Vanvirðing við landbúnað
12.3.2020 | 11:00
Ríkisstjórnin hyggst standa fyrir lagasetningu sem á að stuðla að trausti og gagnsæi í upplýsingagjöf fyrirtækja sem almennt má telja að séu þjóðhagslega mikilvæg og varða hagsmuni almennings. Það dylst engum að frumvarp þetta er hluti af kattarþvotti ríkisstjórnarinnar í Samherjamálinu sem vonast eftir, að með því að lofa auknum upplýsingum um fyrirtækið, þá sé líklegra að þjóðin sætti sig við það málamyndagjald sem útgerðinni er gert að greiða fyrir afnot af fiskimiðunum.
Lagafrumvarpið felur aftur á móti í sér fullkomið virðingarleysi gagnvart landbúnaði með því að lagafrumvarpið er alls ekki látið taka til landbúnaðar á neinn máta en tekur til fyrirtækja á sviði fiskveiða, í samgöngum, fjarskiptum o.fl. sem eru mati ríkisstjórnarinnar þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki sem varða hagsmuni almennings.
Landbúnaður settur skör lægra
Að mati ríkisstjórnarinnar gildir það ekki um landbúnað sem þá er væntanlega hvorki þjóðhagslega mikilvægur né að hann sé hluti af hagsmunum almennings. Helsta keppikefli ráðamanna í landbúnaði hefur árum saman verið að leggja áherslu á mikilvægi atvinnugreinarinnar í þjóðhagslegu samhengi og hversu mikilvæg atvinnugreinin er fyrir afkomu almennings. Þessa atvinnugrein ætlar ríkisstjórnin algjörlega að hunsa af fullkomnu virðingarleysi. Ólíklegt er að ráðamenn bænda sætti sig við að vera settir skör lægra en fyrirtæki í áðurnefndum atvinnugreinum.
Samkvæmt frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að veittar séu upplýsingar um laun og kjör æðstu stjórnenda fyrirtækjanna með sambærilegum hætti og hjá fyrirtækjum skráðum í kauphöll. Það segir meira um raunverulegan hug ríkisstjórnarinnar að baki frumvarpinu sem á að heita eindreginn vilji til upplýsingagjafar til þjóðarinnar.
Augljóst má telja að þegar frumvarpið var borið undir stjórnendur fyrirtækjanna hafi þeir talið að réttast væri að sleppa upplýsingum um kaup þeirra og kjör enda viðbúið að slíkt væri til þess fallið að valda þeim óþægindum sem þeir gjarnan vildu vera lausir við. Við því var greinilega orðið, Vinstri græn hafa ekki séð ástæðu til annars en fallast á þetta sjónarmið fyrirtækjanna og Sjálfstæðisflokksins.
https://www.frettabladid.is/skodun/vanvirding-vid-landbunad/
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Matur og drykkur, Viðskipti og fjármál | Facebook