Færsluflokkur: Kjaramál

Íslensku trixin II

Kjararáð kvað upp úrskurði sem juku mjög á ósætti landsmanna. Hvernig var brugðist við? Fyrst var Kjararáði falið að kveða upp úrskurði um færri embættismenn en áður og síðan var Kjararáð lagt niður. Hverju skilaði þetta íslenska trix? Fyrri aðgerðin, að fækka embættismönnum sem heyrðu undir ráðið, leiddi til enn meiri launahækkana þeirra þrátt fyrir eindregnar viðvaranir þáverandi fjármálaráðherra. Síðari aðgerðin skilar auðu þar sem ekki hefur verið afráðið hvernig hátti launaákvörðunum til embættismanna í framtíðinni.

Stjórnvöld virðast úti á þekju og halda að viðfangsefni sitt í komandi kjaraviðræðum séu einfaldar prósentuhækkanir launa á meðan viðfangsefnið er enn, tíu árum síðar, að sameina sundraða þjóð, freista þess að ná sátt í samfélaginu og græða það holundarsár sem hrunið skildi eftir á þjóðarsálinni.

Ábyrgðin er stjórnvalda og Samtaka atvinnulífsins

Stjórnvöld, auk Samtaka atvinnulífsins (SA) tala fjálglega um lítið svigrúm til launahækkana en eru sjálf þeir aðilar sem bera mesta ábyrgð á þeirri úlfúð í samfélaginu sem ríkir um kjaramál. Stjórnvöld hafa enn ekki hreyft litla fingur til að vinda ofan af úrskurði Kjararáðs. SA skipa helming allra stjórnarsæta almennu lífeyrissjóðanna og gætu því sem hægast haft forgöngu um að stöðva það höfrungahlaup gengdarlausra yfirborgana í fyrirtækjunum sem lífeyrissjóðirnir eiga, sem eru flest stærri fyrirtækja á Íslandi.

Hugmyndin að baki einhverskonar kjararáði er ekki alslæm. Útfærsla hugmyndarinnir var það sem brást og forsendurnar sem lágu að baki. Í sjálfu sér er það þarft að í samfélaginu sé til „apparat“ sem geti borið saman laun m.t.t. ábyrgðar, vinnutíma og annars sem máli skiptir við ákvörðun launa. Lífeyrissjóðirnir hefðu getað vísað til slíkrar stofnunar ákvörðunum um laun í fyrirtækjunum sem þeir stjórna og þannig hindrað höfrungahlaup stjórnendanna. En það gerðu þeir ekki.

Allt frá hruni hefur SA ekki nýtt samtakamátt sinn til að standa gegn ofurlaunum þrátt fyrir viðvaranir þar um og að augljóst væri í hvað stefndi.  - Því skyldi almenningur taka mark á málflutningi þessa fólks?

 

https://www.frettabladid.is/skodun/islensku-trixin-ii

 


ÍSLENSKU TRIXIN

Það er e.t.v. að bera í bakkafullan lækinn að vitna í fleyg orð Laxness um að Íslendingar „ ... verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er kjarna máls“ en því miður eiga þau allt of oft við. Nýleg dæmi um þetta opinberuðust okkur á vordögum.

Æskilegt væri að þurfa ekki að styðjast við vísitölu þegar lán eru tekin t.d. til húsnæðiskaupa. Þannig er þessu háttað í nágrannalöndum okkar. Hvað hefur mönnum helst hafa dottið í hug til að breyta þessu? Jú, að banna vísitölutryggingu. Í þeirri umræðu er aldrei minnst á að slíkt bann tæki ekki til þegar tekinna lána svo hér yrði aðeins um bann við vísitölutryggðum lánum til framtíðar.

Verðbólguálag umfram verðbólgu

Ef af banninnu yrði hvernig skyldi þá verða háttað vöxtum á lánum framtíðarinnar? Í ljósi harmsögu íslensku krónunnar, sem er nú innan við hálft prósent af verðgildi dönsku krónunnar, sem hún var á pari við þegar leiðir þeirra skildu fyrir um 95 árum, er nokkuð ljóst að lánveitendur teldu sig þurfa einhverskonar tryggingu fyrir virðisrýrnun krónunnar.

Líklegast er að lánveitendur reyni að áætla verðbólgu og miða vexti við það. Svo mundu þeir telja sig þurfa að hafa borð fyrir báru vegna óvissu um áætlaða verðbólgu og bæta því ofan á vextina. Afar hæpið er að útkoman verði lántakandanum hagstæð frekar að fjármagnskostnaður muni hækka. Enda sýnir það sig að vinsælustu lán til húsnæðiskaupa eru verðtryggð lán, með kostum þeirra og göllum, þó svo að óverðtryggð lán séu í boði.

Í umræðunni er aldrei minnst á að allt tengist þetta íslensku krónunni, örmynt, útgefinni af örlítilli þjóð og hvergi gjaldgeng utan landsteinanna. Þar er sama hvort í hlut eiga samtök atvinnulífs (sem virðast eiga í trúnaðarsambandi við söfnuð sem sér flestu til foráttu sem kemur utanlands frá) eða vígreifir forystumenn einstakra verkalýðsfélaga sem einnig koma sér hjá að tala um kjarna máls, fílinn í stofunni, íslensku krónuna og áhrif hennar á afkomu fjölskyldna og fyrirtækja. 

http://www.visir.is/g/2018180629191/islensku-trixin-

 


Stærstu útgerðirnar fá mest

Frumvarp þetta er sett fram til að berja í bresti kerfis sem hefur aldrei þjónað þeim tilgangi að skila réttmætum hluta auðlindaarðsins til eiganda fiskimiðanna, þjóðarinnar allrar. Hér hefur verið búið út ógegnsætt flókið kerfi sem þarfnast stöðugra við­bóta og nýrra útfærslna þó margsinnis hafi verið bent á aðrar leiðir sem þjónað geta sama til­gangi mun betur.

Hin augljósa niðurstaða veiðigjaldafrumvarpsins er sú að þegar öll gjöld eru lækkuð skilar sér mest til þeirra stærstu þó reynt sé að telja fólki trú um að aðgerðin sé fyrst og fremst hugsuð til að bæta hag lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Til að koma til móts við rekstur þeirra fyrirtækja sem kunna að eiga í erfiðleikum eru til aðrar mun ein­faldari aðgerðir sem þurfa ekki jafnframt að fela í sér eftirgjöf til allra útgerða, stórra og smárra.

Yfirlýstur tilgangur frumvarpsins er að bæta hag smærri og meðalstórra útgerða. Til að sýna fram á hinn yfirlýsta vilja þá þyrfti að setja fram í töflu öll sjávarútvegsfyrirtæki í landinu. Innan hvers fyrir­tækis yrði að koma fram hvað hvert og eitt þeirra aflaði af hinum nafn­greindu fisk­teg­undum frumvarpsins á síðasta heila fiskveiðiári (2016-2017) margfaldað með kr. á kg sam­kvæmt fyrri tilhögun. 

Síðan þyrfti að margfalda þetta sama magn aftur með þeim fjárhæðum sem frum­varpið gerir ráð fyrir.  Með slíkum samanburði sæist hvaða fyrirtæki væru að borga meira og hvaða fyrirtæki væru að borga minna og þá fyrst væru komnar for­sendur til að segja til um hvort verið væri að hygla litlum og meðalstórum fyrirtækjum eða frekar hinum stærri. Uppsetning slíkrar töflu ætti að vera lítið mál m.v. fyrirliggjandi upp­lýs­ingar hjá Fiski­stofu og ráðuneytinu en slík framsetning er einfaldlega forsenda þess að hægt sé að full­yrða að þetta sé gert í þágu lítilla og meðalstórra útgerða.

Byggðasjónarmið

Við jafn mikilvæga ákvörðun og hér er stefnt að þá hlýtur fyrst og fremst að verða að horfa til afkomu sjávarútvegsins sem atvinnugreinar. Um leið og farið er að blanda byggða­sjónar­­miðum inn í umræðuna þá er ekki lengur verið að horfa á sjávar­út­veginn sem atvinnu­grein heldur er honum ætlað annað hlutverk út frá byggða­sjónar­miði. Þegar það er gert þá færist gjaldtaka í sjávarútvegi niður í lægsta sam­­nefn­ara svo þeim sem lakast standa verði bjargað. En það þýðir jafnframt að þar sem rekstur­inn gengur vel, að þar verður til hagnaður langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

Hér er alls ekki gert lítið úr byggðasjónarmiðum sem eiga fyllsta rétt á sér. Þegar þurfa þykir mætti t.d. styrkja fyrirtæki í hinum brothættu byggðum með beinum fjár­fram­­lögum í stað þess að miða alla gjaldtöku í greininni við rekstur þeirra fyrirtækja sem lakast standa. Þannig gæti gjaldtakan samkvæmt veiði­gjalda­frum­varp­inu runnið að drjúgum hluta til að styðja við fyrirtæki sem illa væri komið fyrir og yrði það gert samkvæmt fyrir­fram mótaðri byggða­stefnu.

Opnir ársreikningar

Þegar fyrrgreindur samanburður hefur verið gerður á gjöldunum sem útgerðir greiða fyrir laga­breytingu og eftir hana þá er ástæða til að skoða reikninga ein­stakra út­gerða. Ef kostnaður lítilla og meðalstórra útgerða hefur aukist þá þarf að opna bók­hald þeirra, til að kanna af hvaða völdum það er, áður en komið er til móts við þau með einum eða öðrum hætti af hálfu hins opinbera. Í litlum og meðal­stórum fyrir­tækjum getur óhófleg launa­hækkun til forstjóra og stjórnenda vegið þungt í af­komu fyrirtækisins. Einnig ef fyrir­tækið hefur t.d. freistast til að kaupa dýra bifreið undir for­stjórann þá sér þess stað í verri afkomu að ekki sé minnst á arðgreiðslur sem kunna að hafa veri umfram það sem fyrirtækið ber.

Því aðeins að fyrirtækin verði reiðubún að sýna ársreikninga sína ættu þau að fá notið nokkurra ívilnana því það er varla tilgangur veiðgjaldafrumvarpsins að auð­velda ein­stökum fyrirtækjum að auka á óhóf í rekstri þeirra.

Skattaspor

Eitt af því sem greinargerð frumvarpsins gerir að umfjöllunarefni er hið svokallaða „skattaspor“ íslensks sjávarútvegs. Þessu hugtaki hefur verið beitt oftsinnis áður í þágu málstaðar þeirra sem nú gera út á Íslandsmiðum og sækja í sameign þjóðar­innar. Þá eru talin upp þau opinberu gjöld sem fyrirtækin greiða, að mestu skattar og gjöld sem öll fyrirtæki á Íslandi greiða, sjávarútvegsfyrirtæki sem og önnur fyrirtæki.

Vegna umfangs sjávarútvegsins í landsframleiðslunni þá eru þetta háar fjárhæðir og sér Deloitte og hagsmunasamtök útgerðanna um að tíunda þetta reglulega eins og að hér sé um einhverskonar ölmusu að ræða sem sjávarútvegurinn af góðsemi einni saman greiðir í ríkissjóð.

En „skattaspor“ má skoða með ýmsu móti. Þannig má til sanns vegar færa að „skatta­spor“ hjóna með tvö börn á skólaaldri sé hlutfallslega stærra heldur en „skattaspor“ sjávar­útvegsins. Hjónin þurfa að greiða beina skatta af launum sínum auk óbeinna skatta af öllum keyptum vörum til heimilisins til að fæða og klæða börn sín og þau sjálf. Hlutfallslegur kostnaður þeirra af opinberum gjöldum er síst minni heldur en sá kostnaður sem sjávaútvegurinn greiðir hinu opinbera.

Gallaðar aðferðir

Ljóst má vera að sú aðferð sem notuð er til að láta eiganda fiskveiðiauðlindarinnar, þjóðina, njóta arðsins af auðlindinni er meingölluð. Um það eru flestir sammála. Það eitt ætti að nægja til þess að leitað yrði annarra og nýstárlegri leiða til að sneiða hjá vandræðagangi sem þeim frumvarp þetta ber vott um.

Nokkuð er vitnað til endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte og talna sem frá þeim koma en hafa verður í huga að greiðslur sjávarútvegsfyrirtækja til Deloitte nema tugum milljóna á ári hverju og hafa gert í mörgt ár og er sjávarúvegurinn sem heild einstaki mikil­vægasti viðskiptamaður Deloitte á Íslandi.

Taka verður undir niðurlag 4. kafla greinargerðar með lagafrumvarpinu þar sem segir:

„Samantekið má segja að gæta verði þess að veiðigjald verði sanngjarnt en í því felst ekki síst að líta eftir fremsta megni til bestu upplýsinga hverju sinni um rekstrarafkomu og greiðslugetu sjávarútvegsfyrirtækja.“  

Þetta eru orð að sönnu. Fyrst mikið er vitnað til Deloitte í greinargerðinni væri ekki úr vegi að fá sérfræðinga Deloitte til að upplýsa hvernig þeir myndu í ljósi sinnar sér­fræði­þekkingar og menntunar leysa þetta vandamál sem lýtur að innheimtu gjalds af tak­markaðri auðlind og hér hefur verið lýst.  Svar þeirra þyrfti að byggjast á hreinskilni og mætti ekki vera markað því að þeir eiga stærstan hluta afkomu sinnar undir þjónustu við sjávar­útvegs­fyrirtækin.   


„Leiðréttingin“ og húsnæðismálin

Hvað gerir vel stætt fólk sem horfir á fasteignir sínar hækka í verði langt umfram verðbólgu og fær svo skyndilega lækkaðar skuldir sínar, nánast eins og  peninga sem ríkið færir þeim að gjöf?  Þeir sem fá verulega fjárhæð fellda niður nota aukið ráðstöfunarfé til að kaupa sér litla íbúð til útleigu enda fáir aðrir möguleikar í boði til að ávaxta fé. Þeir sem fá heldur minna leggja peningana í sjóði fasteignafyrirtækja eins og Gamma sem svo kaupa íbúðir til útleigu. 

Þetta er í hnotskurn niðurstaða bróðurparts „Leiðréttingarinnar“ sem er það afrek sem Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og forystusveit Miðflokksins guma af, þegar þeir greiddu hinum hærra launaða helmingi þjóðarinnar 86% „Leiðréttingarinnar“ beint úr ríkissjóði. Þriðjungur upphæðarinnar rann til 10% hinna hæst launuðu. Um þetta má allt lesa í skýrslu sem formaður Sjálfstæðisflokksins hafði ekki hugrekki til að koma fram með og sýna kjósendum fyrir þarsíðustu Alþingiskosningar.

Ungu fólki ýtt út af markaðnum

Afleiðingarnar, hækkun húsnæðisverðs, voru algjörlega fyrirséðar. Ungt fólk sem vildi kaupa sér íbúð á viðráðanlegu verði var nú farið að keppa um kaup á slíkum íbúðum við aðila sem höfðu úr nægu fé að spila eftir að „Leiðréttingin“ var greidd út. Á sama tíma jókst eftirspurn eftir leiguhúsnæði umfram það sem áður hafði þekkst vegna AirBnb. Það síðan hvatti þá sem höfðu peninga aflögu til enn frekari íbúðakaupa svo það var ekki aðeins á kaupendamarkaði sem ungu fólki var ýtt út heldur einnig á leigumarkaði þegar húsaleiga rauk upp úr öllu valdi. Þessi skuggahlið „Leiðréttingarinnar“ hefur aðeins aukið á vandann sem var fyrir í kjölfar hrunsins þegar fjöldi byggingaverktaka lögðu upp laupana eða sögðu sig frá verkum.

Forréttindahópurinn sem Sjálfstæðis-, Framsóknar- og forystusveit Miðflokksins ákváðu að gera svo vel við hefur nú fengið hækkunina, sem varð á áhvílandi húsnæðislánum þeirra í hruninu bætta í tvígang, bæði með framlagi úr ríkissjóði og svo hefur húsnæði þeirra hækkað í verði svo verðmætaukning þess er langt umfram hækkanirnar sem urðu á lánunum.

http://www.visir.is/g/2018180519056/-leidrettingin-og-husnaedismalin-

 


Fær útgerðin að skjóta undan „vörslugjöldum“?

Þá er það orðið ljóst hver er hinn raunverulegi tilgangur myndunar ríkisstjórnarinnar. Það er lækkun veiðigjalda. Núverandi innheimta veiðigjaldsins tekur mið af afkomu útgerðarinnar þegar búið er að gera upp afkomuna frá því tveimur árum áður. Vel reknar útgerðir hafa búið sig undir þessa greiðslu vitandi að þeim ber að standa skil á henni. Eigi að lækka greiðslurnar sem stofnuðust fyrir tveimur árum, væri verið að hafa af þjóðinni þann hluta auðlindaarðsins sem útgerðirnar fengu að njóta til fulls þegar vel áraði en þjóðinni sagt hún fengi síðar. Útgerðirnar fengu einfaldlega greiðslufrest (áþekkt „vörslu-skatti“) á þeim hluta arðsins sem á að koma í hlut þjóðarinnar. Þennan greiðslufrest á nú að nota til að hlunnfara þjóðina um þann „rausnarlega“ hlut auðlindaarðsins sem henni er ætlað af auðlind sinni.

Hámörkun auðlindaarðsins

Eina spurningin sem stjórmálamenn ættu að reyna að svara er spurningin um hvernig tryggt sé að þjóðin fái sem mest fyrir sjávarauðlindina þannig að mestu fé megi veita til byggðastyrkja, örorkubóta, lífeyrisþega, vegaframkvæmda, heilbrigðismála, skólanna o.sv.frv.? Stjórmálamenn sem eiga ekki svar við þessari spurningu skila auðu.

Hugmyndin að breyttum veiðigjöldum núna ber með sér að stjórnmálamenn hafa enn ekki áttað sig á að veiðgjaldið er ekki skattur heldur einfaldlega kaup aðfanga til að geta haldið til veiða. Skattur er aftur á móti greiddur eftir almennum reglum. Mér vitanlega spyrja olíufélögin ekki útgerðirnar áður en þau afhenda þeim olíu sem hvort þau eigi fjármuni aflögu áður en þeim er afhent olían.

Þó illa gangi hjá einhverjum fyrirtækjum í sjávarútvegi og slíkt gæti hugsanlega leitt til byggðaröskunar þá er ekki hægt að leggja það á heila atvinnugrein að snúa því við. Hægt er að bregðast við byggðaröskun með byggðastyrkjum sem geta m.a. falið í sér styrk til einstakra sjávarútvegsfyritækja í brothættum byggðum en ekki aðgerðum sem taka til atvinnugreinarinnar í heild. Einfaldasta afkomutenging sjávarútvegs er útboð aflaheimilda til nokkurra ára í senn því engin útgerð býður hærra en fjárhagur hennar leyfir.

http://www.visir.is/g/2018180119063/faer-utgerdin-ad-skjota-undan-vorslugjoldum-


Banki sem veitustofnun almennings

Um allan heim eru bankar til sölu. Eins og málum háttar í hagkerfi heimsins þá er eftirspurn eftir bönkum lítil. En allt selst ef verðið er nógu lágt og það gildir einnig um íslensku bankana. Því er ekki óeðlilegt að efasemdir séu uppi um tilgang þeirra „hrægammasjóða“ sem nú eru líklegir kaupendur að íslensku viðskiptabönkunum að ekki sér minnst á hæfi þeirra til að reka banka.

Í sinni einföldustu mynd gegna bankar því hlutverki að vera greiðslumiðlun annars vegar og taka á móti innlánum og lána út fé hins vegar. Greiðslumiðlunin verður sífellt einfaldari með aukinn tækni og fer nú orðið að mestu fram án þess að starfsmenn banka komi þar nærri, nema með óbeinum hætti. Því er það kjörið tækifæri nú að skipta t.d. öðrum ríkisbankanum í tvennt, líta á greiðslumiðlunina eins og hverja aðra veitustofnun á vegum hins opinbera, skilja aðra starfsemi bankans frá og sameina hana öðrum banka. Þá væri með greiðslumiðlunarhlutanum kominn sá „þjóðarbanki“ sem sinnti grunnþörf almennings fyrir greiðsluþjónustu sem er sú bankaþjónusta sem allir þurfa.

Einstakt tækifæri

Hinn áhrifamikli hagfræðingur og dálkahöfundur Financial Times, John Kay hefur boðað þetta sama þar sem hann segir í bók sinni „Other peoples money“: 

„Greiðslukerfið er hluti þjónustunetsins, sem hnýtt er saman af rafveitu, fjarskiptakerfi og vatnsveitu, og heldur uppi félags- og efnahagslegri starfsemi“

Þessi hugmynd kemur einnig heim og saman við hugmyndir fjármálaráðherra um seðlalaust samfélag en hugmyndin að baki því er að fækka möguleikum til undanskota frá skatti. Einnig er tækifærið núna á meðan bankakerfið er meira og minna í eigu ríkisins.  Með „þjóðarbankanum“ væri ekki hægt að þröngva almenningi til að eiga viðskipti við einstaka banka og greiða þar færslugjöld og kostnað. Öllum stæði til boða heimabanki og greiðslukort sér að kostnaðarlausu í banka þjóðarinnar. Bankinn gæti rekið sig á vöxtum Seðlabankans þar sem innlán þjóðarbankans yrðu varðveitt. Þeir sem eiga fé aflögu og vilja leita hærri innlánsvaxta yrðu að fara með þær fjárhæðir annað. Útlánum yrði eins og áður sinnt af annars konar bönkum og lánastofnunum.

http://www.visir.is/banki-sem-veitustofnun-almennings/article/2017170308859

 


Að elska að hata Samfylkinguna

Afar vinsælt er að finna Samfylkingunni flest til foráttu og kenna henni um flest það sem aflaga fór í síðustu ríkisstjórn og fyrir að hafa ekki leiðrétt allt það ranglæti sem þjóðin hefur verið beitt undanfarna áratugi. Hvort heldur það er -ný stjórnarskrá, -innköllun aflaheimilda, -endurreisn heilbrigðiskerfisins svo aðeins fátt eitt sé talið.

Merkilegt er að engu er líkara en margir þeir sem elska að andskotast út í flokkinn fyrir að hafa „brugðist“ t.d. í stjórnarskrármálinu eða innköllun kvótans virðast gjarnan vera aðilar sem vilja alls ekki nýja stjórnarskrá og engar breytingar á fiskveiðistjórninni, svo undarlega sem það kann að hljóma. Hér mætti t.d. nefna „Virkur í athugasemdum“ en hann er mjög áfram um „svik“ Samfylkingarinnar í stóru sem smáu.

Vinstri, hægri, græn, blá.

Spyrja má hvar eigi að staðsetja Samfylkinguna á hefðbundnum vinstri/hægri – skala og þá jafnvel út frá því hvar aðrir flokkar hafa kosið að staðsetja sig. Hér skulu tilgreind nokkur dæmi.

  • Er það „vinstri“ að halda uppi matvælaverði til almennings með því að hamla innflutningi kjúklinga- og svínakjöts í samkeppni við „innlenda“ framleiðendur með lögheimili á Tortóla?
  • Hvað er „grænt“ við það að greiða fyrir landgræðslu sem sauðfé fær svo óáreitt að bíta þannig að síðan sé hægt að borga aftur meðgjöf með útflutningi þess sama kjöts? (Eins og prófessor við Landbúnaðarháskólann hefur rakið í nokkrum blaðagreinum http://www.visir.is/storslysalegur-samningur/article/2016160529251)
  • Hvað er „vinstri“ við að festa í lög eina mjólkursamsölu í stað þess láta nægja að tryggja að allir bændur sitji við sama borð við söfnun mjólkur til einstakra úrvinnslustöðva?

Nú vill svo til að þessi þrjú ofangreindu tilvik eru öll einmitt stefna Sjálfstæðisflokksins og fleiri flokka í landbúnaðarmálum en spurningin er, eru þau samt til vinstri? Bændur eiga vísan stuðning allra flokka en það er ekki sama hvernig fjármunum til þeirra er varið hvort halda eigi þeim í fátæktargildru næsta áratuginn eða stokka upp kerfið.

Útboð fiskveiðikvóta – vinstri/hægri?

Er eitthvað til „vinstri“ við það að neita að láta bjóða í fiskveiðikvóta svo að þjóðin hagnist sem mest á eign sinni? (Ef svo ólíklega vildi til að eitthvert byggðarlag kæmi verr út þá væri hægur vandi að vinna í því með þeim fjármunum sem fengjust úr útboðinu.) Er þessi afstaða vinstri eða hægri? Þetta er einmitt einnig stefna Sjálfstæðisflokksins og fleiri flokka, að koma í veg fyrir að þjóðin fái fullt gjald fyrir afnot útgerðarinnar af auðlind í þjóðareigu.

          Þessi fáeinu dæmi gætu varpað ljósi á hvaða flokkar eiga samleið þegar um stærstu mál þjóðarinnar og afkomu almennings er að ræða. Hér er ekki alveg einfalt að nota hina hefðbundu mælikvarða á stjórnmálaflokkana og mun rökréttara er að bregða kvarðanum „standa flokkarnir með hagsmunum almennings gegn sérhagsmunum?“

http://www.visir.is/ad-elska-ad-hata-samfylkinguna/article/2016160609862

 


Vilja lífeyrissjóðirnir bara eignast bankana? Á engin uppstokkun að eiga sér þar stað?

Hvort á ríkið eða lífeyrissjóðirnir að eiga banka? Kannski að bæði ríkið og lífeyrissjóðirnir ættu að eiga þá í sameiningu? Stjórnvöld hafa heimild til að selja hluti ríkisins í bönkunum og stefna að því ótrauð. Einhverjir vilja að ríkið eigi banka svo hægt sé að lækka vexti, en vextir ráðast af hagstjórn og aðstæðum í efnahagslífinu en ekki því hverjir eiga bankana. Það er borin von að vextir verði eins og í nágrannalöndum okkar á meðan við höfum íslenska krónu. Það hefur 90 ára harmsaga krónunnar kennt okkur.

Bónusar í bönkum eru á kostnað og ábyrgð ríkisins

Hegðan starfsmanna bankanna þegar Borgun og Síminn voru seld hefur sýnt fram á að þeir silkihanskar sem voru notaðir við endurreisn bankanna voru mikil mistök. Ráðamenn bankanna virðast ekki átta sig á þætti þeirra í hruninu og að þar þurfi nýjar hugmyndir og allt önnur viðhorf að ráða en var fyrir hrun. Ein arfleifð hrunsins er að menn hafa talið sér trú um að laun og kjör yfirmanna í bönkum lúti öðrum lögmálum heldur en í fyrirtækjum yfirleitt. Þá gleymist að bónusar og há laun geta lækkað arðgreiðslur til eigendanna hvort sem það eru lífeyrissjóðir eða ríkið.

Ef ríkið og/eða lífeyrissjóðirnir ættu bankana væri þeim í lófa lagið að ná bönkunum niður á jörðina í launamálum. Það getur ríkið gert með því einu að gera bönkunum ljóst að ef þeir fylgja ekki markaðri launastefnu ríkisins þá njóti viðkomandi banki ekki baktryggingar ríkisins á innlánum. Frammi fyrir því vali eiga bankarnir engan annan kost en gangast inn á skilmála ríkisins.

Spyrja lífeyrissjóðirnir „hvað gerðir þú í hruninu?“

Lífeyrissjóðirnir sem eru í eigu íslenskra launamanna eiga stóra hluti og jafnvel meirihluta í stórum og smáum fyrirtækjum hér á landi. Samt sem áður hafa lífeyrissjóðirnir ekki komið sér saman um samræmt launakerfi í þeim fyrirtækjum sem þeir gætu í sameiningu ráðið hvernig launum og bónusum væri háttað.

Einnig hafa lífeyrissjóðirnir ekki heldur séð ástæðu til að spyrja þá sem sjóðirnir hafa ráðið til að stjórna fyrirtækjunum hvað þeir höfðust að í hruninu. Voru þeir e.t.v. gerendur í gjaldþrotum sem svo leiddu til tugmilljarða tjóns sjóðanna þó svo þeir hafi ekki verið sóttir til saka? Er sérstök ástæða hjá sjóðunum til að gera þessum einstaklingum hátt undir höfði og spenna launakröfur í þeim fyrirtækjum og öðrum upp úr öllu valdi?

http://www.visir.is/til-hvers-ad-eiga-banka-/article/2016160208888

 


Heilbrigðiskerfið þarf á auðlindagjaldinu að halda

Uppfullur bræði hrópaði formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir fjórum árum á Alþingi „skiliði lyklunum“. Það að krefjast þess að einhver skili einhverju, ber með sér að sá hinn sami telji sig eiga það sem á að skila. Í þessu tilviki yfirráðum í stjórnarráðinu. Enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn ráðið Íslandi með setu í ríkisstjórn í 57 af þeim 72 árum sem Ísland hefur verið lýðveldi eða 80% lýðveldistímans. Er nokkur furða þó Sjálfstæðisflokkurinn telji sig eiga stjórnarráðið.

Hafi einhver verið í vafa um hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn krafðist lyklanna af þvílíkri ákefð þá kom það fljótlega í ljós. Þeir voru orðnir friðlausir yfir því að geta ekki lækkað auðlindagjald á útgerðarmönnum og með sölu Landsbankans á Borgun freistast margir til að álykta að þeir vilji hafa hönd í bagga um til hverra bönkunum og eignum þeirra er ráðstafað. Þegar salan á Borgun átti sér stað 2014 þá fór það fram hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins (http://www.visir.is/ups,-gerdi-thad-aftur-/article/2015151028924) og það er ekki fyrr en núna þegar almannarómur er orðinn nógu hávær að þeir taka undir hneykslunarorðin.

Auðlindagjald og heilbrigðiskerfið.

Stærstu viðfangsefni þeirra sem fara munu með völd á Íslandi á næstunni eru annars vegar hvort takast muni að koma á eðlilegu auðlindagjaldi, með útboði aflaheimilda, og hins vegar endurreisn opinbera heilbrigðiskerfisins. Þessi mál eru tengd að því leyti að útboð aflaheimilda er réttlætismál, að þjóðin fái fullt afgjald af auðlind sinni og ekki síður, að ráðstafa gjaldinu til sameiginlegra viðfangsefna. Nú er brýnasta verkefnið endurreisn heilbrigðiskerfisins.

Ekkert lært af hruninu.

Það er með ólíkindum að ekki skuli vera vilji hjá ráðamönnum þjóðarinnar til þess að læra af sögunni t.d. með því að láta rannsaka einkavæðingu bankanna eins og Alþingi hefur þegar samþykkt. Þess vegna mætti rannsaka bæði fyrri einkavæðinguna, þegar vildarvinum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks voru afhentir bankarnir og einnig þá síðari þegar þeir voru afhentir kröfuhöfum. Það virðist vera einbeittur vilji fjölda stjórnmálamanna að taka upp þráðinn frá því fyrir hrun eins og ekkert hafi í skorist. Í bönkunum iðka menn síðan það sem stjórnvöld hafa fyrir þeim og leyfa sér hegðan sem við héldum að hrunið hefði bundið endi á. - Þar gleymist að bankarnir eru ýmist í eigu eða reknir á ábyrgð ríkisins, almennings í landinu.

http://www.visir.is/lyklavoldin-fyrir-utgerdina-og-bankana/article/2016160209874

 


Þjóðarsáttin 1990 - þjóðarósættið 2015.

Ef það er er eitthvað eitt sem skiptir máli við gerð þjóðarsáttar þá er það traust. Traust milli launþegarhreyfingar og vinnuveitenda, traust á ríkisstjórn. Orð og efndir núverandi ríkisstjórnar frá því hún var mynduð hafa ekki beinlínis verið til þess fallin að auka á trúnað og traust. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa með grímulausari hætti en áður hefur sést, gengið á bak orða sinna og er þjóðin þó ýmsu vön. Hvað sem mönnum kann að finnast t.d. um aðild að ESB eða framhald aðildarviðræðna þá dylst engum að jafn afdráttarlaus svik á kosningaloforðum hafa ekki sést hér á landi áður. Slíkt dregur úr trúverðugleika og setur tóninn um önnur mál þar sem mikilvægt er að ríkisstjórn hafi forystu um og þjóðin treysti. Orðræðan sem þjóðin hefur mátt búa við af hálfu ríkisstjórnarinnar er síðan ekki beinlínis til þess fallin að stuðla að sátt.

Forsendur sáttar.

Hverjar skyldu hafa verið forsendur þjóðarsáttarinnar 1990? Það var hægt að treysta því að ekki væri verið að hygla einum umfram annan, hvorki vinnuveitendur, ríkið eða aðrir. Ekki væri verið í feluleik með launahækkanir eða ríkisstjórn að gera vel við vildarvini sína með útdeilingu þjóðareigna.

Eftir vel heppnuð skemmdarverk á lokametrum síðustu ríkisstjórnar (m.a. við að uppfylla loforð Framsóknarflokksins um nýja stjórnarskrá) þá létu núverandi stjórnarflokkar kné fylgja kviði eftir mikinn kosningasigur sinn og hafa síðan reynt að nota þingstyrkinn til hins ítrasta til þess að reyna snúa klukkunni við og hverfa aftur til áranna þegar þeir réðu ríkjum fyrir 2007. Einnig skópu núverandi stjórnarflokkar fordæmin um málþófið í þingstörfum og hvernig halda eigi málum í gíslingu sem við sjáum nú endurtekið á „hinu háa“ Alþingi og er síst til fyrirmyndar.

Helsta vandamálið að mati stjórnarinnar er að þjóðin áttar sig ekki á að hér er að þeirra sögn allt í himnalagi. Þá eiga e.t.v. best við orð Bertholds Brecht frá 1953 eftir uppreisnartilraunina í Austur Þýskalandi, þegar hann ráðlagði ráðamönnum þar að fá sér nýja þjóð. Þetta gæti einnig verið ráð til íslensku ríkisstjórnarinnar 2015.

http://www.visir.is/thjodarsattin-1990---thjodarosaettid-2015/article/2015705279987


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband