Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
ÍSLENSKA OG DANSKA KRÓNAN Í 100 ÁR
2.11.2020 | 11:29
Lífeyrissjóðunum er gert að taka á sig tapið af nýjasta gengisfalli krónunnar með því að þeim er fyrirmunað að kaupa erlendan gjaldeyri til að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga en þurfa þess í stað að kaupa eignir í íslenskum krónum. Fyrir aðeins ári síðan var hægt að kaupa einn dollar á 125 krónur sem í dag kostar 141 krónu. Þessi 12% hækkun á verði erlends gjaldeyris (evra hækkað um 18%) leiðir svo aftur til hækkunar á verði innfluttrar vöru. Hér eru þau komin breiðu bökin í samfélaginu, þeir sem þiggja lífeyri frá lífeyrissjóðum og almenningur sem þarf að borga nauðsynjavörur hærra verði. Hvor tveggja afleiðingar af því að Íslendingum er gert að búa við smæsta gjaldmiðil í heimi, örmynt sem er hvergi annars staðar gjaldgeng.
Hvers vegna?
Þrátt fyrir að þjóðin þekki af eigin raun hvernig verðlag á Íslandi hækkar endalaust og þrátt fyrir að verðlagshækkanirnar megi nær undandtekningalaust rekja til hækkana á innfluttum vörum, sem verða stöðugt dýrari vegna verðhækkana á erlendum gjaldeyri, þá eru ennþá til aðilar sem telja að heppilegast sé fyrir íslenska þjóð að notast við íslenska krónu.
Íslensk króna varð til sem sjálfstæður gjaldmiðill um 1920. Fram að því var gengi hennar það sama og dönsku krónunnar. Frá þeim tíma hafa þessar tvær myntir þróast með gjörólíkum hætti. T.d. hefur gengi danskrar krónu gagnvart dollar á þessum hundrað árum haldist innan við tíu krónur danskar, á meðan gengi íslenskrar krónu gagnvart dollar fer yfir 10 þúsund íslenskar krónur, ef horft er framhjá myntbreytingunni á íslensku krónunni 1980.
Íslendingar hafa lært að lifa með hinni stöðugu gengislækkun en fórnirnar hafa verið miklar. Nær ógerlegt er að nefna allar þær ráðstafanir fyrirtækja og heimila sem teknar voru til þess eins að reyna af veikum mætti að viðhalda raunvirði peninga í stað þess að verja fjármununum til arðbærra fjárfestinga. Þannig var algengt, þegar vitað var að gengisfellingar vofðu yfir, að almenningur keypti heimilistæki sem vitað var að myndu hækka í verði, jafnvel eingöngu í þeim tilgangi að selja þau aftur á nýja verðinu. Einnig má nefna virðingarleysið fyrir gjaldmiðlinum sem lýsir sér í að eydd króna hefur alla tíð verið í meiri metum meðal þjóðarinnar en geymd króna. Þannig eru Íslendingar miklu meiri eyðsluklær en gengur og gerist þar sem vitað er að geymd króna rýrnar að verðgildi með hverjum deginum sem líður á meðan hún er í vasa þínum.
Svo gott að hafa krónuna
Meðal þess sem haldið er fram þegar sagt er það er svo gott að hafa krónuna er að hún geti jafnað út sveiflur í hagkerfinu. Reynslan hefur aftur á móti kennt okkur að hún jafnar ekkert út heldur viðheldur hún bara niðursveiflum og bætir svo í þær. Niðursveiflurnar rýra síðan afkomu alls almennings.
Stöðugt fallandi króna er og verður fyrst og fremst tæki þeirra sem þurfa að flytja fjármuni frá almenningi til fyrirtækja sem hafa ýmist komið sér sjálf í bobba eða fyrir tilstuðlan vanhæfra stjórnmálamanna eða vegna utanaðkomandi áhrifa sem hægt er að glíma við með öðrum hætti en grípa til gengislækkkunar. Gengislækkun er auðvelda leiðin út úr vandanum þar sem hún gerir minnstar kröfur til ráðamanna. Reyndar er þetta ástand fallandi krónu orðið svo inngróið í þjóðarsálina að margir álíta það óbreytanlegt. Hér er um að ræða er þetta nokkuð fyrir okkur-heilkennið sem byrgir mönnum sýn og ber fyrst og fremst vott um minnimáttarkennd þeirra sem því eru haldnir. Heilkennið er ótrúlega algengt meðal stjórnmálamanna hvort sem þeir telja sig vera til vinstri eða hægri.
Hverjum má treysta í Evrópumálunum?
26.9.2019 | 09:35
Sú dapurlega orðræða sem þjóðin varð vitni að um orkupakkann dró fram hvaða stjórnmálaflokkum má treysta í Evrópumálum. Þannig þarf ekki mikið innsæi eða þekkingu á íslenskum stjórnmálum til að átta sig á að Vinstri græn hefðu farið fram gegn orkupakkanum, með sömu heilögu vandlætingunni og sömu röksemdafærslu og Miðflokksmenn, ef ekki hefði svo viljað til að þau væru einmitt í ríkisstjórn núna. Vinstri græn er einfaldlega þannig flokkur sem segir eitt í stjórnarandstöðu og annað í ríkisstjórn. Um það ber myndun núverandi ríkisstjórnarinnar órækt vitni, þegar Vinstri græn tóku meðvitaða ákvörðun um að fara í stjórn með flokkum sem tryggðu að þau þyrftu ekki að standa við kosningaloforð sín. T.d. loforð um hærra auðlindagjald í sjávarútvegi, sem þau höfðu síðan sérstaka forgöngu um að lækka, þvert á það sem þau höfðu boðað fyrir kosningar.
Sjálfstæðisflokknum ekki treystandi
Formaður Sjálfstæðisflokksins lét hafa eftir sér í upphafi umræðunnar um orkupakkann:
Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana? (...) Raforkumál Íslands eru ekki innri-markaðsmál. ( ) Eru það rök að þar sem Evrópusambandinu hefur þegar tekist að koma Íslandi undir einhverja samevrópska stofnun sé ástæða til að ganga lengra?
Með svona orðræðu er Sjálfstæðisflokkurinn kominn í sömu stöðu og Íhaldsflokkurinn breski sem alla tíð hefur slegið úr og í um Evrópusamvinnuna til að freista þess að halda öllum flokksmönnum góðum. Þessi afstaða leiddi Breta á endanum í þær ógöngur sem þeir glíma við nú.
Sama gildir á Íslandi, í Evrópumálum er ekki hægt að bera kápuna á báðum öxlum. Annaðhvort viðurkenna menn þann ávinning sem þjóðin hefur af þátttöku sinni í EES, og eru óhræddir við að halda honum á lofti, eða menn eru einfaldlega á móti Evrópusamvinnunni og reiðubúnir að færa þær fórnir sem það útheimtir. Hvorum megin liggur Sjálfstæðisflokkurinn?
https://www.visir.is/g/2019190929191/hverjum-ma-treysta-
GAMLA ÍSLAND VANN
7.12.2017 | 15:38
Nýja ríkisstjórnin boðar engar sögulegar sættir, bara svo það sé alveg á hreinu. Stjórnin er mynduð af keimlíkum flokkum sem eru alls engar andstæður þó það þjóni VG að halda því fram. Álitsgjafar munu áfram falla í þá gryfju, að tala um póla og sögulegar sættir því það er þægilegra fyrir þá að halda á lofti gömlum klisjum en vinna heimavinnuna sína og skoða hvað flokkarnir sem mynda ríkisstjórnina raunverulega standa fyrir.
Fyrir þá sem harma ákvörðun VG að ganga í björg Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er áhugavert að skoða dæmi um málefni sem VG telur sig ná fram nú en sem var ekki í boði með Samfylkingunni o.fl. flokkum. Þannig tryggir VG að útgerðin sleppur við að greiða sama auðlindagjald fyrir makrílveiðar og þeir inna af hendi til Færeyinga, fjárhæð sem nemur nokkrum milljörðum. Með vali á sjávarútvegsráðherra verður einnig að telja að stórútgerðin í landinu hafi unnið fullnaðarsigur.
Hvað breyttist eftir kosningar?
Í fyrri ríkisstjórn máttu Björt framtíð og Viðreisn gera sér að góðu að umbera vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins þar til þeim var loks nóg boðið. Þannig verður það líka hjá VG. Hverju flóttabarni sem vísað verður úr landi á hæpnum forsendum; hver reglugerð sem á að hindra brottkast og stöðvuð verður af útgerðinni; hver dómaraskipan, allt verður þetta óhjákvæmilega í boði VG.
Fáir hafa lýst vinnubrögðum Sjálfstæðisflokksins með jafn afgerandi hætti og frambjóðendur VG gerðu í aðdraganda Alþingiskosninganna. Nú hefur komið í ljós að því var greinilega bara ætlað að halda lífi í klisjunni um VG og Sjálfstæðisflokk sem andstæða flokka en alls ekki til brúks eftir kosningar.
Eftir því sem fleiri ríkisstjórnir eru myndaðar með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki um að breyta engu, fjarlægist sá draumur sem margir báru í brjósti um að í kjölfar hrunsins hefði gamla Ísland, með öllum sínum sérhagsmunum og frændhygli verið kvatt og í vændum væri nýtt og betra Ísland sem byggði á öðrum gildum en þeim sem leiddu til hruns og misskiptingar. Þessi ríkisstjórn gerir þann draum enn fjarlægari og fyrir kjósendur sem vilja nýtt Ísland hefur fækkað um einn valkost.
http://www.visir.is/g/2017171209278/gamla-island-vann-
Svikalogn á Alþingi?
21.3.2014 | 09:44
Aðferðin sem ríkisstjórnin ætlaði að nota til að draga aðildarumsókn Íslands að ESB til baka, ber ekki eingöngu vott um yfirgangssemi og flumbrugang, heldur ber hún einnig vott um það versta í íslenskri pólitík, sem er sáuð þig hvernig ég tók hann - hugarfarið. Þessi hugsun, að upphefja sjálfan sig en reyna að niðurlægja andstæðinginn í stað heiðarlegrar baráttu þar sem annar verður undir, gengur nú aftur í boði ríkisstjórnarinnar í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr.
Sáuð þið hvernig ég tók hann?
Mótstaðan gegn hátterni ríkisstjórnarinnar reyndist meiri en hún átti von á svo nú hefur verið skipt um taktík. Í stað þess að keyra málið í gegn, áður en lokið var umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar (sbr. sáuð þið hvernig ég tók hann aðferðina) eins og upphaflega stóð til, þá þykir nú ekkert tiltökumál að gefa málinu allan þann tíma sem það útheimtir í nefnd og umfjöllun innan þings sem utan. Skyndileg stefnubreyting vekur grunsemdir um hvort eitthvað annað en virðing fyrir eðlilegum starfsháttum Alþingis búi hér að baki.
Að mæla fagurt en hyggja flátt
Ég get mér til að ríkisstjórnin meti málin svo að það versta sem geti hent stjórnarflokkana úr þessu sé slæm útkoma úr sveitastjórnarkosningunum í maí. Það tap sé að mestu komið fram, og því verði að taka eins og hverju öðru hundsbiti. Nú sé heppilegra að mæla fagurt en hyggja flátt. Fram að kosningunum muni talsmenn flokkanna því tala á þeim nótum að tillaga ríkisstjórnarinnar verði dregin til baka og efnt til þjóðaratkvæðis. Að afloknum kosningum í vor verði svo aftur farið á fullt, sagt að engu hafi verið lofað og aðildarviðræðunum við ESB slitið í trausti þess að þegar næst verði kosið til þings þá verði kjósendur búnir að gleyma framkomu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í þeirra garð. Viljum við trúa því að óreyndu að loforð gefin einstaklingi í Hádegismóum og öðrum á Sauðárkróki vegi þyngra en loforð sem fimm ráðherraefni Sjálfstæðisflokksins gefa alþjóð frammi fyrir sjónvarpsvélum kvöldið fyrir kjördag?