UMSKIPTINGUR VINSTRI GRÆNNA
30.10.2020 | 12:29
Einn morgun þegar Gregor Samsa vaknaði heima í rúmi sínu eftir órólegar draumfarir, hafði hann breyst í risavaxna bjöllu eru ein frægustu upphafsorð heimsbókmenntanna, upphafsorð Umskiptanna eftir Kafka. Viss líkindi má sjá með Vinstri grænum og Gregor Samsa þegar þau vöknuðu upp daginn eftir kosningar, allt annar flokkur heldur en þau höfðu gefið sig út fyrir fram á kjördag. Þessi umskipti Vinstri grænna sjást víða og eru sláandi í afstöðu þeirra til auðlindaákvæðis stjórnarskrárinnnar.
Vinstri græn stóðu að auðlindatillögu allra stjórmálaflokka, nema Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 2013, þegar náðist breið samstaða um auðlindaákvæðið. 2020 hafa Vinstri græn snúið við blaðinu og leita nú samstöðu með þeim sem þeir áður stóðu gegn. Eðlilega er spurt hví Vinstri græn séu svo gjörsamlega heillum horfin og gengin í björg þeirra sem ganga erinda stórútgerðinnar.
Á meðfylgjandi samanburðartöflu má sjá hvernig orðalag auðlindaákvæðisins var 2013 þegar Vinstri græn komu að gerð þess. Þar er talað um að þeir sem hagnýti auðlindir greiði eðlilegt gjald til hóflegs tíma í senn, það leiði aldrei til eignaréttar eða óafturkræfs forræðis og hagnýtingin skuli vera á jafnræðisgundvelli. - Það orðalag sem Vinstri græn leggja til núna er aftur á móti eins og sniðið að þörfum þeirra sem nú hagnýta auðlindir landsins gegn málamyndagjaldi. Allt og sumt sem þar er sagt um gjaldtöku er að hún skuli ákvörðuð með lögum og gætt að jafnræði og gagnsæi. Það orðalag þýðir að gjalddtaka fyrir afnot af auðlind í eigu þjóðarinnar, fiskimiðunum, verður aldrei nema á forsendum stórútgerðarinnar. Í núverandi lagaumhverfi og skorti á stjórnarskrárákvæði um auðlindir er orðalagið sem Vinstri græn leggja til, beinlínis til þess fallið að festa í sessi óbreytt ástand, og því merkingarlaust til að tryggja raunverulegt eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum.
Samræður í skötulíki
Þegar efnt var til samráðs með samtali við þjóðina um stjórnarskrármál, að frumkvæði núverandi ríkisstjórnar, þá var það með þeim eindæmum að auðlindaákvæðið var undanskilið en það er það ákvæði sem líklegast er að þjóðin hafi mótað sér skoðun á. Samtökin Þjóðareign beindu því til Alþingis að samhliða forsetakosningunum í sumar yrði þjóðin spurð hvaða orðalag þjóðin vildi hafa á auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar. Þeirri málaleitan sáu stjórnvöld ekki ástæðu til að svara.
Þjóðin hlýtur að spyrja sig hvort Vinstri græn ætli raunverulega að standa fyrir auðlindaákvæði til að þóknast Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og hugsanlega bera því við að annars styðji Miðflokkurinn annað óhagstæðara orðalag sem er þeim flokkum þóknanlegt? Þá má líka velta því upp hvort Miðflokkurinn leggi í kosningabaráttu nýbúinn að afhenda stórútgerðinni fiskveiðiauðlindina á silfurfati. Við vitum að það vefst ekki fyrir Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki en mun Miðflokkurinn leggja í það svo stuttu fyrir kosningar?
https://www.frettabladid.is/skodun/umskiptingur-vinstri-graenna/?fbclid=IwAR1by9OauTEN8xwYqNyKnLc-wZ94sjXsOwwMY6UzSEPgZwQv1sVKf2x-cYs
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bækur, Fjármál, Kjaramál | Facebook