Færsluflokkur: Evrópumál
Leiðréttingin og sagan
24.11.2014 | 15:54
Það var miður að stjórnmálamenn skyldu fallast á að greina fjölmiðlum frá hvort þeir hafi sótt um leiðréttingu húsnæðislána sinna eða ekki. Það eitt að segja til um hvort þeir sóttu um (sem er algerlega þeirra einkamál) gerði að verkum að stór hluti umræðunnar fór í það sem Íslendingar kunna svo vel orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls (HKL). Kjarni umræðunnar um leiðréttinguna hlýtur að vera spurningin um hversu skynsamleg þessi ráðstöfun á skattfé almennings sé en ekki hvaða einstaklingar sóttu um.
Leiðrétting ofan á hækkun húsnæðis.
Það sem núna heitir forsendubrestur sem hefur leitt af sér leiðréttinguna er ekki nýtt fyrirbrigði og hefur verið reglulegur gestur í íslensku efnahagslífi. Fyrir réttum þrjátíu árum hét þetta misgengi. - Það sem gerist er að almennar verðhækkanir verða í samfélaginu á öllum vörum, húsnæði og þjónustu sem svo leiða til hækkunar lána þ.á.m. húsnæðislána. Þetta getur leitt til svo mikillar hækkunar að lántakendur ráða ekki lengur við afborganir ef launahækkanir fylgja ekki. Að nokkrum tíma liðnum jafnar þetta sig, svo að þeir sem náðu að þrauka, eiga þá orðið húsnæði sem hefur hækkað í verði a.m.k. jafn mikið og húsnæðislánin. Svona hefur þetta alltaf verið.
Forsendubresturinn hækkar húsnæðisverð.
Verkefni stjórnvalda við þessar aðstæður hlýtur því að vera að koma til móts við þá sem lenda í erfiðleikum áður en andvirði húsnæðis þeirra hefur náð að hækka jafn mikið og lánin gerðu. Leiðréttingin núna gengur aftur á móti út á að greiða öllum hækkun lánanna þó svo að vitað sé að húsnæði þeirra hafi þegar hækkað í verði eða eigi eftir að gera það vegna hins sama forsendubrests og lét lánin hækka!
Hvernig skyldi sagan eiga eftir að dæma aðfarir sem þessar? Íslandssögubækur framtíðarinnar gætu t.d. sagt frá þessu svona:
Þegar hér var komið við sögu var heilbrigðiskerfið komið að fótum fram eftir áralanga vanrækslu. Bæði var umgjörð kerfisins hrunin sem og þau kjör sem heilbrigðisstarfsmönnum voru boðin. Flótti var brostinn í starfsliðið en steininn tók úr þegar ríkisstjórnin lét senda fjármuni heim til lántakenda í sömu vikunni og læknar fóru í fyrsta sinn í verkfall. Brottflutningur lækna komst í algleymi og aðrar stéttir langskólagenginna og faglærðra hópuðust af landi brott. Allt varð þetta til að seinka endurreisn hagkerfisins sem mátti glíma við stöðnun lengi enn.
Trúir einhver því raunverulega að sú leið sem farin er með leiðréttingunni að verja 80 milljörðum með þeim hætti sem gert er, sé til gæfu fallin á meðan heilbrigðiskerfið og menntakerfið koðnar niður, skuldir ríkissjóðs eru í hámarki og æpandi þörf á fjármagn til allra samfélagslegra verkefna?
http://www.visir.is/leidrettingin;-domur-sogunnar/article/2014711219965
Sjávarútvegurinn- leigjandinn sem neitar að fara.
20.11.2014 | 15:40
Í kjölfar hrunsins þurfti kunningjafólk mitt að flytja til Noregs til að þreifa fyrir sér með vinnu. Skömmu áður höfðu þau keypt sér fjögurra herbergja íbúð í Seljahverfi, sem þau báðu mig að sjá um útleigu á, á meðan þau væru í Noregi. Ég leigði íbúðina prýðis manni sem bauð af sér góðan þokka og hann greiddi fúslega uppsetta leigu sem ég ákvað að hafa í lægri kantinum af því mér leist vel á manninn. Upp á síðkastið er hann hins vegar farinn að tala um hvort ég vilji ekki lækka við hann leiguna. Ég óttast að hann sé farinn að halla sér að flöskunni, allavega hefur hann minni auraráð og þess vegna finnst honum hann eigi alls ekki að þurfa að borga jafn mikið og áður.
Heimtar lækkaða leigu
Ég hef bent honum á að þar sem hann er einn í heimili ætti honum að nægja þriggja herbergja íbúð enda virðist greiðslugeta hans alveg ráða við það. Hann má ekki heyra á það minnst heldur krefur hann mig núna um að fá samning um íbúðina til 20 ára og hann væri e.t.v. reiðubúinn að greiða mér hærri leigu einhverntíma síðar ef úr málum rætist hjá honum. Svo bendir hann á eitthvað sem hann telur vera óljós ákvæði í upphaflega leigusamningnum, sem gæti hugsanlega kveðið á um að í raun og veru eigi hann íbúð vinafólks mín í Noregi, en ekki þau!
Nægir aðrir sem vilja leigja
Þetta er allt frekar erfitt fyrir mig þar sem ég veit af barnmörgum fjölskyldum sem mundu gjarnan vilja borga þá leigu, sem núverandi leigjandi er að greiða og meira til, ef ég aðeins losnaði við hann úr húsnæðinu. Á ég að lækka verðið á húsnæðinu, bara af því að hann vill ekki borga meira? Leigjandinn er farinn að minna mig óþyrmilega mikið á freka kallinn sem Jón Gnarr hefur gert svo ágæt skil.
Gildir ekki sama um sjávarútveginn?
Dæmisagan hér að ofan getur gilt um samskipti þjóðarinnnar (eigenda íbúðarinnar) og þeirra sem nú eru kvótahafar íslensku fiskimiðanna (leigjandinn) en þeir vilja láta leiguna ráðast af því hvernig stendur á hjá þeim hverju sinni! Úti um allt land eru fiskverkendur og kvótalausar útgerðir sem bíða í röðum eftir að fá að bjóða í kvótann á jafnréttisgrundvelli. Hversvegna á þjóðin (eigandi fiskimiðanna) að sætta sig við að leigan á kvóta ráðist bara af greiðslugetu þeirra útgerðarmanna sem nú róa til fiskjar, en ekki því hvaða leigu væri hægt að fá, ef kvótinn væri boðinn til leigu á almennum markaði?
Hnignandi hagkerfi Íslendinga
9.11.2014 | 10:34
Forstjóri Össurar, Jón Sigurðsson, Mbl. 6. nóv. 2014:
Hættan sem steðjar að Íslendingum er sú að hagvöxtur verði yfir lengri tíma minni á Íslandi en erlendis og að lífskjör dragist saman hægt og sígandi. Hættan er sú að þetta gerist svo hægt að við tökum ekki eftir því. Það eru ákveðin varúðarmerki þegar starfsstéttir hverfa úr landi sem geta farið og hinar verða eftir.
Bolli Héðinsson, hagfræðingur, Frbl. 5. nóv. 2014:
Kjaradeila lækna er aðeins birtingarmynd þess sem koma skal í hinu hægfara hnignandi hagkerfi Íslendinga. Hagkerfi sem líður fyrir forystuleysi og skort á framtíðarsýn fyrir samfélag sem þarf að keppa um hvern einasta einstakling, ekki aðeins lækna. Laun hljóta að vega þungt hjá því fólki sem flytur frá Íslandi en ekki síst að fá að búa við stöðugleika, það að vita að hverju maður gengur í rekstri heimila og fyrirtækja.
http://www.visir.is/thegar-vonin-hverfur/article/2014711059981
Svikalogn á Alþingi?
21.3.2014 | 09:44
Aðferðin sem ríkisstjórnin ætlaði að nota til að draga aðildarumsókn Íslands að ESB til baka, ber ekki eingöngu vott um yfirgangssemi og flumbrugang, heldur ber hún einnig vott um það versta í íslenskri pólitík, sem er sáuð þig hvernig ég tók hann - hugarfarið. Þessi hugsun, að upphefja sjálfan sig en reyna að niðurlægja andstæðinginn í stað heiðarlegrar baráttu þar sem annar verður undir, gengur nú aftur í boði ríkisstjórnarinnar í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr.
Sáuð þið hvernig ég tók hann?
Mótstaðan gegn hátterni ríkisstjórnarinnar reyndist meiri en hún átti von á svo nú hefur verið skipt um taktík. Í stað þess að keyra málið í gegn, áður en lokið var umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar (sbr. sáuð þið hvernig ég tók hann aðferðina) eins og upphaflega stóð til, þá þykir nú ekkert tiltökumál að gefa málinu allan þann tíma sem það útheimtir í nefnd og umfjöllun innan þings sem utan. Skyndileg stefnubreyting vekur grunsemdir um hvort eitthvað annað en virðing fyrir eðlilegum starfsháttum Alþingis búi hér að baki.
Að mæla fagurt en hyggja flátt
Ég get mér til að ríkisstjórnin meti málin svo að það versta sem geti hent stjórnarflokkana úr þessu sé slæm útkoma úr sveitastjórnarkosningunum í maí. Það tap sé að mestu komið fram, og því verði að taka eins og hverju öðru hundsbiti. Nú sé heppilegra að mæla fagurt en hyggja flátt. Fram að kosningunum muni talsmenn flokkanna því tala á þeim nótum að tillaga ríkisstjórnarinnar verði dregin til baka og efnt til þjóðaratkvæðis. Að afloknum kosningum í vor verði svo aftur farið á fullt, sagt að engu hafi verið lofað og aðildarviðræðunum við ESB slitið í trausti þess að þegar næst verði kosið til þings þá verði kjósendur búnir að gleyma framkomu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í þeirra garð. Viljum við trúa því að óreyndu að loforð gefin einstaklingi í Hádegismóum og öðrum á Sauðárkróki vegi þyngra en loforð sem fimm ráðherraefni Sjálfstæðisflokksins gefa alþjóð frammi fyrir sjónvarpsvélum kvöldið fyrir kjördag?
Af hverju að útiloka ESB?
28.2.2014 | 15:09
Einn af atburðum Íslandssögunnar sem er við það að falla í gleymsku átti sér stað fyrir rétt rúmum hundrað árum þegar bændur riðu hópum saman til Reykjavíkur, sumarið 1905, til að mótmæla lagningu sæstrengs til Íslands; já þið lásuð rétt, til að mótmæla því að lagður yrði símastrengur til landsins! Engu er líkara en við séum að upplifa sambærilega atburði nú þegar ríkisstjórnin hefur samþykkt að loka fyrir fullt og fast einum þeirra dyra sem þjóðinni hafa staðið opnar til að kanna hvort þar fyrir innan væri að finna eitthvað sem til framfara gæti horft í samfélagi okkar.
Framtíðinni slegið á frest.
Sagan hefur farið heldur ómildilegum höndum um þá bændur sem riðu til höfuðstaðarins sumarið 1905 til að mótmæla lagningu símans. Eru þeir iðulega nefndir til sögunnar þegar nefna þarf sláandi dæmi um skammsýni og misskilda þjóðarhagsmuni. Bændunum gekk ekki nema gott eitt til en það er ólíklegt að það framfaratímabil sem hófst hér með heimastjórn framsýnna manna 1904, hefði hafist af jafn miklum eldmóð og gengið jafn hratt fyrir sig og raun ber vitni nema af því að fyrir stjórn landsins fóru stórhuga menn sem litu á útlönd sem tækifæri en ekki ógn og voru óhræddir við að fara ótroðnar slóðir í framfarasókn þjóðarinnar.
Bændurnir buðu þó upp á valkost...
Bændurnir sem voru á móti símanum höfðu þó plan-B, þ.e. valkost við lagningu símastrengsins. Það er meira en sagt verður um núverandi ríkisstjórn sem ætlar sér bara að hafna ókönnuðum tækifærum, án þess að bjóða upp á neinn annan valkost en þann að halda áfram á þeirri braut sem endaði svo eftirminnilega í hruninu. Lengst af undir öruggri stjórn þeirra sömu flokka og nú sitja í ríkisstjórn.
Fullkominn skortur á framtíðarsýn.
Ríkisstjórnin vill aðeins hætta aðildarviðræðum við ESB en ekki segja okkur hvað þeir vilja í staðinn. Hver verði framtíðarstefnan í gjaldmiðilsmálum? Munu þeir viðurkenna að þjóðin losnar aldrei við gjaldeyrishöft til fulls með íslenska krónu? Geta þeir sagt okkur hvernig eigi að auka á framleiðni íslensks atvinnulífs, hvernig við fáum búið við gjaldmiðil sem verður að fullu nothæfur, fyrir stóra sem smáa, innanlands og utan? Hvernig við fáum búið við lága vexti og stöðugt verðlag eins og tíðkast meða þjóða sem búa í alvöru hagkerfum? Nei, þjóðin skal bara tátla hrosshárið okkar með er þetta nokkuð fyrir okkur hugarfarinu.
http://www.visir.is/gegn-sima-1905-og-esb-2014-/article/2014702259991
Er Sjálfstæðisflokknum treystandi?
4.2.2014 | 15:31
Eftir síðustu Alþingiskosningar lýsti innmúraður og innvígður Sjálfstæðismaður því yfir í blaðagrein að Sjálfstæðisflokknum mætti treysta, að flokkurinn stæði við orð sín. Með þessu freistaði hann þess að mana forystu Sjálfstæðisflokksins til að standa við skilyrðislaust loforð um þjóðaratkvæði um aðildarviðræður við ESB, á fyrri hluta kjörtímabilsins, en það loforð var forsenda margra kjósenda fyrir því að ljá Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt.
Nei, honum er ekki treystandi.
Nú er það endanlega orðið ljóst að af þjóðaratkvæðinu verður ekki. Sjálfstæðisflokknum er ekki treystandi til að standa við loforðin sem forystan gaf þegar reynt var að friða ESB sinna innan flokksins í aðdraganda kosninga. Framsóknarflokkurinn hefur nú endanlega blásið af kosningar um áframhald viðræðna við ESB án þess að Sjálfstæðismenn hafi hreyft legg né lið og látið það yfir sig ganga andmælalaust. Svo voru einhverjir sem kusu Sjálfstæðisflokkinn útá slagorðið engar nefndir, bara efndir en það gilti bara fyrir útgerðarmenn, ekki almenning.
Já, honum er treystandi.
Í borgarstjórnarkosningum framundan hefur oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík freistað þess að marka flokknum sérstöðu með því að lýsa því yfir að tími samræðustjórnmála sé liðinn. Nú skuli fara í hart og í engu leitast við að ná samstöðu um stór mál sem smá heldur muni allir hér eftir fá að vita hvar Davíð keyptið ölið. Þetta er all sérstæð yfirlýsing þar sem flestir töldu að gömlu aðferðirnar við stjórn lands og borgar, þar sem freki kallinn (sem Jón Gnarr hefur lýst svo ágætlega) réði för, hefðu gengið sér til húðar. Almennt var talið að meðal þess sem við hefðum átt að læra af hruninu væri að einstefnustjórnmál freka karlsins hefðu átt sinn hlut í að leiða okkur fram af bjargbrúninni og nær væri að stjórnmálamenn töluðu saman og freisti þess að ná breiðri samstöðu um sem flest mál.
Nú ætla Sjálfstæðismenn að taka upp gömlu gildin. Reykjavíkurborg verður enn á ný vettvangur fyrir litla freka kalla sem ætla sér að komast til æðri metorða innan Flokksins. Hagsmunir borgabúa skipta litlu þegar slíkur frami er annars vegar og tilgangurinn helgar meðalið.
Flokkur svefngengla?
Deilt er um hver íslensku stjórnmálaflokkanna eigi stærstan hóp svefngengla vanans þ.e. þeirra sem kjósa flokkinn sinn af gömlum vana í þeirri trú að þannig séu þeir í raun ópólitískir. Þetta hefur enginn orðað betur en Haukur pressari, einn þeirra karaktera sem settu svip á Reykjavík á síðustu öld og orðaði það svo: Ég algjörlega ópólitískur en kýs alltaf Sjálfstæðisflokkinn.