Samtakamáttur Samtaka atvinnulífsins

Við lifum óvenjulega tíma. Tíu árum eftir hrunið ríkir úlfúð og ósætti í samfélagi okkar. Mitt í öllu ósættinu er ráðamönnum þjóðarinnar afhentar ríflegar launahækkanir á silfurfati og fyrirtæki landsins, sem lífeyrissjóðirnir eiga að stórum hluta, ákveða að gera vel við stjórnendur sína og hækka verulega við þá launin sem þó voru rífleg fyrir. Stjórnvöld hreyfa ekki litla fingur til að vinda ofan af launahækuninni sem þeim var rétt og Samtök atvinnulífsins (SA), sem tilnefna helming stjórnarmanna almennu lífeyrissjóðanna, tala fjálglega um hóflegar hækkanir til stjórnenda fyrirtækja þar sem fulltrúar lífeyrissjóðanna sitja í stjórnum. Lítið er svo gert til að tryggja að hin fögru fyrirheit gangi eftir. Eða ætli almenningur telji að fyrirtækin,

„...starfi í góðri sátt við umhverfi sitt og samfélag. Launakjör æðstu stjórnenda séu hófleg, innan skynsamlegra marka og ofbjóði ekki réttlætiskennd amennings“

eins og segir í stefnuyfirlýsingu SA?  Eru það ekki einmitt launakjör stjórnenda fyrirtækjanna sem misbjóða réttlætiskennd almennings?

Frómar óskir og framkvæmdin

Þegar vakin er athygli á hversu illa málflutningur SA rímar við gjörðir fyrirtækjanna og upplifun almennings af tekjuskiptingu í landinu, eins og gert var í grein í Frbl. 18. sept. þá skrifar framkvæmdastjóri SA grein í Mbl. 25. sept. s.l. þar sem hann rekur meðaltalshækkanir stjórnenda og launþega til að sýna fram á að stjórnendur séu vel að þessum hækkunum komnir. Ekki kemur fram ofan á hvaða laun hækkanirnar voru reiknaðar og ekki virðist hvarfla að honum að e.t.v. hafi launin, sem hækkanirnar reiknuðust ofan á verið of há m.v. þann veruleika sem Íslendingar búa við í dag og hækkanirnar því beinlínis til þess fallnar að auka á úlfúð og ósætti í samfélaginu.

Við einhverjar tilteknar aðstæður hefði samanburður á prósentutölum á borð við þær sem bornar eru fram í greininni haft eitthvað að segja. En við búum við allt aðrar aðstæður á öðrum og óvenjulegri tímum sem kallar á óvenjulegar ráðstafanir. Ráðstafanirnar sem SA gæti gripið til var lýst í greininni í Frbl. og einnig á opnum fundi með Landssambandi lífeyrissjóða fyrir hálfu þriðja ári.

SA gæti sem hægast notað samtakamátt sinn til að hindra þá ofurlaunaþróun sem þegar er orðin og fyrirséð hjá stjórnendum fyrirtækja í eigu lífeyrissjóðanna. Þannig gæti SA látið yfirlýsingar þeirra um að laun stjórnenda

„skuli vera hófleg og í samræmi við íslenskan launaveruleika“

verða að veruleika. Framkvæmdin hjá SA fram að þessu ber ekki vott um að hinar frómu óskir forráðamanna SA séu neitt annað en orðin tóm.

Því ættu samtök launafólks að treysta félagsskap sem notar samtakamátt sinn eingöngu til að semja við verkalýðsfélög en neita að nota samtakamáttinn til að halda aftur af ofurlaunum stjórnenda í atvinnulífinu?

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband