Færsluflokkur: Fjármál

Af hverju að útiloka ESB?

Einn af atburðum Íslandssögunnar sem er við það að falla í gleymsku átti sér stað fyrir rétt rúmum hundrað árum þegar bændur riðu hópum saman til Reykjavíkur, sumarið 1905, til að mótmæla lagningu sæstrengs til Íslands; já  þið lásuð rétt, til að mótmæla því að lagður yrði símastrengur til landsins!  Engu er líkara en við séum að upplifa sambærilega atburði nú þegar ríkisstjórnin hefur samþykkt að loka fyrir fullt og fast einum þeirra dyra sem þjóðinni hafa staðið opnar til að kanna hvort þar fyrir innan væri að finna eitthvað sem til framfara gæti horft í samfélagi okkar.

Framtíðinni slegið á frest.

Sagan hefur farið heldur ómildilegum höndum um þá bændur sem riðu til höfuðstaðarins sumarið 1905 til að mótmæla lagningu símans. Eru þeir iðulega nefndir til sögunnar þegar nefna þarf sláandi dæmi um skammsýni og misskilda þjóðarhagsmuni.  Bændunum gekk ekki nema gott eitt til en það er ólíklegt að það framfaratímabil sem hófst hér með heimastjórn framsýnna manna 1904, hefði hafist af jafn miklum eldmóð og gengið jafn hratt fyrir sig og raun ber vitni nema af því að fyrir stjórn landsins fóru stórhuga menn sem litu á útlönd sem tækifæri en ekki ógn og voru óhræddir við að fara ótroðnar slóðir í framfarasókn þjóðarinnar.

Bændurnir buðu þó upp á valkost...

Bændurnir sem voru á móti símanum höfðu þó plan-B, þ.e. valkost við lagningu símastrengsins.  Það er meira en sagt verður um núverandi ríkisstjórn sem ætlar sér bara að hafna ókönnuðum tækifærum, án þess að bjóða upp á neinn annan valkost en þann að halda áfram á þeirri braut sem endaði svo eftirminnilega í hruninu. Lengst af undir öruggri stjórn þeirra sömu flokka og nú sitja í ríkisstjórn.

Fullkominn skortur á framtíðarsýn.

Ríkisstjórnin vill aðeins hætta aðildarviðræðum við ESB en ekki segja okkur hvað þeir vilja í staðinn.  Hver verði framtíðarstefnan í gjaldmiðilsmálum? Munu þeir viðurkenna að þjóðin losnar aldrei við gjaldeyrishöft til fulls með íslenska krónu? Geta þeir sagt okkur hvernig eigi að auka á framleiðni íslensks atvinnulífs, hvernig við fáum búið við gjaldmiðil sem verður að fullu nothæfur, fyrir stóra sem smáa, innanlands og utan? Hvernig við fáum búið við lága vexti og stöðugt verðlag eins og tíðkast meða þjóða sem búa í alvöru hagkerfum?   Nei, þjóðin skal bara „tátla hrosshárið okkar“ með  „er þetta nokkuð fyrir okkur“ – hugarfarinu. 

 http://www.visir.is/gegn-sima-1905-og-esb-2014-/article/2014702259991


Þjóðinni haldið á snakki......

  Hægfara hnignandi hagkerfi

 

Til þess að koma vel menntuðu og hæfu vinnuafli í arðbær störf þarf nýsköpun og fjárfestingu.  Vegna smæðar íslenska hagkerfisins þurfum við erlenda fjárfestingu.  Fjárfesting í virkjunum og orkufrekum iðnaði hefur náð að skapa fjölbreyttara atvinnulíf, en þar er komið að endimörkum og alls ekki verjandi að stuðla að frekari atvinnusköpun á því sviði, nema þess hærra verð fáist fyrir orkuna.  

            Sú leið sem flestar nágrannaþjóða okkar hafa farið til að nýsköpunar og fjárfestingar er að leita eftir samvinnu við aðrar þjóðir og nægir þar að vísa til Dana, Íra, Svía og Finna auk Eystrasaltsþjóðanna, en um margt er staða íslenska hagkerfisins svipuð þeim aðstæðum sem þær glíma við.

Þessi einfalda staðreynd um gildi náinnar samvinnu við aðrar þjóðir hafa vinaþjóðir okkar áttað sig á og því er það þeim kappsmál að gerast fullgildir aðilar í samfélagi sjálfstæðra þjóða sem er beinlínis stofnað til þess að örva erlenda fjárfestingu og hagvöxt.  Þetta samfélag sjálfstæðra þjóða nefnist Evrópusambandið, ESB.  Þessi grundvallaratriði virðast gleymast í málflutningnum um mögulega aðild  Íslands að ESB og umræðan föst í heitstrengingum og brigslyrðum en ekki köldu stöðumati.

 

Er þeim treystandi fyrir fjöreggi þjóðarinnar?

