Þjóðarsáttin 1990 - þjóðarósættið 2015.
27.5.2015 | 13:24
Ef það er er eitthvað eitt sem skiptir máli við gerð þjóðarsáttar þá er það traust. Traust milli launþegarhreyfingar og vinnuveitenda, traust á ríkisstjórn. Orð og efndir núverandi ríkisstjórnar frá því hún var mynduð hafa ekki beinlínis verið til þess fallin að auka á trúnað og traust. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa með grímulausari hætti en áður hefur sést, gengið á bak orða sinna og er þjóðin þó ýmsu vön. Hvað sem mönnum kann að finnast t.d. um aðild að ESB eða framhald aðildarviðræðna þá dylst engum að jafn afdráttarlaus svik á kosningaloforðum hafa ekki sést hér á landi áður. Slíkt dregur úr trúverðugleika og setur tóninn um önnur mál þar sem mikilvægt er að ríkisstjórn hafi forystu um og þjóðin treysti. Orðræðan sem þjóðin hefur mátt búa við af hálfu ríkisstjórnarinnar er síðan ekki beinlínis til þess fallin að stuðla að sátt.
Forsendur sáttar.
Hverjar skyldu hafa verið forsendur þjóðarsáttarinnar 1990? Það var hægt að treysta því að ekki væri verið að hygla einum umfram annan, hvorki vinnuveitendur, ríkið eða aðrir. Ekki væri verið í feluleik með launahækkanir eða ríkisstjórn að gera vel við vildarvini sína með útdeilingu þjóðareigna.
Eftir vel heppnuð skemmdarverk á lokametrum síðustu ríkisstjórnar (m.a. við að uppfylla loforð Framsóknarflokksins um nýja stjórnarskrá) þá létu núverandi stjórnarflokkar kné fylgja kviði eftir mikinn kosningasigur sinn og hafa síðan reynt að nota þingstyrkinn til hins ítrasta til þess að reyna snúa klukkunni við og hverfa aftur til áranna þegar þeir réðu ríkjum fyrir 2007. Einnig skópu núverandi stjórnarflokkar fordæmin um málþófið í þingstörfum og hvernig halda eigi málum í gíslingu sem við sjáum nú endurtekið á hinu háa Alþingi og er síst til fyrirmyndar.
Helsta vandamálið að mati stjórnarinnar er að þjóðin áttar sig ekki á að hér er að þeirra sögn allt í himnalagi. Þá eiga e.t.v. best við orð Bertholds Brecht frá 1953 eftir uppreisnartilraunina í Austur Þýskalandi, þegar hann ráðlagði ráðamönnum þar að fá sér nýja þjóð. Þetta gæti einnig verið ráð til íslensku ríkisstjórnarinnar 2015.
http://www.visir.is/thjodarsattin-1990---thjodarosaettid-2015/article/2015705279987
Auðlindaarðurinn - hver fær hann?
9.5.2015 | 15:50
Fjármálaráðherra hefur tekið upp hugmynd um stofnun sérstaks auðlindasjóðs sem væri ekki hluti ríkissjóðs heldur skýrt afmarkaðir fjármunir í ríkisreikningi. Einn mikilvægur munur er hins vegar á fyrri hugmyndum og hugmyndum fjármálaráðherra. Fjármálaráðherra talar um orkuauðlindasjóð á meðan fyrri hugmyndir gengu allar út á auðlindasjóð sem tæki til arðsins af öllum auðlindum í þjóðareigu, fiskveiðiauðlindin ekki undanskilin. Fjármálaráðherra virðist ekki átta sig á að nákvæmlega sama gildir um orkuauðlindir og fiskveiðiauðlindir, þar verður til arður (hluti auðlindarentu) sem ætti að skila til eigendanna, þjóðarinnar. Draga mætti þá ályktun að fjármálaráðherrann telji fiskistofnana ekki vera auðlindir í eigu þjóðarinnar.
Auðlindir í stjórnarskrá.
Allt of lengi hefur dregist að ákvæði um þjóðareign á auðlindum fari inn í stjórnarskrá. Þjóðin hefur verið seinþreytt til vandræða og látið yfir sig ganga að fá að vinna við hagnýtingu auðlindanna í stað þess að fá arð af þeim einnig. Þannig er því haldið fram að vinna við fiskvinnslu og vel launuð sjómannsstörf auk skattgreiðslna sjávarútvegsfyrirtækja séu arðurinn sem þjóðin eigi að fá af auðlind sinni.
Með sama hætti má stilla dæminu upp þannig að Íslendingar láti sér nægja að fá að vinna við að byggja virkjanir til að að framleiða raforku fyrir stóriðju og þurfi því ekki að fá neinn arð af raforkuframleiðslunni. Í Noregi hefði þessi séríslenska auðlindastefna gengið út á að heimamenn fengju að byggja borpallana fyrir olífélögin en leyft þeim að hirða gróðann af framleiðslunni.
Hér verður þjóðin að grípa til sinna eigin ráða. Því var efnt til undirskriftasöfnunarinnar þjóðareign.is til að koma í veg fyrir að hægt verði að úthluta fiskveiðikvótunum til útgerðarmanna um alla framtíð. Baráttunni er langt í frá lokið og því ástæða til að hvetja sem flesta til að fara inn á vefsíðuna þjóðareign.is og skrifa þar undir.
Við heimtum aukavinnu. / Við heimtum ennþá meiri aukavinnu. / Því það er okkar æðsta sæla / að pæla og þræla og þræla / og þræla, fram í rauðan dauðan. / Ó, gefðu guð oss meira puð. (Jónas Árnason)
http://www.visir.is/hvert-rennur-audlindaardurinn-/article/2015705089997