„Viðskiptaráð leggur til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin, enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum“.
9.11.2010 | 09:54
Eing og ég gat um í síðustu færslu þá var ég með erindi í Þjóðarspeglinum sem er ráðstefna haldin í Háskóla Íslands þar sem fræðimönnum gefst færi á að koma á framfæri ýmsu því sem þeir verða áskynja um í rannsóknum sínum.
Í síðasta Þjóðarspegli greindi ég frá rannsókn minni um það hvort Íslendingar eigi sér þjóðhagsleg markmið. Kom ég nokkuð víða við í erindi mínu, greindi m.a. frá þeim þjóðhagslegu markmiðum til skamms tíma sem t.a.m. Viðskiptaráð Íslands setti fram árið 2006 í skýrslu sinni Ísland 2015. Þar er m.a. að finna þessi fleygu orð:
Viðskiptaráð leggur til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin, enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum.
Ég ætla þeim ekki að vera enn sömu skoðunar en af þessu má draga ýmsan lærdóm.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook
Þjóðhagsleg markmið Íslendinga
28.10.2010 | 18:26
Hafa Íslendingar einhverntíma sett sér þjóðhagsleg markmið?
Þetta er viðfangsefni fyrirlestrar sem ég verð með í Lögbergi, stofu 102 (uppúr kl. 10.30) á ráðstefnunni Þjóðarspegill, sem fram fer föstudaginn 29.okt.
Viðfangsefnið vekur fleiri spurningar en það svarar en það er einmitt einkenni áhugaverðra pælinga. Þessi nálgun getur nýst við uppbyggingu nýja Íslands og þeirrar stjórnarskrár sem stjórnlagaþinginu er ætlað að semja.
Spennandi stjórnlagaþingskosningar
19.10.2010 | 20:02
Hinn mikli fjöldi framboða til stjórnlagaþings ber ótvíræðan vott um mikinn áhuga þjóðarinnar á stjórnmálum. Það er fagnaðarefni og færir okkur heim sanninn um að stjórnmálaflokkarnir hafa ekki getað svarað þessari þörf.
Þegar milliliðalaust lýðræði er í boð þá skortir ekki áhuga almennings. Þetta er gott veganesti og lærdómur fyrir þá sem bjóða sig fram til setu á stjórnlagaþinginu.
Hversvegna stjórnlagaþing?
17.10.2010 | 10:47
Sem áhugamaður um betra samfélag afréð ég að bjóða mig fram til stjórnlagaþings. Á stjórnlaga-þinginu gefst mér færi á að vinna að framgangi þeirra góðu mála sem ég hef bjargfasta sannfæringu fyrir að geti fært íslenskt samfélag fram á veginn. Markmiðið er að skapa réttlátt samfélag; lýðræði og gegnsæi eru bestu leiðirnar til að þess.
Þjóðareign á auðlindum lands og sjávar, þar sem þjóðin öll fær að njóta afraksturs auðlindanna, er ekki aðeins réttlætismál heldur einnig til þess fallið að stuðla að efnhagslegu jafnvægi og tryggja velferð þjóðarinnar.
Þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg málefni veita stjórnmálamönnum brýnt aðhald. Þjóðin verður að eiga möguleika á efna til þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að til þess þurfi atbeina Forseta Íslands eða Alþingis þó þær leiðir þurfi einnig að vera fyrir hendi.
Þær hugmyndir sem ég lýsi hér eru ekki nýjar af nálinni en fyrst nú gefst íslensku þjóðinni færi á að vinna þeim brautargengi.
Framboð Bolla Héðinssonar til stjórnlagaþings.
13.10.2010 | 15:53
Framboð Bolla Héðinssonar til stjórnlagaþings.
Eftir hrunið hefur komið í ljós raunverulegur vilji til endurskoðunar stjórnarskrárinnar. Stjórnlagaþingið gefur venjulegu fólki tækifæri á að hafa afgerandi áhrif á mótun samfélagsins til lengri tíma.
Meðal þess sem ný stjórnarskrá þarf að tryggja er,
skilyrðislaust eignarhald þjóðarinnar á auðlindum lands og sjávar
aðskilnaður löggjafar- og framkvæmdavalds
gegnsæi á öllum sviðum hins opinbera og þar sem fjármunir eru sóttir til almennings.
Ýmsa þá bresti sem er að finna í íslensku samfélagi gefur ný stjórnarskrá okkur færi á að lagfæra. Til þess viðamikla og mikilvæga verkefnis býð ég mig fram.
Bolli Héðinsson,
hagfræðingur,