Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Brandarakarlar í Borgartúni

Samtök iðnaðarins hafa verið dugleg að búa til frasa og skýrslur á borð við „Hlaupum hraðar“, „Tækifæri til vaxtar“ o.fl. í þessum dúr. Allt er þetta gott og blessað. Í gögnum frá þeim er oft að finna prýðilegar tillögur um það sem betur má fara í íslensku atvinnulífi en þar er alltaf forðast eins og heitan eldinn að tala um það sem máli skiptir, íslensku krónuna og vandkvæðin henni tengd. T.d. ef samtökin ætla sér að „Slíta fjötrana“ eins og einn frasinn frá þeim hljóðar, þá ætla þau samt að vera áfram í fjötrum íslenskrar krónu eða þá „Hugsum stærra“ sem er frasi frá Viðskiptaráði þá er hvergi vikið að þeirri óáran sem fylgir samlífi þjóðarinnar með krónunni.

Sambærileg samtök í nágrannalöndunum hafa öll verið í forystu fyrir inngöngu landa sinna í Evrópusambandið svo maður hlýtur að spyrja sig hvað veldur því að íslensk systursamtök þora því ekki? Hví eru þessi samtök þessu marki brennd að þora ekki að hugsa út fyrir hinn pólitíska ramma sem ráðandi öfl (les; útgerðin) setur þeim?

Með því að neita að berjast fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu eru samtök í atvinnulífinu í raun að svíkja félagsmenn sína um það viðskiptafrelsi sem þykir sjálfsagt í nágrannalöndunum.

Hér endurtekur sig sagan frá fyrri áratugum þegar það voru ekki stjórnmálaflokkar sem kenna sig við frelsi eða atvinnulífssamtök sem unnu að aðild Íslands að EFTA og EES heldur voru það stjórnmálaflokkar sem bera hag heildarinnar fyrir brjósti. Þegar vel er búið að almenningi þá gengur vel í atvinnulífinu þó það sé ljóst að velferð almennings verður ekki kostuð nema með skattpeningum.

Enn á ný stilla Samtök iðnaðarins upp breiðum hópi, konum og körlum, sem á Iðnþingi eiga að fjalla um „Stóru vaxtartækifærin á Íslandi“. Það er ástæða til að hvetja til hlustunar eftir hvort það verði áfram hinn holi hljómur sem þaðan hefur borist um árabil og hvort hreðjatak útgerðarinnar ráði enn málflutningi samtakanna.    


Sköpum sátt um sjávarútveg

Veiðigjald er ekki skattur heldur afnotagjald eða leiga af eign annarra í þessu tilviki þjóðarinnar. Öll framleiðslufyrirtæki þurfa að verða sér úti um hráefni til framleiðslu sinnar og greiða fyrir þau markaðsverð. Því skyldi annað gilda um útgerðir?  -  Einnig má líkja veiðigjaldi við leigu fyrir afnot á húsnæði. Með sama hætti ber útgerðinni einnig að greiða þjóðinni gjald fyrir afnot af eign þjóðar­innar samkvæmt markaðsverði. Þetta hefur ekkert með skattheimtu að gera frekar en húsaleiga eða hver önnur leiga eða greiðsla fyrir hráefni.

Fræðimenn á sviði „úthlutunar takmarkaðra gæða“ sem fiskimiðin við Ísland vissulega eru hafa sett fram hugmyndir sem ættu að geta stuðlað að sátt. Hugmynd þeirra er einföld og hróflar alls ekki við afkomu útgerða frekar en t.d. til­lögur Haf­rannsóknar­stofnunar um árlegt aflahámark. Í sem stystu máli gengur hug­mynd þeirra út á að allar útgerðir fái árlega úthlutað 90-95% þeirrar aflahlutdeildar sem þeir höfðu árið áður. Ef við miðum við 95% þá er aðferðin þessi: 

  • Allir sem fengu úthlutað 100% aflaheimild á fyrra fiskveiðiári fá 95% af því sama úthlutað á nýju fiskveiðiári. Þetta endurtekur sig svo árlega, 95% úthlutun til allra út­gerða af aflaheimild fyrra árs.
  • Þau 5% af heildarafla sem eftir standa á hverju ári eru boðin til úthlutunar sam­kvæmt vandlega útfærðri útboðsleið.
  • Bjóði útgerð ekki í 5% sem eru til útboðs
    • þá fær hún á öðru ári 95% af þeim 100% sem hún hafði á fyrsta ári;
    • á þriðja ári 95% af þeim 95% sem hún hafði á öðru ári og
    • á fjórða ári 95% af þeim 95% sem hún hafði á þriðja ári o.sv.frv.
  • Ekki er ástæða til að óttast að of miklar aflaheimildir safnist á fáar hendur þar sem lög í landinu banna slíkt og þeim lögum þarf einfaldlega að framfylgja.
  • Nýliðun í útgerð verður auðveldari með gegnsæju kerfi byggðu á jafn­réttis­grund­velli.
  • Til að viðhalda aflaheimildum sínum óskertum þurfa útgerðir að taka árlega þátt í út­boði afar lítils hluta aflaheimilda. Það er þá það afgjald sem viðkomandi út­gerð greiðir þjóð­inni fyrir afnot fiskveiði­auð­lindarinnar það árið.

Hér skiptir mestu máli „vandlega útfærð útboðsleið“.  Útboðum verði hagað með þeim hætti að allir sem bjóða og fá kvóta greiði sama verð; lægsta verði sem tekið var s.k.„Dutch auction“. Smáútgerð sem bráðvantar kvóta og býður því hátt verð þarf því ekki að óttast að þurfa að greiða meira en aðrir. Þessi aðferð er alþekkt og þrautreynd í faglegum út­boðum. Tilhögun útboðsins skiptir öllu máli og mikilvægt að hafa í huga að slíkt útboð á lítið skylt við önnur algeng útboð sem menn kunna að þekkja til og hafa jafnvel sjálfir tekið þátt í. Framkvæmd útboða takmarkaðra almannagæða á borð við fiskveiðiauðlindar er sérstök fræðigrein og Nóbelsverðlaun voru veitt fræðimönnum á því sviði 2021.   

 

Meðfylgjandi mynd sýnir endur­úFyrning -5-95t­hlutun á 95% aflamarks fyrra árs til einstakrar út­gerðar. Vilji út­gerðin halda í allar þær afla­heimildir sem hún hafði árið áður þá tekur hún þátt í út­boð­inu og sækist eftir að fá þau 5% sem hana ella mundi vanta til að njóta sama aflamarks og árið áður. Allar útgerðir sem vilja halda 100% aflahlutdeild sinni þurfa því að „greiða“ árlega fyrir sína hlutdeild í úthlut­un afla­heimilda ársins. Þær fá 95% afla­hlut­­deildar fyrra árs án sérstakrar greiðslu en þurfa að taka þátt í árlegu útboði til að við­halda 100% aflahlutdeild sinni. Það yrði þeirra árlega gjald fyrir afnot af þjóðar­eigninni.

 

Nýliðun

Það fyrirkomulag sem hér er lýst gefur nýliðum færi á bjóða árlega í fiskveiðiheimildir og þeim þannig gert kleift að byggja sig upp frá ári til árs. Nýliðar geta treyst því að fram­hald verði á útboðunum og alltaf verði efnt til útboðs um sama hlutfall heildar­afla­marks­ins t.d. 5% eins og hér hefur verið gert ráð fyrir.

Í dag geta nýliðar aðeins keypt kvóta af útgerðarmönnum sem fyrir eru í greininni og sá kvóti er eingöngu til eins árs í senn, verðlagning á honum ógegnsæ og verð langt ofan við það sem þeir gætu vænst ef fram færi árlegt vand­lega útfært opinbert útboð sem sýndi með gagnsæjum hætti verðmyndun afla­marksins.

 

Einstakar útgerðir

Fyrir einstakar útgerðir liti dæmið þannig út að ef þeir sætta sig við að halda 95% þess sem þeir öfluðu árið á undan þá bjóða þeir ekki í þau 5% sem boðin verða út árlega. Þær greiða því ekkert fyrir þau 95% afnota sem þær hafa af auð­lindinni það árið.  Þannig verður þetta ár frá ári og ef út­­gerð tekur ekki þátt í ár­legum út­boð­um á 5% heildar­afla þá dragast afla­heimildir þeirrar út­gerðar smátt og smátt saman. Útgerð sem kaupir í útboði 5% á hverju ári við­heldur óbreyttri 100% afla­hlut­deild svo lengi sem hún býður árlega í aflaheimild og fær. Með þeirri tilhögun sem hér er lýst kemur tímabinding afla­heimildar­innar í raun af sjálfu sér.

Einfaldleiki – fyrirsjáanleiki

Þessi einfalda leið sem hér hefur verið stungið uppá auðveldar til muna álagningu veiði­gjalda sem nú eru lögð á eins og um skatt væri að ræða með aðferðum sem er aðeins á færi fáeinna innmúraðra og innvígðra sérfræðinga að skilja. Auk þess að vera flóknar og breytanlegar frá ári til árs þá byggir sú álagning á upplýsingum liðins tíma.

Einstakar útgerðir þekkja eigin rekstur betur en nokkur annar og vita því  lang­best hvað þeir geta leyft sér að bjóða í mikið magn og við hvaða verði í þau 5% heildar­afla næsta fiskveiðiárs sem boðin verða út. 95% af úthlutun fyrra árs fá útgerðirnar sjálf­krafa í sinn hlut. Hver fjárhæðin verður sem innheimtist í ríkissjóð með þessum hætti verður að koma í ljós en það mætti áætla með hermilíkönum áður en fyrstu útboð fara fram. Fyrir­sjáanleiki útgerðanna yrði meiri en nú er og úthlutun ætti sér stað með gegnsærri aðferð á jafnréttisgrundvelli.


Tölum um stjórnmálaflokk

Þegar nokkur stjórnmálaöfl afréðu að sameinast fyrir um aldarfjórðungi eftir að hafa séð hvernig mátti koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum í Reykjavík til frambúðar þá voru í einum flokkanna tveir miðaldra karlmenn sem töldu sig hafa höndlað stórasannleik og heilagleiki þeirra yrði ekki virtur að verðleikum í hinum nýja flokki. Því gerðu þeir það sem mönnum er tamt sem verða undir þegar lýðræðislega er staðið að málum, þeir stofnuðu eigin flokk. Þeir töldu sig ekkert þurfa að fylgja meirihluta í þeim flokki sem þeir tilheyrðu og áttu frama sinn í stjórnmálum að þakka því þar hafði valist til forystu stelpa frá Stokkseyri sem þeir álitu sig hafna yfir að þurfa að fylgja.

Að yfirvarpi sögðust þeir vera svo mikið á móti Nató og hernum að þeir þyrftu að stofna um það sérstakan flokk. Kannski þeir hafi líka óttast lýðræðið t.d. að þjóðin fengi að segja til um hvort hún vildi ganga í Evrópusambandið? Eða jafnvel að sjávarútvegurinn þyrfti að greiða það sem honum ber í sameiginlega sjóði þjóðarinnar, en fyrst og fremst sögðu þeir það vera af því að þeir voru svo mikið á móti Nató og hernum.

Svo fór herinn án þess að þeir ættu nokkurn hlut að máli og svo kom herinn eða ígildi hans aftur og þá voru þeir komnir í ríkisstjórn og allt gerðist það með þeirra samþykki. Svo fóru nágrannaþjóðir að banka uppá aðild að Nató og þá gerðist flokkurinn helsti talsmaður þess að fleiri fengju aðild en samt voru þeir og eru algjörlega á móti aðild Íslands að Nató að eigin sögn.

Hin seinni ár hefur helsti tilgangur þessara stjórnmálasamtaka verið að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn ráði því sem hann vill en samtökin fá það hlutverk að réttlæta út á við ákvarðanir Sjálfstæðisflokksins. Formaður samtakanna sagði í ræðu skömmu áður en hann tók við starfi forsætisráðherra að „fátækt fólk geti ekki beðið“. Síðan eru liðin mörg ár, formaðurinn gegnir enn starfinu og fátæka fólkið bíður enn.


ÍSLENSKA OG DANSKA KRÓNAN Í 100 ÁR

Lífeyrissjóðunum er gert að taka á sig tapið af nýjasta gengisfalli krónunnar með því að þeim er fyrirmunað að kaupa erlendan gjaldeyri til að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga en þurfa þess í stað að kaupa eignir í íslenskum krónum. Fyrir aðeins ári síðan var hægt að kaupa einn dollar á 125 krónur sem í dag kostar 141 krónu. Þessi 12% hækkun á verði erlends gjaldeyris (evra hækkað um 18%) leiðir svo aftur til hækkunar á verði innfluttrar vöru. Hér eru þau komin „breiðu bökin“ í samfélaginu, þeir sem þiggja lífeyri frá lífeyrissjóðum og almenningur sem þarf að borga nauðsynjavörur hærra verði. Hvor tveggja afleiðingar af því að Íslendingum er gert að búa við smæsta gjaldmiðil í heimi, örmynt sem er hvergi annars staðar gjaldgeng.

Hvers vegna?

Þrátt fyrir að þjóðin þekki af eigin raun hvernig verðlag á Íslandi hækkar endalaust og þrátt fyrir að verðlagshækkanirnar megi nær undandtekningalaust rekja til hækkana á innfluttum vörum, sem verða stöðugt dýrari vegna verðhækkana á erlendum gjaldeyri, þá eru ennþá til aðilar sem telja að heppilegast sé fyrir íslenska þjóð að notast við íslenska krónu.

Íslensk króna varð til sem sjálfstæður gjaldmiðill um 1920. Fram að því var gengi hennar það sama og dönsku krónunnar. Frá þeim tíma hafa þessar tvær myntir þróast með gjörólíkum hætti. T.d. hefur gengi danskrar krónu gagnvart dollar á þessum hundrað árum haldist innan við tíu krónur danskar, á meðan gengi íslenskrar krónu gagnvart dollar fer yfir 10 þúsund íslenskar krónur, ef horft er framhjá myntbreytingunni á íslensku krónunni 1980.

Íslenska og danska krónan

 

 

 

 

 

 

 

Íslendingar hafa lært að lifa með hinni stöðugu gengislækkun en fórnirnar hafa verið miklar. Nær ógerlegt er að nefna allar þær ráðstafanir fyrirtækja og heimila sem teknar voru til þess eins að reyna af veikum mætti að viðhalda raunvirði peninga í stað þess að verja fjármununum til arðbærra fjárfestinga. Þannig var algengt, þegar vitað var að gengisfellingar vofðu yfir, að almenningur keypti heimilistæki sem vitað var að myndu hækka í verði, jafnvel eingöngu í þeim tilgangi að selja þau aftur á nýja verðinu. Einnig má nefna virðingarleysið fyrir gjaldmiðlinum sem lýsir sér í að „eydd króna“ hefur alla tíð verið í meiri metum meðal þjóðarinnar en „geymd króna“. Þannig eru Íslendingar miklu meiri eyðsluklær en gengur og gerist þar sem vitað er að geymd króna rýrnar að verðgildi með hverjum deginum sem líður á meðan hún er í vasa þínum.

„Svo gott að hafa krónuna“

Meðal þess sem haldið er fram þegar sagt er „það er svo gott að hafa krónuna“ er að hún geti jafnað út sveiflur í hagkerfinu. Reynslan hefur aftur á móti kennt okkur að hún jafnar ekkert út heldur viðheldur hún bara niðursveiflum og bætir svo í þær. Niðursveiflurnar rýra síðan afkomu alls almennings.

Stöðugt fallandi króna er og verður fyrst og fremst tæki þeirra sem þurfa að flytja fjármuni frá almenningi til fyrirtækja sem hafa ýmist komið sér sjálf í bobba eða fyrir tilstuðlan vanhæfra stjórnmálamanna eða vegna utanaðkomandi áhrifa sem hægt er að glíma við með öðrum hætti en grípa til gengislækkkunar. Gengislækkun er auðvelda leiðin út úr vandanum þar sem hún gerir minnstar kröfur til ráðamanna. Reyndar er þetta ástand fallandi krónu orðið svo inngróið í þjóðarsálina að margir álíta það óbreytanlegt. Hér er um að ræða „er þetta nokkuð fyrir okkur“-heilkennið sem byrgir mönnum sýn og ber fyrst og fremst vott um minnimáttarkennd þeirra sem því eru haldnir. Heilkennið er ótrúlega algengt meðal stjórnmálamanna hvort sem þeir telja sig vera til vinstri eða hægri. 


UMSKIPTINGUR VINSTRI GRÆNNA

„Einn morgun þegar Gregor Samsa vaknaði heima í rúmi sínu eftir órólegar draumfarir, hafði hann breyst í risavaxna bjöllu“ eru ein frægustu upphafsorð heimsbókmenntanna, upphafsorð Umskiptanna eftir Kafka. Viss líkindi má sjá með Vinstri grænum og Gregor Samsa þegar þau vöknuðu upp daginn eftir kosningar, allt annar flokkur heldur en þau höfðu gefið sig út fyrir fram á kjördag. Þessi umskipti Vinstri grænna sjást víða og eru sláandi í afstöðu þeirra til auðlindaákvæðis stjórnarskrárinnnar.

Vinstri græn stóðu að auðlindatillögu allra stjórmálaflokka, nema Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 2013, þegar náðist breið samstaða um auðlindaákvæðið. 2020 hafa Vinstri græn snúið við blaðinu og leita nú samstöðu með þeim sem þeir áður stóðu gegn. Eðlilega er spurt hví Vinstri græn séu svo gjörsamlega heillum horfin og gengin í björg þeirra sem ganga erinda stórútgerðinnar.

Tillögur að auðlindaákvæði í stjórnarskrá - tafla

Á meðfylgjandi samanburðartöflu má sjá hvernig orðalag auðlindaákvæðisins var 2013 þegar Vinstri græn komu að gerð þess. Þar er talað um að þeir sem hagnýti auðlindir greiði eðlilegt gjald til hóflegs tíma í senn, það leiði aldrei til eignaréttar eða óafturkræfs forræðis og hagnýtingin skuli vera á jafnræðisgundvelli. - Það orðalag sem Vinstri græn leggja til núna er aftur á móti eins og sniðið að þörfum þeirra sem nú hagnýta auðlindir landsins gegn málamyndagjaldi. Allt og sumt sem þar er sagt um gjaldtöku er að hún skuli ákvörðuð með lögum og gætt að jafnræði og gagnsæi. Það orðalag þýðir að gjalddtaka fyrir afnot af auðlind í eigu þjóðarinnar, fiskimiðunum, verður aldrei nema á forsendum stórútgerðarinnar. Í núverandi lagaumhverfi og skorti á stjórnarskrárákvæði um auðlindir er orðalagið sem Vinstri græn leggja til, beinlínis til þess fallið að festa í sessi óbreytt ástand, og því merkingarlaust til að tryggja raunverulegt eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum.

Samræður í skötulíki

Þegar efnt var til „samráðs“ með samtali við þjóðina um stjórnarskrármál, að frumkvæði núverandi ríkisstjórnar, þá var það með þeim eindæmum að auðlindaákvæðið var undanskilið en það er það ákvæði sem líklegast er að þjóðin hafi mótað sér skoðun á. Samtökin Þjóðareign beindu því til Alþingis að samhliða forsetakosningunum í sumar yrði þjóðin spurð hvaða orðalag þjóðin vildi hafa á auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar. Þeirri málaleitan sáu stjórnvöld ekki ástæðu til að svara.

Þjóðin hlýtur að spyrja sig hvort Vinstri græn ætli raunverulega að standa fyrir auðlindaákvæði til að þóknast Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og hugsanlega bera því við að annars styðji Miðflokkurinn annað óhagstæðara orðalag sem er þeim flokkum þóknanlegt?  Þá má líka velta því upp hvort Miðflokkurinn leggi í kosningabaráttu nýbúinn að afhenda stórútgerðinni fiskveiðiauðlindina á silfurfati. Við vitum að það vefst ekki fyrir Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki en mun Miðflokkurinn leggja í það svo stuttu fyrir kosningar?

https://www.frettabladid.is/skodun/umskiptingur-vinstri-graenna/?fbclid=IwAR1by9OauTEN8xwYqNyKnLc-wZ94sjXsOwwMY6UzSEPgZwQv1sVKf2x-cYs


HUNDRAÐ ÁRA MEINSEMD

ífeyrissjóðunum er gert að taka á sig tapið af nýjasta gengisfalli krónunnar með því að þeim er fyrirmunað að kaupa erlendan gjaldeyri til að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga en þurfa þess í stað að kaupa eignir í íslenskum krónum. Fyrir aðeins ári síðan var hægt að kaupa einn dollar á 125 krónur sem í dag kostar 141 krónu. Þessi 12% hækkun á verði erlends gjaldeyris (evra hækkað um 18%) leiðir svo aftur til hækkunar á verði innfluttrar vöru. Hér eru þau komin „breiðu bökin“ í samfélaginu, þeir sem þiggja lífeyri frá lífeyrissjóðum og almenningur sem þarf að borga nauðsynjavörur hærra verði. Hvort tveggja afleiðingar af því að Íslendingum er gert að búa við smæsta gjaldmiðil í heimi, örmynt sem er hvergi annars staðar gjaldgeng.

Vantrú íslensku þjóðarinnar á eigin gjaldmiðli virðist ekki eiga sér nein takmörk. Nýjasta dæmið er þegar Costco auglýsti gullstangir til sölu, en þær eru algeng leið til að geyma verðmæti, þá seldust þær upp á augabragði. Sennilega er þetta ein mest afgerandi yfirlýsing sem hægt er að gefa um hversu lítið þjóðinni er í raun gefið um íslensku krónuna og treystir henni illa til að halda verðgildi sínu.

Hvers vegna?

Þrátt fyrir að þjóðin þekki af eigin raun hvernig verðlag á Íslandi hækkar endalaust og þrátt fyrir að verðlagshækkanirnar megi nær undantekningalaust rekja til hækkana á innfluttum vörum, sem verða stöðugt dýrari vegna verðhækkana á erlendum gjaldeyri, þá eru enn þá til aðilÍslensk króna og dönsk króna gagnvart dollarar sem telja að heppilegast sé fyrir íslenska þjóð að notast við íslenska krónu.


Íslensk króna varð til sem sjálfstæður gjaldmiðill um 1920. Fram að því var gengi hennar það sama og dönsku krónunnar. Frá þeim tíma hafa þessar tvær myntir þróast með gjörólíkum hætti. Til dæmis hefur gengi danskrar krónu gagnvart dollar á þessum hundrað árum haldist innan við tíu krónur danskar, á meðan gengi íslenskrar krónu gagnvart dollar fer yfir tíu þúsund íslenskar krónur, ef horft er fram hjá myntbreytingunni á íslensku krónunni 1980.

Íslendingar hafa lært að lifa með hinni stöðugu gengislækkun en fórnirnar hafa verið miklar. Nær ógerlegt er að nefna allar þær ráðstafanir fyrirtækja og heimila sem teknar voru til þess eins að reyna af veikum mætti að viðhalda raunvirði peninga í stað þess að verja fjármununum til arðbærra fjárfestinga. Þannig var algengt, þegar vitað var að gengisfellingar vofðu yfir, að almenningur keypti heimilistæki sem vitað var að myndu hækka í verði, jafnvel eingöngu í þeim tilgangi að selja þau aftur á nýja verðinu. Einnig má nefna virðingarleysið fyrir gjaldmiðlinum sem lýsir sér í að „eydd króna“ hefur alla tíð verið í meiri metum meðal þjóðarinnar en „geymd króna“. Þannig eru Íslendingar miklu meiri eyðsluklær en gengur og gerist þar sem vitað er að geymd króna rýrnar að verðgildi með hverjum deginum sem líður á meðan hún er í vasa þínum.

„Svo gott að hafa krónuna“

Meðal þess sem haldið er fram þegar sagt er „það er svo gott að hafa krónuna“ er að hún geti jafnað út sveiflur í hagkerfinu. Reynslan hefur aftur á móti kennt okkur að hún jafnar ekkert út heldur viðheldur hún bara niðursveiflum og bætir svo í þær. Niðursveiflurnar rýra síðan afkomu alls almennings.

Stöðugt fallandi króna er og verður fyrst og fremst tæki þeirra sem þurfa að flytja fjármuni frá almenningi til fyrirtækja sem hafa ýmist komið sér sjálf í bobba eða fyrir tilstuðlan vanhæfra stjórnmálamanna eða vegna utanaðkomandi áhrifa sem hægt er að glíma við með öðrum hætti en grípa til gengislækkunar. Gengislækkun er auðvelda leiðin út úr vandanum þar sem hún gerir minnstar kröfur til ráðamanna. Reyndar er þetta ástand fallandi krónu orðið svo inngróið í þjóðarsálina að margir álíta það óbreytanlegt. Þegar rætt er um gengisstöðugleika eða upptöku annarar myntar rís upp flokkur manna sem segir og ber vott um „er þetta nokkuð fyrir okkur“-heilkennið sem byrgir mönnum sýn og ber fyrst og fremst vott um minnimáttarkennd þeirra sem því eru haldnir. Heilkennið er ótrúlega algengt meðal stjórnmálamanna hvort sem þeir telja sig vera til vinstri eða hægri.

https://www.frettabladid.is/skodun/hundrad-ara-meinsemd/


Starfsmenn Icelandair í lykilstöðu

Vegna almennt lít­ils áhuga og þekk­ingar hjá verð­bréfa­fyr­ir­tækjum og fjár­fest­ing­ar­stjórum líf­eyr­is­sjóða á vinnu­mark­aðs­málum hafa þeir látið nægja að krefj­ast þess af stétt­ar­fé­lögum Icelandair að kjara­samn­ingar þeirra gildi til fimm ára, eigi sjóð­irnir að koma að end­ur­reisn félags­ins, í stað þess að gera kröfu um að vinnu- og kjara­samn­ings­mál fyr­ir­tæk­is­ins séu leyst til fram­búð­ar. Icelandair býr við umtals­vert hærri áhafna­kostnað en flug­fé­lögin sem þeir eiga í sam­keppni við sem mun gera Icelandair ill­mögu­legt að keppa við þau. Hygg­ist for­ráða­menn líf­eyr­is­sjóð­anna leggja Icelandair til hluta­fé, vit­andi af þessum fram­tíð­ar­vanda félags­ins, væru þeir að fara afar óvar­lega með það fé sem þeim hefur verið trúað fyr­ir.

Meira þarf til en kjarasamning til fimm ára

Kjarasamningar stétt­ar­fé­laga Icelandair til fimm ára getur skoð­ast sem þokka­leg byrjun en fram­tíð­ar­lausnin hlýtur að vera fólgin í að öll stétt­ar­fé­lög sem starfa fyrir félagið hafi sam­flot í samn­ingum en slíkt ákvæði hefur t.d. verið í kjara­samn­ingum stór­iðju­ver­anna alla tíð. Þetta er auk­in­heldur ein for­senda fyrir því að geta boðið almenn­ingi að kaupa hluti í félag­inu, ef það er hug­mynd­in. Einnig þurfa starfs­menn og félög þeirra að greina frá hversu miklu þeir hyggj­ast skrá sig fyrir sjálf en þeir geta einnig tekið sig saman og stofnað sér­stök félög í þeim til­gangi að fjár­festa í Icelanda­ir. 

Ekki þarf að fara í graf­götur með mik­il­vægi félags á borð við Icelanda­ir. En hvort er heppi­legra að félagið verði end­ur­reist fyrir eða eftir gjald­þrot? Ef leita á eftir fjár­munum hjá almenn­ingi ann­að­hvort beint eða óbeint, í gegnum líf­eyr­is­sjóði, verður allt að vera upp á borðum. 

https://kjarninn.is/skodun/2020-05-06-starfsmenn-icelandair-rada-miklu-um-framtid-thess/

 


Vanvirðing við landbúnað

Ríkisstjórnin hyggst standa fyrir lagasetningu sem á að stuðla að trausti og gagnsæi í upplýsingagjöf fyrirtækja „sem almennt má telja að séu þjóðhagslega mikilvæg og varða hagsmuni almennings“.  Það dylst engum að frumvarp þetta er hluti af kattarþvotti ríkisstjórnarinnar í Samherjamálinu sem vonast eftir, að með því að lofa auknum upplýsingum um fyrirtækið, þá sé líklegra að þjóðin sætti sig við það málamyndagjald sem útgerðinni er gert að greiða fyrir afnot af fiskimiðunum.

Lagafrumvarpið felur aftur á móti í sér fullkomið virðingarleysi gagnvart landbúnaði með því að lagafrumvarpið er alls ekki látið taka til landbúnaðar á neinn máta en tekur til fyrirtækja á sviði fiskveiða, í samgöngum, fjarskiptum o.fl. sem eru mati ríkisstjórnarinnar þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki sem varða hagsmuni almennings.

Landbúnaður settur skör lægra

Að mati ríkisstjórnarinnar gildir það ekki um landbúnað sem þá er væntanlega hvorki þjóðhagslega mikilvægur né að hann sé hluti af hagsmunum almennings. Helsta keppikefli ráðamanna í landbúnaði hefur árum saman verið að leggja áherslu á mikilvægi atvinnugreinarinnar í þjóðhagslegu samhengi og hversu mikilvæg atvinnugreinin er fyrir afkomu almennings. Þessa atvinnugrein ætlar ríkisstjórnin algjörlega að hunsa af fullkomnu virðingarleysi. Ólíklegt er að ráðamenn bænda sætti sig við að vera settir skör lægra en fyrirtæki í áðurnefndum atvinnugreinum.

Samkvæmt frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að veittar séu upplýsingar um laun og kjör æðstu stjórnenda fyrirtækjanna með sambærilegum hætti og hjá fyrirtækjum skráðum í kauphöll. Það segir meira um raunverulegan hug ríkisstjórnarinnar að baki frumvarpinu sem á að heita eindreginn vilji til upplýsingagjafar til þjóðarinnar.

Augljóst má telja að þegar frumvarpið var borið undir stjórnendur fyrirtækjanna hafi þeir talið að réttast væri að sleppa upplýsingum um kaup þeirra og kjör enda viðbúið að slíkt væri til þess fallið að valda þeim óþægindum sem þeir gjarnan vildu vera lausir við. Við því var greinilega orðið, Vinstri græn hafa ekki séð ástæðu til annars en fallast á þetta sjónarmið fyrirtækjanna og Sjálfstæðisflokksins.

https://www.frettabladid.is/skodun/vanvirding-vid-landbunad/


Þjóðaratkvæði um auðlindaákvæðið

Ríkisstjórnin kveðst vera komin með orðalag á auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem Sjálfstæðisflokkurinn getur sætt sig við. Það er orðalagið sem sett hefur verið fram í samráðsgátt stjórnvalda. Um orðalagið er deilt og þeir fræðimenn á þessu sviði (http://thorkellhelgason.is/?p=2798) sem árum saman hafa unnið að því tryggja yfirráð þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni telja hugmynd ríkisstjórnarinnar útþynnta, hún tryggi ekki raunveruleg yfirráð þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin hyggst ekki standa fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar en er reiðubúin að lagfæra nokkur atriði hennar þ.á.m. ákvæði um auðlindir í þjóðareigu. Orðalag annarra ákvæða eru minna umdeildar og gætu því náð fram að ganga í sæmilegri sátt. Svo háttar ekki um ákvæðið um auðlindir í þjóðareigu.

Lýðræðisleg niðurstaða

Allir stjórmálaflokkar, að Sjálfstæðisflokknum undanskildum, hafa lýst vilja til aukinna þjóðaratkvæðagreiðslna til að útkljá deilumál sem kljúfa þjóðina. Því er einsýnt að mikill meirihluti alþingismanna ætti að vera þess albúinn að spyrja þjóðina í allsherjaratkvæðagreiðslu hvort orðalagið hugnist henni betur, orðalagið sem fræðimenn telja til þess fallið að tryggja raunveruleg yfirráð þjóðarinnar á auðlindunum eða orðalagið í samráðsgáttinni.

Þó að slík þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki bindandi þá er ekki ástæða til að ætla annað en allir alþingismenn mundu sjá sóma sinn í því að hlíta niðurstöðu hennar. Málefnið hefur þjóðin þegar rætt í þaula, er vel upplýst um kosti þess og galla og tilbúin að segja sitt álit.

Kosningin fari fram strax

Ríkisstjórnarflokkarnir stefna á breytingarnar í lok núverandi kjörtímabils þannig að þær taki gildi í byrjun hins næsta. Fyrst þetta er eina leiðin sem Sjálfstæðisflokkurinn sættir sig við og þar með Framsóknarflokkur og Vinstri græn, þá ætti allsherjaratkvæðagreiðsla að vera kærkomin til að tryggja að þessar takmörkuðu breytingar eigi sér stað í sátt við þjóðina. Slík atkvæðagreiðsla verður að fara fram hið allra fyrsta á þessu ári þannig að niðurstaða liggi fyrir ef óvænt endalok verða á kjörtímabilinu eða ætlar Alþingi að leyfa Sjálfstæðisflokknum að segja við þjóðina í lok kjörtímabilsins, annaðhvort þiggið þið það sem við réttum ykkur eða þið fáið ekki neitt?

https://www.frettabladid.is/skodun/thjodaratkvaedi-um-audlind/


Veruleiki Vinstri grænna

Nýverið átti ég orðastað við framámann í Vinstri grænum. Mér hefur lengi leikið forvitni á að reyna að skilja þann flokk og tilverugrundvöll hans. Þessi fáu kurteislegu orðaskipti sem þarna áttu sér stað hafa orðið mér umhugsunarefni og gefið mér innsýn í hugmyndir og stefnu flokksins sem mér var áður hulið. Ég spurði hann hvort Vinstri græn ætluðu ekki að fara að færa eitthvað af arðinum af fiskveiðiauðlindinni frá Samherja til þjóðarinnar, sem hins réttmæta eiganda auðlindarinnar? Svarið sem ég fékk var:

„veiðigjaldið er nær því sem það ætti að vera en áður“.

Þá spurði ég hvernig hann vissi hvert veiðigjaldið ætti að vera en fékk ekki svar við því.

„Vér einir vitum...“

Hér eru merk tíðindi á ferðinni. Eru til upplýsingar hjá Vinstri grænum þar sem kemur fram hver fjárhæð „rétts“ veiðigjalds á útgerðina á að vera og gildir þetta e.t.v. um fleira? Ef maður hyggst leigja út íbúðina sína er þá hægt að hringja á flokksskrifstofuna og fá upplýsingar um hvað sé hið „rétta“ verð sem ætti að leigja íbúðina á?  Sættir þjóðin sig við að ein mestu auðævi hennar séu afhent fáeinum útgerðum rétt sisona, til frjálsra afnota, án þess að reynt sé að fá hærra afnotagjald heldur greitt er í dag? Eru einhverjir menn á skrifstofu úti í bæ sem vita hvað er „rétt“ verð sem útgerðin á að greiða fyrir afnot af eign þjóðarinnar?

Kaupmáttur eykst þó hann minnki?

Þessi framámaður var jafnframt spurður hvað honum þætti um gjaldahækkanir ríkis og sveitarfélaga um áramótin sem rýra kaupmáttinn sem kjarasamningarnir áttu að tryggja. Svarið var:

„þessar gjaldahækkanir eru til að tryggja að opinber þjónusta haldi í við verðlag og því í samræmi við það sem byggt er á lífskjarasamningnum. Hér er ekki um raunhækkanir að ræða“. 

Þetta er kúnstugt svar því öllum launamönnum er ljóst að það er til lítils að fá launahækkun ef flest það sem á að kaupa fyrir launahækkunina hækkar í verði. Þá er launahækkunin til lítils og kjarabótin engin. Kaupmátturinn batnar ekki nema launin hækki en kostnaðurinn við að lifa haldist óbreyttur. Samkvæmt skilningi þessa frámámanns Vinstri grænna þá gildir þetta ekki um verðhækkanir hins opinbera. Einhvernveginn sér hann fyrir sér að hærri kostnaður við að framfleyta sér og sínum rýri samt ekki kjör launafólks af því að þetta eru kostnaðarhækkanir hins opinbera. Þetta er alveg ný túlkun á kaupmætti og hvernig kaupmáttur helst þrátt fyrir að dýrara sé að framfleyta sér.

Tekið skal fram að þessi framámaður Vinstri grænna er ekki talsmaður þeirra né var hann að tjá sig sem slíkur.

https://kjarninn.is/skodun/2020-01-06-veruleiki-vinstri-graenna/


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband