Fær útgerðin að skjóta undan âvörslugjöldum?
17.1.2018 | 09:54
Þá er það orðið ljóst hver er hinn raunverulegi tilgangur myndunar ríkisstjórnarinnar. Það er lækkun veiðigjalda. Núverandi innheimta veiðigjaldsins tekur mið af afkomu útgerðarinnar þegar búið er að gera upp afkomuna frá því tveimur árum áður. Vel reknar útgerðir hafa búið sig undir þessa greiðslu vitandi að þeim ber að standa skil á henni. Eigi að lækka greiðslurnar sem stofnuðust fyrir tveimur árum, væri verið að hafa af þjóðinni þann hluta auðlindaarðsins sem útgerðirnar fengu að njóta til fulls þegar vel áraði en þjóðinni sagt hún fengi síðar. Útgerðirnar fengu einfaldlega greiðslufrest (áþekkt vörslu-skatti) á þeim hluta arðsins sem á að koma í hlut þjóðarinnar. Þennan greiðslufrest á nú að nota til að hlunnfara þjóðina um þann rausnarlega hlut auðlindaarðsins sem henni er ætlað af auðlind sinni.
Hámörkun auðlindaarðsins
Eina spurningin sem stjórmálamenn ættu að reyna að svara er spurningin um hvernig tryggt sé að þjóðin fái sem mest fyrir sjávarauðlindina þannig að mestu fé megi veita til byggðastyrkja, örorkubóta, lífeyrisþega, vegaframkvæmda, heilbrigðismála, skólanna o.sv.frv.? Stjórmálamenn sem eiga ekki svar við þessari spurningu skila auðu.
Hugmyndin að breyttum veiðigjöldum núna ber með sér að stjórnmálamenn hafa enn ekki áttað sig á að veiðgjaldið er ekki skattur heldur einfaldlega kaup aðfanga til að geta haldið til veiða. Skattur er aftur á móti greiddur eftir almennum reglum. Mér vitanlega spyrja olíufélögin ekki útgerðirnar áður en þau afhenda þeim olíu sem hvort þau eigi fjármuni aflögu áður en þeim er afhent olían.
Þó illa gangi hjá einhverjum fyrirtækjum í sjávarútvegi og slíkt gæti hugsanlega leitt til byggðaröskunar þá er ekki hægt að leggja það á heila atvinnugrein að snúa því við. Hægt er að bregðast við byggðaröskun með byggðastyrkjum sem geta m.a. falið í sér styrk til einstakra sjávarútvegsfyritækja í brothættum byggðum en ekki aðgerðum sem taka til atvinnugreinarinnar í heild. Einfaldasta afkomutenging sjávarútvegs er útboð aflaheimilda til nokkurra ára í senn því engin útgerð býður hærra en fjárhagur hennar leyfir.
http://www.visir.is/g/2018180119063/faer-utgerdin-ad-skjota-undan-vorslugjoldum-
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjármál, Kjaramál, Viðskipti og fjármál | Facebook