Færsluflokkur: Kjaramál
ÍSLENSKA OG DANSKA KRÓNAN Í 100 ÁR
2.11.2020 | 11:29
Lífeyrissjóðunum er gert að taka á sig tapið af nýjasta gengisfalli krónunnar með því að þeim er fyrirmunað að kaupa erlendan gjaldeyri til að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga en þurfa þess í stað að kaupa eignir í íslenskum krónum. Fyrir aðeins ári síðan var hægt að kaupa einn dollar á 125 krónur sem í dag kostar 141 krónu. Þessi 12% hækkun á verði erlends gjaldeyris (evra hækkað um 18%) leiðir svo aftur til hækkunar á verði innfluttrar vöru. Hér eru þau komin breiðu bökin í samfélaginu, þeir sem þiggja lífeyri frá lífeyrissjóðum og almenningur sem þarf að borga nauðsynjavörur hærra verði. Hvor tveggja afleiðingar af því að Íslendingum er gert að búa við smæsta gjaldmiðil í heimi, örmynt sem er hvergi annars staðar gjaldgeng.
Hvers vegna?
Þrátt fyrir að þjóðin þekki af eigin raun hvernig verðlag á Íslandi hækkar endalaust og þrátt fyrir að verðlagshækkanirnar megi nær undandtekningalaust rekja til hækkana á innfluttum vörum, sem verða stöðugt dýrari vegna verðhækkana á erlendum gjaldeyri, þá eru ennþá til aðilar sem telja að heppilegast sé fyrir íslenska þjóð að notast við íslenska krónu.
Íslensk króna varð til sem sjálfstæður gjaldmiðill um 1920. Fram að því var gengi hennar það sama og dönsku krónunnar. Frá þeim tíma hafa þessar tvær myntir þróast með gjörólíkum hætti. T.d. hefur gengi danskrar krónu gagnvart dollar á þessum hundrað árum haldist innan við tíu krónur danskar, á meðan gengi íslenskrar krónu gagnvart dollar fer yfir 10 þúsund íslenskar krónur, ef horft er framhjá myntbreytingunni á íslensku krónunni 1980.
Íslendingar hafa lært að lifa með hinni stöðugu gengislækkun en fórnirnar hafa verið miklar. Nær ógerlegt er að nefna allar þær ráðstafanir fyrirtækja og heimila sem teknar voru til þess eins að reyna af veikum mætti að viðhalda raunvirði peninga í stað þess að verja fjármununum til arðbærra fjárfestinga. Þannig var algengt, þegar vitað var að gengisfellingar vofðu yfir, að almenningur keypti heimilistæki sem vitað var að myndu hækka í verði, jafnvel eingöngu í þeim tilgangi að selja þau aftur á nýja verðinu. Einnig má nefna virðingarleysið fyrir gjaldmiðlinum sem lýsir sér í að eydd króna hefur alla tíð verið í meiri metum meðal þjóðarinnar en geymd króna. Þannig eru Íslendingar miklu meiri eyðsluklær en gengur og gerist þar sem vitað er að geymd króna rýrnar að verðgildi með hverjum deginum sem líður á meðan hún er í vasa þínum.
Svo gott að hafa krónuna
Meðal þess sem haldið er fram þegar sagt er það er svo gott að hafa krónuna er að hún geti jafnað út sveiflur í hagkerfinu. Reynslan hefur aftur á móti kennt okkur að hún jafnar ekkert út heldur viðheldur hún bara niðursveiflum og bætir svo í þær. Niðursveiflurnar rýra síðan afkomu alls almennings.
Stöðugt fallandi króna er og verður fyrst og fremst tæki þeirra sem þurfa að flytja fjármuni frá almenningi til fyrirtækja sem hafa ýmist komið sér sjálf í bobba eða fyrir tilstuðlan vanhæfra stjórnmálamanna eða vegna utanaðkomandi áhrifa sem hægt er að glíma við með öðrum hætti en grípa til gengislækkkunar. Gengislækkun er auðvelda leiðin út úr vandanum þar sem hún gerir minnstar kröfur til ráðamanna. Reyndar er þetta ástand fallandi krónu orðið svo inngróið í þjóðarsálina að margir álíta það óbreytanlegt. Hér er um að ræða er þetta nokkuð fyrir okkur-heilkennið sem byrgir mönnum sýn og ber fyrst og fremst vott um minnimáttarkennd þeirra sem því eru haldnir. Heilkennið er ótrúlega algengt meðal stjórnmálamanna hvort sem þeir telja sig vera til vinstri eða hægri.
UMSKIPTINGUR VINSTRI GRÆNNA
30.10.2020 | 12:29
Einn morgun þegar Gregor Samsa vaknaði heima í rúmi sínu eftir órólegar draumfarir, hafði hann breyst í risavaxna bjöllu eru ein frægustu upphafsorð heimsbókmenntanna, upphafsorð Umskiptanna eftir Kafka. Viss líkindi má sjá með Vinstri grænum og Gregor Samsa þegar þau vöknuðu upp daginn eftir kosningar, allt annar flokkur heldur en þau höfðu gefið sig út fyrir fram á kjördag. Þessi umskipti Vinstri grænna sjást víða og eru sláandi í afstöðu þeirra til auðlindaákvæðis stjórnarskrárinnnar.
Vinstri græn stóðu að auðlindatillögu allra stjórmálaflokka, nema Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 2013, þegar náðist breið samstaða um auðlindaákvæðið. 2020 hafa Vinstri græn snúið við blaðinu og leita nú samstöðu með þeim sem þeir áður stóðu gegn. Eðlilega er spurt hví Vinstri græn séu svo gjörsamlega heillum horfin og gengin í björg þeirra sem ganga erinda stórútgerðinnar.
Á meðfylgjandi samanburðartöflu má sjá hvernig orðalag auðlindaákvæðisins var 2013 þegar Vinstri græn komu að gerð þess. Þar er talað um að þeir sem hagnýti auðlindir greiði eðlilegt gjald til hóflegs tíma í senn, það leiði aldrei til eignaréttar eða óafturkræfs forræðis og hagnýtingin skuli vera á jafnræðisgundvelli. - Það orðalag sem Vinstri græn leggja til núna er aftur á móti eins og sniðið að þörfum þeirra sem nú hagnýta auðlindir landsins gegn málamyndagjaldi. Allt og sumt sem þar er sagt um gjaldtöku er að hún skuli ákvörðuð með lögum og gætt að jafnræði og gagnsæi. Það orðalag þýðir að gjalddtaka fyrir afnot af auðlind í eigu þjóðarinnar, fiskimiðunum, verður aldrei nema á forsendum stórútgerðarinnar. Í núverandi lagaumhverfi og skorti á stjórnarskrárákvæði um auðlindir er orðalagið sem Vinstri græn leggja til, beinlínis til þess fallið að festa í sessi óbreytt ástand, og því merkingarlaust til að tryggja raunverulegt eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum.
Samræður í skötulíki
Þegar efnt var til samráðs með samtali við þjóðina um stjórnarskrármál, að frumkvæði núverandi ríkisstjórnar, þá var það með þeim eindæmum að auðlindaákvæðið var undanskilið en það er það ákvæði sem líklegast er að þjóðin hafi mótað sér skoðun á. Samtökin Þjóðareign beindu því til Alþingis að samhliða forsetakosningunum í sumar yrði þjóðin spurð hvaða orðalag þjóðin vildi hafa á auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar. Þeirri málaleitan sáu stjórnvöld ekki ástæðu til að svara.
Þjóðin hlýtur að spyrja sig hvort Vinstri græn ætli raunverulega að standa fyrir auðlindaákvæði til að þóknast Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og hugsanlega bera því við að annars styðji Miðflokkurinn annað óhagstæðara orðalag sem er þeim flokkum þóknanlegt? Þá má líka velta því upp hvort Miðflokkurinn leggi í kosningabaráttu nýbúinn að afhenda stórútgerðinni fiskveiðiauðlindina á silfurfati. Við vitum að það vefst ekki fyrir Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki en mun Miðflokkurinn leggja í það svo stuttu fyrir kosningar?
https://www.frettabladid.is/skodun/umskiptingur-vinstri-graenna/?fbclid=IwAR1by9OauTEN8xwYqNyKnLc-wZ94sjXsOwwMY6UzSEPgZwQv1sVKf2x-cYs
Þjóðaratkvæði um auðlindaákvæðið
10.1.2020 | 10:24
Ríkisstjórnin kveðst vera komin með orðalag á auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem Sjálfstæðisflokkurinn getur sætt sig við. Það er orðalagið sem sett hefur verið fram í samráðsgátt stjórnvalda. Um orðalagið er deilt og þeir fræðimenn á þessu sviði (http://thorkellhelgason.is/?p=2798) sem árum saman hafa unnið að því tryggja yfirráð þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni telja hugmynd ríkisstjórnarinnar útþynnta, hún tryggi ekki raunveruleg yfirráð þjóðarinnar.
Ríkisstjórnin hyggst ekki standa fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar en er reiðubúin að lagfæra nokkur atriði hennar þ.á.m. ákvæði um auðlindir í þjóðareigu. Orðalag annarra ákvæða eru minna umdeildar og gætu því náð fram að ganga í sæmilegri sátt. Svo háttar ekki um ákvæðið um auðlindir í þjóðareigu.
Lýðræðisleg niðurstaða
Allir stjórmálaflokkar, að Sjálfstæðisflokknum undanskildum, hafa lýst vilja til aukinna þjóðaratkvæðagreiðslna til að útkljá deilumál sem kljúfa þjóðina. Því er einsýnt að mikill meirihluti alþingismanna ætti að vera þess albúinn að spyrja þjóðina í allsherjaratkvæðagreiðslu hvort orðalagið hugnist henni betur, orðalagið sem fræðimenn telja til þess fallið að tryggja raunveruleg yfirráð þjóðarinnar á auðlindunum eða orðalagið í samráðsgáttinni.
Þó að slík þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki bindandi þá er ekki ástæða til að ætla annað en allir alþingismenn mundu sjá sóma sinn í því að hlíta niðurstöðu hennar. Málefnið hefur þjóðin þegar rætt í þaula, er vel upplýst um kosti þess og galla og tilbúin að segja sitt álit.
Kosningin fari fram strax
Ríkisstjórnarflokkarnir stefna á breytingarnar í lok núverandi kjörtímabils þannig að þær taki gildi í byrjun hins næsta. Fyrst þetta er eina leiðin sem Sjálfstæðisflokkurinn sættir sig við og þar með Framsóknarflokkur og Vinstri græn, þá ætti allsherjaratkvæðagreiðsla að vera kærkomin til að tryggja að þessar takmörkuðu breytingar eigi sér stað í sátt við þjóðina. Slík atkvæðagreiðsla verður að fara fram hið allra fyrsta á þessu ári þannig að niðurstaða liggi fyrir ef óvænt endalok verða á kjörtímabilinu eða ætlar Alþingi að leyfa Sjálfstæðisflokknum að segja við þjóðina í lok kjörtímabilsins, annaðhvort þiggið þið það sem við réttum ykkur eða þið fáið ekki neitt?
https://www.frettabladid.is/skodun/thjodaratkvaedi-um-audlind/
Afrekaskrá Vinstri grænna
6.11.2019 | 16:06
Það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann
-Ríkisstjórnin hyggst veikja Samkeppniseftirlitið á þann veg að eftirleiðis geti fyrirtæki metið sjálf hvort samkeppni milli þeirra sé næg...
-Samkeppniseftirlitið mun ekki fá að skjóta málum til dómstóla heldur munu fyrirtækin eiga síðasta orðið... (eins og þegar útgerðir láta eigin vigtun á afla gilda um það magn sem þær koma með að landi, ekki það sem hafnarvogin vigtaði. Nú vilja fleiri fyrirtæki fá að njóta sama sjálfdæmis.)
-Ríkisstjórnin hyggst lækka erfðafjárskatt...
-Ríkisstjórnin hyggst koma á fót þjóðarsjóði fyrir arðinn af auðlindum þjóðarinnar, en arðurinn af sjávarútvegsauðlindinni er ekki hafður með... (eins og ríkisstjórnin telji fiskimiðin ekki meðal eigna þjóðarinnar.)
-Þjóðarsjóðinn á síðan að fela einkafyrirtækjum (á borð við GAMMA) að ávaxta í stað Seðlabankans sem hefur boðist til að taka það að sér á svipaðan hátt og gert er í Noregi.
Þetta eru nokkur þeirra mála sem ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna hyggst berjast fyrir á Alþingi. Orkupakkanum hafa þau þegar náð í gegn, pakki sem þau hefðu verið algjörlega mótfallin ef þau hefðu ekki verið í ríkisstjórn.
Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég
Á hátíðarstundum í flokksstarfi Vinstri grænna eru hins vegar talin upp afrek þeirra í ríkisstjórnarsamstarfinu. Upptalning VG á árangri eru í besta falli almennar yfirlýsingar um náttúrvernd og loftslagsmál og eingöngu í málaflokkum sem nær allir eru sammála um. Ætla má að málefnin sem talin eru upp hér í byrjun stríddu gegn þeim grundvallarsjónarmiðum sem VG segist standa fyrir í orði kveðnu a.m.k.
Við myndun ríkisstjórnarinnar greindi núverandi forseti ASÍ, sem er fyrrum framámaður í VG, frá því hvert hún teldi að yrði hlutskipti VG í ríkisstjórninni. Svo virðist sem forspá hennar sé nú þegar orðin að áhrínisorðum.
ÞJÓÐARSJÓÐURINN Í HÖNDUM EINKAAÐILA
3.6.2019 | 10:04
VINSTRI GRÆN VILJA AÐ FJÁRMÁLAFYRIRTÆKI Í EINKAEIGN HÖNDLI MEÐ ÞJÓÐARSJÓÐINN SEM SEÐLABANKINN BÝÐST TIL AÐ SJÁ UM!
Alveg burtséð frá því hversu skynsamlegt það er að stofna Þjóðarsjóð þá er með ólíkindum að þegar Seðlabankinn býðst til að sjá um sjóðinn, með sama hætti og seðlabanki Noregs sér um olíusjóðinn þeirra, þá skuli ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna standa fyrir því að umsjón sjóðsins verði falin einkaaðilum. Á hvaða vegferð eru VG eiginlega?
ÞJÓÐAREIGN Á ORKU EN EKKI FISKIMIÐUM?
3.6.2019 | 10:01
Það hlýtur að vera grátlegt fyrir heiðarlega efasemdarmenn um orkupakkann að mest skuli heyrast frá þeim lukkuriddurum sem hæst hafa um nauðsyn þess að þjóðin fái notið orkuauðlinda sinna þó þeir megi ekki heyra á að það minnst að þjóðin fái notið arðsins af fiskimiðunum! - Og þeir hinir sömu lukkuriddarar, sem fara mikinn og krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um orkupakkann, þó þeir virði í engu baráttuna fyrir nýrri stjórnarskrá, sem mundi auðvelda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu.
Er einhver ástæða til að taka hinn hola hljóm lukkuriddaranna alvarlega? Hafa þeir ekki dæmt sig sjálfir úr leik og skákað sér út í horn umræðunnar um orkupakkann?
Þessi þjóð hlýtur að eiga betra skilið
17.12.2018 | 10:45
Stjórnvöld reyna ekki að leita sátta í sundruðu samfélagi og láta sem sundrungin komi þeim ekki við. Síðustu vikur hafa kjör almennings þegar rýrnað sem nemur gengislækkun (gamla gengið) krónunnar, kjararýrnun sem þegar er orðin langt umfram það sem var þegar verkalýðshreyfingin byrjaði að móta launakröfur sínar. - Þjóðin situr uppi með:
STJÓRNVÖLD...
- ...sem kjósa að sitja með hendur í skauti í gjaldmiðilsmálum og bíða eftir töfralausnum á meðan krónan fellur og fellur...
- ...sem láta úrskurð Kjararáðs þeim sjálfum til handa standa óbreyttan þrátt fyrir að hann hafi verið langt umfram það sem aðrir hópar hafa fengið ...
- ...sem neita að lækka laun ríkisforstjóra þrátt fyrir að launahækkanir til þeirra hafi verið í trássi við eindregna ósk stjórnvalda um hóflegar hækkanir.
SAMTÖK ATVINNULÍFS...
- ...sem neita að nota samtakamátt sinn til að fá fulltrúa sína í stjórnum lífeyrissjóða til að lækka hæstu laun í fyrirtækjum sem þeir eiga...
- ... sem velja sér launaþróun út úr norræna velferðarmódelinu en horfa ekki til langtum betri almannaþjónustu sem veitt er á Norðurlöndum. Þar nægir að nefna, húsnæðismál, skóla- og heilbrigðiskerfi auk almenningssamgangna sem allt stuðlar að því að lækka framfærslukostnað venjulegs fólks auk tryggðrar afkomu örorku- og ellilífeyrisþega.
VERKALÝÐSFÉLÖG...
- ...sem ætla að leyfa útgerðum að ráðskast áfram með fiskveiðiauðlindina óáreittum í stað þess að krefjast eðlilegs afgjalds sem gæti runnið til brýnna samfélagsverkefna á borð við húsnæðismála eða brothættra byggða ...
- ...sem treysta sér ekki til að krefjast bindingar launa við þann gjaldmiðil sem verð á innfluttum vörum sveiflast í takt við og þannig leyfa þau atvinnurekendum að halda áfram að velta kostnaði yfir á launþega í landinu.
Þessi þjóð hlýtur að eiga betra skilið.
http://www.visir.is/g/2018181219369/-dej-vu-verdbolgukynslodarinnar-?fbclid=IwAR1X9jj3TBrmZ6S1LZ0XHYo7mVOxoNbe62IPaA_RoVorFr30CqSWn_njEWE
Endalaust dekur við sérhagsmunina
13.12.2018 | 09:10
Fyrir réttu ári sagði formaður Vinstri grænna í ræðu á Alþingi að það væru aðilar í samfélaginu sem gætu ekki beðið eftir réttlæti. Þjóðin hélt að hér væri átt við okkar allra minnstu bræður sem hefðu úr litlu að spila vegna örorku eða elli. Nú hefur komið á daginn að það var tómur misskilningur, þetta voru útgerðarmenn sem átt var við. Það voru útgerðarmenn sem gátu ekki beðið eftir réttlætinu sem VG hefur nú í tvígang reynt að framfylgja. Fyrst voru þau gerð afturreka í vor en nú skal réttlætinu fullnægt.
Sama er upp á teningnum með formann atvinnuveganefndar Alþingis, þingmann VG. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur etja þingmanninum í foraðið fyrir lækkun veiðileyfagjalda en halda sig sjálfir til hlés. Þessi þingmaður hélt fram nánast öllu hinu gagnstæða um veiðileyfagjöld í þingræðu fyrir fáeinum árum þegar staða sjávarútvegs var svipuð og hún er nú. Þá taldi þingmaðurinn að útgerðin væri aflögufær, þessi sami þingmaður og nú berst um á hæla og hnakka að fá gjöldin lækkuð.
Byggðastefnu hafnað
Fyrir okkur, dauðlegt fólk, er óskiljanlegt hvernig að því er virðast dagfarsprúðir einstaklingar verða sem umskiptingar við það að komast í valdastólana. Ótvíræðar yfirlýsingar þeirra sjálfra frá fyrri tíma virðast ekki skipta þetta fólk neinu máli þegar hagsmunir útgerðarinnar eru annars vegar.
Við umræður á Alþingi kom fram tillaga um að örlitlum hluta kvótans yrði úthlutað þannig að andvirði hans gæti gengið til byggða sem ættu í vök að verjast. Þessa tillögu gat VG ekki sætt sig við þrátt fyrir sambærilegar tillögur í stefnuskrá þeirra en sem kunnugt er höfnuðu þeir að framfylgja eigin stefnumálum þegar þeim stóð það til boða í ríkisstjórninni með Samfylkingunni.
En hvers vegna er alltaf verið að agnúast út í VG en ekki hina flokkana? Ástæðan er einföld. Fyrir kosningar er VG úlfur í sauðargæru en bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur eru einfaldlega úlfar í úlfagærum og hafa aldrei dulið auðsveipni sína gagnvart útgerðinni í landinu.
http://www.visir.is/g/2018181209701/-rettlaeti-samkvaemt-vg-?fbclid=IwAR38z0vI5Q-knsbk7oCfaEGyCgyQBl9CEl9JuD6Ike1BGR8G71iNeqjli4c
Nýju veiðigjöldin keisarans.
11.10.2018 | 09:12
Frumvarp um lækkun veiðigjalda í vor var að sögn ríkisstjórnarinnar fyrst og fremst til að lækka gjöld á litlar og meðalstórar útgerðir. Í nýja veiðigjaldafrumvarpinu skipta þær engu máli en mest lagt upp úr einföldun. Samt er ekki gripið til einföldustu leiðarinnar við innheimtu veiðigjalda sem væri árlegt útboð á hluta heimildanna þar sem afgjaldið rynni alfarið til brothættra byggða. Byggðirnar gætu ráðstafað fjármununum til stuðning við litlar og meðalstórar útgerðir auk þess sem slík útboð myndu gefa nýjum aðilum möguleika á að hefja útgerð. Fjárhæð veiðigjalds sem ræðst af árlegu útboði yrði þannig ákvarðað í rauntíma, með hliðsjón af væntanlegri afkomu og alfarið ákvarðað af útgerðinni sjálfri, án afskipta stjórmálamanna. Ef tilgangur veiðileyfafrumvarpsins væri einföldun þá væri það leiðin.
Þjóðinni ber fullt gjald
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa hins vegar einsett sér að standa vörð um hagsmuni núverandi útgerðarmanna gegn hagsmunum þjóðarinnar og nýrra aðila sem hyggja á útgerð en eiga þess ekki kost í núverandi kerfi. Hatrömm andstaða ríkisstjórnarninnar gegn útboðum veiðileyfa getur ekki skýrst af öðru en því að koma í veg fyrir að þjóðin fái sannvirði aflaheimildanna enda kvaðst sjávarútvegsráðherrann hafa haft samráð við útgerðina. Þessi niðurstaða hlýtur að koma illa við stuðningsmenn VG þar sem flokkurinn lofaði hækkun veiðigjalds og stuðningi við litlar útgerðir í aðdraganda kosninga.
Ríkisstjórnin og útvegsmenn sjá sér nú leik á borði að festa veiðileyfagjaldið í sessi eins og hverja aðra skattheimtu, sem það er ekki, allt í nafni einföldunar. - Veiðileyfi, hvort sem er á Íslandsmiðum eða í ám og vötnum eru eins og hver önnur aðföng sem þarf til þess að hægt sé að halda til veiða. Sama gildir um veiðarfæri, olíu o.s.frv. og lýtur gjaldið því ekki lögmálum venjulegrar skattheimtu frekar en t.d. greiðsla til olíufélaganna fyrir olíu.
Á fimm ára tímibili 2011-16 greiddi útgerðin rúma 45 milljarða í veiðigjöld á meðan útgerðin sjálf fékk í sinn hlut 293 milljarða í aukið eigið fé og útgreiddan arð. Það er nakinn sannleikurinn.
https://www.frettabladid.is/skodun/nju-veiigjoeld-keisarans
Samtakamáttur Samtaka atvinnulífsins
29.9.2018 | 22:04
Við lifum óvenjulega tíma. Tíu árum eftir hrunið ríkir úlfúð og ósætti í samfélagi okkar. Mitt í öllu ósættinu er ráðamönnum þjóðarinnar afhentar ríflegar launahækkanir á silfurfati og fyrirtæki landsins, sem lífeyrissjóðirnir eiga að stórum hluta, ákveða að gera vel við stjórnendur sína og hækka verulega við þá launin sem þó voru rífleg fyrir. Stjórnvöld hreyfa ekki litla fingur til að vinda ofan af launahækuninni sem þeim var rétt og Samtök atvinnulífsins (SA), sem tilnefna helming stjórnarmanna almennu lífeyrissjóðanna, tala fjálglega um hóflegar hækkanir til stjórnenda fyrirtækja þar sem fulltrúar lífeyrissjóðanna sitja í stjórnum. Lítið er svo gert til að tryggja að hin fögru fyrirheit gangi eftir. Eða ætli almenningur telji að fyrirtækin,
...starfi í góðri sátt við umhverfi sitt og samfélag. Launakjör æðstu stjórnenda séu hófleg, innan skynsamlegra marka og ofbjóði ekki réttlætiskennd amennings
eins og segir í stefnuyfirlýsingu SA? Eru það ekki einmitt launakjör stjórnenda fyrirtækjanna sem misbjóða réttlætiskennd almennings?
Frómar óskir og framkvæmdin
Þegar vakin er athygli á hversu illa málflutningur SA rímar við gjörðir fyrirtækjanna og upplifun almennings af tekjuskiptingu í landinu, eins og gert var í grein í Frbl. 18. sept. þá skrifar framkvæmdastjóri SA grein í Mbl. 25. sept. s.l. þar sem hann rekur meðaltalshækkanir stjórnenda og launþega til að sýna fram á að stjórnendur séu vel að þessum hækkunum komnir. Ekki kemur fram ofan á hvaða laun hækkanirnar voru reiknaðar og ekki virðist hvarfla að honum að e.t.v. hafi launin, sem hækkanirnar reiknuðust ofan á verið of há m.v. þann veruleika sem Íslendingar búa við í dag og hækkanirnar því beinlínis til þess fallnar að auka á úlfúð og ósætti í samfélaginu.
Við einhverjar tilteknar aðstæður hefði samanburður á prósentutölum á borð við þær sem bornar eru fram í greininni haft eitthvað að segja. En við búum við allt aðrar aðstæður á öðrum og óvenjulegri tímum sem kallar á óvenjulegar ráðstafanir. Ráðstafanirnar sem SA gæti gripið til var lýst í greininni í Frbl. og einnig á opnum fundi með Landssambandi lífeyrissjóða fyrir hálfu þriðja ári.
SA gæti sem hægast notað samtakamátt sinn til að hindra þá ofurlaunaþróun sem þegar er orðin og fyrirséð hjá stjórnendum fyrirtækja í eigu lífeyrissjóðanna. Þannig gæti SA látið yfirlýsingar þeirra um að laun stjórnenda
skuli vera hófleg og í samræmi við íslenskan launaveruleika
verða að veruleika. Framkvæmdin hjá SA fram að þessu ber ekki vott um að hinar frómu óskir forráðamanna SA séu neitt annað en orðin tóm.
Því ættu samtök launafólks að treysta félagsskap sem notar samtakamátt sinn eingöngu til að semja við verkalýðsfélög en neita að nota samtakamáttinn til að halda aftur af ofurlaunum stjórnenda í atvinnulífinu?