âLeiðréttingin og húsnæðismálin
17.5.2018 | 13:27
Hvað gerir vel stætt fólk sem horfir á fasteignir sínar hækka í verði langt umfram verðbólgu og fær svo skyndilega lækkaðar skuldir sínar, nánast eins og peninga sem ríkið færir þeim að gjöf? Þeir sem fá verulega fjárhæð fellda niður nota aukið ráðstöfunarfé til að kaupa sér litla íbúð til útleigu enda fáir aðrir möguleikar í boði til að ávaxta fé. Þeir sem fá heldur minna leggja peningana í sjóði fasteignafyrirtækja eins og Gamma sem svo kaupa íbúðir til útleigu.
Þetta er í hnotskurn niðurstaða bróðurparts Leiðréttingarinnar sem er það afrek sem Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og forystusveit Miðflokksins guma af, þegar þeir greiddu hinum hærra launaða helmingi þjóðarinnar 86% Leiðréttingarinnar beint úr ríkissjóði. Þriðjungur upphæðarinnar rann til 10% hinna hæst launuðu. Um þetta má allt lesa í skýrslu sem formaður Sjálfstæðisflokksins hafði ekki hugrekki til að koma fram með og sýna kjósendum fyrir þarsíðustu Alþingiskosningar.
Ungu fólki ýtt út af markaðnum
Afleiðingarnar, hækkun húsnæðisverðs, voru algjörlega fyrirséðar. Ungt fólk sem vildi kaupa sér íbúð á viðráðanlegu verði var nú farið að keppa um kaup á slíkum íbúðum við aðila sem höfðu úr nægu fé að spila eftir að Leiðréttingin var greidd út. Á sama tíma jókst eftirspurn eftir leiguhúsnæði umfram það sem áður hafði þekkst vegna AirBnb. Það síðan hvatti þá sem höfðu peninga aflögu til enn frekari íbúðakaupa svo það var ekki aðeins á kaupendamarkaði sem ungu fólki var ýtt út heldur einnig á leigumarkaði þegar húsaleiga rauk upp úr öllu valdi. Þessi skuggahlið Leiðréttingarinnar hefur aðeins aukið á vandann sem var fyrir í kjölfar hrunsins þegar fjöldi byggingaverktaka lögðu upp laupana eða sögðu sig frá verkum.
Forréttindahópurinn sem Sjálfstæðis-, Framsóknar- og forystusveit Miðflokksins ákváðu að gera svo vel við hefur nú fengið hækkunina, sem varð á áhvílandi húsnæðislánum þeirra í hruninu bætta í tvígang, bæði með framlagi úr ríkissjóði og svo hefur húsnæði þeirra hækkað í verði svo verðmætaukning þess er langt umfram hækkanirnar sem urðu á lánunum.
http://www.visir.is/g/2018180519056/-leidrettingin-og-husnaedismalin-
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Enski boltinn, Kjaramál, Samgöngur | Facebook