Leiðréttingin og sagan
24.11.2014 | 15:54
Það var miður að stjórnmálamenn skyldu fallast á að greina fjölmiðlum frá hvort þeir hafi sótt um leiðréttingu húsnæðislána sinna eða ekki. Það eitt að segja til um hvort þeir sóttu um (sem er algerlega þeirra einkamál) gerði að verkum að stór hluti umræðunnar fór í það sem Íslendingar kunna svo vel orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls (HKL). Kjarni umræðunnar um leiðréttinguna hlýtur að vera spurningin um hversu skynsamleg þessi ráðstöfun á skattfé almennings sé en ekki hvaða einstaklingar sóttu um.
Leiðrétting ofan á hækkun húsnæðis.
Það sem núna heitir forsendubrestur sem hefur leitt af sér leiðréttinguna er ekki nýtt fyrirbrigði og hefur verið reglulegur gestur í íslensku efnahagslífi. Fyrir réttum þrjátíu árum hét þetta misgengi. - Það sem gerist er að almennar verðhækkanir verða í samfélaginu á öllum vörum, húsnæði og þjónustu sem svo leiða til hækkunar lána þ.á.m. húsnæðislána. Þetta getur leitt til svo mikillar hækkunar að lántakendur ráða ekki lengur við afborganir ef launahækkanir fylgja ekki. Að nokkrum tíma liðnum jafnar þetta sig, svo að þeir sem náðu að þrauka, eiga þá orðið húsnæði sem hefur hækkað í verði a.m.k. jafn mikið og húsnæðislánin. Svona hefur þetta alltaf verið.
Forsendubresturinn hækkar húsnæðisverð.
Verkefni stjórnvalda við þessar aðstæður hlýtur því að vera að koma til móts við þá sem lenda í erfiðleikum áður en andvirði húsnæðis þeirra hefur náð að hækka jafn mikið og lánin gerðu. Leiðréttingin núna gengur aftur á móti út á að greiða öllum hækkun lánanna þó svo að vitað sé að húsnæði þeirra hafi þegar hækkað í verði eða eigi eftir að gera það vegna hins sama forsendubrests og lét lánin hækka!
Hvernig skyldi sagan eiga eftir að dæma aðfarir sem þessar? Íslandssögubækur framtíðarinnar gætu t.d. sagt frá þessu svona:
Þegar hér var komið við sögu var heilbrigðiskerfið komið að fótum fram eftir áralanga vanrækslu. Bæði var umgjörð kerfisins hrunin sem og þau kjör sem heilbrigðisstarfsmönnum voru boðin. Flótti var brostinn í starfsliðið en steininn tók úr þegar ríkisstjórnin lét senda fjármuni heim til lántakenda í sömu vikunni og læknar fóru í fyrsta sinn í verkfall. Brottflutningur lækna komst í algleymi og aðrar stéttir langskólagenginna og faglærðra hópuðust af landi brott. Allt varð þetta til að seinka endurreisn hagkerfisins sem mátti glíma við stöðnun lengi enn.
Trúir einhver því raunverulega að sú leið sem farin er með leiðréttingunni að verja 80 milljörðum með þeim hætti sem gert er, sé til gæfu fallin á meðan heilbrigðiskerfið og menntakerfið koðnar niður, skuldir ríkissjóðs eru í hámarki og æpandi þörf á fjármagn til allra samfélagslegra verkefna?
http://www.visir.is/leidrettingin;-domur-sogunnar/article/2014711219965
Sjávarútvegurinn- leigjandinn sem neitar að fara.
20.11.2014 | 15:40
Í kjölfar hrunsins þurfti kunningjafólk mitt að flytja til Noregs til að þreifa fyrir sér með vinnu. Skömmu áður höfðu þau keypt sér fjögurra herbergja íbúð í Seljahverfi, sem þau báðu mig að sjá um útleigu á, á meðan þau væru í Noregi. Ég leigði íbúðina prýðis manni sem bauð af sér góðan þokka og hann greiddi fúslega uppsetta leigu sem ég ákvað að hafa í lægri kantinum af því mér leist vel á manninn. Upp á síðkastið er hann hins vegar farinn að tala um hvort ég vilji ekki lækka við hann leiguna. Ég óttast að hann sé farinn að halla sér að flöskunni, allavega hefur hann minni auraráð og þess vegna finnst honum hann eigi alls ekki að þurfa að borga jafn mikið og áður.
Heimtar lækkaða leigu
Ég hef bent honum á að þar sem hann er einn í heimili ætti honum að nægja þriggja herbergja íbúð enda virðist greiðslugeta hans alveg ráða við það. Hann má ekki heyra á það minnst heldur krefur hann mig núna um að fá samning um íbúðina til 20 ára og hann væri e.t.v. reiðubúinn að greiða mér hærri leigu einhverntíma síðar ef úr málum rætist hjá honum. Svo bendir hann á eitthvað sem hann telur vera óljós ákvæði í upphaflega leigusamningnum, sem gæti hugsanlega kveðið á um að í raun og veru eigi hann íbúð vinafólks mín í Noregi, en ekki þau!
Nægir aðrir sem vilja leigja
Þetta er allt frekar erfitt fyrir mig þar sem ég veit af barnmörgum fjölskyldum sem mundu gjarnan vilja borga þá leigu, sem núverandi leigjandi er að greiða og meira til, ef ég aðeins losnaði við hann úr húsnæðinu. Á ég að lækka verðið á húsnæðinu, bara af því að hann vill ekki borga meira? Leigjandinn er farinn að minna mig óþyrmilega mikið á freka kallinn sem Jón Gnarr hefur gert svo ágæt skil.
Gildir ekki sama um sjávarútveginn?
Dæmisagan hér að ofan getur gilt um samskipti þjóðarinnnar (eigenda íbúðarinnar) og þeirra sem nú eru kvótahafar íslensku fiskimiðanna (leigjandinn) en þeir vilja láta leiguna ráðast af því hvernig stendur á hjá þeim hverju sinni! Úti um allt land eru fiskverkendur og kvótalausar útgerðir sem bíða í röðum eftir að fá að bjóða í kvótann á jafnréttisgrundvelli. Hversvegna á þjóðin (eigandi fiskimiðanna) að sætta sig við að leigan á kvóta ráðist bara af greiðslugetu þeirra útgerðarmanna sem nú róa til fiskjar, en ekki því hvaða leigu væri hægt að fá, ef kvótinn væri boðinn til leigu á almennum markaði?
Hnignandi hagkerfi Íslendinga
9.11.2014 | 10:34
Forstjóri Össurar, Jón Sigurðsson, Mbl. 6. nóv. 2014:
Hættan sem steðjar að Íslendingum er sú að hagvöxtur verði yfir lengri tíma minni á Íslandi en erlendis og að lífskjör dragist saman hægt og sígandi. Hættan er sú að þetta gerist svo hægt að við tökum ekki eftir því. Það eru ákveðin varúðarmerki þegar starfsstéttir hverfa úr landi sem geta farið og hinar verða eftir.
Bolli Héðinsson, hagfræðingur, Frbl. 5. nóv. 2014:
Kjaradeila lækna er aðeins birtingarmynd þess sem koma skal í hinu hægfara hnignandi hagkerfi Íslendinga. Hagkerfi sem líður fyrir forystuleysi og skort á framtíðarsýn fyrir samfélag sem þarf að keppa um hvern einasta einstakling, ekki aðeins lækna. Laun hljóta að vega þungt hjá því fólki sem flytur frá Íslandi en ekki síst að fá að búa við stöðugleika, það að vita að hverju maður gengur í rekstri heimila og fyrirtækja.
http://www.visir.is/thegar-vonin-hverfur/article/2014711059981