 

Og í stað þess að gefa þjóðinni tækifæri á að fá að sjá samning við ESB þá lætur ríkisstjórnin röksemdafærsluna „...teljum að hagsmunum sé betur borgðið“ duga  í stað þess að staðreyna hvað er í boði.  -  Þannig fær lítill hópur einstaklinga sem „telur“ og „heldur“ að ráða fjöreggi þjóðarinnar.  Þessi litli hópur, sem telur sig einan vita, fær með þessum hætti að koma í veg fyrir að þjóðin geti staðreynt hvað henni stendur til boða í því samfélagi sjálfstæðra þjóða sem allar helstu nágranna- og vinaþjóðir okkar hafa kosið að taka þátt í. 

Á meðan er þjóðinni haldið á snakki um eitthvað sem kannski kann að koma einhverntíma í framtíðinni.  Eitthvað á borð við olíuvinnslu, skipaferðir í norðurhöfum, viðskipti við Kína o.sv.frv. án þess að það sé í nokkurri andstöðu við aðild okkar að ESB, eða geti skoðast sem valkostur við aðild. 

Gjaldeyrishöftin sem þjóðin býr við er ein mesta ógn sem stendur að íslensku efnahagslífi. Miðað við þá reynslu sem við höfum af sjálfstæðum gjaldmiðli þá ætti enginn að velkjast í vafa um að fyrst ekki tókst að varðveita verðgildi íslensku krónunnar í höftum á þeim 90 árum sem krónan hefur verið sjálfstæð mynt, þá er ljóst að án fjármagnshafta mun það alls ekki ganga.  Þetta ætti reynslan að hafa kennt okkur.  Sennilega yrði einn stærsti fjárhagslegi ávinningur Íslendinga við aðild að ESB fólginn í upptöku evrunnar og þó svo það verði ekki á næstu árum þá er ljóst að aðild, samhliða áætlun um upptöku evru, færi langt með að færa okkur kosti evru-aðildarinnar strax.

Um þá valkosti sem þjóðinni standa til boða fær hún aftur á móti ekki að segja sitt álit en þess í stað er henni boðið upp á málflutning manna sem láta nægja að segjast  „halda“ og „telja“ hvernig hagsmunum þjóðarinnar er best borgið.  Kannski hnignar hagkerfi okkar miklu hraðar en „hægfara“ ?

 

http://www.visir.is/haegfara-hnignandi-hagkerfi/article/2014701239981 


Forsetinn ræður örlögum veiðigjaldsins.

Forsetinn hefur það í hendi sér hvort hann vill veita ríkisstjórninni brautargengi til að rjúfa þá tilraun til sátta um veiðigjöld, sem tókst með gildandi lögum, með því að undirrita væntanlega lagabreytingu eða vísa henni til þjóðarinnar. 

Eftir góðar undirtektir almennings við undirskriftasöfnun gegn lækkun veiðigjalda hefur farið í gang gamalkunnur hræðsluáróður um útgerðarfyrirtæki sem munu leggja upp laupana og sveitarfélög sem munu sjá á eftir tekjum, ef óbreytt veiðigjöld verða innheimt.  Við hræðsluáróðri af þessu tagi eru einföld svör.  Á meðan útgerðirnar, sem telja sig bera skarðan hlut frá borði, eru ekki reiðubúnar að opna bókhald sitt og sýna okkur svart á hvítu hvernig þeir komast að þeirri niðurstöðu að veiðigjaldið muni ríða þeim á fullu þá er ekki ástæða til að leggja trúnað á yfirlýsingar þeirra.  Ef sveitarfélög telja sig verða af tekjum vegna veiðigjalds þá eiga þau að gera kröfu um hlutdeild í gjaldinu því heppilegast væri að veiðgjaldið rynni að stærstum hluta til sveitarfélaganna í landinu.

Ef ríkisstjórninni gengi það eitt til að lagfæra flókin útfærsluatriði á núverandi lögum, svo hægara verði að innheimta veiðigjöldin, þá myndi hún ekki samhliða leggja áherslu á að lækka gjaldið.  Ákafinn í að lækka gjaldið um milljarða á milljarða ofan færir okkur heim sanninn um að þeim gangi allt annað til en einföldun og lagfæringar.  

Eru veiðafærasalar að setja útgerðina á hausinn?

 

Veiðigjaldið sem samþykkt var gerði ráð fyrir álagningu gjalds sem innheimt yrði eins og hver annar kostnaður við aðföng útgerðar, kostnaður sem yrði að standa skil á líkt og kostnað við t.d. veiðarfæri.  Þessu vill núverandi ríkisstjórn breyta og láta gjaldið taka mið af afkomu fyrirtækjanna. Slíkt þarf veiðarfærasalinn ekki að sætta sig við, útgerðin verður að standa skil á uppsettu verði fyrir netin alveg óháð því hver reiknuð afkoma útgerðarinnar er. Samt vill ríkisstjórnin að eigendur fiskimiðanna, þjóðin, þurfi að sætta sig við að fá því aðeins greitt fyrir afnotaréttinn ef útgerðirnarnar sýna hagnað. Reynslan hefur kennt okkur að útgerðum er í lófa lagið að sýna lítinn hagnað eða tap af rekstri, ef þeim sýnist svo.   veidigjald.is

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband