Þjóðaratkvæði um skipulagsmál. Færsla þjóðvegarins frá Blönduósi.
24.7.2011 | 14:26
Af einhverjum einkennilegum ástæðum dúkkar upp, nú um mitt sumar, umræðan um hvort Reykjavíkurflugvöllur eigi að fara eða vera. Umræða sem er engan vegin tímabær þar sem sýnt er að ákvarðanir sem að þessu lúta þarf ekki að taka fyrr en á næstu 15-20 árum þar sem ekki hvarflar að neinum að skipuleggja byggð eða hefja framkvæmdir á flugvallarsvæðinu eins og mál standa nú. Mætti halda að umræðuefni þjóðarinnar væru næg samt og ekki þyrfti að bæta við ótímabærri umræðu um eitthvað sem ekki þarf að taka afstöðu til fyrr en einhverntíma í fjarlægri framtíð.
Færsla þjóðvegarins frá Blönduósi.
Það er mjög áhugaverð tillaga að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um skipulagsmál sveitarfélaga. En þá skyldu menn líka vera sjálfum sér samkvæmir og átta sig á til hvers það getur leitt. Þannig hlýtur það að fara í þjóðaratkvæði næst þegar þess verður freistað að flytja þjóðveginn frá Blönduósi. Ég er sannfærður um að fjöldi landsmanna hefur skoðun á því máli og Blönduósingar eiga vafalaust víða stuðningsmenn fyrir því að halda vegarstæðinu óbreyttu frá því sem nú er. - Einnig þegar kemur næst að því að reisa virkjun, hvort heldur er þegar kemur að því bora eftir gufu á viðkvæmu landsvæði eða reisa stíflu fyrir nýtt virkjunarlón. Í þeim efnum er þá sjálfgefið að efnt verði til þjóðaratkvæðis svo skera megi úr um réttmæti þeirra framkvæmda.Við þær aðstæður sem eru í samfélagi okkar eigum við Íslendingar ekki að efna til óvinafagnaðar og kynda undir umræðu af þessu tagi sem alltaf er hætt við að fari út í öfgar. Yfirvegaða umræðu um skipulagsmál er tímabært að taka þegar forsendur liggja fyrir; upplýsingar um landnýtingu, umferðarmagn og aðra valkosti sem skipta máli þegar slíkar ákvarðanir eru teknar. Þær upplýsingar eiga að vera þær nýjustu sem völ er á og það verður þá hvort er eð ekki fyrr en þörfin fyrir að taka ákvörðunina er orðin brýn. Ákvörðunin um framtíð Reykjavíkurflugvallar þarf ekki að eiga sér stað fyrr að löngum tíma liðnum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook