Starfsmenn Icelandair í lykilstöðu
6.5.2020 | 17:48
Vegna almennt lítils áhuga og þekkingar hjá verðbréfafyrirtækjum og fjárfestingarstjórum lífeyrissjóða á vinnumarkaðsmálum hafa þeir látið nægja að krefjast þess af stéttarfélögum Icelandair að kjarasamningar þeirra gildi til fimm ára, eigi sjóðirnir að koma að endurreisn félagsins, í stað þess að gera kröfu um að vinnu- og kjarasamningsmál fyrirtækisins séu leyst til frambúðar. Icelandair býr við umtalsvert hærri áhafnakostnað en flugfélögin sem þeir eiga í samkeppni við sem mun gera Icelandair illmögulegt að keppa við þau. Hyggist forráðamenn lífeyrissjóðanna leggja Icelandair til hlutafé, vitandi af þessum framtíðarvanda félagsins, væru þeir að fara afar óvarlega með það fé sem þeim hefur verið trúað fyrir.
Meira þarf til en kjarasamning til fimm ára
Kjarasamningar stéttarfélaga Icelandair til fimm ára getur skoðast sem þokkaleg byrjun en framtíðarlausnin hlýtur að vera fólgin í að öll stéttarfélög sem starfa fyrir félagið hafi samflot í samningum en slíkt ákvæði hefur t.d. verið í kjarasamningum stóriðjuveranna alla tíð. Þetta er aukinheldur ein forsenda fyrir því að geta boðið almenningi að kaupa hluti í félaginu, ef það er hugmyndin. Einnig þurfa starfsmenn og félög þeirra að greina frá hversu miklu þeir hyggjast skrá sig fyrir sjálf en þeir geta einnig tekið sig saman og stofnað sérstök félög í þeim tilgangi að fjárfesta í Icelandair.
Ekki þarf að fara í grafgötur með mikilvægi félags á borð við Icelandair. En hvort er heppilegra að félagið verði endurreist fyrir eða eftir gjaldþrot? Ef leita á eftir fjármunum hjá almenningi annaðhvort beint eða óbeint, í gegnum lífeyrissjóði, verður allt að vera upp á borðum.
https://kjarninn.is/skodun/2020-05-06-starfsmenn-icelandair-rada-miklu-um-framtid-thess/
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Enski boltinn, Ferðalög, Lífstíll | Facebook