Eru hrægammasjóðir frúin í Hamborg?

Með lögum um gjaldeyrismál sem sett voru fyrir réttu ári, skóp ríkisstjórnin samningsstöðuna gagnvart erlendum kröfuhöfum föllnu viðskiptabankanna. Umræðan í samfélaginu minnir mest á bollaleggingar um hvernig eigi að ráðstafa stórum happdrættisvinningi eða þann ágæta leik sem kenndur er við frúna í Hamborg.

Að vísu er kálið ekki sopið, en þegar tekst að semja við kröfuhafana, hvað á þá að gera við peningana? Verða það jafn margir milljarðar og þeir sem mestu lofa segja okkur?  Er þeim örugglega best varið með því að lækka skuldir allra sem skulduðu árið 2008?  Eða væri þeim betur varið í að reka sjúkrahúsin á Ísafirði, Sauðárkróki, Húsavík, Neskaupstað og Vestmannaeyjum eða til að hækka bætur til öryrkja og einstæðra foreldra?

Hvað með þreföldum barna- og vaxtabóta?

Eins og málinu hefur verið stillt upp er eins og að sjálfsagt sé að fjármununum verði varið í almenna skuldalækkun. Hvers vegna er þeim best varið svo?  Er eitthvað vit í því að lækka skuldir moldríkra einstaklinga bara af því að þeir skulduðu árið 2008?  Verður ekki stór hópur áfram í vandræðum?  Hvernig á að hjálpa þeim?

Í óðagoti þeirra sem vilja skilyrðislausa skuldalækkun allra þá hefur algjörlega skort málefnalega umræðu um hvað kemur fólki best. Hvort það komi þeim ekki betur, sem eru í verulegum vandræðum, að fá hærri vaxtabætur og hærri barnabætur?

Forsendubresturinn (gengis- og vísitöluhækkunin) sem varð þegar lánin hækkuðu, mun með tíð og tíma leiða til þess að húseignirnar sem lánin hvíla á, hækka í verði. Þær munu einfaldlega hækka í verði vegna þeirrar verðbólgu sem forsendubresturinn olli. Eiga þá allir þeir sem fengu lánin sín lækkuð einnig að fá að njóta verðhækkunarinnar á húsnæðinu, af völdum sama forsendubrests, þegar þeir selja það? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband