Af hverju að útiloka ESB?

Einn af atburðum Íslandssögunnar sem er við það að falla í gleymsku átti sér stað fyrir rétt rúmum hundrað árum þegar bændur riðu hópum saman til Reykjavíkur, sumarið 1905, til að mótmæla lagningu sæstrengs til Íslands; já  þið lásuð rétt, til að mótmæla því að lagður yrði símastrengur til landsins!  Engu er líkara en við séum að upplifa sambærilega atburði nú þegar ríkisstjórnin hefur samþykkt að loka fyrir fullt og fast einum þeirra dyra sem þjóðinni hafa staðið opnar til að kanna hvort þar fyrir innan væri að finna eitthvað sem til framfara gæti horft í samfélagi okkar.

Framtíðinni slegið á frest.

Sagan hefur farið heldur ómildilegum höndum um þá bændur sem riðu til höfuðstaðarins sumarið 1905 til að mótmæla lagningu símans. Eru þeir iðulega nefndir til sögunnar þegar nefna þarf sláandi dæmi um skammsýni og misskilda þjóðarhagsmuni.  Bændunum gekk ekki nema gott eitt til en það er ólíklegt að það framfaratímabil sem hófst hér með heimastjórn framsýnna manna 1904, hefði hafist af jafn miklum eldmóð og gengið jafn hratt fyrir sig og raun ber vitni nema af því að fyrir stjórn landsins fóru stórhuga menn sem litu á útlönd sem tækifæri en ekki ógn og voru óhræddir við að fara ótroðnar slóðir í framfarasókn þjóðarinnar.

Bændurnir buðu þó upp á valkost...

Bændurnir sem voru á móti símanum höfðu þó plan-B, þ.e. valkost við lagningu símastrengsins.  Það er meira en sagt verður um núverandi ríkisstjórn sem ætlar sér bara að hafna ókönnuðum tækifærum, án þess að bjóða upp á neinn annan valkost en þann að halda áfram á þeirri braut sem endaði svo eftirminnilega í hruninu. Lengst af undir öruggri stjórn þeirra sömu flokka og nú sitja í ríkisstjórn.

Fullkominn skortur á framtíðarsýn.

Ríkisstjórnin vill aðeins hætta aðildarviðræðum við ESB en ekki segja okkur hvað þeir vilja í staðinn.  Hver verði framtíðarstefnan í gjaldmiðilsmálum? Munu þeir viðurkenna að þjóðin losnar aldrei við gjaldeyrishöft til fulls með íslenska krónu? Geta þeir sagt okkur hvernig eigi að auka á framleiðni íslensks atvinnulífs, hvernig við fáum búið við gjaldmiðil sem verður að fullu nothæfur, fyrir stóra sem smáa, innanlands og utan? Hvernig við fáum búið við lága vexti og stöðugt verðlag eins og tíðkast meða þjóða sem búa í alvöru hagkerfum?   Nei, þjóðin skal bara „tátla hrosshárið okkar“ með  „er þetta nokkuð fyrir okkur“ – hugarfarinu. 

 http://www.visir.is/gegn-sima-1905-og-esb-2014-/article/2014702259991


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband