Svikalogn á Alþingi?

Aðferðin sem ríkisstjórnin ætlaði að nota til að draga aðildarumsókn Íslands að ESB til baka, ber ekki eingöngu vott um yfirgangssemi og flumbrugang, heldur ber hún einnig vott um það versta í íslenskri pólitík, sem er „sáuð þig hvernig ég tók hann“ - hugarfarið.  Þessi hugsun, að upphefja sjálfan sig en reyna að niðurlægja andstæðinginn í stað heiðarlegrar baráttu þar sem annar verður undir, gengur nú aftur í boði ríkisstjórnarinnar í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr.

Sáuð þið hvernig ég tók hann?

Mótstaðan gegn hátterni ríkisstjórnarinnar reyndist meiri en hún átti von á svo nú hefur verið skipt um taktík.  Í stað þess að keyra málið í gegn, áður en lokið var umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar (sbr. „sáuð þið hvernig ég tók hann“ aðferðina) eins og upphaflega stóð til, þá þykir nú ekkert tiltökumál að gefa málinu allan þann tíma sem það útheimtir í nefnd og umfjöllun innan þings sem utan. Skyndileg stefnubreyting vekur grunsemdir um hvort eitthvað annað en virðing fyrir eðlilegum starfsháttum Alþingis búi hér að baki.

Að mæla fagurt en hyggja flátt

Ég get mér til að ríkisstjórnin meti málin svo að það versta sem geti hent stjórnarflokkana úr þessu sé slæm útkoma úr sveitastjórnarkosningunum í maí. Það tap sé að mestu komið fram, og því verði að taka eins og hverju öðru hundsbiti. Nú sé heppilegra að „mæla fagurt en hyggja flátt“.  Fram að kosningunum muni talsmenn flokkanna því tala á þeim nótum að tillaga ríkisstjórnarinnar verði dregin til baka og efnt til þjóðaratkvæðis. Að afloknum kosningum í vor verði svo aftur farið á fullt, sagt að engu hafi verið lofað og aðildarviðræðunum við ESB slitið í trausti þess að þegar næst verði kosið til þings þá verði kjósendur búnir að gleyma framkomu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í þeirra garð. Viljum við trúa því að óreyndu að loforð gefin einstaklingi í Hádegismóum og öðrum á Sauðárkróki vegi þyngra en loforð sem fimm ráðherraefni Sjálfstæðisflokksins gefa alþjóð frammi fyrir sjónvarpsvélum kvöldið fyrir kjördag?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband