Færsluflokkur: Lífstíll
Starfsmenn Icelandair í lykilstöðu
6.5.2020 | 17:48
Vegna almennt lítils áhuga og þekkingar hjá verðbréfafyrirtækjum og fjárfestingarstjórum lífeyrissjóða á vinnumarkaðsmálum hafa þeir látið nægja að krefjast þess af stéttarfélögum Icelandair að kjarasamningar þeirra gildi til fimm ára, eigi sjóðirnir að koma að endurreisn félagsins, í stað þess að gera kröfu um að vinnu- og kjarasamningsmál fyrirtækisins séu leyst til frambúðar. Icelandair býr við umtalsvert hærri áhafnakostnað en flugfélögin sem þeir eiga í samkeppni við sem mun gera Icelandair illmögulegt að keppa við þau. Hyggist forráðamenn lífeyrissjóðanna leggja Icelandair til hlutafé, vitandi af þessum framtíðarvanda félagsins, væru þeir að fara afar óvarlega með það fé sem þeim hefur verið trúað fyrir.
Meira þarf til en kjarasamning til fimm ára
Kjarasamningar stéttarfélaga Icelandair til fimm ára getur skoðast sem þokkaleg byrjun en framtíðarlausnin hlýtur að vera fólgin í að öll stéttarfélög sem starfa fyrir félagið hafi samflot í samningum en slíkt ákvæði hefur t.d. verið í kjarasamningum stóriðjuveranna alla tíð. Þetta er aukinheldur ein forsenda fyrir því að geta boðið almenningi að kaupa hluti í félaginu, ef það er hugmyndin. Einnig þurfa starfsmenn og félög þeirra að greina frá hversu miklu þeir hyggjast skrá sig fyrir sjálf en þeir geta einnig tekið sig saman og stofnað sérstök félög í þeim tilgangi að fjárfesta í Icelandair.
Ekki þarf að fara í grafgötur með mikilvægi félags á borð við Icelandair. En hvort er heppilegra að félagið verði endurreist fyrir eða eftir gjaldþrot? Ef leita á eftir fjármunum hjá almenningi annaðhvort beint eða óbeint, í gegnum lífeyrissjóði, verður allt að vera upp á borðum.
https://kjarninn.is/skodun/2020-05-06-starfsmenn-icelandair-rada-miklu-um-framtid-thess/
Alltaf skal Landspítalinn verða undir
9.11.2015 | 16:08
Fullkomin sjúkrastofnun opnar í Ármúla (Hótel Ísland) með öllum nýjustu tækjum og öllu starfsfólki svo vel höldnu að það hvarflar ekki að því að fara í verkfall. Á sama tíma dynur á Landspítalanum enn eitt verkfallið og tækjabúnaður er annaðhvort skammtaður af tímabundu örlæti þingmanna eða ölmusugjöfum velunnara spítalans. Samt sækja bæði klínikin í Ármúlanum og Landspítalinn alla sína fjármuni í sama vasa, vasa skattgreiðenda. Hvernig má þetta vera?
Hið rangsnúna kerfi.
Svarið hefur legið lengi fyrir og vitað að svona mundi fara (http://uni.hi.is/bh/). Klínikin í Ármúlanum fær sérstaklega greitt frá ríkinu fyrir hvert viðvik á meðan Landspítalinn þarf að búa við greiðslur ákvarðaðar einu sinni á ári á fjárlögum. Í fjáraukalögum sem nú liggja fyrir Alþingi er beiðni um viðbótarframlag uppá nokkra milljarða til sérfræðilæknaþjónustu utan sjúkrahúsa. Hluti þess framlags mun einmitt renna til klínikurinnar í Ármúla.
Landspítalinn aftur á móti fær ekki að keppa um fjármagn úr ríkissjóði með sama hætti og klínikin. Á meðan svo er þá mun Landspítalinn alltaf tapa í þeirri samkeppni um skattfé almennings sem smátt og smátt dregur úr spítalanum þrótt.
Landspítalinn tapar á aukinni þjónustu.
Ef senda þarf sjúklinga til útlanda í meðferð eða rannsóknir þá borgar ríkið það í gegnum Sjúkratryggingar Íslands. Yrði Landspítalanum falið að sjá fyrir sömu meðferð og rannsóknum hér á landi (sem getur sparað þjóðarbúinu stórar fjárhæðir svo ekki þurfi að senda sjúklinga til útlanda) þýðir það bara viðbótarkostnað fyrir Landspítalann. En hjá Sjúkratryggingum (sem þá sleppa við að borga ferðirnar til útlanda) er þetta hreinn sparnaður sem gefur aukið svigrúm til frekari greiðslna til stofa úti í bæ, svo öfugsnúið sem það kann að virðast. Vítahringurinn heldur áfram, Landspítalanum heldur áfram að hraka á meðan einkaaðilar dafna, allt í boði okkar skattgreiðenda.
Engin stefnumótun í heilbrigðismálum
Ofangreind tilvitnun er höfð eftir heilbrigðisráðherra á fundi sem efnt var til í september um íslenska heilbrigðiskerfið. Auk þess sagði hann skort á heildrænni yfirsýn og að engin raunveruleg stefnumótun til lengri tíma hafi átt sér stað. Það er vandséð að annar eins áfellisdómur hafi verið felldur um jafn mikilvægan málaflokk. Samt sem áður virðast þessi orð hafa farið fram hjá flestum fjölmiðlum hvað þá að þingmenn eða aðrir hafi séð ástæðu til að taka þau upp og spyrja hvort hér verði ekki ráðin bót á.
Heilbrigðismál er sá málaflokkur sem síst þykir líklegur til vinsælda hjá stjórnmálamönnum. Þeir kinoka sér við að kynna sér rekstur heilbrigðisstofnana og álykta ranglega að allt megi bæta með auknum fjárframlögum. Vandi íslenska heilbrigðiskerfisins er miklu djúpstæðari og þar skapa mismunandi aðferðir við skiptingu á framlögum ríkisins til einkarekinna- og opinberra heilbrigðisstofnana mestan vanda.
http://www.visir.is/landspitalanum-askapad-ad-verda-undir/article/2015151108911
Útboð aflaheimilda; Píratar komnir um borð
10.9.2015 | 14:21
Ef þetta gengur ekki fram mun ég persónulega sjá til þess að að þér verði ólíft á Íslandi það sem eftir er. Þessi tilvitnun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, höfð eftir einum helsta ráðamanni landsins í garð manns sem dirfðist að vera honum ósammála, eru lýsandi ummæli um ástand opinberrar umræðu á Íslandi á árunum frá því fyrir aldamót og fram að hruni. (7.bindi, bls.33). Viðleitnin til að þagga niður í fólki tók jafnt til þeirra sem vildu tjá sig um stjórnmál eða þeirra sem tjáðu sig um fjármál og viðskipti. Hver sem þorði að andmæla ráðandi öflum átti útskúfun á hættu.
Þöggun viðgengst enn. Eðli þöggunar er að þeir sem vilja tjá sig um menn og málefni eru ekki reiðubúnir að koma fram og segja það sem þeim býr í hug af ótta við aðgerðir gegn þeim. Hvergi er þetta augljósara nú en í málefnum sjávarútvegsins. Sá sem verður fyrir þöggun treystir sér ekki til að greina frá þögguninni opinberlega. Hún getur birst sem beinar hótanir eða sjálfsritskoðun á því sem menn setja fram á opinberum vettvangi. Einfaldast er sjá fyrir sér sjómenn í eftirsóttu skiprúmi eða þingmenn Norð-austur kjördæmis sem augljós fórnarlömb sjávarútvegsþöggunarinnar þó fórnarlömbin séu miklu fjölbreyttari hópur.
Útboðsleið stuðlar að nýliðun.
Ánægjulegt er að Píratar skuli komnir í hóp þeirra stjórmálahreyfinga sem hafa mótað sér stefnu um að aflaheimildir skuli boðnar út svo tryggt sé að þjóðin, eigandi fiskimiðanna, fái fullt afgjald fyrir afnot af þessari eign sinni. Gamalkunnur áróður er þegar farinn í gang um að þetta komi minni útgerðum verr og eru þær fullyrðingar iðulega settar fram án rökstuðnings.
Gera má ráð fyrir, ef rétt er að útboðum staðið, að útboðin stuðli að aukinni fjölbreytni og nýliðun í sjávarútvegi. Þannig gætu t.d. Djúpivogur og Tálknafjörður sem nú eiga í erfiðleikum séð fram á betri tíð verði útboðsleiðin farin. Mestu máli hlýtur að skipta að gætt sé heildarhagsmuna þjóðarinnar en ekki ímyndaðra sérhagsmuna einstaka jaðarhópa.
Baráttan fyrir réttlátri skiptingu á arðinum af fiskveiðiauðlindinni er rétt að hefjast og á eftir að harðna. Þeir sem vilja berjast fyrir réttlátri skiptingu þurfa að sameinast um hagsmuni þjóðarheildarinnar og láti ekki núverandi kvótahafa afvegaleiða umræðuna. Allir sem vilja að þjóðin fái að njóta afraksturs eignar sinnar verða að gæta sín á að efna ekki til Þórðargleði andstæðinganna. Til þess hafa kvótahafarnir ógrynni fjár og munu einskis svífast.
http://www.visir.is/sjavarutvegur-og-thoggunin-/article/2015150908839