„Leiðréttingin“ og húsnæðismálin

Hvað gerir vel stætt fólk sem horfir á fasteignir sínar hækka í verði langt umfram verðbólgu og fær svo skyndilega lækkaðar skuldir sínar, nánast eins og  peninga sem ríkið færir þeim að gjöf?  Þeir sem fá verulega fjárhæð fellda niður nota aukið ráðstöfunarfé til að kaupa sér litla íbúð til útleigu enda fáir aðrir möguleikar í boði til að ávaxta fé. Þeir sem fá heldur minna leggja peningana í sjóði fasteignafyrirtækja eins og Gamma sem svo kaupa íbúðir til útleigu. 

Þetta er í hnotskurn niðurstaða bróðurparts „Leiðréttingarinnar“ sem er það afrek sem Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og forystusveit Miðflokksins guma af, þegar þeir greiddu hinum hærra launaða helmingi þjóðarinnar 86% „Leiðréttingarinnar“ beint úr ríkissjóði. Þriðjungur upphæðarinnar rann til 10% hinna hæst launuðu. Um þetta má allt lesa í skýrslu sem formaður Sjálfstæðisflokksins hafði ekki hugrekki til að koma fram með og sýna kjósendum fyrir þarsíðustu Alþingiskosningar.

Ungu fólki ýtt út af markaðnum

Afleiðingarnar, hækkun húsnæðisverðs, voru algjörlega fyrirséðar. Ungt fólk sem vildi kaupa sér íbúð á viðráðanlegu verði var nú farið að keppa um kaup á slíkum íbúðum við aðila sem höfðu úr nægu fé að spila eftir að „Leiðréttingin“ var greidd út. Á sama tíma jókst eftirspurn eftir leiguhúsnæði umfram það sem áður hafði þekkst vegna AirBnb. Það síðan hvatti þá sem höfðu peninga aflögu til enn frekari íbúðakaupa svo það var ekki aðeins á kaupendamarkaði sem ungu fólki var ýtt út heldur einnig á leigumarkaði þegar húsaleiga rauk upp úr öllu valdi. Þessi skuggahlið „Leiðréttingarinnar“ hefur aðeins aukið á vandann sem var fyrir í kjölfar hrunsins þegar fjöldi byggingaverktaka lögðu upp laupana eða sögðu sig frá verkum.

Forréttindahópurinn sem Sjálfstæðis-, Framsóknar- og forystusveit Miðflokksins ákváðu að gera svo vel við hefur nú fengið hækkunina, sem varð á áhvílandi húsnæðislánum þeirra í hruninu bætta í tvígang, bæði með framlagi úr ríkissjóði og svo hefur húsnæði þeirra hækkað í verði svo verðmætaukning þess er langt umfram hækkanirnar sem urðu á lánunum.

http://www.visir.is/g/2018180519056/-leidrettingin-og-husnaedismalin-

 


DJÁSNIÐ Í KRÚNUNNI

Fyrir Sjálfstæðisflokkinn þá var Reykjavíkurborg djásnið í krúnunni, kjarninn í völdum flokksins þaðan sem þeir gátu deilt og drottnað, úthlutað lóðum, verkum og störfum að eigin geðþótta til innmúraðra og innvígðra. Borgin og völdin yfir henni var aðeins áfangi á leið framagjarnra Sjálfstæðismanna til að komast til enn meiri áhrifa á landsvísu. Þannig leit oft út fyrir að hagsmunir borgarinnar væru afgangsstærð eða a.m.k. í öðru sæti hjá borgarstjórum Sjálfstæðisflokksins.

Þetta breyttist allt með tilkomu Reykjavíkurlistans. Reykjavíkurlistinn og að mestu farsæl stjórnartíð hans, opnaði augu borgarbúa fyrir því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hafði farið með völdin í borginni og ekki síður hvernig völdin höfðu farið með Sjálfstæðisflokkinn. Svo fór að það sem áður var óhugsandi, Sjálfstæðisflokkurinn þurfti að deila völdum í borginni með öðrum flokkum. 

„Skiliði lyklunum“

Sjálfstæðismenn koma stundum óvart  upp um sig um hvernig þeir umgangast völdin og hvernig þeir telja sig réttborna til eigna og áhrifa í samfélagi okkar. Það gerðist t.d. þegar núverandi formaður flokksins hrópaði úr ræðustóli Alþingis í heilagri vandlætingu „skiliði lyklunum“, en það gerðist á afar skammvinnu tímabili í lýðveldissögunni, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var ekki í ríkisstjórn. Eða þegar frambjóðandi flokksins til borgarstjóra mætti nýlega á fund í Höfða eins og það væri nánast formsatriði og bara spurning um tíma hvenær hann settist í stól borgarstjóra.

Afstaða Sjálfstæðismanna til valdsins sýndi sig líka ágætlega í afsagnarmáli innanríkisráðherra þegar að embættismenn sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði ráðið til starfa, eyddu miklum tíma og fyrirhöfn, ekki í að upplýsa málið, heldur til að leita leiða til að bjarga skinni ráðherrans sem hafði skipað þau.

Á móti, til að vera á móti

Borgarlínan svokallaða sem Sjálfstæðisflokkurinn reynir að tortryggja á alla vegu (þó þetta séu bara venjulegir strætisvagnar sem keyra inn á sæmilegar biðstöðvar) eins og þeir átti sig ekki á að það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að láta gatnakerfið taka mikið pláss. Eina svarið við því er það svar sem borgir um allan heim hafa gert í áratugi, sem er að efla almenningssamgöngur. Nema að Sjálfstæðismenn séu í hjarta sínu sammála Borgarlínunni en þykist vera á móti eins og helsti leiðtogi þeirra um árabil lýsti í viðtalsbók hvernig flokkar eigi að hegða sér í stjórnarandstöðu:

„Ég gerði öll mál tortryggileg ...  Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau  ... því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu.“

Sérhagsmunirnir ofar öllu

Vanhæfni Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei verið augljósari en í málefnum ferðamanna þar sem þeir hafa brátt í heil fimm ár samfellt farið með ráðuneyti ferðamála og klúðrað því að ná inn í ríkissjóð eðlilegum gjöldum af erlendum ferðamönnum. Flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn þar sem sérhagsmunaöflum er grímulaust beitt gegn almannahagsmunum getur einfaldlega ekki tekist á við mál af þessu tagi þar sem alltaf er horft til sérhagsmunanna við ákvarðanatöku.  Annað dæmi er Landsréttur þar sem liggur við að flokknum hafi tekist að eyðileggja nýtt dómstig því svo mikið lá við að koma „réttu“ fólki að í dóminn.

Með breytingu á forystu Sjálfstæðisflokksins uppúr aldamótum var ástæða til að ætla að þar hefði orðið breyting til batnaðar og að venjulegir stjórnmálaflokkar gætu framvegis unnið með flokknum. En eftir að Sjálfstæðismenn hlógu sig máttlausa á fyrsta landsfundi eftir hrun, þegar stungið var uppá að þeir viðurkenndu að eiga þátt í hruninu eða að þeir þyrftu að biðja þjóðina afsökunar og bæta sitthvað í eigin ranni, þá mátti öllum vera ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hafði ekkert lært af hruninu og engu gleymt um hvernig þeir eru vanir að umgangast valdið.

Verulegar líkur eru á að morguninn eftir kosningarnar í vor muni Sjálfstæðisflokkurinn reyna að efna til hins sama í borgarstjórn og þeir gerðu eftir Alþingiskosningarnar í haust. Þeir muni setja sig í samband við Vinstri græn og bjóða þeim borgarstjórastólinn. Hverju mun VG svara því tilboði?

http://www.visir.is/g/2018180509729/djasnid-i-krununni-

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband