér hvort hann vill veita ríkisstjórninni brautargengi til að rjúfa þá tilraun til sátta um veiðigjöld, sem tókst með gildandi lögum, með því að undirrita væntanlega lagabreytingu eða vísa henni til þjóðarinnar. 

Eftir góðar undirtektir almennings við undirskriftasöfnun gegn lækkun veiðigjalda hefur farið í gang gamalkunnur hræðsluáróður um útgerðarfyrirtæki sem munu leggja upp laupana og sveitarfélög sem munu sjá á eftir tekjum, ef óbreytt veiðigjöld verða innheimt.  Við hræðsluáróðri af þessu tagi eru einföld svör.  Á meðan útgerðirnar, sem telja sig bera skarðan hlut frá borði, eru ekki reiðubúnar að opna bókhald sitt og sýna okkur svart á hvítu hvernig þeir komast að þeirri niðurstöðu að veiðigjaldið muni ríða þeim á fullu þá er ekki ástæða til að leggja trúnað á yfirlýsingar þeirra.  Ef sveitarfélög telja sig verða af tekjum vegna veiðigjalds þá eiga þau að gera kröfu um hlutdeild í gjaldinu því heppilegast væri að veiðgjaldið rynni að stærstum hluta til sveitarfélaganna í landinu.

Ef ríkisstjórninni gengi það eitt til að lagfæra flókin útfærsluatriði á núverandi lögum, svo hægara verði að innheimta veiðigjöldin, þá myndi hún ekki samhliða leggja áherslu á að lækka gjaldið.  Ákafinn í að lækka gjaldið um milljarða á milljarða ofan færir okkur heim sanninn um að þeim gangi allt annað til en einföldun og lagfæringar.  

Eru veiðafærasalar að setja útgerðina á hausinn?

 

Veiðigjaldið sem samþykkt var gerði ráð fyrir álagningu gjalds sem innheimt yrði eins og hver annar kostnaður við aðföng útgerðar, kostnaður sem yrði að standa skil á líkt og kostnað við t.d. veiðarfæri.  Þessu vill núverandi ríkisstjórn breyta og láta gjaldið taka mið af afkomu fyrirtækjanna. Slíkt þarf veiðarfærasalinn ekki að sætta sig við, útgerðin verður að standa skil á uppsettu verði fyrir netin alveg óháð því hver reiknuð afkoma útgerðarinnar er. Samt vill ríkisstjórnin að eigendur fiskimiðanna, þjóðin, þurfi að sætta sig við að fá því aðeins greitt fyrir afnotaréttinn ef útgerðirnarnar sýna hagnað. Reynslan hefur kennt okkur að útgerðum er í lófa lagið að sýna lítinn hagnað eða tap af rekstri, ef þeim sýnist svo.   veidigjald.is

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband