Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Stærstu útgerðirnar fá mest

Frumvarp þetta er sett fram til að berja í bresti kerfis sem hefur aldrei þjónað þeim tilgangi að skila réttmætum hluta auðlindaarðsins til eiganda fiskimiðanna, þjóðarinnar allrar. Hér hefur verið búið út ógegnsætt flókið kerfi sem þarfnast stöðugra við­bóta og nýrra útfærslna þó margsinnis hafi verið bent á aðrar leiðir sem þjónað geta sama til­gangi mun betur.

Hin augljósa niðurstaða veiðigjaldafrumvarpsins er sú að þegar öll gjöld eru lækkuð skilar sér mest til þeirra stærstu þó reynt sé að telja fólki trú um að aðgerðin sé fyrst og fremst hugsuð til að bæta hag lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Til að koma til móts við rekstur þeirra fyrirtækja sem kunna að eiga í erfiðleikum eru til aðrar mun ein­faldari aðgerðir sem þurfa ekki jafnframt að fela í sér eftirgjöf til allra útgerða, stórra og smárra.

Yfirlýstur tilgangur frumvarpsins er að bæta hag smærri og meðalstórra útgerða. Til að sýna fram á hinn yfirlýsta vilja þá þyrfti að setja fram í töflu öll sjávarútvegsfyrirtæki í landinu. Innan hvers fyrir­tækis yrði að koma fram hvað hvert og eitt þeirra aflaði af hinum nafn­greindu fisk­teg­undum frumvarpsins á síðasta heila fiskveiðiári (2016-2017) margfaldað með kr. á kg sam­kvæmt fyrri tilhögun. 

Síðan þyrfti að margfalda þetta sama magn aftur með þeim fjárhæðum sem frum­varpið gerir ráð fyrir.  Með slíkum samanburði sæist hvaða fyrirtæki væru að borga meira og hvaða fyrirtæki væru að borga minna og þá fyrst væru komnar for­sendur til að segja til um hvort verið væri að hygla litlum og meðalstórum fyrirtækjum eða frekar hinum stærri. Uppsetning slíkrar töflu ætti að vera lítið mál m.v. fyrirliggjandi upp­lýs­ingar hjá Fiski­stofu og ráðuneytinu en slík framsetning er einfaldlega forsenda þess að hægt sé að full­yrða að þetta sé gert í þágu lítilla og meðalstórra útgerða.

Byggðasjónarmið

Við jafn mikilvæga ákvörðun og hér er stefnt að þá hlýtur fyrst og fremst að verða að horfa til afkomu sjávarútvegsins sem atvinnugreinar. Um leið og farið er að blanda byggða­sjónar­­miðum inn í umræðuna þá er ekki lengur verið að horfa á sjávar­út­veginn sem atvinnu­grein heldur er honum ætlað annað hlutverk út frá byggða­sjónar­miði. Þegar það er gert þá færist gjaldtaka í sjávarútvegi niður í lægsta sam­­nefn­ara svo þeim sem lakast standa verði bjargað. En það þýðir jafnframt að þar sem rekstur­inn gengur vel, að þar verður til hagnaður langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

Hér er alls ekki gert lítið úr byggðasjónarmiðum sem eiga fyllsta rétt á sér. Þegar þurfa þykir mætti t.d. styrkja fyrirtæki í hinum brothættu byggðum með beinum fjár­fram­­lögum í stað þess að miða alla gjaldtöku í greininni við rekstur þeirra fyrirtækja sem lakast standa. Þannig gæti gjaldtakan samkvæmt veiði­gjalda­frum­varp­inu runnið að drjúgum hluta til að styðja við fyrirtæki sem illa væri komið fyrir og yrði það gert samkvæmt fyrir­fram mótaðri byggða­stefnu.

Opnir ársreikningar

Þegar fyrrgreindur samanburður hefur verið gerður á gjöldunum sem útgerðir greiða fyrir laga­breytingu og eftir hana þá er ástæða til að skoða reikninga ein­stakra út­gerða. Ef kostnaður lítilla og meðalstórra útgerða hefur aukist þá þarf að opna bók­hald þeirra, til að kanna af hvaða völdum það er, áður en komið er til móts við þau með einum eða öðrum hætti af hálfu hins opinbera. Í litlum og meðal­stórum fyrir­tækjum getur óhófleg launa­hækkun til forstjóra og stjórnenda vegið þungt í af­komu fyrirtækisins. Einnig ef fyrir­tækið hefur t.d. freistast til að kaupa dýra bifreið undir for­stjórann þá sér þess stað í verri afkomu að ekki sé minnst á arðgreiðslur sem kunna að hafa veri umfram það sem fyrirtækið ber.

Því aðeins að fyrirtækin verði reiðubún að sýna ársreikninga sína ættu þau að fá notið nokkurra ívilnana því það er varla tilgangur veiðgjaldafrumvarpsins að auð­velda ein­stökum fyrirtækjum að auka á óhóf í rekstri þeirra.

Skattaspor

Eitt af því sem greinargerð frumvarpsins gerir að umfjöllunarefni er hið svokallaða „skattaspor“ íslensks sjávarútvegs. Þessu hugtaki hefur verið beitt oftsinnis áður í þágu málstaðar þeirra sem nú gera út á Íslandsmiðum og sækja í sameign þjóðar­innar. Þá eru talin upp þau opinberu gjöld sem fyrirtækin greiða, að mestu skattar og gjöld sem öll fyrirtæki á Íslandi greiða, sjávarútvegsfyrirtæki sem og önnur fyrirtæki.

Vegna umfangs sjávarútvegsins í landsframleiðslunni þá eru þetta háar fjárhæðir og sér Deloitte og hagsmunasamtök útgerðanna um að tíunda þetta reglulega eins og að hér sé um einhverskonar ölmusu að ræða sem sjávarútvegurinn af góðsemi einni saman greiðir í ríkissjóð.

En „skattaspor“ má skoða með ýmsu móti. Þannig má til sanns vegar færa að „skatta­spor“ hjóna með tvö börn á skólaaldri sé hlutfallslega stærra heldur en „skattaspor“ sjávar­útvegsins. Hjónin þurfa að greiða beina skatta af launum sínum auk óbeinna skatta af öllum keyptum vörum til heimilisins til að fæða og klæða börn sín og þau sjálf. Hlutfallslegur kostnaður þeirra af opinberum gjöldum er síst minni heldur en sá kostnaður sem sjávaútvegurinn greiðir hinu opinbera.

Gallaðar aðferðir

Ljóst má vera að sú aðferð sem notuð er til að láta eiganda fiskveiðiauðlindarinnar, þjóðina, njóta arðsins af auðlindinni er meingölluð. Um það eru flestir sammála. Það eitt ætti að nægja til þess að leitað yrði annarra og nýstárlegri leiða til að sneiða hjá vandræðagangi sem þeim frumvarp þetta ber vott um.

Nokkuð er vitnað til endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte og talna sem frá þeim koma en hafa verður í huga að greiðslur sjávarútvegsfyrirtækja til Deloitte nema tugum milljóna á ári hverju og hafa gert í mörgt ár og er sjávarúvegurinn sem heild einstaki mikil­vægasti viðskiptamaður Deloitte á Íslandi.

Taka verður undir niðurlag 4. kafla greinargerðar með lagafrumvarpinu þar sem segir:

„Samantekið má segja að gæta verði þess að veiðigjald verði sanngjarnt en í því felst ekki síst að líta eftir fremsta megni til bestu upplýsinga hverju sinni um rekstrarafkomu og greiðslugetu sjávarútvegsfyrirtækja.“  

Þetta eru orð að sönnu. Fyrst mikið er vitnað til Deloitte í greinargerðinni væri ekki úr vegi að fá sérfræðinga Deloitte til að upplýsa hvernig þeir myndu í ljósi sinnar sér­fræði­þekkingar og menntunar leysa þetta vandamál sem lýtur að innheimtu gjalds af tak­markaðri auðlind og hér hefur verið lýst.  Svar þeirra þyrfti að byggjast á hreinskilni og mætti ekki vera markað því að þeir eiga stærstan hluta afkomu sinnar undir þjónustu við sjávar­útvegs­fyrirtækin.   


Fær útgerðin að skjóta undan „vörslugjöldum“?

Þá er það orðið ljóst hver er hinn raunverulegi tilgangur myndunar ríkisstjórnarinnar. Það er lækkun veiðigjalda. Núverandi innheimta veiðigjaldsins tekur mið af afkomu útgerðarinnar þegar búið er að gera upp afkomuna frá því tveimur árum áður. Vel reknar útgerðir hafa búið sig undir þessa greiðslu vitandi að þeim ber að standa skil á henni. Eigi að lækka greiðslurnar sem stofnuðust fyrir tveimur árum, væri verið að hafa af þjóðinni þann hluta auðlindaarðsins sem útgerðirnar fengu að njóta til fulls þegar vel áraði en þjóðinni sagt hún fengi síðar. Útgerðirnar fengu einfaldlega greiðslufrest (áþekkt „vörslu-skatti“) á þeim hluta arðsins sem á að koma í hlut þjóðarinnar. Þennan greiðslufrest á nú að nota til að hlunnfara þjóðina um þann „rausnarlega“ hlut auðlindaarðsins sem henni er ætlað af auðlind sinni.

Hámörkun auðlindaarðsins

Eina spurningin sem stjórmálamenn ættu að reyna að svara er spurningin um hvernig tryggt sé að þjóðin fái sem mest fyrir sjávarauðlindina þannig að mestu fé megi veita til byggðastyrkja, örorkubóta, lífeyrisþega, vegaframkvæmda, heilbrigðismála, skólanna o.sv.frv.? Stjórmálamenn sem eiga ekki svar við þessari spurningu skila auðu.

Hugmyndin að breyttum veiðigjöldum núna ber með sér að stjórnmálamenn hafa enn ekki áttað sig á að veiðgjaldið er ekki skattur heldur einfaldlega kaup aðfanga til að geta haldið til veiða. Skattur er aftur á móti greiddur eftir almennum reglum. Mér vitanlega spyrja olíufélögin ekki útgerðirnar áður en þau afhenda þeim olíu sem hvort þau eigi fjármuni aflögu áður en þeim er afhent olían.

Þó illa gangi hjá einhverjum fyrirtækjum í sjávarútvegi og slíkt gæti hugsanlega leitt til byggðaröskunar þá er ekki hægt að leggja það á heila atvinnugrein að snúa því við. Hægt er að bregðast við byggðaröskun með byggðastyrkjum sem geta m.a. falið í sér styrk til einstakra sjávarútvegsfyritækja í brothættum byggðum en ekki aðgerðum sem taka til atvinnugreinarinnar í heild. Einfaldasta afkomutenging sjávarútvegs er útboð aflaheimilda til nokkurra ára í senn því engin útgerð býður hærra en fjárhagur hennar leyfir.

http://www.visir.is/g/2018180119063/faer-utgerdin-ad-skjota-undan-vorslugjoldum-


Vilja lífeyrissjóðirnir bara eignast bankana? Á engin uppstokkun að eiga sér þar stað?

Hvort á ríkið eða lífeyrissjóðirnir að eiga banka? Kannski að bæði ríkið og lífeyrissjóðirnir ættu að eiga þá í sameiningu? Stjórnvöld hafa heimild til að selja hluti ríkisins í bönkunum og stefna að því ótrauð. Einhverjir vilja að ríkið eigi banka svo hægt sé að lækka vexti, en vextir ráðast af hagstjórn og aðstæðum í efnahagslífinu en ekki því hverjir eiga bankana. Það er borin von að vextir verði eins og í nágrannalöndum okkar á meðan við höfum íslenska krónu. Það hefur 90 ára harmsaga krónunnar kennt okkur.

Bónusar í bönkum eru á kostnað og ábyrgð ríkisins

Hegðan starfsmanna bankanna þegar Borgun og Síminn voru seld hefur sýnt fram á að þeir silkihanskar sem voru notaðir við endurreisn bankanna voru mikil mistök. Ráðamenn bankanna virðast ekki átta sig á þætti þeirra í hruninu og að þar þurfi nýjar hugmyndir og allt önnur viðhorf að ráða en var fyrir hrun. Ein arfleifð hrunsins er að menn hafa talið sér trú um að laun og kjör yfirmanna í bönkum lúti öðrum lögmálum heldur en í fyrirtækjum yfirleitt. Þá gleymist að bónusar og há laun geta lækkað arðgreiðslur til eigendanna hvort sem það eru lífeyrissjóðir eða ríkið.

Ef ríkið og/eða lífeyrissjóðirnir ættu bankana væri þeim í lófa lagið að ná bönkunum niður á jörðina í launamálum. Það getur ríkið gert með því einu að gera bönkunum ljóst að ef þeir fylgja ekki markaðri launastefnu ríkisins þá njóti viðkomandi banki ekki baktryggingar ríkisins á innlánum. Frammi fyrir því vali eiga bankarnir engan annan kost en gangast inn á skilmála ríkisins.

Spyrja lífeyrissjóðirnir „hvað gerðir þú í hruninu?“

Lífeyrissjóðirnir sem eru í eigu íslenskra launamanna eiga stóra hluti og jafnvel meirihluta í stórum og smáum fyrirtækjum hér á landi. Samt sem áður hafa lífeyrissjóðirnir ekki komið sér saman um samræmt launakerfi í þeim fyrirtækjum sem þeir gætu í sameiningu ráðið hvernig launum og bónusum væri háttað.

Einnig hafa lífeyrissjóðirnir ekki heldur séð ástæðu til að spyrja þá sem sjóðirnir hafa ráðið til að stjórna fyrirtækjunum hvað þeir höfðust að í hruninu. Voru þeir e.t.v. gerendur í gjaldþrotum sem svo leiddu til tugmilljarða tjóns sjóðanna þó svo þeir hafi ekki verið sóttir til saka? Er sérstök ástæða hjá sjóðunum til að gera þessum einstaklingum hátt undir höfði og spenna launakröfur í þeim fyrirtækjum og öðrum upp úr öllu valdi?

http://www.visir.is/til-hvers-ad-eiga-banka-/article/2016160208888

 


Heilbrigðiskerfið þarf á auðlindagjaldinu að halda

Uppfullur bræði hrópaði formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir fjórum árum á Alþingi „skiliði lyklunum“. Það að krefjast þess að einhver skili einhverju, ber með sér að sá hinn sami telji sig eiga það sem á að skila. Í þessu tilviki yfirráðum í stjórnarráðinu. Enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn ráðið Íslandi með setu í ríkisstjórn í 57 af þeim 72 árum sem Ísland hefur verið lýðveldi eða 80% lýðveldistímans. Er nokkur furða þó Sjálfstæðisflokkurinn telji sig eiga stjórnarráðið.

Hafi einhver verið í vafa um hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn krafðist lyklanna af þvílíkri ákefð þá kom það fljótlega í ljós. Þeir voru orðnir friðlausir yfir því að geta ekki lækkað auðlindagjald á útgerðarmönnum og með sölu Landsbankans á Borgun freistast margir til að álykta að þeir vilji hafa hönd í bagga um til hverra bönkunum og eignum þeirra er ráðstafað. Þegar salan á Borgun átti sér stað 2014 þá fór það fram hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins (http://www.visir.is/ups,-gerdi-thad-aftur-/article/2015151028924) og það er ekki fyrr en núna þegar almannarómur er orðinn nógu hávær að þeir taka undir hneykslunarorðin.

Auðlindagjald og heilbrigðiskerfið.

Stærstu viðfangsefni þeirra sem fara munu með völd á Íslandi á næstunni eru annars vegar hvort takast muni að koma á eðlilegu auðlindagjaldi, með útboði aflaheimilda, og hins vegar endurreisn opinbera heilbrigðiskerfisins. Þessi mál eru tengd að því leyti að útboð aflaheimilda er réttlætismál, að þjóðin fái fullt afgjald af auðlind sinni og ekki síður, að ráðstafa gjaldinu til sameiginlegra viðfangsefna. Nú er brýnasta verkefnið endurreisn heilbrigðiskerfisins.

Ekkert lært af hruninu.

Það er með ólíkindum að ekki skuli vera vilji hjá ráðamönnum þjóðarinnar til þess að læra af sögunni t.d. með því að láta rannsaka einkavæðingu bankanna eins og Alþingi hefur þegar samþykkt. Þess vegna mætti rannsaka bæði fyrri einkavæðinguna, þegar vildarvinum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks voru afhentir bankarnir og einnig þá síðari þegar þeir voru afhentir kröfuhöfum. Það virðist vera einbeittur vilji fjölda stjórnmálamanna að taka upp þráðinn frá því fyrir hrun eins og ekkert hafi í skorist. Í bönkunum iðka menn síðan það sem stjórnvöld hafa fyrir þeim og leyfa sér hegðan sem við héldum að hrunið hefði bundið endi á. - Þar gleymist að bankarnir eru ýmist í eigu eða reknir á ábyrgð ríkisins, almennings í landinu.

http://www.visir.is/lyklavoldin-fyrir-utgerdina-og-bankana/article/2016160209874

 


Auðlindaarðurinn - hver fær hann?

Fjármálaráðherra hefur tekið upp hugmynd um stofnun sérstaks auðlindasjóðs sem væri ekki hluti ríkissjóðs heldur skýrt afmarkaðir fjármunir í ríkisreikningi.  Einn mikilvægur munur er hins vegar á fyrri hugmyndum og hugmyndum fjármálaráðherra.  Fjármálaráðherra talar um „orkuauðlindasjóð“ á meðan fyrri hugmyndir gengu allar út á „auðlindasjóð“ sem tæki til arðsins af öllum auðlindum í þjóðareigu, fiskveiðiauðlindin ekki undanskilin. Fjármálaráðherra virðist ekki átta sig á að nákvæmlega sama gildir um orkuauðlindir og fiskveiðiauðlindir, þar verður til arður (hluti auðlindarentu)  sem ætti að skila til eigendanna, þjóðarinnar.  Draga mætti þá ályktun að fjármálaráðherrann telji fiskistofnana ekki vera auðlindir í eigu þjóðarinnar.

Auðlindir í stjórnarskrá.

Allt of lengi hefur dregist að ákvæði um þjóðareign á auðlindum fari inn í stjórnarskrá. Þjóðin hefur verið seinþreytt til vandræða og látið yfir sig ganga að fá að vinna við hagnýtingu auðlindanna í stað þess að fá arð af þeim einnig.  Þannig er því haldið fram að vinna við fiskvinnslu og vel launuð sjómannsstörf auk skattgreiðslna sjávarútvegsfyrirtækja  séu arðurinn sem þjóðin eigi að fá af auðlind sinni. 

Með sama hætti má stilla dæminu upp þannig að Íslendingar láti sér nægja að fá að vinna við að byggja virkjanir til að að framleiða raforku fyrir stóriðju og þurfi því ekki að fá neinn arð af raforkuframleiðslunni.  Í Noregi hefði þessi séríslenska auðlindastefna gengið út á að heimamenn fengju að byggja borpallana fyrir olífélögin en leyft þeim að hirða gróðann af framleiðslunni.

Hér verður þjóðin að grípa til sinna eigin ráða. Því var efnt til undirskriftasöfnunarinnar „þjóðareign.is“ til að koma í veg fyrir að hægt verði að úthluta fiskveiðikvótunum  til útgerðarmanna um alla framtíð.  Baráttunni er langt í frá lokið og því ástæða til að hvetja sem flesta til að fara inn á vefsíðuna „þjóðareign.is“ og skrifa þar undir.

Við heimtum aukavinnu. / Við heimtum ennþá meiri aukavinnu. / Því það er okkar æðsta sæla / að pæla og þræla og þræla / og þræla, fram í rauðan dauðan. / Ó, gefðu guð oss meira puð.  (Jónas Árnason)

http://www.visir.is/hvert-rennur-audlindaardurinn-/article/2015705089997


Leiðréttingin og sagan

Það var miður að stjórnmálamenn skyldu fallast á að greina fjölmiðlum frá hvort þeir hafi sótt um leiðréttingu húsnæðislána sinna eða ekki. Það eitt að segja til um hvort þeir sóttu um (sem er algerlega þeirra einkamál) gerði að verkum að stór hluti umræðunnar fór í það sem Íslendingar kunna svo vel „orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls“ (HKL). Kjarni umræðunnar um leiðréttinguna hlýtur að vera spurningin um hversu skynsamleg þessi ráðstöfun á skattfé almennings sé en ekki hvaða einstaklingar sóttu um.

Leiðrétting ofan á hækkun húsnæðis.

Það sem núna heitir „forsendubrestur“ sem hefur leitt af sér „leiðréttinguna“ er ekki nýtt fyrirbrigði og hefur verið reglulegur gestur í íslensku efnahagslífi. Fyrir réttum þrjátíu árum hét þetta „misgengi“. - Það sem gerist er að almennar verðhækkanir verða í samfélaginu á öllum vörum, húsnæði og þjónustu sem svo leiða til hækkunar lána þ.á.m. húsnæðislána. Þetta getur leitt til svo mikillar hækkunar að lántakendur ráða ekki lengur við afborganir ef launahækkanir fylgja ekki. Að nokkrum tíma liðnum jafnar þetta sig, svo að þeir sem náðu að þrauka, eiga þá orðið húsnæði sem hefur hækkað í verði a.m.k. jafn mikið og húsnæðislánin. Svona hefur þetta alltaf verið.

Forsendubresturinn hækkar húsnæðisverð.

Verkefni stjórnvalda við þessar aðstæður hlýtur því að vera að koma til móts við þá sem lenda í erfiðleikum áður en andvirði húsnæðis þeirra hefur náð að hækka jafn mikið og lánin gerðu. „Leiðréttingin“ núna gengur aftur á móti út á að greiða öllum hækkun lánanna þó svo að vitað sé að húsnæði þeirra hafi þegar hækkað í verði eða eigi eftir að gera það vegna hins sama „forsendubrests“ og lét lánin hækka!

Hvernig skyldi sagan eiga eftir að dæma aðfarir sem þessar? Íslandssögubækur framtíðarinnar gætu t.d. sagt frá þessu svona:

„Þegar hér var komið við sögu var heilbrigðiskerfið komið að fótum fram eftir áralanga vanrækslu. Bæði var umgjörð kerfisins hrunin sem og þau kjör sem heilbrigðisstarfsmönnum voru boðin. Flótti var brostinn í starfsliðið en steininn tók úr þegar ríkisstjórnin lét senda fjármuni heim til lántakenda í sömu vikunni og læknar fóru í fyrsta sinn í verkfall. Brottflutningur lækna komst í algleymi og aðrar stéttir langskólagenginna og faglærðra hópuðust af landi brott. Allt varð þetta til að seinka endurreisn hagkerfisins sem mátti glíma við stöðnun lengi enn.“

Trúir einhver því raunverulega að sú leið sem farin er með „leiðréttingunni“ að verja 80 milljörðum með þeim hætti sem gert er, sé til gæfu fallin á meðan heilbrigðiskerfið og menntakerfið koðnar niður, skuldir ríkissjóðs eru í hámarki og æpandi þörf á fjármagn til allra samfélagslegra verkefna?

http://www.visir.is/leidrettingin;-domur-sogunnar/article/2014711219965

 

 


Sjávarútvegurinn- leigjandinn sem neitar að fara.

Í kjölfar hrunsins þurfti kunningjafólk mitt að flytja til Noregs til að þreifa fyrir sér með vinnu. Skömmu áður höfðu þau keypt sér fjögurra herbergja íbúð í Seljahverfi, sem þau báðu mig að sjá um útleigu á, á meðan þau væru í Noregi. Ég leigði íbúðina prýðis manni sem bauð af sér góðan þokka og hann greiddi fúslega uppsetta leigu sem ég ákvað að hafa í lægri kantinum af því mér leist vel á manninn. Upp á síðkastið er hann hins vegar farinn að tala um hvort ég vilji ekki lækka við hann leiguna. Ég óttast að hann sé farinn að halla sér að flöskunni, allavega hefur hann minni auraráð og þess vegna finnst honum hann eigi alls ekki að þurfa að borga jafn mikið og áður.

Heimtar lækkaða leigu

Ég hef bent honum á að þar sem hann er einn í heimili ætti honum að nægja þriggja herbergja íbúð enda virðist greiðslugeta hans alveg ráða við það. Hann má ekki heyra á það minnst heldur krefur hann mig núna um að fá samning um íbúðina til 20 ára og hann væri e.t.v. reiðubúinn að greiða mér hærri leigu einhverntíma síðar ef úr málum rætist hjá honum. Svo bendir hann á eitthvað sem hann telur vera óljós ákvæði í upphaflega leigusamningnum, sem gæti hugsanlega kveðið á um að í raun og veru eigi hann íbúð vinafólks mín í Noregi, en ekki þau!

Nægir aðrir sem vilja leigja

Þetta er allt frekar erfitt fyrir mig þar sem ég veit af barnmörgum fjölskyldum sem mundu gjarnan vilja borga þá leigu, sem núverandi leigjandi er að greiða og meira til, ef ég aðeins losnaði við hann úr húsnæðinu. Á ég að lækka verðið á húsnæðinu, bara af því að hann vill ekki borga meira? Leigjandinn er farinn að minna mig óþyrmilega mikið á „freka kallinn“ sem Jón Gnarr hefur gert svo ágæt skil.

Gildir ekki sama um sjávarútveginn?

Dæmisagan hér að ofan getur gilt um samskipti þjóðarinnnar (eigenda íbúðarinnar) og þeirra sem nú eru kvótahafar íslensku fiskimiðanna (leigjandinn) en þeir vilja láta leiguna ráðast af því hvernig stendur á hjá þeim hverju sinni! Úti um allt land eru fiskverkendur og kvótalausar útgerðir sem bíða í röðum eftir að fá að bjóða í kvótann á jafnréttisgrundvelli. Hversvegna á þjóðin (eigandi fiskimiðanna) að sætta sig við að leigan á kvóta ráðist bara af greiðslugetu þeirra útgerðarmanna sem nú róa til fiskjar, en ekki því hvaða leigu væri hægt að fá, ef kvótinn væri boðinn til leigu á almennum markaði?

 


Hnignandi hagkerfi Íslendinga

Forstjóri Össurar, Jón Sigurðsson, Mbl. 6. nóv. 2014:

Hættan sem steðjar að Íslendingum er sú að hagvöxtur verði yfir lengri tíma minni á Íslandi en erlendis og að lífskjör dragist saman hægt og sígandi. Hættan er sú að þetta gerist svo hægt að við tökum ekki eftir því. Það eru ákveðin varúðarmerki þegar starfsstéttir hverfa úr landi sem geta farið og hinar verða eftir.

Bolli Héðinsson, hagfræðingur, Frbl. 5. nóv. 2014:

Kjaradeila lækna er aðeins birtingarmynd þess sem koma skal í hinu hægfara hnignandi hagkerfi Íslendinga. Hagkerfi sem líður fyrir forystuleysi og skort á framtíðarsýn fyrir samfélag sem þarf að keppa um hvern einasta einstakling, ekki aðeins lækna. Laun hljóta að vega þungt hjá því fólki sem flytur frá Íslandi en ekki síst að fá að búa við stöðugleika, það að vita að hverju maður gengur í rekstri heimila og fyrirtækja.

 

http://www.visir.is/thegar-vonin-hverfur/article/2014711059981

 


Gjöf til útgerðarmanna eða endurreisn Landspítalans.

Innan fáeinna vikna mun ríkisstjórnin ákveða að afhenda fámennum en valdamiklum hópi þjóðareign sem talin hefur verið að verðmæti allt að 45 milljarðar króna.  Fyrir þetta munu hinir fáeinu handvöldu einstaklingar, sem ríkisstjórnin telur að betur sé að þessu komnir en aðrir, greiða mála­myndagjald sem er aðeins hluti af því verðmæti sem afhent verður. Ríkisstjórnin deilir ekki um að hér er um ótvíræða eign þjóðarinnar að ræða en hyggst samt sem áður afhenda þessa þjóðareign velvildarmönnum sínum á silfurfati.  Ef eign þessi væri boðin til sölu á almennum markaði myndu fjármunirnir sem fyrir hana fást fara langt með að fjármagna endurreisn Landspítalans.

Eign sú sem hér um ræðir er makrílstofninn við Ísland. Ákvörðunin um að afhenda þessa eign fáeinum útvöldum mun verða borin á borð fyrir okkur sem afar flókið úrlausnaratriði sem aðeins sé hægt að leysa með því að afhenda hana útvöldum. Það er aftur á móti ekki svo.  Hér er um sáraeinfalda aðgerð að ræða, fiskistofn sem er nýr í lögsögunni og aðeins spurningin um hvort þjóðin eigi að fá sanngjarnt verð fyrir eign sína eða ekki.

Tveir vísindamenn, Þorkell Helgason og Jón Steinsson hafa sett fram heildstæða tillögu um hvernig bjóða má upp veiðirétt á makríl þannig að þjóðin og útgerðarmenn geti vel við unað. Eigendur makrílsins, þjóðin, fær hæsta mögulega verð fyrir eign sína og útgerðarmennirnir, fá afnotarétt af makrílstofninum til nægjanlega langs tíma til að byggja fjárfestingar sínar á.       

...þingmaður og svarið er?

Hér mun hefjast gamalkunnur söngur um fyrirtækin sem munu verða gjaldþrota, skatt á landsbyggðina o.fl.  Svörin við því eru, að aðeins þau fyrirtæki sem bjóða of hátt í veiðréttinn eiga á hættu að verða gjaldþrota og væntanlega eru útgerðarmenn ekki svo heillum horfnir að þeir bjóði umfram getu.  Ekki verður um skatt að ræða heldur aðeins innheimt fjárhæð, sem viðkomandi útgerð sér sér fært að bjóða, í frjálsu útboði. Veiðrétturinn greiðist af fyrirtækjunum sjálfum enda greiða landshlutar ekki skatta. Gera má ráð fyrir að flest fyrirtækin sem muni bjóða í makrílveiðina séu staðsett á höfuðborgarsvæðinu.

Næst þegar þið hittið þingmanninn ykkar spyrjið hann: „hvort viltu frekar gefa fáeinum útvöldum eign þjóðarinnar í stað þess að bjóða eignina til leigu á almennum markaði og nota andvirðið til að endurreisa Landsspítalann?“  Látið svarið sem þingmaðurinn gefur ykkur ráða því hvort þið kjósið hann aftur.


Langsóttar röksemdir fyrir flugvelli í Vatnsmýri

Þær hugmyndir sem settar eru fram í tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur um byggð í Vatnsmýri eru málamiðlun. Ef rýnt er í þau rök sem sett eru fram á heimasíðu þeirra sem vilja áframhaldandi veru flugvallar í Vatnsmýri, koma í ljós fullyrðingar sem standast ekki frekari skoðun. Fullyrðingarnar eru eftirfarandi:

1. Vörur  Þessi ábending bendir á mikilvægi þess að halda flugvellinum í Vatnsmýri vegna vöruflutninga. Þar gildir einu hvort flutningar eiga sér stað um Vatnsmýri eða Keflavíkurflugvöll.

2. Farþegar.  Segir okkur nákvæmlega ekkert um hvort þeir sem um flugvöllinn fara væru jafnsettir eða betur settir með flugi um Keflavík. Á meðan ekki liggur fyrir rannsókn á því hverjir farþegarnir eru, sem flugvöllinn nota þá set ég fram eftirfarandi tilgátu:

Hversu margir nota flugvöllinn að staðaldri?

„Reykjavíkurflugvöllur þjónar fyrst og fremst tiltölulega fáum einstaklingum sem eru oft á ferðinni, t.d. sveitastjórnarmönnum, þingmönnum og fáeinum athafnamönnum. Allur almenningur kýs að fara akandi, þó auðvitað komi upp tilvik þegar farið er með flugi, en hjá hverjum einstaklingi eru tilvikin afar fá. -  Verulegur hluti farþega um Reykjavíkurflugvöll eru innlendir og erlendir farþegar á leið til og frá útlöndum sem myndu kjósa að geta flogið beint til og frá áfangastað innanlands um Keflavíkurflugvöll.“

Spurningin stendur þá um hvort réttlætanlegt sé að halda úti flugvelli sem þjónar fyrst og fremst fáum áhrifamiklum einstaklingum.

3. Sagan sem rakin er á vefsíðunni um flugsögu Íslendinga sem hófst í Vatnsmýri hverfur ekki þó flugvöllurinn fari.

4. Varaflugvöllur.  Undir þessum lið eru talin upp rökin fyrir því að halda Reykjavíkurflugvelli opnum sem varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll.  Skemmst er um þennan lið að segja að Pawel Bartoszek hrakti þær röksemdir sem þar koma fram lið fyrir lið í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið þann 30. ágúst s.l.

5. Þjónusta er liður sem fjallar um störfin sem unnin eru á flugvellinum.  Ljóst má vera að störfin sem þar eru unnin leggjast ekki af heldur flytjast til.

6. Kennsla. Flugnám mun einfaldlega flytjast annað og gæti það orðið til að styrkja verulega flugakademíuna hjá Keili á Keflavíkurflugvelli.

Störfin verða unnin annars staðar.

7.  Hagræn áhrif  sýna okkur fram á hversu mikilvægt er að haldið sé úti flugrekstri til og frá landinu alveg óháð því hvar hann fer fram.

8. Ferðamenn, þau hæpnu rök sem þar eru sett fram eru þau sömu og undir lið 2 og um þau gildir það sama og þar kemur fram.

9.  Landhelgisgæslan.  Það hlýtur aðeins að vera tímaspursmál, óháð framtíð Reykjavíkurflugvallar, hvenær flugdeild Landhelgisgæslunnar flytur til Keflavíkurflugvallar eins og reglulega kemur fram krafa um á Alþingi.  Ríkisendurskoðun hefur nýlega bent á að LHG ætti e.t.v. að vera sá aðili sem sæi um allt sjúkraflug hér á landi með flugflota í samræmi við það.

10.  Höfuðborg. Flestar höfuðborgir í nágrannalöndum okkar eru með flugvelli í 30 – 60 mín. fjarlægð frá miðborginni. Þannig verður Reykjavík nákvæmlega jafn vel sett og þær borgir. Ekki hefur tekist að benda á nein sjúkrahús í veröldinni þar sem það þykir máli skipta að flugvöllur sé í næsta nágrenni.

11. Umhverfi.  Röksemdirnar sem notaðar eru til að halda því fram hversu lítil mengun fylgir flugi eru röksemdir sem breytast ekki þó flugið flytjist frá Reykjavík

12. Sjúkraflug.  Hér erum við komið að þeim lið sem hlýtur að teljast sá hæpnasti í áróðri fllugvallarsinna.  Hér hafa verið notuð afar ósmekkleg tilfinningarök sem eru til þess fallin að draga umræðuna niður plan sem hún á ekki skilið.  Viljandi, þá horfa forráðamennirnir fram hjá því að mikilvægi þess að koma sjúklingi undir læknishendur, hefst ekki á Akureyrarflugvelli og lýkur ekki á Reykjavíkurflugvelli.  Mikilvægið nær til alls þess tíma frá því slysið (eða atburðurinn sem til flutninganna leiðir) á sér stað og þá kemur svo margt annað til greina, heldur en sjúkraflugið eitt til Reykjavíkur, til að gera þann tíma sem stystan.

Af öllu þessu má ráða að flugvallarsinnar hafa farið með himinskautum í röksemdafærslum sínum fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri.  Svo virðist að röksemdin sem þyngst er á metum er röksemdin „það er svo miklu þægilegra“.  Spurningin er því sú hvort þægindi takmarkaðs hóps eigi að standa í vegi fyrir þeim þjóðarhagsmunum sem eru í húfi fyrir því að flugvöllurinn víki.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband