Samtakamáttur Samtaka atvinnulífsins

Við lifum óvenjulega tíma. Tíu árum eftir hrunið ríkir úlfúð og ósætti í samfélagi okkar. Mitt í öllu ósættinu er ráðamönnum þjóðarinnar afhentar ríflegar launahækkanir á silfurfati og fyrirtæki landsins, sem lífeyrissjóðirnir eiga að stórum hluta, ákveða að gera vel við stjórnendur sína og hækka verulega við þá launin sem þó voru rífleg fyrir. Stjórnvöld hreyfa ekki litla fingur til að vinda ofan af launahækuninni sem þeim var rétt og Samtök atvinnulífsins (SA), sem tilnefna helming stjórnarmanna almennu lífeyrissjóðanna, tala fjálglega um hóflegar hækkanir til stjórnenda fyrirtækja þar sem fulltrúar lífeyrissjóðanna sitja í stjórnum. Lítið er svo gert til að tryggja að hin fögru fyrirheit gangi eftir. Eða ætli almenningur telji að fyrirtækin,

„...starfi í góðri sátt við umhverfi sitt og samfélag. Launakjör æðstu stjórnenda séu hófleg, innan skynsamlegra marka og ofbjóði ekki réttlætiskennd amennings“

eins og segir í stefnuyfirlýsingu SA?  Eru það ekki einmitt launakjör stjórnenda fyrirtækjanna sem misbjóða réttlætiskennd almennings?

Frómar óskir og framkvæmdin

Þegar vakin er athygli á hversu illa málflutningur SA rímar við gjörðir fyrirtækjanna og upplifun almennings af tekjuskiptingu í landinu, eins og gert var í grein í Frbl. 18. sept. þá skrifar framkvæmdastjóri SA grein í Mbl. 25. sept. s.l. þar sem hann rekur meðaltalshækkanir stjórnenda og launþega til að sýna fram á að stjórnendur séu vel að þessum hækkunum komnir. Ekki kemur fram ofan á hvaða laun hækkanirnar voru reiknaðar og ekki virðist hvarfla að honum að e.t.v. hafi launin, sem hækkanirnar reiknuðust ofan á verið of há m.v. þann veruleika sem Íslendingar búa við í dag og hækkanirnar því beinlínis til þess fallnar að auka á úlfúð og ósætti í samfélaginu.

Við einhverjar tilteknar aðstæður hefði samanburður á prósentutölum á borð við þær sem bornar eru fram í greininni haft eitthvað að segja. En við búum við allt aðrar aðstæður á öðrum og óvenjulegri tímum sem kallar á óvenjulegar ráðstafanir. Ráðstafanirnar sem SA gæti gripið til var lýst í greininni í Frbl. og einnig á opnum fundi með Landssambandi lífeyrissjóða fyrir hálfu þriðja ári.

SA gæti sem hægast notað samtakamátt sinn til að hindra þá ofurlaunaþróun sem þegar er orðin og fyrirséð hjá stjórnendum fyrirtækja í eigu lífeyrissjóðanna. Þannig gæti SA látið yfirlýsingar þeirra um að laun stjórnenda

„skuli vera hófleg og í samræmi við íslenskan launaveruleika“

verða að veruleika. Framkvæmdin hjá SA fram að þessu ber ekki vott um að hinar frómu óskir forráðamanna SA séu neitt annað en orðin tóm.

Því ættu samtök launafólks að treysta félagsskap sem notar samtakamátt sinn eingöngu til að semja við verkalýðsfélög en neita að nota samtakamáttinn til að halda aftur af ofurlaunum stjórnenda í atvinnulífinu?

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Íslensku trixin II

Kjararáð kvað upp úrskurði sem juku mjög á ósætti landsmanna. Hvernig var brugðist við? Fyrst var Kjararáði falið að kveða upp úrskurði um færri embættismenn en áður og síðan var Kjararáð lagt niður. Hverju skilaði þetta íslenska trix? Fyrri aðgerðin, að fækka embættismönnum sem heyrðu undir ráðið, leiddi til enn meiri launahækkana þeirra þrátt fyrir eindregnar viðvaranir þáverandi fjármálaráðherra. Síðari aðgerðin skilar auðu þar sem ekki hefur verið afráðið hvernig hátti launaákvörðunum til embættismanna í framtíðinni.

Stjórnvöld virðast úti á þekju og halda að viðfangsefni sitt í komandi kjaraviðræðum séu einfaldar prósentuhækkanir launa á meðan viðfangsefnið er enn, tíu árum síðar, að sameina sundraða þjóð, freista þess að ná sátt í samfélaginu og græða það holundarsár sem hrunið skildi eftir á þjóðarsálinni.

Ábyrgðin er stjórnvalda og Samtaka atvinnulífsins

Stjórnvöld, auk Samtaka atvinnulífsins (SA) tala fjálglega um lítið svigrúm til launahækkana en eru sjálf þeir aðilar sem bera mesta ábyrgð á þeirri úlfúð í samfélaginu sem ríkir um kjaramál. Stjórnvöld hafa enn ekki hreyft litla fingur til að vinda ofan af úrskurði Kjararáðs. SA skipa helming allra stjórnarsæta almennu lífeyrissjóðanna og gætu því sem hægast haft forgöngu um að stöðva það höfrungahlaup gengdarlausra yfirborgana í fyrirtækjunum sem lífeyrissjóðirnir eiga, sem eru flest stærri fyrirtækja á Íslandi.

Hugmyndin að baki einhverskonar kjararáði er ekki alslæm. Útfærsla hugmyndarinnir var það sem brást og forsendurnar sem lágu að baki. Í sjálfu sér er það þarft að í samfélaginu sé til „apparat“ sem geti borið saman laun m.t.t. ábyrgðar, vinnutíma og annars sem máli skiptir við ákvörðun launa. Lífeyrissjóðirnir hefðu getað vísað til slíkrar stofnunar ákvörðunum um laun í fyrirtækjunum sem þeir stjórna og þannig hindrað höfrungahlaup stjórnendanna. En það gerðu þeir ekki.

Allt frá hruni hefur SA ekki nýtt samtakamátt sinn til að standa gegn ofurlaunum þrátt fyrir viðvaranir þar um og að augljóst væri í hvað stefndi.  - Því skyldi almenningur taka mark á málflutningi þessa fólks?

 

https://www.frettabladid.is/skodun/islensku-trixin-ii

 


ÍSLENSKU TRIXIN

Það er e.t.v. að bera í bakkafullan lækinn að vitna í fleyg orð Laxness um að Íslendingar „ ... verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er kjarna máls“ en því miður eiga þau allt of oft við. Nýleg dæmi um þetta opinberuðust okkur á vordögum.

Æskilegt væri að þurfa ekki að styðjast við vísitölu þegar lán eru tekin t.d. til húsnæðiskaupa. Þannig er þessu háttað í nágrannalöndum okkar. Hvað hefur mönnum helst hafa dottið í hug til að breyta þessu? Jú, að banna vísitölutryggingu. Í þeirri umræðu er aldrei minnst á að slíkt bann tæki ekki til þegar tekinna lána svo hér yrði aðeins um bann við vísitölutryggðum lánum til framtíðar.

Verðbólguálag umfram verðbólgu

Ef af banninnu yrði hvernig skyldi þá verða háttað vöxtum á lánum framtíðarinnar? Í ljósi harmsögu íslensku krónunnar, sem er nú innan við hálft prósent af verðgildi dönsku krónunnar, sem hún var á pari við þegar leiðir þeirra skildu fyrir um 95 árum, er nokkuð ljóst að lánveitendur teldu sig þurfa einhverskonar tryggingu fyrir virðisrýrnun krónunnar.

Líklegast er að lánveitendur reyni að áætla verðbólgu og miða vexti við það. Svo mundu þeir telja sig þurfa að hafa borð fyrir báru vegna óvissu um áætlaða verðbólgu og bæta því ofan á vextina. Afar hæpið er að útkoman verði lántakandanum hagstæð frekar að fjármagnskostnaður muni hækka. Enda sýnir það sig að vinsælustu lán til húsnæðiskaupa eru verðtryggð lán, með kostum þeirra og göllum, þó svo að óverðtryggð lán séu í boði.

Í umræðunni er aldrei minnst á að allt tengist þetta íslensku krónunni, örmynt, útgefinni af örlítilli þjóð og hvergi gjaldgeng utan landsteinanna. Þar er sama hvort í hlut eiga samtök atvinnulífs (sem virðast eiga í trúnaðarsambandi við söfnuð sem sér flestu til foráttu sem kemur utanlands frá) eða vígreifir forystumenn einstakra verkalýðsfélaga sem einnig koma sér hjá að tala um kjarna máls, fílinn í stofunni, íslensku krónuna og áhrif hennar á afkomu fjölskyldna og fyrirtækja. 

http://www.visir.is/g/2018180629191/islensku-trixin-

 


Stærstu útgerðirnar fá mest

Frumvarp þetta er sett fram til að berja í bresti kerfis sem hefur aldrei þjónað þeim tilgangi að skila réttmætum hluta auðlindaarðsins til eiganda fiskimiðanna, þjóðarinnar allrar. Hér hefur verið búið út ógegnsætt flókið kerfi sem þarfnast stöðugra við­bóta og nýrra útfærslna þó margsinnis hafi verið bent á aðrar leiðir sem þjónað geta sama til­gangi mun betur.

Hin augljósa niðurstaða veiðigjaldafrumvarpsins er sú að þegar öll gjöld eru lækkuð skilar sér mest til þeirra stærstu þó reynt sé að telja fólki trú um að aðgerðin sé fyrst og fremst hugsuð til að bæta hag lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Til að koma til móts við rekstur þeirra fyrirtækja sem kunna að eiga í erfiðleikum eru til aðrar mun ein­faldari aðgerðir sem þurfa ekki jafnframt að fela í sér eftirgjöf til allra útgerða, stórra og smárra.

Yfirlýstur tilgangur frumvarpsins er að bæta hag smærri og meðalstórra útgerða. Til að sýna fram á hinn yfirlýsta vilja þá þyrfti að setja fram í töflu öll sjávarútvegsfyrirtæki í landinu. Innan hvers fyrir­tækis yrði að koma fram hvað hvert og eitt þeirra aflaði af hinum nafn­greindu fisk­teg­undum frumvarpsins á síðasta heila fiskveiðiári (2016-2017) margfaldað með kr. á kg sam­kvæmt fyrri tilhögun. 

Síðan þyrfti að margfalda þetta sama magn aftur með þeim fjárhæðum sem frum­varpið gerir ráð fyrir.  Með slíkum samanburði sæist hvaða fyrirtæki væru að borga meira og hvaða fyrirtæki væru að borga minna og þá fyrst væru komnar for­sendur til að segja til um hvort verið væri að hygla litlum og meðalstórum fyrirtækjum eða frekar hinum stærri. Uppsetning slíkrar töflu ætti að vera lítið mál m.v. fyrirliggjandi upp­lýs­ingar hjá Fiski­stofu og ráðuneytinu en slík framsetning er einfaldlega forsenda þess að hægt sé að full­yrða að þetta sé gert í þágu lítilla og meðalstórra útgerða.

Byggðasjónarmið

Við jafn mikilvæga ákvörðun og hér er stefnt að þá hlýtur fyrst og fremst að verða að horfa til afkomu sjávarútvegsins sem atvinnugreinar. Um leið og farið er að blanda byggða­sjónar­­miðum inn í umræðuna þá er ekki lengur verið að horfa á sjávar­út­veginn sem atvinnu­grein heldur er honum ætlað annað hlutverk út frá byggða­sjónar­miði. Þegar það er gert þá færist gjaldtaka í sjávarútvegi niður í lægsta sam­­nefn­ara svo þeim sem lakast standa verði bjargað. En það þýðir jafnframt að þar sem rekstur­inn gengur vel, að þar verður til hagnaður langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

Hér er alls ekki gert lítið úr byggðasjónarmiðum sem eiga fyllsta rétt á sér. Þegar þurfa þykir mætti t.d. styrkja fyrirtæki í hinum brothættu byggðum með beinum fjár­fram­­lögum í stað þess að miða alla gjaldtöku í greininni við rekstur þeirra fyrirtækja sem lakast standa. Þannig gæti gjaldtakan samkvæmt veiði­gjalda­frum­varp­inu runnið að drjúgum hluta til að styðja við fyrirtæki sem illa væri komið fyrir og yrði það gert samkvæmt fyrir­fram mótaðri byggða­stefnu.

Opnir ársreikningar

Þegar fyrrgreindur samanburður hefur verið gerður á gjöldunum sem útgerðir greiða fyrir laga­breytingu og eftir hana þá er ástæða til að skoða reikninga ein­stakra út­gerða. Ef kostnaður lítilla og meðalstórra útgerða hefur aukist þá þarf að opna bók­hald þeirra, til að kanna af hvaða völdum það er, áður en komið er til móts við þau með einum eða öðrum hætti af hálfu hins opinbera. Í litlum og meðal­stórum fyrir­tækjum getur óhófleg launa­hækkun til forstjóra og stjórnenda vegið þungt í af­komu fyrirtækisins. Einnig ef fyrir­tækið hefur t.d. freistast til að kaupa dýra bifreið undir for­stjórann þá sér þess stað í verri afkomu að ekki sé minnst á arðgreiðslur sem kunna að hafa veri umfram það sem fyrirtækið ber.

Því aðeins að fyrirtækin verði reiðubún að sýna ársreikninga sína ættu þau að fá notið nokkurra ívilnana því það er varla tilgangur veiðgjaldafrumvarpsins að auð­velda ein­stökum fyrirtækjum að auka á óhóf í rekstri þeirra.

Skattaspor

Eitt af því sem greinargerð frumvarpsins gerir að umfjöllunarefni er hið svokallaða „skattaspor“ íslensks sjávarútvegs. Þessu hugtaki hefur verið beitt oftsinnis áður í þágu málstaðar þeirra sem nú gera út á Íslandsmiðum og sækja í sameign þjóðar­innar. Þá eru talin upp þau opinberu gjöld sem fyrirtækin greiða, að mestu skattar og gjöld sem öll fyrirtæki á Íslandi greiða, sjávarútvegsfyrirtæki sem og önnur fyrirtæki.

Vegna umfangs sjávarútvegsins í landsframleiðslunni þá eru þetta háar fjárhæðir og sér Deloitte og hagsmunasamtök útgerðanna um að tíunda þetta reglulega eins og að hér sé um einhverskonar ölmusu að ræða sem sjávarútvegurinn af góðsemi einni saman greiðir í ríkissjóð.

En „skattaspor“ má skoða með ýmsu móti. Þannig má til sanns vegar færa að „skatta­spor“ hjóna með tvö börn á skólaaldri sé hlutfallslega stærra heldur en „skattaspor“ sjávar­útvegsins. Hjónin þurfa að greiða beina skatta af launum sínum auk óbeinna skatta af öllum keyptum vörum til heimilisins til að fæða og klæða börn sín og þau sjálf. Hlutfallslegur kostnaður þeirra af opinberum gjöldum er síst minni heldur en sá kostnaður sem sjávaútvegurinn greiðir hinu opinbera.

Gallaðar aðferðir

Ljóst má vera að sú aðferð sem notuð er til að láta eiganda fiskveiðiauðlindarinnar, þjóðina, njóta arðsins af auðlindinni er meingölluð. Um það eru flestir sammála. Það eitt ætti að nægja til þess að leitað yrði annarra og nýstárlegri leiða til að sneiða hjá vandræðagangi sem þeim frumvarp þetta ber vott um.

Nokkuð er vitnað til endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte og talna sem frá þeim koma en hafa verður í huga að greiðslur sjávarútvegsfyrirtækja til Deloitte nema tugum milljóna á ári hverju og hafa gert í mörgt ár og er sjávarúvegurinn sem heild einstaki mikil­vægasti viðskiptamaður Deloitte á Íslandi.

Taka verður undir niðurlag 4. kafla greinargerðar með lagafrumvarpinu þar sem segir:

„Samantekið má segja að gæta verði þess að veiðigjald verði sanngjarnt en í því felst ekki síst að líta eftir fremsta megni til bestu upplýsinga hverju sinni um rekstrarafkomu og greiðslugetu sjávarútvegsfyrirtækja.“  

Þetta eru orð að sönnu. Fyrst mikið er vitnað til Deloitte í greinargerðinni væri ekki úr vegi að fá sérfræðinga Deloitte til að upplýsa hvernig þeir myndu í ljósi sinnar sér­fræði­þekkingar og menntunar leysa þetta vandamál sem lýtur að innheimtu gjalds af tak­markaðri auðlind og hér hefur verið lýst.  Svar þeirra þyrfti að byggjast á hreinskilni og mætti ekki vera markað því að þeir eiga stærstan hluta afkomu sinnar undir þjónustu við sjávar­útvegs­fyrirtækin.   


„Leiðréttingin“ og húsnæðismálin

Hvað gerir vel stætt fólk sem horfir á fasteignir sínar hækka í verði langt umfram verðbólgu og fær svo skyndilega lækkaðar skuldir sínar, nánast eins og  peninga sem ríkið færir þeim að gjöf?  Þeir sem fá verulega fjárhæð fellda niður nota aukið ráðstöfunarfé til að kaupa sér litla íbúð til útleigu enda fáir aðrir möguleikar í boði til að ávaxta fé. Þeir sem fá heldur minna leggja peningana í sjóði fasteignafyrirtækja eins og Gamma sem svo kaupa íbúðir til útleigu. 

Þetta er í hnotskurn niðurstaða bróðurparts „Leiðréttingarinnar“ sem er það afrek sem Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og forystusveit Miðflokksins guma af, þegar þeir greiddu hinum hærra launaða helmingi þjóðarinnar 86% „Leiðréttingarinnar“ beint úr ríkissjóði. Þriðjungur upphæðarinnar rann til 10% hinna hæst launuðu. Um þetta má allt lesa í skýrslu sem formaður Sjálfstæðisflokksins hafði ekki hugrekki til að koma fram með og sýna kjósendum fyrir þarsíðustu Alþingiskosningar.

Ungu fólki ýtt út af markaðnum

Afleiðingarnar, hækkun húsnæðisverðs, voru algjörlega fyrirséðar. Ungt fólk sem vildi kaupa sér íbúð á viðráðanlegu verði var nú farið að keppa um kaup á slíkum íbúðum við aðila sem höfðu úr nægu fé að spila eftir að „Leiðréttingin“ var greidd út. Á sama tíma jókst eftirspurn eftir leiguhúsnæði umfram það sem áður hafði þekkst vegna AirBnb. Það síðan hvatti þá sem höfðu peninga aflögu til enn frekari íbúðakaupa svo það var ekki aðeins á kaupendamarkaði sem ungu fólki var ýtt út heldur einnig á leigumarkaði þegar húsaleiga rauk upp úr öllu valdi. Þessi skuggahlið „Leiðréttingarinnar“ hefur aðeins aukið á vandann sem var fyrir í kjölfar hrunsins þegar fjöldi byggingaverktaka lögðu upp laupana eða sögðu sig frá verkum.

Forréttindahópurinn sem Sjálfstæðis-, Framsóknar- og forystusveit Miðflokksins ákváðu að gera svo vel við hefur nú fengið hækkunina, sem varð á áhvílandi húsnæðislánum þeirra í hruninu bætta í tvígang, bæði með framlagi úr ríkissjóði og svo hefur húsnæði þeirra hækkað í verði svo verðmætaukning þess er langt umfram hækkanirnar sem urðu á lánunum.

http://www.visir.is/g/2018180519056/-leidrettingin-og-husnaedismalin-

 


DJÁSNIÐ Í KRÚNUNNI

Fyrir Sjálfstæðisflokkinn þá var Reykjavíkurborg djásnið í krúnunni, kjarninn í völdum flokksins þaðan sem þeir gátu deilt og drottnað, úthlutað lóðum, verkum og störfum að eigin geðþótta til innmúraðra og innvígðra. Borgin og völdin yfir henni var aðeins áfangi á leið framagjarnra Sjálfstæðismanna til að komast til enn meiri áhrifa á landsvísu. Þannig leit oft út fyrir að hagsmunir borgarinnar væru afgangsstærð eða a.m.k. í öðru sæti hjá borgarstjórum Sjálfstæðisflokksins.

Þetta breyttist allt með tilkomu Reykjavíkurlistans. Reykjavíkurlistinn og að mestu farsæl stjórnartíð hans, opnaði augu borgarbúa fyrir því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hafði farið með völdin í borginni og ekki síður hvernig völdin höfðu farið með Sjálfstæðisflokkinn. Svo fór að það sem áður var óhugsandi, Sjálfstæðisflokkurinn þurfti að deila völdum í borginni með öðrum flokkum. 

„Skiliði lyklunum“

Sjálfstæðismenn koma stundum óvart  upp um sig um hvernig þeir umgangast völdin og hvernig þeir telja sig réttborna til eigna og áhrifa í samfélagi okkar. Það gerðist t.d. þegar núverandi formaður flokksins hrópaði úr ræðustóli Alþingis í heilagri vandlætingu „skiliði lyklunum“, en það gerðist á afar skammvinnu tímabili í lýðveldissögunni, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var ekki í ríkisstjórn. Eða þegar frambjóðandi flokksins til borgarstjóra mætti nýlega á fund í Höfða eins og það væri nánast formsatriði og bara spurning um tíma hvenær hann settist í stól borgarstjóra.

Afstaða Sjálfstæðismanna til valdsins sýndi sig líka ágætlega í afsagnarmáli innanríkisráðherra þegar að embættismenn sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði ráðið til starfa, eyddu miklum tíma og fyrirhöfn, ekki í að upplýsa málið, heldur til að leita leiða til að bjarga skinni ráðherrans sem hafði skipað þau.

Á móti, til að vera á móti

Borgarlínan svokallaða sem Sjálfstæðisflokkurinn reynir að tortryggja á alla vegu (þó þetta séu bara venjulegir strætisvagnar sem keyra inn á sæmilegar biðstöðvar) eins og þeir átti sig ekki á að það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að láta gatnakerfið taka mikið pláss. Eina svarið við því er það svar sem borgir um allan heim hafa gert í áratugi, sem er að efla almenningssamgöngur. Nema að Sjálfstæðismenn séu í hjarta sínu sammála Borgarlínunni en þykist vera á móti eins og helsti leiðtogi þeirra um árabil lýsti í viðtalsbók hvernig flokkar eigi að hegða sér í stjórnarandstöðu:

„Ég gerði öll mál tortryggileg ...  Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau  ... því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu.“

Sérhagsmunirnir ofar öllu

Vanhæfni Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei verið augljósari en í málefnum ferðamanna þar sem þeir hafa brátt í heil fimm ár samfellt farið með ráðuneyti ferðamála og klúðrað því að ná inn í ríkissjóð eðlilegum gjöldum af erlendum ferðamönnum. Flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn þar sem sérhagsmunaöflum er grímulaust beitt gegn almannahagsmunum getur einfaldlega ekki tekist á við mál af þessu tagi þar sem alltaf er horft til sérhagsmunanna við ákvarðanatöku.  Annað dæmi er Landsréttur þar sem liggur við að flokknum hafi tekist að eyðileggja nýtt dómstig því svo mikið lá við að koma „réttu“ fólki að í dóminn.

Með breytingu á forystu Sjálfstæðisflokksins uppúr aldamótum var ástæða til að ætla að þar hefði orðið breyting til batnaðar og að venjulegir stjórnmálaflokkar gætu framvegis unnið með flokknum. En eftir að Sjálfstæðismenn hlógu sig máttlausa á fyrsta landsfundi eftir hrun, þegar stungið var uppá að þeir viðurkenndu að eiga þátt í hruninu eða að þeir þyrftu að biðja þjóðina afsökunar og bæta sitthvað í eigin ranni, þá mátti öllum vera ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hafði ekkert lært af hruninu og engu gleymt um hvernig þeir eru vanir að umgangast valdið.

Verulegar líkur eru á að morguninn eftir kosningarnar í vor muni Sjálfstæðisflokkurinn reyna að efna til hins sama í borgarstjórn og þeir gerðu eftir Alþingiskosningarnar í haust. Þeir muni setja sig í samband við Vinstri græn og bjóða þeim borgarstjórastólinn. Hverju mun VG svara því tilboði?

http://www.visir.is/g/2018180509729/djasnid-i-krununni-

 


Fær útgerðin að skjóta undan „vörslugjöldum“?

Þá er það orðið ljóst hver er hinn raunverulegi tilgangur myndunar ríkisstjórnarinnar. Það er lækkun veiðigjalda. Núverandi innheimta veiðigjaldsins tekur mið af afkomu útgerðarinnar þegar búið er að gera upp afkomuna frá því tveimur árum áður. Vel reknar útgerðir hafa búið sig undir þessa greiðslu vitandi að þeim ber að standa skil á henni. Eigi að lækka greiðslurnar sem stofnuðust fyrir tveimur árum, væri verið að hafa af þjóðinni þann hluta auðlindaarðsins sem útgerðirnar fengu að njóta til fulls þegar vel áraði en þjóðinni sagt hún fengi síðar. Útgerðirnar fengu einfaldlega greiðslufrest (áþekkt „vörslu-skatti“) á þeim hluta arðsins sem á að koma í hlut þjóðarinnar. Þennan greiðslufrest á nú að nota til að hlunnfara þjóðina um þann „rausnarlega“ hlut auðlindaarðsins sem henni er ætlað af auðlind sinni.

Hámörkun auðlindaarðsins

Eina spurningin sem stjórmálamenn ættu að reyna að svara er spurningin um hvernig tryggt sé að þjóðin fái sem mest fyrir sjávarauðlindina þannig að mestu fé megi veita til byggðastyrkja, örorkubóta, lífeyrisþega, vegaframkvæmda, heilbrigðismála, skólanna o.sv.frv.? Stjórmálamenn sem eiga ekki svar við þessari spurningu skila auðu.

Hugmyndin að breyttum veiðigjöldum núna ber með sér að stjórnmálamenn hafa enn ekki áttað sig á að veiðgjaldið er ekki skattur heldur einfaldlega kaup aðfanga til að geta haldið til veiða. Skattur er aftur á móti greiddur eftir almennum reglum. Mér vitanlega spyrja olíufélögin ekki útgerðirnar áður en þau afhenda þeim olíu sem hvort þau eigi fjármuni aflögu áður en þeim er afhent olían.

Þó illa gangi hjá einhverjum fyrirtækjum í sjávarútvegi og slíkt gæti hugsanlega leitt til byggðaröskunar þá er ekki hægt að leggja það á heila atvinnugrein að snúa því við. Hægt er að bregðast við byggðaröskun með byggðastyrkjum sem geta m.a. falið í sér styrk til einstakra sjávarútvegsfyritækja í brothættum byggðum en ekki aðgerðum sem taka til atvinnugreinarinnar í heild. Einfaldasta afkomutenging sjávarútvegs er útboð aflaheimilda til nokkurra ára í senn því engin útgerð býður hærra en fjárhagur hennar leyfir.

http://www.visir.is/g/2018180119063/faer-utgerdin-ad-skjota-undan-vorslugjoldum-


GAMLA ÍSLAND VANN

Nýja ríkisstjórnin boðar engar sögulegar sættir, bara svo það sé alveg á hreinu. Stjórnin er mynduð af keimlíkum flokkum sem eru alls engar andstæður þó það þjóni VG að halda því fram. Álitsgjafar munu áfram falla í þá gryfju, að tala um póla og sögulegar sættir því það er þægilegra fyrir þá að halda á lofti gömlum klisjum en vinna heimavinnuna sína og skoða hvað flokkarnir sem mynda ríkisstjórnina raunverulega standa fyrir.

Fyrir þá sem harma ákvörðun VG að ganga í björg Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er áhugavert að skoða dæmi um málefni sem VG telur sig ná fram nú en sem var ekki í boði með Samfylkingunni o.fl. flokkum. Þannig tryggir VG að útgerðin sleppur við að greiða sama auðlindagjald fyrir makrílveiðar og þeir inna af hendi til Færeyinga, fjárhæð sem nemur nokkrum milljörðum. Með vali á sjávarútvegsráðherra verður einnig að telja að stórútgerðin í landinu hafi unnið fullnaðarsigur.

Hvað breyttist eftir kosningar?

Í fyrri ríkisstjórn máttu Björt framtíð og Viðreisn gera sér að góðu að umbera vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins þar til þeim var loks nóg boðið. Þannig verður það líka hjá VG. Hverju flóttabarni sem vísað verður úr landi á hæpnum forsendum; hver reglugerð sem á að hindra brottkast og stöðvuð verður af útgerðinni; hver  dómaraskipan, allt verður þetta óhjákvæmilega í boði VG.

Fáir hafa lýst vinnubrögðum Sjálfstæðisflokksins með jafn afgerandi hætti og frambjóðendur VG gerðu í aðdraganda Alþingiskosninganna.  Nú hefur komið í ljós að því var greinilega bara ætlað að halda lífi í klisjunni um VG og Sjálfstæðisflokk sem andstæða flokka en alls ekki til brúks eftir kosningar.

Eftir því sem fleiri ríkisstjórnir eru myndaðar með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki um að breyta engu, fjarlægist sá draumur sem margir báru í brjósti um að í kjölfar hrunsins hefði gamla Ísland, með öllum sínum sérhagsmunum og frændhygli verið kvatt og í vændum væri nýtt og betra Ísland sem byggði á öðrum gildum en þeim sem leiddu til hruns og misskiptingar. Þessi ríkisstjórn gerir þann draum enn fjarlægari og fyrir kjósendur sem vilja nýtt Ísland hefur fækkað um einn valkost.

http://www.visir.is/g/2017171209278/gamla-island-vann-


Seðlarnir og skattsvikin

Fjármálaráðherra setur á laggir starfshóp til að koma með hugmyndir um hvernig draga megi úr skattsvikum. Þar er tekið á afar brýnum viðfangsefnum sem varða þjóðina alla t.d. um milliverðlagningu móður- og dótturfélaga og útborgun launa inn á bankareikninga. Meðal tillagna nefndarinnar er einnig stungið upp á að draga úr notkun reiðufjár með því að taka stærri bankaseðla úr notkun. Allt í einu snýst hin mikilvæga umræða um skattsvik um þetta eina atriði. Aftur og aftur verðum við vitni að því hversu mikill sannleikur er fólgin í orðum Nóbelskáldsins um að Íslendingar

„.......leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.“

Í samræmi við þessi orð skáldsins þá vitum við að í haust verður lögð fram tillaga á Alþingi um að afnema einkasölu ríkisins á áfengi. Öll þjóðmálaumræða næsta vetrar mun snúast um þessa tillögu en ekkert um brýn úrlausnarefni stjórnvalda. Hvers vegna að ræða mál eins og t.d. hlutdeild þjóðarinnar í  auðlindaarðinum þegar hægt er að ræða brennivín í búðir?

Greiðslumiðlun sem veitustofnun

Auðvitað er það aðeins tímaspursmál hvenær seðlar og mynt leggjast af og öll greiðslumiðlun verður rafræn. Skýrsla starfshópsins breytir engu um það. Hvað muna margir eftir hinu algenga greiðsluformi ávísun? Það er ekki svo langt síðan að flestir gengu með tékkhefti á sér og til mikilla framfara horfði þegar búðarkassarnir prentuðu á tékkana fyrir kúnnann.  

Í skýrslunni til fjármálaráðherra er einnig tekið undir mikilvægi þess að þjóðinni sé séð fyrir greiðslumiðlun sem þjónusti almenning og kortanotkunin verði almenningi að kostnaðarlausu. Þessi hugmynd er ekki ný af nálinni og mikilvægt að hið opinbera líti á greiðslumiðlun eins og hverja aðra þjónustu sem almenningi standi til boða líkt og gildir um aðra mikilvæga innviði samfélagsins án þess að vera ofurseldur einkafyrirtækjum á þessu sviði. Í þeim efnum er ekki eftir neinu að bíða.  

http://www.visir.is/g/2017170308859/banki-sem-veitustofnun-almennings


Banki sem veitustofnun almennings

Um allan heim eru bankar til sölu. Eins og málum háttar í hagkerfi heimsins þá er eftirspurn eftir bönkum lítil. En allt selst ef verðið er nógu lágt og það gildir einnig um íslensku bankana. Því er ekki óeðlilegt að efasemdir séu uppi um tilgang þeirra „hrægammasjóða“ sem nú eru líklegir kaupendur að íslensku viðskiptabönkunum að ekki sér minnst á hæfi þeirra til að reka banka.

Í sinni einföldustu mynd gegna bankar því hlutverki að vera greiðslumiðlun annars vegar og taka á móti innlánum og lána út fé hins vegar. Greiðslumiðlunin verður sífellt einfaldari með aukinn tækni og fer nú orðið að mestu fram án þess að starfsmenn banka komi þar nærri, nema með óbeinum hætti. Því er það kjörið tækifæri nú að skipta t.d. öðrum ríkisbankanum í tvennt, líta á greiðslumiðlunina eins og hverja aðra veitustofnun á vegum hins opinbera, skilja aðra starfsemi bankans frá og sameina hana öðrum banka. Þá væri með greiðslumiðlunarhlutanum kominn sá „þjóðarbanki“ sem sinnti grunnþörf almennings fyrir greiðsluþjónustu sem er sú bankaþjónusta sem allir þurfa.

Einstakt tækifæri

Hinn áhrifamikli hagfræðingur og dálkahöfundur Financial Times, John Kay hefur boðað þetta sama þar sem hann segir í bók sinni „Other peoples money“: 

„Greiðslukerfið er hluti þjónustunetsins, sem hnýtt er saman af rafveitu, fjarskiptakerfi og vatnsveitu, og heldur uppi félags- og efnahagslegri starfsemi“

Þessi hugmynd kemur einnig heim og saman við hugmyndir fjármálaráðherra um seðlalaust samfélag en hugmyndin að baki því er að fækka möguleikum til undanskota frá skatti. Einnig er tækifærið núna á meðan bankakerfið er meira og minna í eigu ríkisins.  Með „þjóðarbankanum“ væri ekki hægt að þröngva almenningi til að eiga viðskipti við einstaka banka og greiða þar færslugjöld og kostnað. Öllum stæði til boða heimabanki og greiðslukort sér að kostnaðarlausu í banka þjóðarinnar. Bankinn gæti rekið sig á vöxtum Seðlabankans þar sem innlán þjóðarbankans yrðu varðveitt. Þeir sem eiga fé aflögu og vilja leita hærri innlánsvaxta yrðu að fara með þær fjárhæðir annað. Útlánum yrði eins og áður sinnt af annars konar bönkum og lánastofnunum.

http://www.visir.is/banki-sem-veitustofnun-almennings/article/2017170308859

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband