Endalaust dekur við sérhagsmunina
13.12.2018 | 09:10
Fyrir réttu ári sagði formaður Vinstri grænna í ræðu á Alþingi að það væru aðilar í samfélaginu sem gætu ekki beðið eftir réttlæti. Þjóðin hélt að hér væri átt við okkar allra minnstu bræður sem hefðu úr litlu að spila vegna örorku eða elli. Nú hefur komið á daginn að það var tómur misskilningur, þetta voru útgerðarmenn sem átt var við. Það voru útgerðarmenn sem gátu ekki beðið eftir réttlætinu sem VG hefur nú í tvígang reynt að framfylgja. Fyrst voru þau gerð afturreka í vor en nú skal réttlætinu fullnægt.
Sama er upp á teningnum með formann atvinnuveganefndar Alþingis, þingmann VG. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur etja þingmanninum í foraðið fyrir lækkun veiðileyfagjalda en halda sig sjálfir til hlés. Þessi þingmaður hélt fram nánast öllu hinu gagnstæða um veiðileyfagjöld í þingræðu fyrir fáeinum árum þegar staða sjávarútvegs var svipuð og hún er nú. Þá taldi þingmaðurinn að útgerðin væri aflögufær, þessi sami þingmaður og nú berst um á hæla og hnakka að fá gjöldin lækkuð.
Byggðastefnu hafnað
Fyrir okkur, dauðlegt fólk, er óskiljanlegt hvernig að því er virðast dagfarsprúðir einstaklingar verða sem umskiptingar við það að komast í valdastólana. Ótvíræðar yfirlýsingar þeirra sjálfra frá fyrri tíma virðast ekki skipta þetta fólk neinu máli þegar hagsmunir útgerðarinnar eru annars vegar.
Við umræður á Alþingi kom fram tillaga um að örlitlum hluta kvótans yrði úthlutað þannig að andvirði hans gæti gengið til byggða sem ættu í vök að verjast. Þessa tillögu gat VG ekki sætt sig við þrátt fyrir sambærilegar tillögur í stefnuskrá þeirra en sem kunnugt er höfnuðu þeir að framfylgja eigin stefnumálum þegar þeim stóð það til boða í ríkisstjórninni með Samfylkingunni.
En hvers vegna er alltaf verið að agnúast út í VG en ekki hina flokkana? Ástæðan er einföld. Fyrir kosningar er VG úlfur í sauðargæru en bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur eru einfaldlega úlfar í úlfagærum og hafa aldrei dulið auðsveipni sína gagnvart útgerðinni í landinu.
http://www.visir.is/g/2018181209701/-rettlaeti-samkvaemt-vg-?fbclid=IwAR38z0vI5Q-knsbk7oCfaEGyCgyQBl9CEl9JuD6Ike1BGR8G71iNeqjli4c
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Kjaramál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:11 | Facebook