Færsluflokkur: Umhverfismál
Þjóðaratkvæði um auðlindaákvæðið
10.1.2020 | 10:24
Ríkisstjórnin kveðst vera komin með orðalag á auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem Sjálfstæðisflokkurinn getur sætt sig við. Það er orðalagið sem sett hefur verið fram í samráðsgátt stjórnvalda. Um orðalagið er deilt og þeir fræðimenn á þessu sviði (http://thorkellhelgason.is/?p=2798) sem árum saman hafa unnið að því tryggja yfirráð þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni telja hugmynd ríkisstjórnarinnar útþynnta, hún tryggi ekki raunveruleg yfirráð þjóðarinnar.
Ríkisstjórnin hyggst ekki standa fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar en er reiðubúin að lagfæra nokkur atriði hennar þ.á.m. ákvæði um auðlindir í þjóðareigu. Orðalag annarra ákvæða eru minna umdeildar og gætu því náð fram að ganga í sæmilegri sátt. Svo háttar ekki um ákvæðið um auðlindir í þjóðareigu.
Lýðræðisleg niðurstaða
Allir stjórmálaflokkar, að Sjálfstæðisflokknum undanskildum, hafa lýst vilja til aukinna þjóðaratkvæðagreiðslna til að útkljá deilumál sem kljúfa þjóðina. Því er einsýnt að mikill meirihluti alþingismanna ætti að vera þess albúinn að spyrja þjóðina í allsherjaratkvæðagreiðslu hvort orðalagið hugnist henni betur, orðalagið sem fræðimenn telja til þess fallið að tryggja raunveruleg yfirráð þjóðarinnar á auðlindunum eða orðalagið í samráðsgáttinni.
Þó að slík þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki bindandi þá er ekki ástæða til að ætla annað en allir alþingismenn mundu sjá sóma sinn í því að hlíta niðurstöðu hennar. Málefnið hefur þjóðin þegar rætt í þaula, er vel upplýst um kosti þess og galla og tilbúin að segja sitt álit.
Kosningin fari fram strax
Ríkisstjórnarflokkarnir stefna á breytingarnar í lok núverandi kjörtímabils þannig að þær taki gildi í byrjun hins næsta. Fyrst þetta er eina leiðin sem Sjálfstæðisflokkurinn sættir sig við og þar með Framsóknarflokkur og Vinstri græn, þá ætti allsherjaratkvæðagreiðsla að vera kærkomin til að tryggja að þessar takmörkuðu breytingar eigi sér stað í sátt við þjóðina. Slík atkvæðagreiðsla verður að fara fram hið allra fyrsta á þessu ári þannig að niðurstaða liggi fyrir ef óvænt endalok verða á kjörtímabilinu eða ætlar Alþingi að leyfa Sjálfstæðisflokknum að segja við þjóðina í lok kjörtímabilsins, annaðhvort þiggið þið það sem við réttum ykkur eða þið fáið ekki neitt?
https://www.frettabladid.is/skodun/thjodaratkvaedi-um-audlind/
Umhverfismál | Slóð | Facebook
Afrekaskrá Vinstri grænna
6.11.2019 | 16:06
Það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann
-Ríkisstjórnin hyggst veikja Samkeppniseftirlitið á þann veg að eftirleiðis geti fyrirtæki metið sjálf hvort samkeppni milli þeirra sé næg...
-Samkeppniseftirlitið mun ekki fá að skjóta málum til dómstóla heldur munu fyrirtækin eiga síðasta orðið... (eins og þegar útgerðir láta eigin vigtun á afla gilda um það magn sem þær koma með að landi, ekki það sem hafnarvogin vigtaði. Nú vilja fleiri fyrirtæki fá að njóta sama sjálfdæmis.)
-Ríkisstjórnin hyggst lækka erfðafjárskatt...
-Ríkisstjórnin hyggst koma á fót þjóðarsjóði fyrir arðinn af auðlindum þjóðarinnar, en arðurinn af sjávarútvegsauðlindinni er ekki hafður með... (eins og ríkisstjórnin telji fiskimiðin ekki meðal eigna þjóðarinnar.)
-Þjóðarsjóðinn á síðan að fela einkafyrirtækjum (á borð við GAMMA) að ávaxta í stað Seðlabankans sem hefur boðist til að taka það að sér á svipaðan hátt og gert er í Noregi.
Þetta eru nokkur þeirra mála sem ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna hyggst berjast fyrir á Alþingi. Orkupakkanum hafa þau þegar náð í gegn, pakki sem þau hefðu verið algjörlega mótfallin ef þau hefðu ekki verið í ríkisstjórn.
Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég
Á hátíðarstundum í flokksstarfi Vinstri grænna eru hins vegar talin upp afrek þeirra í ríkisstjórnarsamstarfinu. Upptalning VG á árangri eru í besta falli almennar yfirlýsingar um náttúrvernd og loftslagsmál og eingöngu í málaflokkum sem nær allir eru sammála um. Ætla má að málefnin sem talin eru upp hér í byrjun stríddu gegn þeim grundvallarsjónarmiðum sem VG segist standa fyrir í orði kveðnu a.m.k.
Við myndun ríkisstjórnarinnar greindi núverandi forseti ASÍ, sem er fyrrum framámaður í VG, frá því hvert hún teldi að yrði hlutskipti VG í ríkisstjórninni. Svo virðist sem forspá hennar sé nú þegar orðin að áhrínisorðum.
Umhverfismál | Slóð | Facebook
MAKRÍLLINN, nú er lag
3.6.2019 | 10:09
Óvænt innkoma makríls í íslenska landhelgi upp úr aldamótum skóp einstakt tækifæri til að láta þjóðina njóta góðs af nýrri auðlind í þjóðareigu. Því miður voru önnur sjónarmið látin ráða þegar heimildum til veiða á makrílnum var úthlutað og hefur þjóðin síðan að mestu farið á mis við þann arð sem henni ber sem eiganda auðlindarinnar. Stjórnvöld reyndu síðan að tryggja örfáum útgerðum einokun á makrílveiðum til margra ára en urðu frá að hverfa eftir að þjóðin lýsti vanþóknun sinni á fyrirætlan þeirra með þátttöku í einni víðtækustu undirskriftasöfnun seinni ára.
Nú er talið að stofn makríls hafi verið vanmetinn og því megi búast við töluverðri aukningu þess sem leyfilegt verður að veiða. Enn á ný hyggjast stjórnvöld úthluta makríl með sama hætti og öðrum fiskistofnum án þess að tryggja þjóðinni sanngjarna hlutdeild í auðlindaarðinum.
Einmitt nú er tækifæri til að þróa aðferðir til úthlutunar sem gætu byggt á að hluta til þeirra sem veitt hafa áður og öðrum hluta sem yrði boðinn út með skilyrðum. Fréttir um vanmat á makrílstofninum gera enn frekar kleift að bjóða út a.m.k. aukningu aflaheimilda án þess að skerða á nokkurn máta það sem útgerðum hefur staðið til boða endurgjaldslítið fram að þessu. Um leið gæfist fleirum tækifæri til að taka þátt í veiðunum.
Auðlindagjaldið til byggðanna.
Vel má hugsa sér að þeir fjármunir sem fengjust með útboði aflaheimilda rynnu alfarið til að styrkja viðkvæmar byggðir í kringum landið eða til að bæta sveitarfélögum upp skaða af völdum loðnubrests. Nú er sagt stefna í samdrátt í efnahagslífinu. Einmitt þá er tilefni til að fjárfesta í innviðum á vegum sveitarfélaga og ríkisins og því ærið tilefni til að afla tekna í því skyni með eðlilegum auðlindagjöldum.
Formenn flokka á þingi eru sagðir hafa orðið sammála um tillögu um stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands. Þar er m.a. lagt til: Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni. Um gjaldtökuna segir í greinargerð með þessari tillögu: Koma þar ýmsar leiðir til greina eins og áður var rakið. Ekki er nauðsynlegt að fjárhæð gjalds komi fram í lögum enda kann gjaldið að vera ákveðið með valferli eða útboði þar sem verð og aðrir skilmálar eru ekki fyrirfram ákveðin.
Nú hafa valdhafar tækifæri til að sýna að eitthvað sé meint með umræddri tillögu og efna til útboða á makrílkvótum a.m.k. að hluta eins og að framan greinir.
Höfundur var í hópnum sem stóð fyrir undirskriftasöfnuninni Þjóðareign sem fram fór 2015 og kom í veg fyrir fyrirætlanir stjórnvalda um að afhenda einstökum útgerðum kvóta í makríl til lengri tíma.
Umhverfismál | Slóð | Facebook
ÞJÓÐARSJÓÐURINN Í HÖNDUM EINKAAÐILA
3.6.2019 | 10:04
VINSTRI GRÆN VILJA AÐ FJÁRMÁLAFYRIRTÆKI Í EINKAEIGN HÖNDLI MEÐ ÞJÓÐARSJÓÐINN SEM SEÐLABANKINN BÝÐST TIL AÐ SJÁ UM!
Alveg burtséð frá því hversu skynsamlegt það er að stofna Þjóðarsjóð þá er með ólíkindum að þegar Seðlabankinn býðst til að sjá um sjóðinn, með sama hætti og seðlabanki Noregs sér um olíusjóðinn þeirra, þá skuli ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna standa fyrir því að umsjón sjóðsins verði falin einkaaðilum. Á hvaða vegferð eru VG eiginlega?
Umhverfismál | Slóð | Facebook
ÞJÓÐAREIGN Á ORKU EN EKKI FISKIMIÐUM?
3.6.2019 | 10:01
Það hlýtur að vera grátlegt fyrir heiðarlega efasemdarmenn um orkupakkann að mest skuli heyrast frá þeim lukkuriddurum sem hæst hafa um nauðsyn þess að þjóðin fái notið orkuauðlinda sinna þó þeir megi ekki heyra á að það minnst að þjóðin fái notið arðsins af fiskimiðunum! - Og þeir hinir sömu lukkuriddarar, sem fara mikinn og krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um orkupakkann, þó þeir virði í engu baráttuna fyrir nýrri stjórnarskrá, sem mundi auðvelda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu.
Er einhver ástæða til að taka hinn hola hljóm lukkuriddaranna alvarlega? Hafa þeir ekki dæmt sig sjálfir úr leik og skákað sér út í horn umræðunnar um orkupakkann?
Umhverfismál | Slóð | Facebook
Stærstu útgerðirnar fá mest
4.6.2018 | 09:23
Frumvarp þetta er sett fram til að berja í bresti kerfis sem hefur aldrei þjónað þeim tilgangi að skila réttmætum hluta auðlindaarðsins til eiganda fiskimiðanna, þjóðarinnar allrar. Hér hefur verið búið út ógegnsætt flókið kerfi sem þarfnast stöðugra viðbóta og nýrra útfærslna þó margsinnis hafi verið bent á aðrar leiðir sem þjónað geta sama tilgangi mun betur.
Hin augljósa niðurstaða veiðigjaldafrumvarpsins er sú að þegar öll gjöld eru lækkuð skilar sér mest til þeirra stærstu þó reynt sé að telja fólki trú um að aðgerðin sé fyrst og fremst hugsuð til að bæta hag lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Til að koma til móts við rekstur þeirra fyrirtækja sem kunna að eiga í erfiðleikum eru til aðrar mun einfaldari aðgerðir sem þurfa ekki jafnframt að fela í sér eftirgjöf til allra útgerða, stórra og smárra.
Yfirlýstur tilgangur frumvarpsins er að bæta hag smærri og meðalstórra útgerða. Til að sýna fram á hinn yfirlýsta vilja þá þyrfti að setja fram í töflu öll sjávarútvegsfyrirtæki í landinu. Innan hvers fyrirtækis yrði að koma fram hvað hvert og eitt þeirra aflaði af hinum nafngreindu fisktegundum frumvarpsins á síðasta heila fiskveiðiári (2016-2017) margfaldað með kr. á kg samkvæmt fyrri tilhögun.
Síðan þyrfti að margfalda þetta sama magn aftur með þeim fjárhæðum sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Með slíkum samanburði sæist hvaða fyrirtæki væru að borga meira og hvaða fyrirtæki væru að borga minna og þá fyrst væru komnar forsendur til að segja til um hvort verið væri að hygla litlum og meðalstórum fyrirtækjum eða frekar hinum stærri. Uppsetning slíkrar töflu ætti að vera lítið mál m.v. fyrirliggjandi upplýsingar hjá Fiskistofu og ráðuneytinu en slík framsetning er einfaldlega forsenda þess að hægt sé að fullyrða að þetta sé gert í þágu lítilla og meðalstórra útgerða.
Byggðasjónarmið
Við jafn mikilvæga ákvörðun og hér er stefnt að þá hlýtur fyrst og fremst að verða að horfa til afkomu sjávarútvegsins sem atvinnugreinar. Um leið og farið er að blanda byggðasjónarmiðum inn í umræðuna þá er ekki lengur verið að horfa á sjávarútveginn sem atvinnugrein heldur er honum ætlað annað hlutverk út frá byggðasjónarmiði. Þegar það er gert þá færist gjaldtaka í sjávarútvegi niður í lægsta samnefnara svo þeim sem lakast standa verði bjargað. En það þýðir jafnframt að þar sem reksturinn gengur vel, að þar verður til hagnaður langt umfram það sem eðlilegt getur talist.
Hér er alls ekki gert lítið úr byggðasjónarmiðum sem eiga fyllsta rétt á sér. Þegar þurfa þykir mætti t.d. styrkja fyrirtæki í hinum brothættu byggðum með beinum fjárframlögum í stað þess að miða alla gjaldtöku í greininni við rekstur þeirra fyrirtækja sem lakast standa. Þannig gæti gjaldtakan samkvæmt veiðigjaldafrumvarpinu runnið að drjúgum hluta til að styðja við fyrirtæki sem illa væri komið fyrir og yrði það gert samkvæmt fyrirfram mótaðri byggðastefnu.
Opnir ársreikningar
Þegar fyrrgreindur samanburður hefur verið gerður á gjöldunum sem útgerðir greiða fyrir lagabreytingu og eftir hana þá er ástæða til að skoða reikninga einstakra útgerða. Ef kostnaður lítilla og meðalstórra útgerða hefur aukist þá þarf að opna bókhald þeirra, til að kanna af hvaða völdum það er, áður en komið er til móts við þau með einum eða öðrum hætti af hálfu hins opinbera. Í litlum og meðalstórum fyrirtækjum getur óhófleg launahækkun til forstjóra og stjórnenda vegið þungt í afkomu fyrirtækisins. Einnig ef fyrirtækið hefur t.d. freistast til að kaupa dýra bifreið undir forstjórann þá sér þess stað í verri afkomu að ekki sé minnst á arðgreiðslur sem kunna að hafa veri umfram það sem fyrirtækið ber.
Því aðeins að fyrirtækin verði reiðubún að sýna ársreikninga sína ættu þau að fá notið nokkurra ívilnana því það er varla tilgangur veiðgjaldafrumvarpsins að auðvelda einstökum fyrirtækjum að auka á óhóf í rekstri þeirra.
Skattaspor
Eitt af því sem greinargerð frumvarpsins gerir að umfjöllunarefni er hið svokallaða skattaspor íslensks sjávarútvegs. Þessu hugtaki hefur verið beitt oftsinnis áður í þágu málstaðar þeirra sem nú gera út á Íslandsmiðum og sækja í sameign þjóðarinnar. Þá eru talin upp þau opinberu gjöld sem fyrirtækin greiða, að mestu skattar og gjöld sem öll fyrirtæki á Íslandi greiða, sjávarútvegsfyrirtæki sem og önnur fyrirtæki.
Vegna umfangs sjávarútvegsins í landsframleiðslunni þá eru þetta háar fjárhæðir og sér Deloitte og hagsmunasamtök útgerðanna um að tíunda þetta reglulega eins og að hér sé um einhverskonar ölmusu að ræða sem sjávarútvegurinn af góðsemi einni saman greiðir í ríkissjóð.
En skattaspor má skoða með ýmsu móti. Þannig má til sanns vegar færa að skattaspor hjóna með tvö börn á skólaaldri sé hlutfallslega stærra heldur en skattaspor sjávarútvegsins. Hjónin þurfa að greiða beina skatta af launum sínum auk óbeinna skatta af öllum keyptum vörum til heimilisins til að fæða og klæða börn sín og þau sjálf. Hlutfallslegur kostnaður þeirra af opinberum gjöldum er síst minni heldur en sá kostnaður sem sjávaútvegurinn greiðir hinu opinbera.
Gallaðar aðferðir
Ljóst má vera að sú aðferð sem notuð er til að láta eiganda fiskveiðiauðlindarinnar, þjóðina, njóta arðsins af auðlindinni er meingölluð. Um það eru flestir sammála. Það eitt ætti að nægja til þess að leitað yrði annarra og nýstárlegri leiða til að sneiða hjá vandræðagangi sem þeim frumvarp þetta ber vott um.
Nokkuð er vitnað til endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte og talna sem frá þeim koma en hafa verður í huga að greiðslur sjávarútvegsfyrirtækja til Deloitte nema tugum milljóna á ári hverju og hafa gert í mörgt ár og er sjávarúvegurinn sem heild einstaki mikilvægasti viðskiptamaður Deloitte á Íslandi.
Taka verður undir niðurlag 4. kafla greinargerðar með lagafrumvarpinu þar sem segir:
Samantekið má segja að gæta verði þess að veiðigjald verði sanngjarnt en í því felst ekki síst að líta eftir fremsta megni til bestu upplýsinga hverju sinni um rekstrarafkomu og greiðslugetu sjávarútvegsfyrirtækja.
Þetta eru orð að sönnu. Fyrst mikið er vitnað til Deloitte í greinargerðinni væri ekki úr vegi að fá sérfræðinga Deloitte til að upplýsa hvernig þeir myndu í ljósi sinnar sérfræðiþekkingar og menntunar leysa þetta vandamál sem lýtur að innheimtu gjalds af takmarkaðri auðlind og hér hefur verið lýst. Svar þeirra þyrfti að byggjast á hreinskilni og mætti ekki vera markað því að þeir eiga stærstan hluta afkomu sinnar undir þjónustu við sjávarútvegsfyrirtækin.
Umhverfismál | Slóð | Facebook
Banki sem veitustofnun almennings
9.3.2017 | 14:28
Um allan heim eru bankar til sölu. Eins og málum háttar í hagkerfi heimsins þá er eftirspurn eftir bönkum lítil. En allt selst ef verðið er nógu lágt og það gildir einnig um íslensku bankana. Því er ekki óeðlilegt að efasemdir séu uppi um tilgang þeirra hrægammasjóða sem nú eru líklegir kaupendur að íslensku viðskiptabönkunum að ekki sér minnst á hæfi þeirra til að reka banka.
Í sinni einföldustu mynd gegna bankar því hlutverki að vera greiðslumiðlun annars vegar og taka á móti innlánum og lána út fé hins vegar. Greiðslumiðlunin verður sífellt einfaldari með aukinn tækni og fer nú orðið að mestu fram án þess að starfsmenn banka komi þar nærri, nema með óbeinum hætti. Því er það kjörið tækifæri nú að skipta t.d. öðrum ríkisbankanum í tvennt, líta á greiðslumiðlunina eins og hverja aðra veitustofnun á vegum hins opinbera, skilja aðra starfsemi bankans frá og sameina hana öðrum banka. Þá væri með greiðslumiðlunarhlutanum kominn sá þjóðarbanki sem sinnti grunnþörf almennings fyrir greiðsluþjónustu sem er sú bankaþjónusta sem allir þurfa.
Einstakt tækifæri
Hinn áhrifamikli hagfræðingur og dálkahöfundur Financial Times, John Kay hefur boðað þetta sama þar sem hann segir í bók sinni Other peoples money:
Greiðslukerfið er hluti þjónustunetsins, sem hnýtt er saman af rafveitu, fjarskiptakerfi og vatnsveitu, og heldur uppi félags- og efnahagslegri starfsemi
Þessi hugmynd kemur einnig heim og saman við hugmyndir fjármálaráðherra um seðlalaust samfélag en hugmyndin að baki því er að fækka möguleikum til undanskota frá skatti. Einnig er tækifærið núna á meðan bankakerfið er meira og minna í eigu ríkisins. Með þjóðarbankanum væri ekki hægt að þröngva almenningi til að eiga viðskipti við einstaka banka og greiða þar færslugjöld og kostnað. Öllum stæði til boða heimabanki og greiðslukort sér að kostnaðarlausu í banka þjóðarinnar. Bankinn gæti rekið sig á vöxtum Seðlabankans þar sem innlán þjóðarbankans yrðu varðveitt. Þeir sem eiga fé aflögu og vilja leita hærri innlánsvaxta yrðu að fara með þær fjárhæðir annað. Útlánum yrði eins og áður sinnt af annars konar bönkum og lánastofnunum.
http://www.visir.is/banki-sem-veitustofnun-almennings/article/2017170308859
Umhverfismál | Slóð | Facebook
Langsóttar röksemdir fyrir flugvelli í Vatnsmýri
15.9.2013 | 21:39
1. Vörur Þessi ábending bendir á mikilvægi þess að halda flugvellinum í Vatnsmýri vegna vöruflutninga. Þar gildir einu hvort flutningar eiga sér stað um Vatnsmýri eða Keflavíkurflugvöll.
2. Farþegar. Segir okkur nákvæmlega ekkert um hvort þeir sem um flugvöllinn fara væru jafnsettir eða betur settir með flugi um Keflavík. Á meðan ekki liggur fyrir rannsókn á því hverjir farþegarnir eru, sem flugvöllinn nota þá set ég fram eftirfarandi tilgátu:
Hversu margir nota flugvöllinn að staðaldri?
Reykjavíkurflugvöllur þjónar fyrst og fremst tiltölulega fáum einstaklingum sem eru oft á ferðinni, t.d. sveitastjórnarmönnum, þingmönnum og fáeinum athafnamönnum. Allur almenningur kýs að fara akandi, þó auðvitað komi upp tilvik þegar farið er með flugi, en hjá hverjum einstaklingi eru tilvikin afar fá. - Verulegur hluti farþega um Reykjavíkurflugvöll eru innlendir og erlendir farþegar á leið til og frá útlöndum sem myndu kjósa að geta flogið beint til og frá áfangastað innanlands um Keflavíkurflugvöll.
Spurningin stendur þá um hvort réttlætanlegt sé að halda úti flugvelli sem þjónar fyrst og fremst fáum áhrifamiklum einstaklingum.
3. Sagan sem rakin er á vefsíðunni um flugsögu Íslendinga sem hófst í Vatnsmýri hverfur ekki þó flugvöllurinn fari.
4. Varaflugvöllur. Undir þessum lið eru talin upp rökin fyrir því að halda Reykjavíkurflugvelli opnum sem varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll. Skemmst er um þennan lið að segja að Pawel Bartoszek hrakti þær röksemdir sem þar koma fram lið fyrir lið í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið þann 30. ágúst s.l.
5. Þjónusta er liður sem fjallar um störfin sem unnin eru á flugvellinum. Ljóst má vera að störfin sem þar eru unnin leggjast ekki af heldur flytjast til.
6. Kennsla. Flugnám mun einfaldlega flytjast annað og gæti það orðið til að styrkja verulega flugakademíuna hjá Keili á Keflavíkurflugvelli.
Störfin verða unnin annars staðar.
7. Hagræn áhrif sýna okkur fram á hversu mikilvægt er að haldið sé úti flugrekstri til og frá landinu alveg óháð því hvar hann fer fram.
8. Ferðamenn, þau hæpnu rök sem þar eru sett fram eru þau sömu og undir lið 2 og um þau gildir það sama og þar kemur fram.
9. Landhelgisgæslan. Það hlýtur aðeins að vera tímaspursmál, óháð framtíð Reykjavíkurflugvallar, hvenær flugdeild Landhelgisgæslunnar flytur til Keflavíkurflugvallar eins og reglulega kemur fram krafa um á Alþingi. Ríkisendurskoðun hefur nýlega bent á að LHG ætti e.t.v. að vera sá aðili sem sæi um allt sjúkraflug hér á landi með flugflota í samræmi við það.
10. Höfuðborg. Flestar höfuðborgir í nágrannalöndum okkar eru með flugvelli í 30 60 mín. fjarlægð frá miðborginni. Þannig verður Reykjavík nákvæmlega jafn vel sett og þær borgir. Ekki hefur tekist að benda á nein sjúkrahús í veröldinni þar sem það þykir máli skipta að flugvöllur sé í næsta nágrenni.
11. Umhverfi. Röksemdirnar sem notaðar eru til að halda því fram hversu lítil mengun fylgir flugi eru röksemdir sem breytast ekki þó flugið flytjist frá Reykjavík
12. Sjúkraflug. Hér erum við komið að þeim lið sem hlýtur að teljast sá hæpnasti í áróðri fllugvallarsinna. Hér hafa verið notuð afar ósmekkleg tilfinningarök sem eru til þess fallin að draga umræðuna niður plan sem hún á ekki skilið. Viljandi, þá horfa forráðamennirnir fram hjá því að mikilvægi þess að koma sjúklingi undir læknishendur, hefst ekki á Akureyrarflugvelli og lýkur ekki á Reykjavíkurflugvelli. Mikilvægið nær til alls þess tíma frá því slysið (eða atburðurinn sem til flutninganna leiðir) á sér stað og þá kemur svo margt annað til greina, heldur en sjúkraflugið eitt til Reykjavíkur, til að gera þann tíma sem stystan.
Af öllu þessu má ráða að flugvallarsinnar hafa farið með himinskautum í röksemdafærslum sínum fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri. Svo virðist að röksemdin sem þyngst er á metum er röksemdin það er svo miklu þægilegra. Spurningin er því sú hvort þægindi takmarkaðs hóps eigi að standa í vegi fyrir þeim þjóðarhagsmunum sem eru í húfi fyrir því að flugvöllurinn víki.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook