Færsluflokkur: Fjármál

UMSKIPTINGUR VINSTRI GRÆNNA

„Einn morgun þegar Gregor Samsa vaknaði heima í rúmi sínu eftir órólegar draumfarir, hafði hann breyst í risavaxna bjöllu“ eru ein frægustu upphafsorð heimsbókmenntanna, upphafsorð Umskiptanna eftir Kafka. Viss líkindi má sjá með Vinstri grænum og Gregor Samsa þegar þau vöknuðu upp daginn eftir kosningar, allt annar flokkur heldur en þau höfðu gefið sig út fyrir fram á kjördag. Þessi umskipti Vinstri grænna sjást víða og eru sláandi í afstöðu þeirra til auðlindaákvæðis stjórnarskrárinnnar.

Vinstri græn stóðu að auðlindatillögu allra stjórmálaflokka, nema Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 2013, þegar náðist breið samstaða um auðlindaákvæðið. 2020 hafa Vinstri græn snúið við blaðinu og leita nú samstöðu með þeim sem þeir áður stóðu gegn. Eðlilega er spurt hví Vinstri græn séu svo gjörsamlega heillum horfin og gengin í björg þeirra sem ganga erinda stórútgerðinnar.

Tillögur að auðlindaákvæði í stjórnarskrá - tafla

Á meðfylgjandi samanburðartöflu má sjá hvernig orðalag auðlindaákvæðisins var 2013 þegar Vinstri græn komu að gerð þess. Þar er talað um að þeir sem hagnýti auðlindir greiði eðlilegt gjald til hóflegs tíma í senn, það leiði aldrei til eignaréttar eða óafturkræfs forræðis og hagnýtingin skuli vera á jafnræðisgundvelli. - Það orðalag sem Vinstri græn leggja til núna er aftur á móti eins og sniðið að þörfum þeirra sem nú hagnýta auðlindir landsins gegn málamyndagjaldi. Allt og sumt sem þar er sagt um gjaldtöku er að hún skuli ákvörðuð með lögum og gætt að jafnræði og gagnsæi. Það orðalag þýðir að gjalddtaka fyrir afnot af auðlind í eigu þjóðarinnar, fiskimiðunum, verður aldrei nema á forsendum stórútgerðarinnar. Í núverandi lagaumhverfi og skorti á stjórnarskrárákvæði um auðlindir er orðalagið sem Vinstri græn leggja til, beinlínis til þess fallið að festa í sessi óbreytt ástand, og því merkingarlaust til að tryggja raunverulegt eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum.

Samræður í skötulíki

Þegar efnt var til „samráðs“ með samtali við þjóðina um stjórnarskrármál, að frumkvæði núverandi ríkisstjórnar, þá var það með þeim eindæmum að auðlindaákvæðið var undanskilið en það er það ákvæði sem líklegast er að þjóðin hafi mótað sér skoðun á. Samtökin Þjóðareign beindu því til Alþingis að samhliða forsetakosningunum í sumar yrði þjóðin spurð hvaða orðalag þjóðin vildi hafa á auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar. Þeirri málaleitan sáu stjórnvöld ekki ástæðu til að svara.

Þjóðin hlýtur að spyrja sig hvort Vinstri græn ætli raunverulega að standa fyrir auðlindaákvæði til að þóknast Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og hugsanlega bera því við að annars styðji Miðflokkurinn annað óhagstæðara orðalag sem er þeim flokkum þóknanlegt?  Þá má líka velta því upp hvort Miðflokkurinn leggi í kosningabaráttu nýbúinn að afhenda stórútgerðinni fiskveiðiauðlindina á silfurfati. Við vitum að það vefst ekki fyrir Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki en mun Miðflokkurinn leggja í það svo stuttu fyrir kosningar?

https://www.frettabladid.is/skodun/umskiptingur-vinstri-graenna/?fbclid=IwAR1by9OauTEN8xwYqNyKnLc-wZ94sjXsOwwMY6UzSEPgZwQv1sVKf2x-cYs


Spilling, hvaða spilling?

Þjóðþingið í landinu samþykkir að fram fari rannsókn á skattaundanskotum og framlögum úr ríkiskassanum til ákveðins þjóðfélagshóps. Fjármálaráðherrann lætur gera skýrslurnar en ákveður að stinga þeim undir stól þar sem þær gætu komið honum illa. Eitt af fyrstu verkum hans, eftir að hann settist í ráðherrastólinn var að lækka framlög til eftirlitsstofnana en hann sjálfur hafði verið vændur um að bjarga háum fjárhæðum fyrir sig og ættingja sína þegar hann bjó yfir upplýsingum í opinberu starfi sem hann gegndi áður en hann varð fjármálaráðherra.

Menn reknir úr starfi

Meðal atvinnurekenda í þessu landi er fyrirtæki sem lagði fæð á hvern þann sem ekki deildi skoðunum þess á hvernig ríkisvaldið ætti að gera þá sem ríkasta. Þeir sögðu grimmt upp fólki sem var ekki sammála þeim og settu sig í samband við forstöðumenn ríkisstofnana og annarra fyrirtækja auk innlenda og erlendra háskóla og kvörtuðu yfir að þar væru í vinnu einstaklingar sem væru á annarri skoðun en þeir. Einnig lögðu þeir sig fram við að fá uppgefin nöfn þeirra einstaklinga sem komu að málum í eftirlitsstofnununum, en það var einmitt þeirra háttur, að hrella einstaklingana sem voru að rannsaka þá og freista þess að draga úr þeim móðinn. Einnig lokuðu þeir verksmiðju hjá sér um stundarsakir og létu það bitna á fólkinu í þorpinu þegar ein eftirlitsstofnunin tók þá til rannsóknar. Þess var alltaf gætt að einn nánasti vinur og samstarfsmaður forstjórans sæti í ríkisstjórn og helst að hann hefði málefni fyrirtækisins á sinni könnu. 

Enginn sagði neitt

Svona gekk þetta árum saman og allir sem vildu vita, vissu að svona væri málum komið, en samt gerði enginn neitt. Þvert á móti þá fengu stjórnmálamennirnir alltaf endurnýjað umboð frá kjósendum og fyrirtækið naut virðingar og hylli í samfélaginu.

Ofangreindur fjármálaráðherra telur að spilling sé bara í útlöndum og samtök atvinnurekenda í landinu telur sér sóma að því að hafa svona fyrirtæki innan sinna vébanda.  Hvaða land er þetta? Er þetta ekki bara svona hjá „frumstæðum“ og fjarlægum þjóðum?

https://www.frettabladid.is/skodun/spilling-hvada-spilling/


Hverjum má treysta í Evrópu­málunum?

Sú dapurlega orðræða sem þjóðin varð vitni að um orkupakkann dró fram hvaða stjórnmálaflokkum má treysta í Evrópumálum. Þannig þarf ekki mikið innsæi eða þekkingu á íslenskum stjórnmálum til að átta sig á að Vinstri græn hefðu farið fram gegn orkupakkanum, með sömu heilögu vandlætingunni og sömu röksemdafærslu og Miðflokksmenn, ef ekki hefði svo viljað til að þau væru einmitt í ríkisstjórn núna. Vinstri græn er einfaldlega þannig flokkur sem segir eitt í stjórnarandstöðu og annað í ríkisstjórn. Um það ber myndun núverandi ríkisstjórnarinnar órækt vitni, þegar Vinstri græn tóku meðvitaða ákvörðun um að fara í stjórn með flokkum sem tryggðu að þau þyrftu ekki að standa við kosningaloforð sín. T.d. loforð um hærra auðlindagjald í sjávarútvegi, sem þau höfðu síðan sérstaka forgöngu um að lækka, þvert á það sem þau höfðu boðað fyrir kosningar.

Sjálfstæðisflokknum ekki treystandi

Formaður Sjálfstæðisflokksins lét hafa eftir sér í upphafi umræðunnar um orkupakkann:

„Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana? (...) Raforkumál Íslands eru ekki innri-markaðsmál. (…) Eru það rök að þar sem Evrópusambandinu hefur þegar tekist að koma Íslandi undir einhverja samevrópska stofnun sé ástæða til að ganga lengra?“

Með svona orðræðu er Sjálfstæðisflokkurinn kominn í sömu stöðu og Íhaldsflokkurinn breski sem alla tíð hefur slegið úr og í um Evrópusamvinnuna til að freista þess að halda öllum flokksmönnum góðum. Þessi afstaða leiddi Breta á endanum í þær ógöngur sem þeir glíma við nú.

Sama gildir á Íslandi, í Evrópumálum er ekki hægt að bera kápuna á báðum öxlum. Annaðhvort viðurkenna menn þann ávinning sem þjóðin hefur af þátttöku sinni í EES, og eru óhræddir við að halda honum á lofti, eða menn eru einfaldlega á móti Evrópusamvinnunni og reiðubúnir að færa þær fórnir sem það útheimtir. Hvorum megin liggur Sjálfstæðisflokkurinn?

https://www.visir.is/g/2019190929191/hverjum-ma-treysta-


MAKRÍLLINN, nú er lag

Óvænt innkoma makríls í íslenska landhelgi upp úr aldamótum skóp einstakt tækifæri til að láta þjóðina njóta góðs af nýrri auðlind í þjóðareigu. Því miður voru önnur sjónarmið látin ráða þegar heimildum til veiða á makrílnum var úthlutað og hefur þjóðin síðan að mestu farið á mis við þann arð sem henni ber sem eiganda auðlindarinnar. Stjórnvöld reyndu síðan að tryggja örfáum útgerðum einokun á makrílveiðum til margra ára en urðu frá að hverfa eftir að þjóðin lýsti vanþóknun sinni á fyrirætlan þeirra með þátttöku í einni víðtækustu undirskriftasöfnun seinni ára.

Nú er talið að stofn makríls hafi verið vanmetinn og því megi búast við töluverðri aukningu þess sem leyfilegt verður að veiða. Enn á ný hyggjast stjórnvöld úthluta makríl með sama hætti og öðrum fiskistofnum án þess að tryggja þjóðinni sanngjarna hlutdeild í auðlindaarðinum.

Einmitt nú er tækifæri til að þróa aðferðir til úthlutunar sem gætu byggt á að hluta til þeirra sem veitt hafa áður og öðrum hluta sem yrði boðinn út með skilyrðum. Fréttir um vanmat á makrílstofninum gera enn frekar kleift að bjóða út a.m.k. aukningu aflaheimilda án þess að skerða á nokkurn máta það sem útgerðum hefur staðið til boða endurgjaldslítið fram að þessu. Um leið gæfist fleirum tækifæri til að taka þátt í veiðunum.

Auðlindagjaldið til byggðanna.

Vel má hugsa sér að þeir fjármunir sem fengjust með útboði aflaheimilda rynnu alfarið til að styrkja viðkvæmar byggðir í kringum landið eða til að bæta sveitarfélögum upp skaða af völdum loðnubrests. Nú er sagt stefna í samdrátt í efnahagslífinu. Einmitt þá er tilefni til að fjárfesta í innviðum á vegum sveitarfélaga og ríkisins og því ærið tilefni til að afla tekna í því skyni með eðlilegum auðlindagjöldum.

Formenn flokka á þingi eru sagðir hafa orðið sammála um tillögu um stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands. Þar er m.a. lagt til: „Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“ Um gjaldtökuna segir í greinargerð með þessari tillögu: „Koma þar ýmsar leiðir til greina eins og áður var rakið. Ekki er nauðsynlegt að fjárhæð gjalds komi fram í lögum enda kann gjaldið að vera ákveðið með valferli eða útboði þar sem verð og aðrir skilmálar eru ekki fyrirfram ákveðin.“

Nú hafa valdhafar tækifæri til að sýna að eitthvað sé meint með umræddri tillögu og efna til útboða á makrílkvótum a.m.k. að hluta eins og að framan greinir.

Höfundur var í hópnum sem stóð fyrir undirskriftasöfnuninni „Þjóðareign“ sem fram fór 2015 og kom í veg fyrir fyrirætlanir stjórnvalda um að afhenda einstökum útgerðum kvóta í makríl til lengri tíma.


ÞJÓÐARSJÓÐURINN Í HÖNDUM EINKAAÐILA

VINSTRI GRÆN VILJA AÐ FJÁRMÁLAFYRIRTÆKI Í EINKAEIGN HÖNDLI MEÐ ÞJÓÐARSJÓÐINN SEM SEÐLABANKINN BÝÐST TIL AÐ SJÁ UM!
Alveg burtséð frá því hversu skynsamlegt það er að stofna Þjóðarsjóð þá er með ólíkindum að þegar Seðlabankinn býðst til að sjá um sjóðinn, með sama hætti og seðlabanki Noregs sér um olíusjóðinn þeirra, þá skuli ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna standa fyrir því að umsjón sjóðsins verði falin einkaaðilum. Á hvaða vegferð eru VG eiginlega?


Nýju veiðigjöldin keisarans.

Frumvarp um lækkun veiðigjalda í vor var að sögn ríkisstjórnarinnar fyrst og fremst til að lækka gjöld á litlar og meðalstórar útgerðir. Í nýja veiðigjaldafrumvarpinu skipta þær engu máli en mest lagt upp úr „einföldun“. Samt er ekki gripið til einföldustu leiðarinnar við innheimtu veiðigjalda sem væri árlegt útboð á hluta heimildanna þar sem afgjaldið rynni alfarið til brothættra byggða. Byggðirnar gætu ráðstafað fjármununum til stuðning við litlar og meðalstórar útgerðir auk þess sem slík útboð myndu gefa nýjum aðilum möguleika á að hefja útgerð. Fjárhæð veiðigjalds sem ræðst af árlegu útboði yrði þannig ákvarðað í rauntíma, með hliðsjón af væntanlegri afkomu og alfarið ákvarðað af útgerðinni sjálfri, án afskipta stjórmálamanna. Ef tilgangur veiðileyfafrumvarpsins væri einföldun þá væri það leiðin.

Þjóðinni ber fullt gjald

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa hins vegar einsett sér að standa vörð um hagsmuni núverandi útgerðarmanna gegn hagsmunum þjóðarinnar og nýrra aðila sem hyggja á útgerð en eiga þess ekki kost í núverandi kerfi. Hatrömm andstaða ríkisstjórnarninnar gegn útboðum veiðileyfa getur ekki skýrst af öðru en því að koma í veg fyrir að þjóðin fái sannvirði aflaheimildanna enda kvaðst sjávarútvegsráðherrann hafa haft samráð við útgerðina. Þessi niðurstaða hlýtur að koma illa við stuðningsmenn VG þar sem flokkurinn lofaði hækkun veiðigjalds og stuðningi við litlar útgerðir í aðdraganda kosninga.

Ríkisstjórnin og útvegsmenn sjá sér nú leik á borði að festa veiðileyfagjaldið í sessi eins og hverja aðra skattheimtu, sem það er ekki, allt í nafni „einföldunar“. - Veiðileyfi, hvort sem er á Íslandsmiðum eða í ám og vötnum eru eins og hver önnur aðföng sem þarf til þess að hægt sé að halda til veiða. Sama gildir um veiðarfæri, olíu o.s.frv. og lýtur gjaldið því ekki lögmálum venjulegrar skattheimtu frekar en t.d. greiðsla til olíufélaganna fyrir olíu.  

Á fimm ára tímibili 2011-16 greiddi útgerðin rúma 45 milljarða í veiðigjöld á meðan útgerðin sjálf fékk í sinn hlut 293 milljarða í aukið eigið fé og útgreiddan arð. Það er nakinn sannleikurinn.

https://www.frettabladid.is/skodun/nju-veiigjoeld-keisarans

 

 


Samtakamáttur Samtaka atvinnulífsins

Við lifum óvenjulega tíma. Tíu árum eftir hrunið ríkir úlfúð og ósætti í samfélagi okkar. Mitt í öllu ósættinu er ráðamönnum þjóðarinnar afhentar ríflegar launahækkanir á silfurfati og fyrirtæki landsins, sem lífeyrissjóðirnir eiga að stórum hluta, ákveða að gera vel við stjórnendur sína og hækka verulega við þá launin sem þó voru rífleg fyrir. Stjórnvöld hreyfa ekki litla fingur til að vinda ofan af launahækuninni sem þeim var rétt og Samtök atvinnulífsins (SA), sem tilnefna helming stjórnarmanna almennu lífeyrissjóðanna, tala fjálglega um hóflegar hækkanir til stjórnenda fyrirtækja þar sem fulltrúar lífeyrissjóðanna sitja í stjórnum. Lítið er svo gert til að tryggja að hin fögru fyrirheit gangi eftir. Eða ætli almenningur telji að fyrirtækin,

„...starfi í góðri sátt við umhverfi sitt og samfélag. Launakjör æðstu stjórnenda séu hófleg, innan skynsamlegra marka og ofbjóði ekki réttlætiskennd amennings“

eins og segir í stefnuyfirlýsingu SA?  Eru það ekki einmitt launakjör stjórnenda fyrirtækjanna sem misbjóða réttlætiskennd almennings?

Frómar óskir og framkvæmdin

Þegar vakin er athygli á hversu illa málflutningur SA rímar við gjörðir fyrirtækjanna og upplifun almennings af tekjuskiptingu í landinu, eins og gert var í grein í Frbl. 18. sept. þá skrifar framkvæmdastjóri SA grein í Mbl. 25. sept. s.l. þar sem hann rekur meðaltalshækkanir stjórnenda og launþega til að sýna fram á að stjórnendur séu vel að þessum hækkunum komnir. Ekki kemur fram ofan á hvaða laun hækkanirnar voru reiknaðar og ekki virðist hvarfla að honum að e.t.v. hafi launin, sem hækkanirnar reiknuðust ofan á verið of há m.v. þann veruleika sem Íslendingar búa við í dag og hækkanirnar því beinlínis til þess fallnar að auka á úlfúð og ósætti í samfélaginu.

Við einhverjar tilteknar aðstæður hefði samanburður á prósentutölum á borð við þær sem bornar eru fram í greininni haft eitthvað að segja. En við búum við allt aðrar aðstæður á öðrum og óvenjulegri tímum sem kallar á óvenjulegar ráðstafanir. Ráðstafanirnar sem SA gæti gripið til var lýst í greininni í Frbl. og einnig á opnum fundi með Landssambandi lífeyrissjóða fyrir hálfu þriðja ári.

SA gæti sem hægast notað samtakamátt sinn til að hindra þá ofurlaunaþróun sem þegar er orðin og fyrirséð hjá stjórnendum fyrirtækja í eigu lífeyrissjóðanna. Þannig gæti SA látið yfirlýsingar þeirra um að laun stjórnenda

„skuli vera hófleg og í samræmi við íslenskan launaveruleika“

verða að veruleika. Framkvæmdin hjá SA fram að þessu ber ekki vott um að hinar frómu óskir forráðamanna SA séu neitt annað en orðin tóm.

Því ættu samtök launafólks að treysta félagsskap sem notar samtakamátt sinn eingöngu til að semja við verkalýðsfélög en neita að nota samtakamáttinn til að halda aftur af ofurlaunum stjórnenda í atvinnulífinu?

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

DJÁSNIÐ Í KRÚNUNNI

Fyrir Sjálfstæðisflokkinn þá var Reykjavíkurborg djásnið í krúnunni, kjarninn í völdum flokksins þaðan sem þeir gátu deilt og drottnað, úthlutað lóðum, verkum og störfum að eigin geðþótta til innmúraðra og innvígðra. Borgin og völdin yfir henni var aðeins áfangi á leið framagjarnra Sjálfstæðismanna til að komast til enn meiri áhrifa á landsvísu. Þannig leit oft út fyrir að hagsmunir borgarinnar væru afgangsstærð eða a.m.k. í öðru sæti hjá borgarstjórum Sjálfstæðisflokksins.

Þetta breyttist allt með tilkomu Reykjavíkurlistans. Reykjavíkurlistinn og að mestu farsæl stjórnartíð hans, opnaði augu borgarbúa fyrir því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hafði farið með völdin í borginni og ekki síður hvernig völdin höfðu farið með Sjálfstæðisflokkinn. Svo fór að það sem áður var óhugsandi, Sjálfstæðisflokkurinn þurfti að deila völdum í borginni með öðrum flokkum. 

„Skiliði lyklunum“

Sjálfstæðismenn koma stundum óvart  upp um sig um hvernig þeir umgangast völdin og hvernig þeir telja sig réttborna til eigna og áhrifa í samfélagi okkar. Það gerðist t.d. þegar núverandi formaður flokksins hrópaði úr ræðustóli Alþingis í heilagri vandlætingu „skiliði lyklunum“, en það gerðist á afar skammvinnu tímabili í lýðveldissögunni, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var ekki í ríkisstjórn. Eða þegar frambjóðandi flokksins til borgarstjóra mætti nýlega á fund í Höfða eins og það væri nánast formsatriði og bara spurning um tíma hvenær hann settist í stól borgarstjóra.

Afstaða Sjálfstæðismanna til valdsins sýndi sig líka ágætlega í afsagnarmáli innanríkisráðherra þegar að embættismenn sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði ráðið til starfa, eyddu miklum tíma og fyrirhöfn, ekki í að upplýsa málið, heldur til að leita leiða til að bjarga skinni ráðherrans sem hafði skipað þau.

Á móti, til að vera á móti

Borgarlínan svokallaða sem Sjálfstæðisflokkurinn reynir að tortryggja á alla vegu (þó þetta séu bara venjulegir strætisvagnar sem keyra inn á sæmilegar biðstöðvar) eins og þeir átti sig ekki á að það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að láta gatnakerfið taka mikið pláss. Eina svarið við því er það svar sem borgir um allan heim hafa gert í áratugi, sem er að efla almenningssamgöngur. Nema að Sjálfstæðismenn séu í hjarta sínu sammála Borgarlínunni en þykist vera á móti eins og helsti leiðtogi þeirra um árabil lýsti í viðtalsbók hvernig flokkar eigi að hegða sér í stjórnarandstöðu:

„Ég gerði öll mál tortryggileg ...  Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau  ... því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu.“

Sérhagsmunirnir ofar öllu

Vanhæfni Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei verið augljósari en í málefnum ferðamanna þar sem þeir hafa brátt í heil fimm ár samfellt farið með ráðuneyti ferðamála og klúðrað því að ná inn í ríkissjóð eðlilegum gjöldum af erlendum ferðamönnum. Flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn þar sem sérhagsmunaöflum er grímulaust beitt gegn almannahagsmunum getur einfaldlega ekki tekist á við mál af þessu tagi þar sem alltaf er horft til sérhagsmunanna við ákvarðanatöku.  Annað dæmi er Landsréttur þar sem liggur við að flokknum hafi tekist að eyðileggja nýtt dómstig því svo mikið lá við að koma „réttu“ fólki að í dóminn.

Með breytingu á forystu Sjálfstæðisflokksins uppúr aldamótum var ástæða til að ætla að þar hefði orðið breyting til batnaðar og að venjulegir stjórnmálaflokkar gætu framvegis unnið með flokknum. En eftir að Sjálfstæðismenn hlógu sig máttlausa á fyrsta landsfundi eftir hrun, þegar stungið var uppá að þeir viðurkenndu að eiga þátt í hruninu eða að þeir þyrftu að biðja þjóðina afsökunar og bæta sitthvað í eigin ranni, þá mátti öllum vera ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hafði ekkert lært af hruninu og engu gleymt um hvernig þeir eru vanir að umgangast valdið.

Verulegar líkur eru á að morguninn eftir kosningarnar í vor muni Sjálfstæðisflokkurinn reyna að efna til hins sama í borgarstjórn og þeir gerðu eftir Alþingiskosningarnar í haust. Þeir muni setja sig í samband við Vinstri græn og bjóða þeim borgarstjórastólinn. Hverju mun VG svara því tilboði?

http://www.visir.is/g/2018180509729/djasnid-i-krununni-

 


Fær útgerðin að skjóta undan „vörslugjöldum“?

Þá er það orðið ljóst hver er hinn raunverulegi tilgangur myndunar ríkisstjórnarinnar. Það er lækkun veiðigjalda. Núverandi innheimta veiðigjaldsins tekur mið af afkomu útgerðarinnar þegar búið er að gera upp afkomuna frá því tveimur árum áður. Vel reknar útgerðir hafa búið sig undir þessa greiðslu vitandi að þeim ber að standa skil á henni. Eigi að lækka greiðslurnar sem stofnuðust fyrir tveimur árum, væri verið að hafa af þjóðinni þann hluta auðlindaarðsins sem útgerðirnar fengu að njóta til fulls þegar vel áraði en þjóðinni sagt hún fengi síðar. Útgerðirnar fengu einfaldlega greiðslufrest (áþekkt „vörslu-skatti“) á þeim hluta arðsins sem á að koma í hlut þjóðarinnar. Þennan greiðslufrest á nú að nota til að hlunnfara þjóðina um þann „rausnarlega“ hlut auðlindaarðsins sem henni er ætlað af auðlind sinni.

Hámörkun auðlindaarðsins

Eina spurningin sem stjórmálamenn ættu að reyna að svara er spurningin um hvernig tryggt sé að þjóðin fái sem mest fyrir sjávarauðlindina þannig að mestu fé megi veita til byggðastyrkja, örorkubóta, lífeyrisþega, vegaframkvæmda, heilbrigðismála, skólanna o.sv.frv.? Stjórmálamenn sem eiga ekki svar við þessari spurningu skila auðu.

Hugmyndin að breyttum veiðigjöldum núna ber með sér að stjórnmálamenn hafa enn ekki áttað sig á að veiðgjaldið er ekki skattur heldur einfaldlega kaup aðfanga til að geta haldið til veiða. Skattur er aftur á móti greiddur eftir almennum reglum. Mér vitanlega spyrja olíufélögin ekki útgerðirnar áður en þau afhenda þeim olíu sem hvort þau eigi fjármuni aflögu áður en þeim er afhent olían.

Þó illa gangi hjá einhverjum fyrirtækjum í sjávarútvegi og slíkt gæti hugsanlega leitt til byggðaröskunar þá er ekki hægt að leggja það á heila atvinnugrein að snúa því við. Hægt er að bregðast við byggðaröskun með byggðastyrkjum sem geta m.a. falið í sér styrk til einstakra sjávarútvegsfyritækja í brothættum byggðum en ekki aðgerðum sem taka til atvinnugreinarinnar í heild. Einfaldasta afkomutenging sjávarútvegs er útboð aflaheimilda til nokkurra ára í senn því engin útgerð býður hærra en fjárhagur hennar leyfir.

http://www.visir.is/g/2018180119063/faer-utgerdin-ad-skjota-undan-vorslugjoldum-


Banki sem veitustofnun almennings

Um allan heim eru bankar til sölu. Eins og málum háttar í hagkerfi heimsins þá er eftirspurn eftir bönkum lítil. En allt selst ef verðið er nógu lágt og það gildir einnig um íslensku bankana. Því er ekki óeðlilegt að efasemdir séu uppi um tilgang þeirra „hrægammasjóða“ sem nú eru líklegir kaupendur að íslensku viðskiptabönkunum að ekki sér minnst á hæfi þeirra til að reka banka.

Í sinni einföldustu mynd gegna bankar því hlutverki að vera greiðslumiðlun annars vegar og taka á móti innlánum og lána út fé hins vegar. Greiðslumiðlunin verður sífellt einfaldari með aukinn tækni og fer nú orðið að mestu fram án þess að starfsmenn banka komi þar nærri, nema með óbeinum hætti. Því er það kjörið tækifæri nú að skipta t.d. öðrum ríkisbankanum í tvennt, líta á greiðslumiðlunina eins og hverja aðra veitustofnun á vegum hins opinbera, skilja aðra starfsemi bankans frá og sameina hana öðrum banka. Þá væri með greiðslumiðlunarhlutanum kominn sá „þjóðarbanki“ sem sinnti grunnþörf almennings fyrir greiðsluþjónustu sem er sú bankaþjónusta sem allir þurfa.

Einstakt tækifæri

Hinn áhrifamikli hagfræðingur og dálkahöfundur Financial Times, John Kay hefur boðað þetta sama þar sem hann segir í bók sinni „Other peoples money“: 

„Greiðslukerfið er hluti þjónustunetsins, sem hnýtt er saman af rafveitu, fjarskiptakerfi og vatnsveitu, og heldur uppi félags- og efnahagslegri starfsemi“

Þessi hugmynd kemur einnig heim og saman við hugmyndir fjármálaráðherra um seðlalaust samfélag en hugmyndin að baki því er að fækka möguleikum til undanskota frá skatti. Einnig er tækifærið núna á meðan bankakerfið er meira og minna í eigu ríkisins.  Með „þjóðarbankanum“ væri ekki hægt að þröngva almenningi til að eiga viðskipti við einstaka banka og greiða þar færslugjöld og kostnað. Öllum stæði til boða heimabanki og greiðslukort sér að kostnaðarlausu í banka þjóðarinnar. Bankinn gæti rekið sig á vöxtum Seðlabankans þar sem innlán þjóðarbankans yrðu varðveitt. Þeir sem eiga fé aflögu og vilja leita hærri innlánsvaxta yrðu að fara með þær fjárhæðir annað. Útlánum yrði eins og áður sinnt af annars konar bönkum og lánastofnunum.

http://www.visir.is/banki-sem-veitustofnun-almennings/article/2017170308859

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband