Færsluflokkur: Bloggar
Hversvegna stjórnlagaþing?
17.10.2010 | 10:47
Sem áhugamaður um betra samfélag afréð ég að bjóða mig fram til stjórnlagaþings. Á stjórnlaga-þinginu gefst mér færi á að vinna að framgangi þeirra góðu mála sem ég hef bjargfasta sannfæringu fyrir að geti fært íslenskt samfélag fram á veginn. Markmiðið er að skapa réttlátt samfélag; lýðræði og gegnsæi eru bestu leiðirnar til að þess.
Þjóðareign á auðlindum lands og sjávar, þar sem þjóðin öll fær að njóta afraksturs auðlindanna, er ekki aðeins réttlætismál heldur einnig til þess fallið að stuðla að efnhagslegu jafnvægi og tryggja velferð þjóðarinnar.
Þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg málefni veita stjórnmálamönnum brýnt aðhald. Þjóðin verður að eiga möguleika á efna til þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að til þess þurfi atbeina Forseta Íslands eða Alþingis þó þær leiðir þurfi einnig að vera fyrir hendi.
Þær hugmyndir sem ég lýsi hér eru ekki nýjar af nálinni en fyrst nú gefst íslensku þjóðinni færi á að vinna þeim brautargengi.
Framboð Bolla Héðinssonar til stjórnlagaþings.
13.10.2010 | 15:53
Framboð Bolla Héðinssonar til stjórnlagaþings.
Eftir hrunið hefur komið í ljós raunverulegur vilji til endurskoðunar stjórnarskrárinnar. Stjórnlagaþingið gefur venjulegu fólki tækifæri á að hafa afgerandi áhrif á mótun samfélagsins til lengri tíma.
Meðal þess sem ný stjórnarskrá þarf að tryggja er,
skilyrðislaust eignarhald þjóðarinnar á auðlindum lands og sjávar
aðskilnaður löggjafar- og framkvæmdavalds
gegnsæi á öllum sviðum hins opinbera og þar sem fjármunir eru sóttir til almennings.
Ýmsa þá bresti sem er að finna í íslensku samfélagi gefur ný stjórnarskrá okkur færi á að lagfæra. Til þess viðamikla og mikilvæga verkefnis býð ég mig fram.
Bolli Héðinsson,
hagfræðingur,