Tölum um stjórnmálaflokk

Þegar nokkur stjórnmálaöfl afréðu að sameinast fyrir um aldarfjórðungi eftir að hafa séð hvernig mátti koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum í Reykjavík til frambúðar þá voru í einum flokkanna tveir miðaldra karlmenn sem töldu sig hafa höndlað stórasannleik og heilagleiki þeirra yrði ekki virtur að verðleikum í hinum nýja flokki. Því gerðu þeir það sem mönnum er tamt sem verða undir þegar lýðræðislega er staðið að málum, þeir stofnuðu eigin flokk. Þeir töldu sig ekkert þurfa að fylgja meirihluta í þeim flokki sem þeir tilheyrðu og áttu frama sinn í stjórnmálum að þakka því þar hafði valist til forystu stelpa frá Stokkseyri sem þeir álitu sig hafna yfir að þurfa að fylgja.

Að yfirvarpi sögðust þeir vera svo mikið á móti Nató og hernum að þeir þyrftu að stofna um það sérstakan flokk. Kannski þeir hafi líka óttast lýðræðið t.d. að þjóðin fengi að segja til um hvort hún vildi ganga í Evrópusambandið? Eða jafnvel að sjávarútvegurinn þyrfti að greiða það sem honum ber í sameiginlega sjóði þjóðarinnar, en fyrst og fremst sögðu þeir það vera af því að þeir voru svo mikið á móti Nató og hernum.

Svo fór herinn án þess að þeir ættu nokkurn hlut að máli og svo kom herinn eða ígildi hans aftur og þá voru þeir komnir í ríkisstjórn og allt gerðist það með þeirra samþykki. Svo fóru nágrannaþjóðir að banka uppá aðild að Nató og þá gerðist flokkurinn helsti talsmaður þess að fleiri fengju aðild en samt voru þeir og eru algjörlega á móti aðild Íslands að Nató að eigin sögn.

Hin seinni ár hefur helsti tilgangur þessara stjórnmálasamtaka verið að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn ráði því sem hann vill en samtökin fá það hlutverk að réttlæta út á við ákvarðanir Sjálfstæðisflokksins. Formaður samtakanna sagði í ræðu skömmu áður en hann tók við starfi forsætisráðherra að „fátækt fólk geti ekki beðið“. Síðan eru liðin mörg ár, formaðurinn gegnir enn starfinu og fátæka fólkið bíður enn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband