Vilja lífeyrissjóðirnir bara eignast bankana? Á engin uppstokkun að eiga sér þar stað?
9.2.2016 | 16:17
Hvort á ríkið eða lífeyrissjóðirnir að eiga banka? Kannski að bæði ríkið og lífeyrissjóðirnir ættu að eiga þá í sameiningu? Stjórnvöld hafa heimild til að selja hluti ríkisins í bönkunum og stefna að því ótrauð. Einhverjir vilja að ríkið eigi banka svo hægt sé að lækka vexti, en vextir ráðast af hagstjórn og aðstæðum í efnahagslífinu en ekki því hverjir eiga bankana. Það er borin von að vextir verði eins og í nágrannalöndum okkar á meðan við höfum íslenska krónu. Það hefur 90 ára harmsaga krónunnar kennt okkur.
Bónusar í bönkum eru á kostnað og ábyrgð ríkisins
Hegðan starfsmanna bankanna þegar Borgun og Síminn voru seld hefur sýnt fram á að þeir silkihanskar sem voru notaðir við endurreisn bankanna voru mikil mistök. Ráðamenn bankanna virðast ekki átta sig á þætti þeirra í hruninu og að þar þurfi nýjar hugmyndir og allt önnur viðhorf að ráða en var fyrir hrun. Ein arfleifð hrunsins er að menn hafa talið sér trú um að laun og kjör yfirmanna í bönkum lúti öðrum lögmálum heldur en í fyrirtækjum yfirleitt. Þá gleymist að bónusar og há laun geta lækkað arðgreiðslur til eigendanna hvort sem það eru lífeyrissjóðir eða ríkið.
Ef ríkið og/eða lífeyrissjóðirnir ættu bankana væri þeim í lófa lagið að ná bönkunum niður á jörðina í launamálum. Það getur ríkið gert með því einu að gera bönkunum ljóst að ef þeir fylgja ekki markaðri launastefnu ríkisins þá njóti viðkomandi banki ekki baktryggingar ríkisins á innlánum. Frammi fyrir því vali eiga bankarnir engan annan kost en gangast inn á skilmála ríkisins.
Spyrja lífeyrissjóðirnir hvað gerðir þú í hruninu?
Lífeyrissjóðirnir sem eru í eigu íslenskra launamanna eiga stóra hluti og jafnvel meirihluta í stórum og smáum fyrirtækjum hér á landi. Samt sem áður hafa lífeyrissjóðirnir ekki komið sér saman um samræmt launakerfi í þeim fyrirtækjum sem þeir gætu í sameiningu ráðið hvernig launum og bónusum væri háttað.
Einnig hafa lífeyrissjóðirnir ekki heldur séð ástæðu til að spyrja þá sem sjóðirnir hafa ráðið til að stjórna fyrirtækjunum hvað þeir höfðust að í hruninu. Voru þeir e.t.v. gerendur í gjaldþrotum sem svo leiddu til tugmilljarða tjóns sjóðanna þó svo þeir hafi ekki verið sóttir til saka? Er sérstök ástæða hjá sjóðunum til að gera þessum einstaklingum hátt undir höfði og spenna launakröfur í þeim fyrirtækjum og öðrum upp úr öllu valdi?
http://www.visir.is/til-hvers-ad-eiga-banka-/article/2016160208888
Heilbrigðiskerfið þarf á auðlindagjaldinu að halda
2.2.2016 | 11:58
Uppfullur bræði hrópaði formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir fjórum árum á Alþingi skiliði lyklunum. Það að krefjast þess að einhver skili einhverju, ber með sér að sá hinn sami telji sig eiga það sem á að skila. Í þessu tilviki yfirráðum í stjórnarráðinu. Enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn ráðið Íslandi með setu í ríkisstjórn í 57 af þeim 72 árum sem Ísland hefur verið lýðveldi eða 80% lýðveldistímans. Er nokkur furða þó Sjálfstæðisflokkurinn telji sig eiga stjórnarráðið.
Hafi einhver verið í vafa um hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn krafðist lyklanna af þvílíkri ákefð þá kom það fljótlega í ljós. Þeir voru orðnir friðlausir yfir því að geta ekki lækkað auðlindagjald á útgerðarmönnum og með sölu Landsbankans á Borgun freistast margir til að álykta að þeir vilji hafa hönd í bagga um til hverra bönkunum og eignum þeirra er ráðstafað. Þegar salan á Borgun átti sér stað 2014 þá fór það fram hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins (http://www.visir.is/ups,-gerdi-thad-aftur-/article/2015151028924) og það er ekki fyrr en núna þegar almannarómur er orðinn nógu hávær að þeir taka undir hneykslunarorðin.
Auðlindagjald og heilbrigðiskerfið.
Stærstu viðfangsefni þeirra sem fara munu með völd á Íslandi á næstunni eru annars vegar hvort takast muni að koma á eðlilegu auðlindagjaldi, með útboði aflaheimilda, og hins vegar endurreisn opinbera heilbrigðiskerfisins. Þessi mál eru tengd að því leyti að útboð aflaheimilda er réttlætismál, að þjóðin fái fullt afgjald af auðlind sinni og ekki síður, að ráðstafa gjaldinu til sameiginlegra viðfangsefna. Nú er brýnasta verkefnið endurreisn heilbrigðiskerfisins.
Ekkert lært af hruninu.
Það er með ólíkindum að ekki skuli vera vilji hjá ráðamönnum þjóðarinnar til þess að læra af sögunni t.d. með því að láta rannsaka einkavæðingu bankanna eins og Alþingi hefur þegar samþykkt. Þess vegna mætti rannsaka bæði fyrri einkavæðinguna, þegar vildarvinum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks voru afhentir bankarnir og einnig þá síðari þegar þeir voru afhentir kröfuhöfum. Það virðist vera einbeittur vilji fjölda stjórnmálamanna að taka upp þráðinn frá því fyrir hrun eins og ekkert hafi í skorist. Í bönkunum iðka menn síðan það sem stjórnvöld hafa fyrir þeim og leyfa sér hegðan sem við héldum að hrunið hefði bundið endi á. - Þar gleymist að bankarnir eru ýmist í eigu eða reknir á ábyrgð ríkisins, almennings í landinu.
http://www.visir.is/lyklavoldin-fyrir-utgerdina-og-bankana/article/2016160209874