Færsluflokkur: Kjaramál

Auðlindaarðurinn - hver fær hann?

Fjármálaráðherra hefur tekið upp hugmynd um stofnun sérstaks auðlindasjóðs sem væri ekki hluti ríkissjóðs heldur skýrt afmarkaðir fjármunir í ríkisreikningi.  Einn mikilvægur munur er hins vegar á fyrri hugmyndum og hugmyndum fjármálaráðherra.  Fjármálaráðherra talar um „orkuauðlindasjóð“ á meðan fyrri hugmyndir gengu allar út á „auðlindasjóð“ sem tæki til arðsins af öllum auðlindum í þjóðareigu, fiskveiðiauðlindin ekki undanskilin. Fjármálaráðherra virðist ekki átta sig á að nákvæmlega sama gildir um orkuauðlindir og fiskveiðiauðlindir, þar verður til arður (hluti auðlindarentu)  sem ætti að skila til eigendanna, þjóðarinnar.  Draga mætti þá ályktun að fjármálaráðherrann telji fiskistofnana ekki vera auðlindir í eigu þjóðarinnar.

Auðlindir í stjórnarskrá.

Allt of lengi hefur dregist að ákvæði um þjóðareign á auðlindum fari inn í stjórnarskrá. Þjóðin hefur verið seinþreytt til vandræða og látið yfir sig ganga að fá að vinna við hagnýtingu auðlindanna í stað þess að fá arð af þeim einnig.  Þannig er því haldið fram að vinna við fiskvinnslu og vel launuð sjómannsstörf auk skattgreiðslna sjávarútvegsfyrirtækja  séu arðurinn sem þjóðin eigi að fá af auðlind sinni. 

Með sama hætti má stilla dæminu upp þannig að Íslendingar láti sér nægja að fá að vinna við að byggja virkjanir til að að framleiða raforku fyrir stóriðju og þurfi því ekki að fá neinn arð af raforkuframleiðslunni.  Í Noregi hefði þessi séríslenska auðlindastefna gengið út á að heimamenn fengju að byggja borpallana fyrir olífélögin en leyft þeim að hirða gróðann af framleiðslunni.

Hér verður þjóðin að grípa til sinna eigin ráða. Því var efnt til undirskriftasöfnunarinnar „þjóðareign.is“ til að koma í veg fyrir að hægt verði að úthluta fiskveiðikvótunum  til útgerðarmanna um alla framtíð.  Baráttunni er langt í frá lokið og því ástæða til að hvetja sem flesta til að fara inn á vefsíðuna „þjóðareign.is“ og skrifa þar undir.

Við heimtum aukavinnu. / Við heimtum ennþá meiri aukavinnu. / Því það er okkar æðsta sæla / að pæla og þræla og þræla / og þræla, fram í rauðan dauðan. / Ó, gefðu guð oss meira puð.  (Jónas Árnason)

http://www.visir.is/hvert-rennur-audlindaardurinn-/article/2015705089997


Þegar vonin hverfur

Það er mikil einföldun að halda að verkfall lækna hafi aðeins verið afmörkuð kjaradeila hóps sem vill sækja kjarabætur. Kjaradeila lækna var aðeins toppur ísjakans, birtingarmynd þess sem koma skal í hinu hægfara hnignandi hagkerfi Íslendinga. Hagkerfi sem líður fyrir forystuleysi og skort á framtíðarsýn fyrir samfélag sem þarf að keppa um að halda í hvern einasta einstakling, ekki aðeins lækna.

Landflótti menntaðs vinnuafls er staðreynd svo eðlilegast er horfa til þess hvað menntafólkið og aðrir sem kjósa að flytja til útlanda eru að sækjast eftir. Laun hljóta að vega þar þungt en afkoman ræðst af svo miklu fleiru en greiddum launum. Þar skipta önnur lífsgæði ekki síður máli s.s. frítími en ekki síst stöðugleiki, það að vita að hverju maður gengur í rekstri heimila og fyrirtækja.

Breytt nálgun

Stjórnlagaráð og endurskoðun stjórnarskrárinnar, loforð um innköllun fiskveiðikvóta og útleigu þeirra gegn sanngjörnu gjaldi, ESB-umsókn til að fá að vita hvort þar væri eftir einhverju að slægjast (leið sem nær allar nágrannaþjóðir okkar hafa farið), hugmyndir um að gera hlutina einfaldlega öðruvísi en gert var fyrir hrun, allt var þetta til þess fallið að skapa vonir um breytta tíma, breytta nálgun í samfélaginu þar sem þjóðin sjálf fengi einhverju ráðið, milliliðalaust, en væri ekki eilífur leiksoppur helmingaskiptaflokkanna sem fengju óáreittir að ráðskast með þjóðina og eignir hennar. Hvernig til tókst er orðinn hluti af sögunni, hvernig sem okkur þykir að hafi verið að verki staðið.

Allar vonir af þessu tagi hurfu endanlega á vordögum 2013 og það frumlegasta sem nýjum stjórnvöldum datt í hug voru ný helmingaskipti og reyna að vinda ofan af sem flestu sem reynt hafði verið að gera kjörtímabilið á undan. Reyna einfaldlega að færa klukkuna aftur til þess tíma er þeir réðu lögum og lofum á árunum fyrir hrun. Um leið tóku þeir í burtu vonina um breytta tíma. Þetta er almenningi nú orðið ljóst og þá fer fólk að hugsa sér til hreyfings í meira mæli en áður.


Sjávarútvegurinn- leigjandinn sem neitar að fara.

Í kjölfar hrunsins þurfti kunningjafólk mitt að flytja til Noregs til að þreifa fyrir sér með vinnu. Skömmu áður höfðu þau keypt sér fjögurra herbergja íbúð í Seljahverfi, sem þau báðu mig að sjá um útleigu á, á meðan þau væru í Noregi. Ég leigði íbúðina prýðis manni sem bauð af sér góðan þokka og hann greiddi fúslega uppsetta leigu sem ég ákvað að hafa í lægri kantinum af því mér leist vel á manninn. Upp á síðkastið er hann hins vegar farinn að tala um hvort ég vilji ekki lækka við hann leiguna. Ég óttast að hann sé farinn að halla sér að flöskunni, allavega hefur hann minni auraráð og þess vegna finnst honum hann eigi alls ekki að þurfa að borga jafn mikið og áður.

Heimtar lækkaða leigu

Ég hef bent honum á að þar sem hann er einn í heimili ætti honum að nægja þriggja herbergja íbúð enda virðist greiðslugeta hans alveg ráða við það. Hann má ekki heyra á það minnst heldur krefur hann mig núna um að fá samning um íbúðina til 20 ára og hann væri e.t.v. reiðubúinn að greiða mér hærri leigu einhverntíma síðar ef úr málum rætist hjá honum. Svo bendir hann á eitthvað sem hann telur vera óljós ákvæði í upphaflega leigusamningnum, sem gæti hugsanlega kveðið á um að í raun og veru eigi hann íbúð vinafólks mín í Noregi, en ekki þau!

Nægir aðrir sem vilja leigja

Þetta er allt frekar erfitt fyrir mig þar sem ég veit af barnmörgum fjölskyldum sem mundu gjarnan vilja borga þá leigu, sem núverandi leigjandi er að greiða og meira til, ef ég aðeins losnaði við hann úr húsnæðinu. Á ég að lækka verðið á húsnæðinu, bara af því að hann vill ekki borga meira? Leigjandinn er farinn að minna mig óþyrmilega mikið á „freka kallinn“ sem Jón Gnarr hefur gert svo ágæt skil.

Gildir ekki sama um sjávarútveginn?

Dæmisagan hér að ofan getur gilt um samskipti þjóðarinnnar (eigenda íbúðarinnar) og þeirra sem nú eru kvótahafar íslensku fiskimiðanna (leigjandinn) en þeir vilja láta leiguna ráðast af því hvernig stendur á hjá þeim hverju sinni! Úti um allt land eru fiskverkendur og kvótalausar útgerðir sem bíða í röðum eftir að fá að bjóða í kvótann á jafnréttisgrundvelli. Hversvegna á þjóðin (eigandi fiskimiðanna) að sætta sig við að leigan á kvóta ráðist bara af greiðslugetu þeirra útgerðarmanna sem nú róa til fiskjar, en ekki því hvaða leigu væri hægt að fá, ef kvótinn væri boðinn til leigu á almennum markaði?

 


Hnignandi hagkerfi Íslendinga

Forstjóri Össurar, Jón Sigurðsson, Mbl. 6. nóv. 2014:

Hættan sem steðjar að Íslendingum er sú að hagvöxtur verði yfir lengri tíma minni á Íslandi en erlendis og að lífskjör dragist saman hægt og sígandi. Hættan er sú að þetta gerist svo hægt að við tökum ekki eftir því. Það eru ákveðin varúðarmerki þegar starfsstéttir hverfa úr landi sem geta farið og hinar verða eftir.

Bolli Héðinsson, hagfræðingur, Frbl. 5. nóv. 2014:

Kjaradeila lækna er aðeins birtingarmynd þess sem koma skal í hinu hægfara hnignandi hagkerfi Íslendinga. Hagkerfi sem líður fyrir forystuleysi og skort á framtíðarsýn fyrir samfélag sem þarf að keppa um hvern einasta einstakling, ekki aðeins lækna. Laun hljóta að vega þungt hjá því fólki sem flytur frá Íslandi en ekki síst að fá að búa við stöðugleika, það að vita að hverju maður gengur í rekstri heimila og fyrirtækja.

 

http://www.visir.is/thegar-vonin-hverfur/article/2014711059981

 


Svikalogn á Alþingi?

Aðferðin sem ríkisstjórnin ætlaði að nota til að draga aðildarumsókn Íslands að ESB til baka, ber ekki eingöngu vott um yfirgangssemi og flumbrugang, heldur ber hún einnig vott um það versta í íslenskri pólitík, sem er „sáuð þig hvernig ég tók hann“ - hugarfarið.  Þessi hugsun, að upphefja sjálfan sig en reyna að niðurlægja andstæðinginn í stað heiðarlegrar baráttu þar sem annar verður undir, gengur nú aftur í boði ríkisstjórnarinnar í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr.

Sáuð þið hvernig ég tók hann?

Mótstaðan gegn hátterni ríkisstjórnarinnar reyndist meiri en hún átti von á svo nú hefur verið skipt um taktík.  Í stað þess að keyra málið í gegn, áður en lokið var umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar (sbr. „sáuð þið hvernig ég tók hann“ aðferðina) eins og upphaflega stóð til, þá þykir nú ekkert tiltökumál að gefa málinu allan þann tíma sem það útheimtir í nefnd og umfjöllun innan þings sem utan. Skyndileg stefnubreyting vekur grunsemdir um hvort eitthvað annað en virðing fyrir eðlilegum starfsháttum Alþingis búi hér að baki.

Að mæla fagurt en hyggja flátt

Ég get mér til að ríkisstjórnin meti málin svo að það versta sem geti hent stjórnarflokkana úr þessu sé slæm útkoma úr sveitastjórnarkosningunum í maí. Það tap sé að mestu komið fram, og því verði að taka eins og hverju öðru hundsbiti. Nú sé heppilegra að „mæla fagurt en hyggja flátt“.  Fram að kosningunum muni talsmenn flokkanna því tala á þeim nótum að tillaga ríkisstjórnarinnar verði dregin til baka og efnt til þjóðaratkvæðis. Að afloknum kosningum í vor verði svo aftur farið á fullt, sagt að engu hafi verið lofað og aðildarviðræðunum við ESB slitið í trausti þess að þegar næst verði kosið til þings þá verði kjósendur búnir að gleyma framkomu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í þeirra garð. Viljum við trúa því að óreyndu að loforð gefin einstaklingi í Hádegismóum og öðrum á Sauðárkróki vegi þyngra en loforð sem fimm ráðherraefni Sjálfstæðisflokksins gefa alþjóð frammi fyrir sjónvarpsvélum kvöldið fyrir kjördag?


Þjóðinni haldið á snakki......

  Hægfara hnignandi hagkerfi

 

Til þess að koma vel menntuðu og hæfu vinnuafli í arðbær störf þarf nýsköpun og fjárfestingu.  Vegna smæðar íslenska hagkerfisins þurfum við erlenda fjárfestingu.  Fjárfesting í virkjunum og orkufrekum iðnaði hefur náð að skapa fjölbreyttara atvinnulíf, en þar er komið að endimörkum og alls ekki verjandi að stuðla að frekari atvinnusköpun á því sviði, nema þess hærra verð fáist fyrir orkuna.  

            Sú leið sem flestar nágrannaþjóða okkar hafa farið til að nýsköpunar og fjárfestingar er að leita eftir samvinnu við aðrar þjóðir og nægir þar að vísa til Dana, Íra, Svía og Finna auk Eystrasaltsþjóðanna, en um margt er staða íslenska hagkerfisins svipuð þeim aðstæðum sem þær glíma við.

Þessi einfalda staðreynd um gildi náinnar samvinnu við aðrar þjóðir hafa vinaþjóðir okkar áttað sig á og því er það þeim kappsmál að gerast fullgildir aðilar í samfélagi sjálfstæðra þjóða sem er beinlínis stofnað til þess að örva erlenda fjárfestingu og hagvöxt.  Þetta samfélag sjálfstæðra þjóða nefnist Evrópusambandið, ESB.  Þessi grundvallaratriði virðast gleymast í málflutningnum um mögulega aðild  Íslands að ESB og umræðan föst í heitstrengingum og brigslyrðum en ekki köldu stöðumati.

 

Er þeim treystandi fyrir fjöreggi þjóðarinnar?

 

Og í stað þess að gefa þjóðinni tækifæri á að fá að sjá samning við ESB þá lætur ríkisstjórnin röksemdafærsluna „...teljum að hagsmunum sé betur borgðið“ duga  í stað þess að staðreyna hvað er í boði.  -  Þannig fær lítill hópur einstaklinga sem „telur“ og „heldur“ að ráða fjöreggi þjóðarinnar.  Þessi litli hópur, sem telur sig einan vita, fær með þessum hætti að koma í veg fyrir að þjóðin geti staðreynt hvað henni stendur til boða í því samfélagi sjálfstæðra þjóða sem allar helstu nágranna- og vinaþjóðir okkar hafa kosið að taka þátt í. 

Á meðan er þjóðinni haldið á snakki um eitthvað sem kannski kann að koma einhverntíma í framtíðinni.  Eitthvað á borð við olíuvinnslu, skipaferðir í norðurhöfum, viðskipti við Kína o.sv.frv. án þess að það sé í nokkurri andstöðu við aðild okkar að ESB, eða geti skoðast sem valkostur við aðild. 

Gjaldeyrishöftin sem þjóðin býr við er ein mesta ógn sem stendur að íslensku efnahagslífi. Miðað við þá reynslu sem við höfum af sjálfstæðum gjaldmiðli þá ætti enginn að velkjast í vafa um að fyrst ekki tókst að varðveita verðgildi íslensku krónunnar í höftum á þeim 90 árum sem krónan hefur verið sjálfstæð mynt, þá er ljóst að án fjármagnshafta mun það alls ekki ganga.  Þetta ætti reynslan að hafa kennt okkur.  Sennilega yrði einn stærsti fjárhagslegi ávinningur Íslendinga við aðild að ESB fólginn í upptöku evrunnar og þó svo það verði ekki á næstu árum þá er ljóst að aðild, samhliða áætlun um upptöku evru, færi langt með að færa okkur kosti evru-aðildarinnar strax.

Um þá valkosti sem þjóðinni standa til boða fær hún aftur á móti ekki að segja sitt álit en þess í stað er henni boðið upp á málflutning manna sem láta nægja að segjast  „halda“ og „telja“ hvernig hagsmunum þjóðarinnar er best borgið.  Kannski hnignar hagkerfi okkar miklu hraðar en „hægfara“ ?

 

http://www.visir.is/haegfara-hnignandi-hagkerfi/article/2014701239981 


Gjöf til útgerðarmanna eða endurreisn Landspítalans.

Innan fáeinna vikna mun ríkisstjórnin ákveða að afhenda fámennum en valdamiklum hópi þjóðareign sem talin hefur verið að verðmæti allt að 45 milljarðar króna.  Fyrir þetta munu hinir fáeinu handvöldu einstaklingar, sem ríkisstjórnin telur að betur sé að þessu komnir en aðrir, greiða mála­myndagjald sem er aðeins hluti af því verðmæti sem afhent verður. Ríkisstjórnin deilir ekki um að hér er um ótvíræða eign þjóðarinnar að ræða en hyggst samt sem áður afhenda þessa þjóðareign velvildarmönnum sínum á silfurfati.  Ef eign þessi væri boðin til sölu á almennum markaði myndu fjármunirnir sem fyrir hana fást fara langt með að fjármagna endurreisn Landspítalans.

Eign sú sem hér um ræðir er makrílstofninn við Ísland. Ákvörðunin um að afhenda þessa eign fáeinum útvöldum mun verða borin á borð fyrir okkur sem afar flókið úrlausnaratriði sem aðeins sé hægt að leysa með því að afhenda hana útvöldum. Það er aftur á móti ekki svo.  Hér er um sáraeinfalda aðgerð að ræða, fiskistofn sem er nýr í lögsögunni og aðeins spurningin um hvort þjóðin eigi að fá sanngjarnt verð fyrir eign sína eða ekki.

Tveir vísindamenn, Þorkell Helgason og Jón Steinsson hafa sett fram heildstæða tillögu um hvernig bjóða má upp veiðirétt á makríl þannig að þjóðin og útgerðarmenn geti vel við unað. Eigendur makrílsins, þjóðin, fær hæsta mögulega verð fyrir eign sína og útgerðarmennirnir, fá afnotarétt af makrílstofninum til nægjanlega langs tíma til að byggja fjárfestingar sínar á.       

...þingmaður og svarið er?

Hér mun hefjast gamalkunnur söngur um fyrirtækin sem munu verða gjaldþrota, skatt á landsbyggðina o.fl.  Svörin við því eru, að aðeins þau fyrirtæki sem bjóða of hátt í veiðréttinn eiga á hættu að verða gjaldþrota og væntanlega eru útgerðarmenn ekki svo heillum horfnir að þeir bjóði umfram getu.  Ekki verður um skatt að ræða heldur aðeins innheimt fjárhæð, sem viðkomandi útgerð sér sér fært að bjóða, í frjálsu útboði. Veiðrétturinn greiðist af fyrirtækjunum sjálfum enda greiða landshlutar ekki skatta. Gera má ráð fyrir að flest fyrirtækin sem muni bjóða í makrílveiðina séu staðsett á höfuðborgarsvæðinu.

Næst þegar þið hittið þingmanninn ykkar spyrjið hann: „hvort viltu frekar gefa fáeinum útvöldum eign þjóðarinnar í stað þess að bjóða eignina til leigu á almennum markaði og nota andvirðið til að endurreisa Landsspítalann?“  Látið svarið sem þingmaðurinn gefur ykkur ráða því hvort þið kjósið hann aftur.


Forsetinn ræður örlögum veiðigjaldsins.

Forsetinn hefur það í hendi sér hvort hann vill veita ríkisstjórninni brautargengi til að rjúfa þá tilraun til sátta um veiðigjöld, sem tókst með gildandi lögum, með því að undirrita væntanlega lagabreytingu eða vísa henni til þjóðarinnar. 

Eftir góðar undirtektir almennings við undirskriftasöfnun gegn lækkun veiðigjalda hefur farið í gang gamalkunnur hræðsluáróður um útgerðarfyrirtæki sem munu leggja upp laupana og sveitarfélög sem munu sjá á eftir tekjum, ef óbreytt veiðigjöld verða innheimt.  Við hræðsluáróðri af þessu tagi eru einföld svör.  Á meðan útgerðirnar, sem telja sig bera skarðan hlut frá borði, eru ekki reiðubúnar að opna bókhald sitt og sýna okkur svart á hvítu hvernig þeir komast að þeirri niðurstöðu að veiðigjaldið muni ríða þeim á fullu þá er ekki ástæða til að leggja trúnað á yfirlýsingar þeirra.  Ef sveitarfélög telja sig verða af tekjum vegna veiðigjalds þá eiga þau að gera kröfu um hlutdeild í gjaldinu því heppilegast væri að veiðgjaldið rynni að stærstum hluta til sveitarfélaganna í landinu.

Ef ríkisstjórninni gengi það eitt til að lagfæra flókin útfærsluatriði á núverandi lögum, svo hægara verði að innheimta veiðigjöldin, þá myndi hún ekki samhliða leggja áherslu á að lækka gjaldið.  Ákafinn í að lækka gjaldið um milljarða á milljarða ofan færir okkur heim sanninn um að þeim gangi allt annað til en einföldun og lagfæringar.  

Eru veiðafærasalar að setja útgerðina á hausinn?

 

Veiðigjaldið sem samþykkt var gerði ráð fyrir álagningu gjalds sem innheimt yrði eins og hver annar kostnaður við aðföng útgerðar, kostnaður sem yrði að standa skil á líkt og kostnað við t.d. veiðarfæri.  Þessu vill núverandi ríkisstjórn breyta og láta gjaldið taka mið af afkomu fyrirtækjanna. Slíkt þarf veiðarfærasalinn ekki að sætta sig við, útgerðin verður að standa skil á uppsettu verði fyrir netin alveg óháð því hver reiknuð afkoma útgerðarinnar er. Samt vill ríkisstjórnin að eigendur fiskimiðanna, þjóðin, þurfi að sætta sig við að fá því aðeins greitt fyrir afnotaréttinn ef útgerðirnarnar sýna hagnað. Reynslan hefur kennt okkur að útgerðum er í lófa lagið að sýna lítinn hagnað eða tap af rekstri, ef þeim sýnist svo.   veidigjald.is

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband