HIN NÝJA STÉTT

Spurt er um land.  -  Landið er afar ríkt af auðlindum, þar eru framleiddar fleiri gígawattstundir af raforku á mann en á nokkrum öðrum stað á byggðu bóli. Landkostir eru miklir og hin síðari ár hefur fjöldi útlendinga sótt landið heim og fengið að njóta náttúru þess og samvista við innfædda í borg og bæjum. Fiskigengd við landið er gríðarleg og óvíða um veröldina landað jafn miklum fiski og þar.

Orkufyrirtækin og stóriðjuverin borga ekki sérstaklega fyrir hagnýtingu fallvatna og jarðhita til raforkuframleiðslunnar og talið nægja að þau borgi skatta og skyldur eins og hver önnur fyrirtæki. Þjóðin fær ekki greitt fyrir hverja framleidda gígawattsstund jafnvel þó því sé haldið fram á hátíðarstundum að hún eigi fallvötnin og hverina sem raforkan er framleidd úr. Þjóðinni sem þar býr er sagt að henni eigi að nægja að fá að byggja virkjanirnar og vinna í stóriðjuverum þegar þau eru síðan tekin í notkun.

Afraksturinn til þjóðarinnar

Ferðaþjónustan í landinu nýtur sérstaks skattaafsláttar í virðisaukaskatti og greiðir engin gjöld fyrir ferðamennina sem hún flytur  til landsins til að láta skoða náttúru þess. Samt er landið farið að láta verulega á sjá vegna ágangs þessara ferðamanna sem fá að skoða landið án nokkurar gjaldtöku.

Einnig er þjóðinni sagt að hún eigi að vera þakklát fyrir að fá skiprúm við að veiða fiskinn í hafinu og verka hann þegar honum hefur verið landað.  Sjávarútvegsfyrirtækin fá að veiða fiskinn gegn málamyndagjaldi þrátt fyrir ótvíræð lagaákvæði um að þjóðin eigi þennan fisk. Hagnaðurinn er síðan fluttur úr landi til fjarlægra eyja enda nota sjávarútvegsfyrirtækin annan gjaldmiðil en þjóðin, gjaldmiðil sem er gjaldgengur um allan heim öfugt við þann gjaldmiðil sem þjóðinni er gert að nota. Sá gjaldmiðill er hvergi annars staðar gjaldgengur í veröldinni og þeir sem vilja nota fjármuni erlendis þurfa að fá til þess sérstakt leyfi hjá yfirvöldum.

Orkufyrirtækin, stóriðjan og sjávarútvegsfyrirtækin nota ekki þennan gjaldmiðil heldur hafa þau fengið leyfi yfirvalda til að nota erlenda gjaldmiðla.  Nýverið kom í ljós að ráðamenn landsins og hafa einnig undanskilið sjálfa sig notkun þessa gjaldmiðils og kjósa frekar að varðveita eignir sínar í erlendum gjaldmiðlum.

Útlönd bara fyrir útvalda

Gjaldmiðillinn sem almenningi í landinu er gert að nota nýtist yfirvöldum þannig að þegar stjórnvöld og atvinnulífið hafa keyrt landið í þrot, sem hefur gerst reglulega í marga áratugi, þá er erlendur gjaldeyrir hækkaður í verði og almenningur verður að greiða hærra verð fyrir allar innfluttar vörur. Síðast þegar þetta gerðist hækkaði verð erlendra gjaldmiðla um tugi prósenta. Fyrir ráðamenn landsins, sjávarútvegsfyrirtækin, stóriðjuverin og orkufyrirtækin skiptir þetta engu máli því þessir aðilar nota ekki þennan gjaldmiðil.  

Allar tilraunir til að láta meira fé renna til sameiginlegra verkefni þjóðarinnar með gjaldtöku af auðlindum stranda á þeim stjórnmálaflokkum sem sjávarútvegsfyrirtækin styrkja ótæpilega.

Hvaða land er spurt um, hvert er landið

 

http://www.visir.is/hin-nyja-stett/article/2016160329693

 


Gætu nýir útgerðarmenn gert betur?

Útgerðin skilur ekki neitt í neinu, að ekki skuli vera búið að setja lög á verkfall sjómanna eða þá að ríkisvaldið skuli ekki vera fyrir löngu búið að lofa að liðka fyrir samningum með loforðum um skattaafslátt (sem þá leggur meiri byrðar á alla hina skattgreiðendurna sem ekki njóta afsláttarins). Forsætisráðherrann hefur sagt að lög verði ekki sett á verkfallið og fróðlegt verður að fylgjast með hvort hann standi við þau orð þegar þrýstingur á hann vex.

Verkfallið hefur með skýrum hætti dregið fram þá einu ábyrgð sem stjórnvöld bera í þessum efnum. Það er ábyrgðin á að auðlindin, sameign þjóðarinnar, sé nýtt þjóðinni allri til hagsbóta. Verkfallið hefur sýnt fram á vangetu núverandi kvótahafa til að sinna þessu verkefni sem ríkisvaldið fól þeim þegar þeir fengu úthlutað fiskveiðikvóta. Geti þeir ekki sinnt þessu eina verkefni, að nýta auðlindina, þá hljóta menn að spyrja sig hvort ekki sé rétt að gefa einhverjum öðrum tækifæri á að spreyta sig. Þar eru nægir um hituna; kvótalausar fiskvinnslur og dugandi einstaklingar um land allt sem fá ekki tækifæri vegna svimandi hárrar kvótaleigu sem borga þarf núverandi kvótahöfum og sem vonlaust er að leigja nema til skamms tíma í senn. 

Gefum fleirum tækifæri

Um langa hríð hefur verið bent á að einfaldasta leiðin til nýliðunar í hópi útgerðarmanna væri að þróa útboðsleið á kvóta þar sem t.d. 5-10% kvótans yrðu boðin út árlega. Um allan heim hafa verið þróaðar aðferðir við útboð af þessu tagi þar sem tryggð er nýliðun og takmarkanir settar við því að kvótarnir safnist á fárra hendur.  

Útboð aflaheimilda þar sem hluta fjármunanna sem koma inn yrði ráðstafað til byggðanna gæti reynst hinum minni sveitarfélögum mikilvægur tekjustofn. Nú verða þau mörg hver illilega fyrir barðinu á sjómannaverkfallinu. Útboð aflaheimilda var kosningaloforð nokkurra stjórnmálaflokka fyrir síðustu kosningar en loforðið vóg greinilega ekki nógu þungt í stefnuskrám flokkanna til að þeir sem reyndu stjórnarmyndun mynduðu ríkisstjórn um þetta réttlætismál þjóðarinnar. Þar voru önnur og léttvægari málefni látin ráða för.

Hoppað á vagn sundurlyndisins.

Svo ótrúlegt sem það kann að virðast þá eru til þeir stjórnmálamenn sem reyna að hagnýta sér verkfall sjómanna til að ala á sundrungu höfuðborgarsvæðisins og annarra landshluta!  Í því tilviki hafa þeir reynt að klína á höfuðborgina („þeir“) að höfuðborgarbúar hafi ekki áhyggjur af verkfallinu á meðan fólkið í byggðum landsins („við“) þjáist og að „vér einir vitum“ hversu mikið ófremdarástand hafi skapast.

Þetta kann að hljóma vel í eyrum einhverra kjósenda í kjördæmum þeirra stjórnmálamanna sem leggjast svo lágt en málefnalegt er það ekki og ber fyrst og fremst vott einkennilegu hugarfari þeirra sem það stunda.

http://www.visir.is/thurfum-vid-nyja-utgerdarmenn-/article/2017170208973

 


Að elska að hata Samfylkinguna

Afar vinsælt er að finna Samfylkingunni flest til foráttu og kenna henni um flest það sem aflaga fór í síðustu ríkisstjórn og fyrir að hafa ekki leiðrétt allt það ranglæti sem þjóðin hefur verið beitt undanfarna áratugi. Hvort heldur það er -ný stjórnarskrá, -innköllun aflaheimilda, -endurreisn heilbrigðiskerfisins svo aðeins fátt eitt sé talið.

Merkilegt er að engu er líkara en margir þeir sem elska að andskotast út í flokkinn fyrir að hafa „brugðist“ t.d. í stjórnarskrármálinu eða innköllun kvótans virðast gjarnan vera aðilar sem vilja alls ekki nýja stjórnarskrá og engar breytingar á fiskveiðistjórninni, svo undarlega sem það kann að hljóma. Hér mætti t.d. nefna „Virkur í athugasemdum“ en hann er mjög áfram um „svik“ Samfylkingarinnar í stóru sem smáu.

Vinstri, hægri, græn, blá.

Spyrja má hvar eigi að staðsetja Samfylkinguna á hefðbundnum vinstri/hægri – skala og þá jafnvel út frá því hvar aðrir flokkar hafa kosið að staðsetja sig. Hér skulu tilgreind nokkur dæmi.

  • Er það „vinstri“ að halda uppi matvælaverði til almennings með því að hamla innflutningi kjúklinga- og svínakjöts í samkeppni við „innlenda“ framleiðendur með lögheimili á Tortóla?
  • Hvað er „grænt“ við það að greiða fyrir landgræðslu sem sauðfé fær svo óáreitt að bíta þannig að síðan sé hægt að borga aftur meðgjöf með útflutningi þess sama kjöts? (Eins og prófessor við Landbúnaðarháskólann hefur rakið í nokkrum blaðagreinum http://www.visir.is/storslysalegur-samningur/article/2016160529251)
  • Hvað er „vinstri“ við að festa í lög eina mjólkursamsölu í stað þess láta nægja að tryggja að allir bændur sitji við sama borð við söfnun mjólkur til einstakra úrvinnslustöðva?

Nú vill svo til að þessi þrjú ofangreindu tilvik eru öll einmitt stefna Sjálfstæðisflokksins og fleiri flokka í landbúnaðarmálum en spurningin er, eru þau samt til vinstri? Bændur eiga vísan stuðning allra flokka en það er ekki sama hvernig fjármunum til þeirra er varið hvort halda eigi þeim í fátæktargildru næsta áratuginn eða stokka upp kerfið.

Útboð fiskveiðikvóta – vinstri/hægri?

Er eitthvað til „vinstri“ við það að neita að láta bjóða í fiskveiðikvóta svo að þjóðin hagnist sem mest á eign sinni? (Ef svo ólíklega vildi til að eitthvert byggðarlag kæmi verr út þá væri hægur vandi að vinna í því með þeim fjármunum sem fengjust úr útboðinu.) Er þessi afstaða vinstri eða hægri? Þetta er einmitt einnig stefna Sjálfstæðisflokksins og fleiri flokka, að koma í veg fyrir að þjóðin fái fullt gjald fyrir afnot útgerðarinnar af auðlind í þjóðareigu.

          Þessi fáeinu dæmi gætu varpað ljósi á hvaða flokkar eiga samleið þegar um stærstu mál þjóðarinnar og afkomu almennings er að ræða. Hér er ekki alveg einfalt að nota hina hefðbundu mælikvarða á stjórnmálaflokkana og mun rökréttara er að bregða kvarðanum „standa flokkarnir með hagsmunum almennings gegn sérhagsmunum?“

http://www.visir.is/ad-elska-ad-hata-samfylkinguna/article/2016160609862

 


Vilja lífeyrissjóðirnir bara eignast bankana? Á engin uppstokkun að eiga sér þar stað?

Hvort á ríkið eða lífeyrissjóðirnir að eiga banka? Kannski að bæði ríkið og lífeyrissjóðirnir ættu að eiga þá í sameiningu? Stjórnvöld hafa heimild til að selja hluti ríkisins í bönkunum og stefna að því ótrauð. Einhverjir vilja að ríkið eigi banka svo hægt sé að lækka vexti, en vextir ráðast af hagstjórn og aðstæðum í efnahagslífinu en ekki því hverjir eiga bankana. Það er borin von að vextir verði eins og í nágrannalöndum okkar á meðan við höfum íslenska krónu. Það hefur 90 ára harmsaga krónunnar kennt okkur.

Bónusar í bönkum eru á kostnað og ábyrgð ríkisins

Hegðan starfsmanna bankanna þegar Borgun og Síminn voru seld hefur sýnt fram á að þeir silkihanskar sem voru notaðir við endurreisn bankanna voru mikil mistök. Ráðamenn bankanna virðast ekki átta sig á þætti þeirra í hruninu og að þar þurfi nýjar hugmyndir og allt önnur viðhorf að ráða en var fyrir hrun. Ein arfleifð hrunsins er að menn hafa talið sér trú um að laun og kjör yfirmanna í bönkum lúti öðrum lögmálum heldur en í fyrirtækjum yfirleitt. Þá gleymist að bónusar og há laun geta lækkað arðgreiðslur til eigendanna hvort sem það eru lífeyrissjóðir eða ríkið.

Ef ríkið og/eða lífeyrissjóðirnir ættu bankana væri þeim í lófa lagið að ná bönkunum niður á jörðina í launamálum. Það getur ríkið gert með því einu að gera bönkunum ljóst að ef þeir fylgja ekki markaðri launastefnu ríkisins þá njóti viðkomandi banki ekki baktryggingar ríkisins á innlánum. Frammi fyrir því vali eiga bankarnir engan annan kost en gangast inn á skilmála ríkisins.

Spyrja lífeyrissjóðirnir „hvað gerðir þú í hruninu?“

Lífeyrissjóðirnir sem eru í eigu íslenskra launamanna eiga stóra hluti og jafnvel meirihluta í stórum og smáum fyrirtækjum hér á landi. Samt sem áður hafa lífeyrissjóðirnir ekki komið sér saman um samræmt launakerfi í þeim fyrirtækjum sem þeir gætu í sameiningu ráðið hvernig launum og bónusum væri háttað.

Einnig hafa lífeyrissjóðirnir ekki heldur séð ástæðu til að spyrja þá sem sjóðirnir hafa ráðið til að stjórna fyrirtækjunum hvað þeir höfðust að í hruninu. Voru þeir e.t.v. gerendur í gjaldþrotum sem svo leiddu til tugmilljarða tjóns sjóðanna þó svo þeir hafi ekki verið sóttir til saka? Er sérstök ástæða hjá sjóðunum til að gera þessum einstaklingum hátt undir höfði og spenna launakröfur í þeim fyrirtækjum og öðrum upp úr öllu valdi?

http://www.visir.is/til-hvers-ad-eiga-banka-/article/2016160208888

 


Heilbrigðiskerfið þarf á auðlindagjaldinu að halda

Uppfullur bræði hrópaði formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir fjórum árum á Alþingi „skiliði lyklunum“. Það að krefjast þess að einhver skili einhverju, ber með sér að sá hinn sami telji sig eiga það sem á að skila. Í þessu tilviki yfirráðum í stjórnarráðinu. Enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn ráðið Íslandi með setu í ríkisstjórn í 57 af þeim 72 árum sem Ísland hefur verið lýðveldi eða 80% lýðveldistímans. Er nokkur furða þó Sjálfstæðisflokkurinn telji sig eiga stjórnarráðið.

Hafi einhver verið í vafa um hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn krafðist lyklanna af þvílíkri ákefð þá kom það fljótlega í ljós. Þeir voru orðnir friðlausir yfir því að geta ekki lækkað auðlindagjald á útgerðarmönnum og með sölu Landsbankans á Borgun freistast margir til að álykta að þeir vilji hafa hönd í bagga um til hverra bönkunum og eignum þeirra er ráðstafað. Þegar salan á Borgun átti sér stað 2014 þá fór það fram hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins (http://www.visir.is/ups,-gerdi-thad-aftur-/article/2015151028924) og það er ekki fyrr en núna þegar almannarómur er orðinn nógu hávær að þeir taka undir hneykslunarorðin.

Auðlindagjald og heilbrigðiskerfið.

Stærstu viðfangsefni þeirra sem fara munu með völd á Íslandi á næstunni eru annars vegar hvort takast muni að koma á eðlilegu auðlindagjaldi, með útboði aflaheimilda, og hins vegar endurreisn opinbera heilbrigðiskerfisins. Þessi mál eru tengd að því leyti að útboð aflaheimilda er réttlætismál, að þjóðin fái fullt afgjald af auðlind sinni og ekki síður, að ráðstafa gjaldinu til sameiginlegra viðfangsefna. Nú er brýnasta verkefnið endurreisn heilbrigðiskerfisins.

Ekkert lært af hruninu.

Það er með ólíkindum að ekki skuli vera vilji hjá ráðamönnum þjóðarinnar til þess að læra af sögunni t.d. með því að láta rannsaka einkavæðingu bankanna eins og Alþingi hefur þegar samþykkt. Þess vegna mætti rannsaka bæði fyrri einkavæðinguna, þegar vildarvinum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks voru afhentir bankarnir og einnig þá síðari þegar þeir voru afhentir kröfuhöfum. Það virðist vera einbeittur vilji fjölda stjórnmálamanna að taka upp þráðinn frá því fyrir hrun eins og ekkert hafi í skorist. Í bönkunum iðka menn síðan það sem stjórnvöld hafa fyrir þeim og leyfa sér hegðan sem við héldum að hrunið hefði bundið endi á. - Þar gleymist að bankarnir eru ýmist í eigu eða reknir á ábyrgð ríkisins, almennings í landinu.

http://www.visir.is/lyklavoldin-fyrir-utgerdina-og-bankana/article/2016160209874

 


Alltaf skal Landspítalinn verða undir

Fullkomin sjúkrastofnun opnar í Ármúla (Hótel Ísland) með öllum nýjustu tækjum og öllu starfsfólki svo vel höldnu að það hvarflar ekki að því að fara í verkfall. Á sama tíma dynur á Landspítalanum enn eitt verkfallið og tækjabúnaður er annaðhvort skammtaður af tímabundu örlæti þingmanna eða ölmusugjöfum velunnara spítalans. Samt sækja bæði klínikin í Ármúlanum og Landspítalinn alla sína fjármuni í sama vasa, vasa skattgreiðenda. Hvernig má þetta vera? 

Hið rangsnúna kerfi.

Svarið hefur legið lengi fyrir og vitað að svona mundi fara (http://uni.hi.is/bh/). Klínikin í Ármúlanum fær sérstaklega greitt frá ríkinu fyrir hvert viðvik á meðan Landspítalinn þarf að búa við greiðslur ákvarðaðar einu sinni á ári á fjárlögum. Í fjáraukalögum sem nú liggja fyrir Alþingi er beiðni um viðbótarframlag uppá nokkra milljarða til sérfræðilæknaþjónustu utan sjúkrahúsa. Hluti þess framlags mun einmitt renna til klínikurinnar í Ármúla.

Landspítalinn aftur á móti fær ekki að „keppa“ um fjármagn úr ríkissjóði með sama hætti og klínikin. Á meðan svo er þá mun Landspítalinn alltaf tapa í þeirri samkeppni um skattfé almennings sem smátt og smátt dregur úr spítalanum þrótt.

Landspítalinn „tapar“ á aukinni þjónustu.

Ef senda þarf sjúklinga til útlanda í meðferð eða rannsóknir þá borgar ríkið það í gegnum Sjúkratryggingar Íslands. Yrði Landspítalanum falið að sjá fyrir sömu meðferð og rannsóknum hér á landi (sem getur sparað þjóðarbúinu stórar fjárhæðir svo ekki þurfi að senda sjúklinga til útlanda) þýðir það bara viðbótarkostnað fyrir Landspítalann. En hjá Sjúkratryggingum (sem þá sleppa við að borga ferðirnar til útlanda) er þetta hreinn sparnaður sem gefur aukið svigrúm til frekari greiðslna til stofa úti í bæ, svo öfugsnúið sem það kann að virðast. Vítahringurinn heldur áfram, Landspítalanum heldur áfram að hraka á meðan einkaaðilar dafna, allt í boði okkar skattgreiðenda.

„Engin stefnumótun í heilbrigðismálum“

Ofangreind tilvitnun er höfð eftir heilbrigðisráðherra á fundi sem efnt var til í september um íslenska heilbrigðiskerfið. Auk þess sagði hann skort á heildrænni yfirsýn og að engin raunveruleg stefnumótun til lengri tíma hafi átt sér stað. Það er vandséð að annar eins áfellisdómur hafi verið felldur um jafn mikilvægan málaflokk. Samt sem áður virðast þessi orð hafa farið fram hjá flestum fjölmiðlum hvað þá að þingmenn eða aðrir hafi séð ástæðu til að taka þau upp og spyrja hvort hér verði ekki ráðin bót á.

Heilbrigðismál er sá málaflokkur sem síst þykir líklegur til vinsælda hjá stjórnmálamönnum. Þeir kinoka sér við að kynna sér rekstur heilbrigðisstofnana og álykta ranglega að allt megi bæta með auknum fjárframlögum. Vandi íslenska heilbrigðiskerfisins er miklu djúpstæðari og þar skapa mismunandi aðferðir við skiptingu á framlögum ríkisins til einkarekinna- og opinberra heilbrigðisstofnana mestan vanda.

http://www.visir.is/landspitalanum-askapad-ad-verda-undir/article/2015151108911


Ríkisstjórninni um megn að standa við loforð

Landsbankinn seldi frá sér eign til útvalinna vildarvina, eignarhlut sinn í Borgun. Arion banki seldi frá sér eign sína í Símanum til útvalinna vildarvina áður en pöpullinn og lífeyrissjóðirnir fengu tækifæri til að kaupa. Fjármálaráðherrann og flokksbræður hans hrópa nú hver um annan þveran í heilagri vandlætingu yfir þeirri rangsleitni sem hér hefur átt sér stað, en bara þegar Arion banki seldi. Enga vandlætingu er að finna hjá þeim yfir því þegar Landsbanki seldi í Borgun. Hvað veldur?

Allir bankarnir í reynd á forræði ríkisins
Bæði þessi tilvik eru nákvæmlega eins vaxin. Viðskiptabankar, reknir á ábyrgð ríkissjóðs sem ábyrgist allar innistæður þeirra, eru að losa sig við eignir. Eftir söluna á Borgun vantaði ekki að einhverjir embættismenn viðurkenndu mistök en enginn var látinn sæta ábyrgð. Síðan þegar þetta gerist núna aftur við söluna á Símanum þá skáka menn í því skjólinu og segja einfaldlega „úps, gerði það aftur“ vitandi vits að ekki nokkur sála, hvorki stjórnmálamenn né embættismenn þurfa að sæta ábyrgð.

Dreift eignarhald … kanntu annan?
Þegar nú er til umræðu sala ríkisins á Íslandsbanka og Landsbanka vantar ekki að ráðamenn komi fram og lofi dreifðri eignaraðild, opnu söluferli o.s.frv. Hljómar kunnuglega? Öll munum við þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur lofuðu hinu sama við fyrri einkavæðingu bankanna, dreifðri eignaraðild, opnu söluferli og þar fram eftir götunum. En hvað kom á daginn? Um leið og góðvinir flokkanna birtust (góðvinir sem síðan reyndust vera „óreiðumenn“) var öllum hugmyndum um dreifða eignaraðild kastað fyrir róða og vinunum seldir bankarnir. Því skyldi það ekki gerast aftur? Er nokkuð að marka yfirlýsingar ráðherra Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks núna frekar en þá?

Undanfarin misseri höfum við séð hvernig ótvíræð loforð, gefin fyrir síðustu kosningar, loforð sem spiluð eru aftur og aftur fyrir ráðherrana skipta þá nákvæmlega engu máli. Þeir yppta einfaldlega öxlum og láta sem loforð hermd upp á þá með þeirra eigin orðum, spiluð ítrekað upphátt fyrir þá opinberlega, skipti þá bara alls engu máli. Hvarflar að einhverjum að trúa þeim núna? Er einhver ástæða til að ætla að eignir bankanna og loks bankarnir sjálfir verði ekki einmitt seldir vildarvinum í hæfilegum skömmtum og í hvert sinn heyrist bara „úps, gerði það aftur“ og öxlunum yppt yfir öllum fögru loforðunum?

http://www.visir.is/hvert-rennur-audlindaardurinn-/article/2015705089997


Útboð aflaheimilda; Píratar komnir um borð

„Ef þetta gengur ekki fram mun ég persónulega sjá til þess að að þér verði ólíft á Íslandi það sem eftir er“.  Þessi tilvitnun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, höfð eftir einum helsta ráðamanni landsins í garð manns sem dirfðist að vera honum ósammála, eru lýsandi ummæli um ástand opinberrar umræðu á Íslandi á árunum frá því fyrir aldamót og fram að hruni. (7.bindi, bls.33). Viðleitnin til að þagga niður í fólki tók jafnt til þeirra sem vildu tjá sig um stjórnmál eða þeirra sem tjáðu sig um fjármál og viðskipti. Hver sem þorði að andmæla ráðandi öflum átti útskúfun á hættu.

Þöggun viðgengst enn. Eðli þöggunar er að þeir sem vilja tjá sig um menn og málefni eru ekki reiðubúnir að koma fram og segja það sem þeim býr í hug af ótta við aðgerðir gegn þeim. Hvergi er þetta augljósara nú en í málefnum sjávarútvegsins. Sá sem verður fyrir þöggun treystir sér ekki til að greina frá þögguninni opinberlega. Hún getur birst sem beinar hótanir eða sjálfsritskoðun á því sem menn setja fram á opinberum vettvangi. Einfaldast er sjá fyrir sér sjómenn í eftirsóttu skiprúmi eða þingmenn Norð-austur kjördæmis sem augljós fórnarlömb sjávarútvegs­þöggunarinnar þó fórnarlömbin séu miklu fjölbreyttari hópur.

Útboðsleið stuðlar að nýliðun.

Ánægjulegt er að Píratar skuli komnir í hóp þeirra stjórmálahreyfinga sem hafa mótað sér stefnu um að aflaheimildir skuli boðnar út svo tryggt sé að þjóðin, eigandi fiskimiðanna, fái fullt afgjald fyrir afnot af þessari eign sinni. Gamalkunnur áróður er þegar farinn í gang um að þetta komi minni útgerðum verr og eru þær fullyrðingar iðulega settar fram án rökstuðnings.

Gera má ráð fyrir, ef rétt er að útboðum staðið, að útboðin stuðli að aukinni fjölbreytni og nýliðun í sjávarútvegi. Þannig gætu t.d. Djúpivogur og Tálknafjörður sem nú eiga í erfiðleikum séð fram á betri tíð verði útboðsleiðin farin. Mestu máli hlýtur að skipta að gætt sé heildarhagsmuna þjóðarinnar en ekki ímyndaðra sérhagsmuna einstaka jaðarhópa.

Baráttan fyrir réttlátri skiptingu á arðinum af fiskveiðiauðlindinni er rétt að hefjast og á eftir að harðna. Þeir sem vilja berjast fyrir réttlátri skiptingu þurfa að sameinast um hagsmuni þjóðarheildarinnar og láti ekki núverandi kvótahafa afvegaleiða umræðuna. Allir sem vilja að þjóðin fái að njóta afraksturs eignar sinnar verða að gæta sín á að efna ekki til Þórðargleði andstæðinganna. Til þess hafa kvótahafarnir ógrynni fjár og munu einskis svífast.

http://www.visir.is/sjavarutvegur-og-thoggunin-/article/2015150908839

 


Þjóðarsáttin 1990 - þjóðarósættið 2015.

Ef það er er eitthvað eitt sem skiptir máli við gerð þjóðarsáttar þá er það traust. Traust milli launþegarhreyfingar og vinnuveitenda, traust á ríkisstjórn. Orð og efndir núverandi ríkisstjórnar frá því hún var mynduð hafa ekki beinlínis verið til þess fallin að auka á trúnað og traust. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa með grímulausari hætti en áður hefur sést, gengið á bak orða sinna og er þjóðin þó ýmsu vön. Hvað sem mönnum kann að finnast t.d. um aðild að ESB eða framhald aðildarviðræðna þá dylst engum að jafn afdráttarlaus svik á kosningaloforðum hafa ekki sést hér á landi áður. Slíkt dregur úr trúverðugleika og setur tóninn um önnur mál þar sem mikilvægt er að ríkisstjórn hafi forystu um og þjóðin treysti. Orðræðan sem þjóðin hefur mátt búa við af hálfu ríkisstjórnarinnar er síðan ekki beinlínis til þess fallin að stuðla að sátt.

Forsendur sáttar.

Hverjar skyldu hafa verið forsendur þjóðarsáttarinnar 1990? Það var hægt að treysta því að ekki væri verið að hygla einum umfram annan, hvorki vinnuveitendur, ríkið eða aðrir. Ekki væri verið í feluleik með launahækkanir eða ríkisstjórn að gera vel við vildarvini sína með útdeilingu þjóðareigna.

Eftir vel heppnuð skemmdarverk á lokametrum síðustu ríkisstjórnar (m.a. við að uppfylla loforð Framsóknarflokksins um nýja stjórnarskrá) þá létu núverandi stjórnarflokkar kné fylgja kviði eftir mikinn kosningasigur sinn og hafa síðan reynt að nota þingstyrkinn til hins ítrasta til þess að reyna snúa klukkunni við og hverfa aftur til áranna þegar þeir réðu ríkjum fyrir 2007. Einnig skópu núverandi stjórnarflokkar fordæmin um málþófið í þingstörfum og hvernig halda eigi málum í gíslingu sem við sjáum nú endurtekið á „hinu háa“ Alþingi og er síst til fyrirmyndar.

Helsta vandamálið að mati stjórnarinnar er að þjóðin áttar sig ekki á að hér er að þeirra sögn allt í himnalagi. Þá eiga e.t.v. best við orð Bertholds Brecht frá 1953 eftir uppreisnartilraunina í Austur Þýskalandi, þegar hann ráðlagði ráðamönnum þar að fá sér nýja þjóð. Þetta gæti einnig verið ráð til íslensku ríkisstjórnarinnar 2015.

http://www.visir.is/thjodarsattin-1990---thjodarosaettid-2015/article/2015705279987


Auðlindaarðurinn - hver fær hann?

Fjármálaráðherra hefur tekið upp hugmynd um stofnun sérstaks auðlindasjóðs sem væri ekki hluti ríkissjóðs heldur skýrt afmarkaðir fjármunir í ríkisreikningi.  Einn mikilvægur munur er hins vegar á fyrri hugmyndum og hugmyndum fjármálaráðherra.  Fjármálaráðherra talar um „orkuauðlindasjóð“ á meðan fyrri hugmyndir gengu allar út á „auðlindasjóð“ sem tæki til arðsins af öllum auðlindum í þjóðareigu, fiskveiðiauðlindin ekki undanskilin. Fjármálaráðherra virðist ekki átta sig á að nákvæmlega sama gildir um orkuauðlindir og fiskveiðiauðlindir, þar verður til arður (hluti auðlindarentu)  sem ætti að skila til eigendanna, þjóðarinnar.  Draga mætti þá ályktun að fjármálaráðherrann telji fiskistofnana ekki vera auðlindir í eigu þjóðarinnar.

Auðlindir í stjórnarskrá.

Allt of lengi hefur dregist að ákvæði um þjóðareign á auðlindum fari inn í stjórnarskrá. Þjóðin hefur verið seinþreytt til vandræða og látið yfir sig ganga að fá að vinna við hagnýtingu auðlindanna í stað þess að fá arð af þeim einnig.  Þannig er því haldið fram að vinna við fiskvinnslu og vel launuð sjómannsstörf auk skattgreiðslna sjávarútvegsfyrirtækja  séu arðurinn sem þjóðin eigi að fá af auðlind sinni. 

Með sama hætti má stilla dæminu upp þannig að Íslendingar láti sér nægja að fá að vinna við að byggja virkjanir til að að framleiða raforku fyrir stóriðju og þurfi því ekki að fá neinn arð af raforkuframleiðslunni.  Í Noregi hefði þessi séríslenska auðlindastefna gengið út á að heimamenn fengju að byggja borpallana fyrir olífélögin en leyft þeim að hirða gróðann af framleiðslunni.

Hér verður þjóðin að grípa til sinna eigin ráða. Því var efnt til undirskriftasöfnunarinnar „þjóðareign.is“ til að koma í veg fyrir að hægt verði að úthluta fiskveiðikvótunum  til útgerðarmanna um alla framtíð.  Baráttunni er langt í frá lokið og því ástæða til að hvetja sem flesta til að fara inn á vefsíðuna „þjóðareign.is“ og skrifa þar undir.

Við heimtum aukavinnu. / Við heimtum ennþá meiri aukavinnu. / Því það er okkar æðsta sæla / að pæla og þræla og þræla / og þræla, fram í rauðan dauðan. / Ó, gefðu guð oss meira puð.  (Jónas Árnason)

http://www.visir.is/hvert-rennur-audlindaardurinn-/article/2015705089997


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband