Íslensku trixin II
25.9.2018 | 14:34
Kjararáð kvað upp úrskurði sem juku mjög á ósætti landsmanna. Hvernig var brugðist við? Fyrst var Kjararáði falið að kveða upp úrskurði um færri embættismenn en áður og síðan var Kjararáð lagt niður. Hverju skilaði þetta íslenska trix? Fyrri aðgerðin, að fækka embættismönnum sem heyrðu undir ráðið, leiddi til enn meiri launahækkana þeirra þrátt fyrir eindregnar viðvaranir þáverandi fjármálaráðherra. Síðari aðgerðin skilar auðu þar sem ekki hefur verið afráðið hvernig hátti launaákvörðunum til embættismanna í framtíðinni.
Stjórnvöld virðast úti á þekju og halda að viðfangsefni sitt í komandi kjaraviðræðum séu einfaldar prósentuhækkanir launa á meðan viðfangsefnið er enn, tíu árum síðar, að sameina sundraða þjóð, freista þess að ná sátt í samfélaginu og græða það holundarsár sem hrunið skildi eftir á þjóðarsálinni.
Ábyrgðin er stjórnvalda og Samtaka atvinnulífsins
Stjórnvöld, auk Samtaka atvinnulífsins (SA) tala fjálglega um lítið svigrúm til launahækkana en eru sjálf þeir aðilar sem bera mesta ábyrgð á þeirri úlfúð í samfélaginu sem ríkir um kjaramál. Stjórnvöld hafa enn ekki hreyft litla fingur til að vinda ofan af úrskurði Kjararáðs. SA skipa helming allra stjórnarsæta almennu lífeyrissjóðanna og gætu því sem hægast haft forgöngu um að stöðva það höfrungahlaup gengdarlausra yfirborgana í fyrirtækjunum sem lífeyrissjóðirnir eiga, sem eru flest stærri fyrirtækja á Íslandi.
Hugmyndin að baki einhverskonar kjararáði er ekki alslæm. Útfærsla hugmyndarinnir var það sem brást og forsendurnar sem lágu að baki. Í sjálfu sér er það þarft að í samfélaginu sé til apparat sem geti borið saman laun m.t.t. ábyrgðar, vinnutíma og annars sem máli skiptir við ákvörðun launa. Lífeyrissjóðirnir hefðu getað vísað til slíkrar stofnunar ákvörðunum um laun í fyrirtækjunum sem þeir stjórna og þannig hindrað höfrungahlaup stjórnendanna. En það gerðu þeir ekki.
Allt frá hruni hefur SA ekki nýtt samtakamátt sinn til að standa gegn ofurlaunum þrátt fyrir viðvaranir þar um og að augljóst væri í hvað stefndi. - Því skyldi almenningur taka mark á málflutningi þessa fólks?
https://www.frettabladid.is/skodun/islensku-trixin-ii
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Kjaramál, Viðskipti og fjármál | Facebook