Gætu nýir útgerðarmenn gert betur?

Útgerðin skilur ekki neitt í neinu, að ekki skuli vera búið að setja lög á verkfall sjómanna eða þá að ríkisvaldið skuli ekki vera fyrir löngu búið að lofa að liðka fyrir samningum með loforðum um skattaafslátt (sem þá leggur meiri byrðar á alla hina skattgreiðendurna sem ekki njóta afsláttarins). Forsætisráðherrann hefur sagt að lög verði ekki sett á verkfallið og fróðlegt verður að fylgjast með hvort hann standi við þau orð þegar þrýstingur á hann vex.

Verkfallið hefur með skýrum hætti dregið fram þá einu ábyrgð sem stjórnvöld bera í þessum efnum. Það er ábyrgðin á að auðlindin, sameign þjóðarinnar, sé nýtt þjóðinni allri til hagsbóta. Verkfallið hefur sýnt fram á vangetu núverandi kvótahafa til að sinna þessu verkefni sem ríkisvaldið fól þeim þegar þeir fengu úthlutað fiskveiðikvóta. Geti þeir ekki sinnt þessu eina verkefni, að nýta auðlindina, þá hljóta menn að spyrja sig hvort ekki sé rétt að gefa einhverjum öðrum tækifæri á að spreyta sig. Þar eru nægir um hituna; kvótalausar fiskvinnslur og dugandi einstaklingar um land allt sem fá ekki tækifæri vegna svimandi hárrar kvótaleigu sem borga þarf núverandi kvótahöfum og sem vonlaust er að leigja nema til skamms tíma í senn. 

Gefum fleirum tækifæri

Um langa hríð hefur verið bent á að einfaldasta leiðin til nýliðunar í hópi útgerðarmanna væri að þróa útboðsleið á kvóta þar sem t.d. 5-10% kvótans yrðu boðin út árlega. Um allan heim hafa verið þróaðar aðferðir við útboð af þessu tagi þar sem tryggð er nýliðun og takmarkanir settar við því að kvótarnir safnist á fárra hendur.  

Útboð aflaheimilda þar sem hluta fjármunanna sem koma inn yrði ráðstafað til byggðanna gæti reynst hinum minni sveitarfélögum mikilvægur tekjustofn. Nú verða þau mörg hver illilega fyrir barðinu á sjómannaverkfallinu. Útboð aflaheimilda var kosningaloforð nokkurra stjórnmálaflokka fyrir síðustu kosningar en loforðið vóg greinilega ekki nógu þungt í stefnuskrám flokkanna til að þeir sem reyndu stjórnarmyndun mynduðu ríkisstjórn um þetta réttlætismál þjóðarinnar. Þar voru önnur og léttvægari málefni látin ráða för.

Hoppað á vagn sundurlyndisins.

Svo ótrúlegt sem það kann að virðast þá eru til þeir stjórnmálamenn sem reyna að hagnýta sér verkfall sjómanna til að ala á sundrungu höfuðborgarsvæðisins og annarra landshluta!  Í því tilviki hafa þeir reynt að klína á höfuðborgina („þeir“) að höfuðborgarbúar hafi ekki áhyggjur af verkfallinu á meðan fólkið í byggðum landsins („við“) þjáist og að „vér einir vitum“ hversu mikið ófremdarástand hafi skapast.

Þetta kann að hljóma vel í eyrum einhverra kjósenda í kjördæmum þeirra stjórnmálamanna sem leggjast svo lágt en málefnalegt er það ekki og ber fyrst og fremst vott einkennilegu hugarfari þeirra sem það stunda.

http://www.visir.is/thurfum-vid-nyja-utgerdarmenn-/article/2017170208973

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband